Spurður um það í viðtali við Ríkisútvarpið hvort Ísland ætti að taka þátt í Eurovision á næsta ári svaraði menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra: „Ja magatilfinningin segir nei en ég ætla ekki að hafa afskipti af dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.“ Orðið magatilfinning er ekki að finna í neinum orðabókum en notkun þess hefur færst töluvert í vöxt að undanförnu. Það er augljóslega þýðing á gut feeling í ensku sem merkir 'tilfinning eða viðbragð byggt á eðlisávísun eða hugboði fremur en á ígrundun og rökum'. Reyndar þýðir gut oftast eiginlega fremur 'þarmar' en 'magi' þannig að þarmatilfinning væri e.t.v. eðlilegri þýðing. Dæmi um það orð finnast vissulega á netinu, en að því er virðist aðeins í vélþýddum textum og því ekki marktæk.
Elsta dæmi sem ég finn um orðið magatilfinning er í DV 1985, í grein sem er þýdd úr ensku: „Þessi fréttamaður […] er í raun að segja að þessi magatilfinning sjónvarpsáhorfenda útheimti nákvæmlega enga kunnáttu í tungumáli eða rökfræði.“ En í texta frumsömdum á íslensku sést orðið ekki fyrr en eftir aldamót, í Morgunblaðinu 2001: „Og þrátt fyrir að magatilfinningin segði mér að með því væri ég hugsanlega að sigla út á hálan ís þráaðist ég við.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Annars finnst mér margir fara eftir eigin innsæi og „magatilfinningunni“ eins og sagt er.“ Upp úr þessu fer orðið að sjást dálítið á samfélagsmiðlum en það er ekki fyrr en á síðustu tíu árum sem farið er að nota það eitthvað að ráði í vef- og prentmiðlum.
Notkun sambandsins gut feeling í þessari merkingu í ensku mun ekki vera ýkja gömul – sögð síðan um 1970 – en talið er að uppspretta hennar séu gamlar hugmyndir um að tilfinningalíf mannsins eigi heima í innyflunum, þar á meðal þörmunum. Þessar hugmyndir má rekja allt til Forngrikkja og því má segja að þær séu í raun sameign vestrænnar menningar en tengist ekki ensku sérstaklega. Það er þó ljóst að notkun orðsins magatilfinning í íslensku á seinustu árum er komin beint úr ensku en endurspeglar ekki hugmyndir sem hafi lifað í íslenskri menningu og málsamfélagi. Vissulega er gagnlegt að hafa orð yfir þá merkingu sem hér um ræðir og magatilfinning er auðvitað íslenska, en hvort það er heppilegt orð er smekksatriði.

+354-861-6417
eirikurr