Posted on

Sorrí með mig Stína

Í innleggi í „Málspjalli“ í dag var sagt: „Óskaplega finnst mér leitt þegar fólk segir sorry í staðinn fyrir afsakið/fyrirgefðu. Ég get engan veginn tekið það til mín!“ En síðan var bætt við að sumir segðu að þetta væri bara íslenskt orð sem ætti fullan rétt á sér. Auðvitað er enginn vafi á því að þarna er um að ræða enska orðið sorry sem er komið inn í íslenskar orðabækur í ritmyndinni sorrí. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það greint sem upphrópun, skýrt 'afsökunarbeiðni: fyrirgefðu, afsakaðu' og sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Í Íslenskri orðabók er það tvær flettur – upphrópun í merkingunni 'fyrirgefðu, afsakið' og óbeygjanlegt lýsingarorð í merkingunni 'dapur, niðurdreginn'. Í báðum tilvikum er orðið merkt ??, 'sletta'.

Elsta dæmi sem ég finn um sorry í íslensku samhengi (fyrir utan stöku dæmi úr vesturíslensku blöðunum) er í Hugin 1936: „Ég er svo sorry, að ég skuli aldrei fá að dansa.“ Í Skólablaðinu 1939 segir: „Hann var náttúrulega voða „sorry“.“ En á hernámsárunum í síðari heimsstyrjöld fer dæmunum fjölgandi og eru þá ýmist rituð sorry, sorrý eða sorrí. Í Speglinum 1943 segir: „ég held að við yrðum allar hálf sorrí, ef við hættum því alveg.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Orð eins og „afsakið“ og „fyrirgefið“, eru næstum óþekkt fyrirbrigði, í hæsta lagi fær maður eitt lítið „adieu“ og stundum „sorry“. Í Speglinum 1946 segir: „Morgunblaðið er að vonum afskaplega sorrý yfir því, að Finnur ráðherra hefur hagnýtt sér sögukunnáttu sína.“

Fram um 1960 eru allmörg dæmi um sorrí/sorrý, langflest í Speglinum sem var gamanblað og málsnið þar óformlegra en almennt gerðist í blöðum. Aðeins örfá dæmi eru í öðrum blöðum. Í Alþýðublaðinu 1947 segir: „Þér getið ekki trúað því hvað ég er sorrý og skúffuð vegna skónna!“ Í Þjóðviljanum 1959 segir: „Bandarískir ráðamenn sögðust vera fjarska sorrý og lofuðu að gera þetta aldrei aftur.“ Í Tímanum 1959 segir: „Sorrí, sagði telpan, en ég vil bara hafa það kók.“ Dæmum fer svo smátt og smátt fjölgandi eftir 1960 en þó ekki að marki fyrr en um 1980. Myndin sorrí er flettiorð í Slangurorðabókinni 1982 – bæði sem lýsingarorð með dæminu gamli sorrí Gráni úr kvæði Megasar, og „sem uh og í samb. sorrí Stína fyrirgefðu, afsakaðu“.

Í Morgunblaðinu 2006 segir: „Hver ætli þessi Stína hafi upphaflega verið?“ Upphafið er líklega að finna í gamansögu í Hádegisblaðinu 1940: „Það var á dansleik í Iðnó. Húsið var troðfullt. Þarna var mikið af Englendingum og varð einum þeirra á það óhapp að stíga ofan á tærnar á stúlku einni, sem sat á bekksenda. Hermaðurinn hneigði sig og sagði: „Sorry“. Stúlkan stóð þegar upp, brosti vingjarnlega til hermannsins og sagði: „Stína“.“ Guðrún Kvaran vísar til svipaðrar sögu á Vísindavefnum en telur hana frá sjötta áratugnum, og segir að sambandið „virðist helst notað þegar verið er að biðjast afsökunar á einhverju í fremur kæruleysislegum tón“. E.t.v. er það að hverfa – á Twitter 2016 segir: „Af hverju segir enginn sorry stína lengur?“

En sorrí kemur einnig fyrir í öðru og nýrra orðasambandi sem er algengt í óformlegu máli – sorrí með mig. Elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2006: „Sorry með mig krakkar!“ Upp úr því fer að bera á sambandinu á samfélagsmiðlum og það verður algengt þar upp úr 2010 en er mjög sjaldgæft í formlegu málsniði. Árið 2018 gaf hljómsveitin Baggalútur út lagið „Sorry með mig“ með texta eftir Braga Valdimar Skúlason sem sagði í viðtali á mbl.is „að hugmyndin að textanum hafi fæðst í kringum frasann „sorrí með mig“, sem fólk beiti fyrir sig í tíma og ótíma.“ „Þetta er eitthvað sem fólk segir áður en það þjösnast áfram, svona afsökun sem það setur fram þegar það veit að það er að gera eitthvað af sér en er eiginlega bara alveg sama.“

Orðið sorry/sorrý/sorrí er gífurlega algengt í óformlegu máli. Í Risamálheildinni eru um 51 þúsund dæmi um fyrstnefndu ritmyndina en hluti þeirra er væntanlega úr textum á ensku. Tæp ellefu þúsund dæmi eru um myndina sorrý og sjö þúsund og fjögur hundruð um sorrí. Nær öll dæmin eru af samfélagsmiðlum – aðeins rúmlega 140 dæmi um fyrrnefndu myndina og tæp 330 um þá síðarnefndu eru úr öðrum textum. Þar sem orðið hefur tíðkast í málinu í áttatíu ár og er svo algengt sem raun ber vitni í óformlegu máli er augljóslega þýðingarlaust að berjast gegn því og eins gott að viðurkenna það sem íslenskt orð þrátt fyrir að form þess sé ekki sérlega íslenskulegt. Mér þætti eðlilegast að slíta það þá sem mest frá enskunni og rita sorrí.