„Svarbréf embættis ríkislögreglustjóra til DMR vegna viðskipta við Intra ráðgjöf slf.“ er á margan hátt áhugavert út frá sjónarhóli orðræðugreiningar – það er fullt af klisjum og hæpinni orðanotkun. Í upphafi þess segir t.d.: „Embættið harmar þau mistök sem urðu í viðskiptum við félagið og hefur dregið af þeim mikilvægan lærdóm.“ Það er nokkuð vægt að nota orðið mistök yfir skýr brot á reglum. Til skýringar segir: „Ekki var farið í útboð eða verðfyrirspurnir vegna breytinga á stjórnskipulagi embættisins enda ekki áform um að fara í samstarf til lengri tíma.“ En það er ekki hægt að nota tímalengd samstarfsins sem skýringu á því að ekki var „farið í útboð eða verðfyrirspurnir“ – það sem máli skiptir er ekki tíminn, heldur kostnaðurinn.
Orðið mistök er víðar notað til að gera lítið úr augljósum brotum á lögum og reglum. „Í ljósi þess hvert umfang og eðli samstarfsins varð voru það mistök að bjóða verkefnin ekki út eða skoða ráðningu sérstaks starfsmanns til að sinna þessum verkefnum“ og „Ljóst er að læra þarf af þessum mistökum [...].“ Einnig segir: „Að meginstefnu eru innkaup hjá embættinu gerð í gegnum útboð eða verðfyrirspurnir þar sem byggt er á umfangi hvers verkefnis.“ Þarna er látið líta svo út sem það sé einhver sérstök stefna hjá embættinu að gera innkaup „í gegnum útboð eða verðfyrirspurnir“ þegar fyrir liggur að um þetta gilda ákveðnar reglur. Embættið þarf því ekki – og á ekki – að hafa sérstaka stefnu í þeim málum – það á bara að fara að reglum.
Það er þekkt aðferð til að leiða athygli frá því sem gagnrýnt er að setja það í samhengi sem lætur það líta út fyrir að vera léttvægt. Þetta kemur skýrt fram þegar fjallað er um greiðslur til Intra. „Heildarviðskipti frá árinu 2020 til og með júní 2025 eru 130.499.463 m.kr. án vsk. en til samanburðar má nefna að heildarútgjöld embættisins á árunum 2020 til 2024 námu 32.571.887.406 ma.kr.“ og „Þau verkefni sem fjölmiðlar hafa lagt áherslu á og snúa að vali á húsbúnaði og húsnæðisbreytingum á árunum 2020 til 2025 nema 1,28% af heildarviðskiptum embættisins við félagið.“ Þarna er samanburður og lág prósenta notað til að fá fólki til að finnast þær upphæðir sem um er að ræða bara smotterí sem skipti ekki máli í heildarsamhenginu.
Í niðurlagi svarbréfsins segir: „Embætti ríkislögreglustjóra harmar þau mistök sem gerð voru í viðskiptum við félagið Intra ráðgjöf slf., og dregur lærdóm af þeim.“ Hér er enn klifað á orðinu mistök yfir skýr brot á reglum, en auk þess bætt við klisjunni dregur lærdóm af. Sérkennilegasta orðanotkunin kemur þó í lokin: „Embættið tekur undir þau sjónarmið að atvikið hafi rýrt traust til embættisins og mikilvægt sé vinna að endurheimt þess.“ Orðið atvik merkir 'eitthvað sem gerist, atburður' og er auðvitað algerlega út úr kú þarna. Með notkun þess virðist gefið í skyn að það sem hefur verið gagnrýnt hafi bara gerst si svona án þess að um nokkrar meðvitaðar ákvarðanir hafi verið að ræða (hvað þá „einbeittan brotavilja“). Það er býsna slappt.

+354-861-6417
eirikurr