Það bregst sjaldan að fyrir jólin upphefjist umræða um orðið hamborgar(a)hryggur – yfirleitt þannig að hneykslast er á þeim sem segja hamborgarahryggur enda sé þetta ekkert skylt hamborgurum. Lítill vafi leikur á að orðið er komið af hamburgerryg í dönsku. „Fyrri liðurinn er sóttur til borgarheitisins Hamborgar í Norður-Þýskalandi og merkir því orðið bókstaflega 'hryggur frá Hamborg'“ segir á Vísindavefnum. Elsta dæmi um myndina hamborgarhryggur er í auglýsingu í Vísi 1932 en orðið verður ekki algengt fyrr en seint á fimmta áratugnum. Elsta dæmi um hamborgarahryggur er í auglýsingu í Vísi 1955 en myndin verður ekki algeng fyrr en undir 1980. Fyrrnefnda myndin er þó margfalt algengari bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni.
Á Vísindavefnum segir: „Fyrri hluti danska orðsins, 'hamburger-', er í rauninni tvíræður og gæti frá sjónarmiði málfræðinnar þýtt hvort sem er 'hamborgar-' eða 'hamborgara-'. Lítill vafi er þó á því að átt er við fyrri merkinguna og að réttara eða eðlilegra er að tala um 'hamborgarhrygg' á íslensku.“ Ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétt. Önnur merkingin í danska orðinu hamburger er vissulega 'hamborgari' í merkingunni 'þunn buffsneið milli tveggja (kringlóttra) brauðsneiða, oft með osti, grænmeti o.þ.h.' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók en hin merkingin er 'person fra Hamburg'. Endingin -er í danska orðinu svarar til viðskeytisins -ari í íslenska orðinu Hamborgari en ekki til eignarfallsendingarinnar -ar í Hamborgar.
Ég held sem sé að í dönsku sé hamburgerryg ekki kenndur við borgina, Hamborg, heldur við íbúana, Hamborgara. Þess vegna væri í raun eðlilegra og í samræmi við upprunann að tala um hamborgarahrygg en ekki hamborgarhrygg. Hins vegar á síðarnefnda myndin sér auðvitað langa og ríka hefð í málinu og telst því vitanlega rétt. Auðvitað er það líka rétt að málnotendur tengja hamborgarahrygg oft ranglega við fæðutegundina hamborgara enda íbúaheitið Hamborgari sjaldséð í íslensku núorðið þótt það væri algengt áður fyrr. En ég sé ekki að þessi misskilningur ætti að valda nokkrum vandræðum – fólk veit að það eru ekki hamborgarar í hamborgarahrygg. Báðar myndir eru sem sé góðar og gildar og ástæðulaust að gera upp á milli.

+354-861-6417
eirikurr