Orðið blika er skýrt 'stór skýjabreiða, skýjabakki' í Íslenskri nútímamálsorðabók og sambandið það eru blikur á lofti er þar skýrt 'það er ófriður í aðsigi'. Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var hins vegar nefnt að fréttamaður Sýnar hefði notað orðalagið „jákvæðar blikur á lofti“ sem málshefjanda fannst sérkennilegt í ljósi merkingar sambandsins. En þetta er þó ekki einsdæmi. Í Degi 1995 segir: „Svokölluð seiðavísitala þorsks mælist sú hæsta frá 1986 sem er jákvæð blika á lofti.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „jafnvel þótt við munum sjá jákvæðar blikur á lofti munum við ekki sjá sambærilegar markaðsaðstæður myndast.“ Í Víkurfréttum 2014 segir: „Mér finnst jákvæðar blikur vera á lofti.“ Allnokkur fleiri dæmi má finna frá seinustu árum.
Dæmi má finna um fleiri jákvæð lýsingarorð með þessu sambandi. Í Skessuhorni 2007 segir: „En það eru góðar blikur á lofti.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „Ástandið er samt eitthvað að skána og það eru góðar blikur á lofti.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2014 segir: „við sjáum að fjárfesting er að aukast, svo já, það eru góðar blikur á lofti.“ Á mbl.is 2015 segir: „Magnús sagði góðar blikur á lofti.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Það eru skemmtilegar blikur á lofti.“ Í NT 1984 segir: „Það eru ýmsar bjartar blikur á lofti.“ Í Bæjarins besta 1991 segir: „Eftir mikla lægð undanfarinna ára eru nú bjartari blikur á lofti.“ Ef sambandið blikur á lofti merkir að horfur séu uggvænlegar ætti vissulega ekki að vera hægt að nota jákvæð lýsingarorð með því.
En þá er ekki heldur við því að búast að neikvæð lýsingarorð séu notuð með sambandinu vegna þess að neikvæða merkingin er innbyggð í það. Dæmi um neikvæð lýsingarorð eru þó fjölmörg. Í Neista 1979 segir: „Neikvæðar blikur innan sveinafélaganna.“ Í Frjálsri verslun 2004 segir: „Vondar blikur eru þó vissulega á lofti í gengismálum.“ Í Þjóðviljanum 1953 segir: „En getum við ekki sagt að illar blikur séu í lofti?“ Í Morgunblaðinu 1953 segir: „En skömmu síðar sáust nýjar uggvænlegar blikur á lofti.“ Í Heima er bezt 1987 segir: „Óheillavænlegar blikur eru á lofti í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Gylfi segir að niðurstaða fundarins hafi verið sú að ógnvænlegar blikur væru á lofti.“
Þessi dæmi um lýsingarorð með sambandinu blikur á lofti, hvort sem þau eru jákvæð eða neikvæð, sýna að í máli sumra hefur merking sambandsins breyst. Í stað þess að það sé skilið sem 'vondur fyrirboði' er það einfaldlega skilið sem 'fyrirboði' – þ.e. sem hlutlaust en ekki neikvætt. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að merkingin hnikist til í ljósi þess að orðið blika í merkingunni 'skýjabakki, óveðursský' er frekar sjaldgæft eitt og sér. Fyrir utan sambandið blikur á lofti kemur það aðallega fyrir í sambandinu lítast ekki á blikuna sem merkir 'þykja útlitið slæmt'. En það samband virðist líka vera að þróast í átt að hlutlausri merkingu eins og sést á því að ýmis dæmi eru um jákvæð atviksorð eins og vel og ágætlega með sambandinu.
Í Vísi 1980 segir: „Þeir voru að leggja upp í langferð um landið á tveimur Land Rover-bílum og leist vel á blikuna.“ Í Alþýðublaðinu 1987 segir: „hér er góður hugur og mönnum lýst vel á blikuna.“ Í Degi 1999 segir: „Ál-5 hefur látið gera frumgreiningu með arðsemi í huga og líst vel á blikuna.“ Í DV 2004 segir: „Við unnum síðan fjögur ný lög í fyrra og okkur leist mjög vel á blikuna.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þessi plata stefnir í brjálað teknó og mér líst mjög vel á blikuna.“ Á mbl.is 2015 segir: „Mér leist ágætlega á blikuna fyrstu fjórar mínútur leiksins.“ Í þessum dæmum er orðið blika augljóslega ekki skilið sem 'óveðursský' eða 'vont útlit' heldur einfaldlega sem 'horfur, útlit' án þess að nokkur neikvæðni fylgi með.
Þótt blikur á lofti og lítast ekki á blikuna séu föst orðasambönd er hefðbundin merking þeirra í fullu samræmi við merkingu orðsins blika – við getum sem sé skilið samböndin út frá orðunum sem þau eru samsett úr en þurfum ekki að læra merkingu þeirra sérstaklega. En vegna þess hversu sjaldgæft orð blika er, utan þessara sambanda, hefur neikvæð merking sambandanna ekki stuðning af því orði sem getur leitt til þess að hún dofni í huga málnotenda og þeir fari að líta á samböndin sem hlutlaus þar sem merkingin sé einfaldlega 'fyrirboði, horfur, útlit' – sem geti þá tekið með sér bæði jákvæð og neikvæð ákvæðisorð. Ég er ekkert að mæla með þessari breytingu – en mér finnst þetta skemmtilegt dæmi um hvernig merking sambanda getur breyst.

+354-861-6417
eirikurr