Posted on

Þetta tekur fljótt af

Í dag var spurt í „Málspjalli“ hvort færi betur að segja þessi hildarleikur tekur fljótt af eða þennan hildarleik tekur fljótt af – sem sé, hvort frumlagið með sambandinu taka fljótt af sem merkir 'stendur stutt, er fljótt búið' væri haft í nefnifalli eða þolfalli. Mér vafðist tunga um tönn vegna þess að frumlagið með þessu sambandi er langoftast fornafn í hvorugkyni, annaðhvort persónufornafnið það eða ábendingarfornafnið þetta, og þau eru eins í nefnifalli og þolfalli. Þegar sagt er þetta tekur fljótt af er því ómögulegt að segja hvort fall frumlagsins er nefnifall eða þolfall. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er frumlagið sagt vera í þolfalli en eina dæmið sem er gefið er það var sárt hjá tannlækninum en það tók fljótt af – sem sker ekki úr um fallið.

Sambandið taka af tekur vissulega þolfallsfrumlag í merkingunni 'fara af, hverfa', eins og höndina tók af um úlnlið í Morgunblaðinu 1977. En í öllum eldri dæmum tekur sambandið taka fljótt af nefnifall. Í Íslendingi 1864 segir: „ferðalögin verða þægileg, kostnaðarlítil, og taka fljótt af.“ Fleirtölumyndin taka sýnir hér að ferðalögin er nefnifall. Í Þjóðólfi 1895 segir: „hýðingin tekur fljótt af.“ Í Dýraverndaranum 1950 segir: „Ferðin tók fljótt af yfir heiðina.“ Í Vísi 1956 segir: „þar sem sú refsing tekur fljótt af er hún miskunnsamari en að strýkja menn í hel.“ Í Morgunblaðinu 1961 segir: „Hún tæki fljótt af ef fólk gætti þess að fara vel með sig.“ Í Vísi 1970 segir: „ég hafði einmitt búizt við því, að þessi framúrakstur tæki fljótt af.“

Ég finn ekki nema þessi sex ótvíræðu nefnifallsdæmi á tímarit.is fram til 1970 – en ekkert ótvírætt þolfallsdæmi. Dæmi um sambandið eru samtals rúmlega hundrað, en í öllum hinum gæti frumlagið verið hvort heldur er í nefnifalli eða þolfalli. Fyrsta ótvíræða þolfallsdæmið kemur í Tímariti Máls og menningar 1970: „Samdrykkjuna tók fljótt af.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Fyrstu hrinuna tók fljótt af.“ Í Þjóðviljanum 1978 segir: „Þann ótta tók fljótt af.“ Í Degi 1982 segir: „Það er skemmst af því að segja, að fegurðina tók fljótt af.“ Í DV 1983 segir: „hana tók fljótar af.“ Í Vestfirska fréttablaðinu 1984 segir: „Nú, söguna tekur fljótt af.“ Í NT 1985 segir: „atburðinn tók fljótt af.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „Skjálftann tók fljótt af.“

Það er þó ekki þannig að þolfallið útrými nefnifallinu með taka fljótt af. Allt frá 1970 hafa föllin verið notuð hlið við hlið, og eru enn – hlutfallið virðist vera nálægt þremur nefnifallsdæmum á móti tveimur þolfallsdæmum, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni. Ýmis dæmi eru um hliðstæðar setningar hvora með sínu falli. Í blaðinu 2006 segir: „Aftaka með eitursprautu tekur fljótt af“ en í Fréttablaðinu 2008 segir: „Hvítabjörninn var reyndar svo lánsamur að aftökuna tók fljótt af“. Í Þjóðviljanum 1978 segir: „Hún tók fljótt af biðskákin hjá þeim Kortsnoj og Karpov“ en í Skák sama ár segir: „Biðskákina tók fljótt af“. Þótt nefnifallið sé augljóslega eldra með þessu sambandi hlýtur bæði nefnifalls- og þolfallsfrumlag að teljast rétt.