Í fyrirsögn á mbl.is í dag segir „Össur óð á súðum“. Sambandið láta vaða á súðum er vitanlega vel þekkt og skýrt 'tala mikið og láta allt flakka' í Íslenskri nútímamálsorðabók, og sú er merkingin augljóslega í umræddri frétt. En eins og orðabókardæmið sýnir er sambandið venjulega haft með sögninni láta. Orðið súð merkir hér 'ytra byrði skipshliðar' og í bókinni Mergur málsins segir Jón G. Friðjónsson: „Líkingin er dregin af mikilli siglingu þar sem ekki er skeytt um það þótt öldurnar skelli á byrðingnum, súðunum.“ Eins og Jón nefnir er eldri mynd sambandsins láta vaða með súðum en elsta dæmi um hana er úr bréfi frá 1831: „eg læt allt vaða með súðum.“ Aðeins átta dæmi eru um þessa mynd á tímarit.is og hún er löngu horfin úr málinu.
Elsta dæmi sem Jón nefnir um láta vaða á súðum er litlu yngra – úr frásögn frá því um miðja nítjándu öld sem birtist í Blöndu 1924-1927: „Jón tíkargjóla var sauðheimskur, búrmæltur og drafandi í máli, en varð það á, sem flestum heimskum að tala fljótt og láta munninn vaða á súðum, sem menn segja.“ Þarna tekur sögnin láta andlag, munninn, en oftast er andlagi sleppt og vaða á súðum kemur strax á eftir láta. Þannig segir t.d. í Ísafold 1890: „Eins er meira, miklu meira, varið í að forða efnatjóni fyrir almenning, heldur en að láta vaða á súðum og allt eiga sig afskiptalaust, þangað til í óefni er komið.“ Ef andlag fylgir er það oftast allt – í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1891 segir: „Hann lætur allt vaða á súðum, sem honum dettur í hug.“
Stundum er þó vaða á súðum notað án þess að láta fari á undan, og þá er vaða í framsöguhætti í stað nafnháttar en tekur þá yfirleitt ekki með sér geranda heldur iðulega óákveðna fornafnið allt. „Allt veður á súðum með söndunum“ segir í Alþýðublaðinu 1927. Í DV 1990 segir: „áður en varir hafa loforðin góðu gleymst og allt veður á súðum.“ Einnig er sambandið stundum notað án frumlags. Í Vinnan og verkalýðurinn 1954 segir: „Nú veður á súðum.“ Í Tímanum 1982 segir: „þar veður á súðum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1968 segir: „Siglingin var góð og óð á súðum.“ Í stað geranda er stundum forsetningarliður með hjá. Í Skírni 1891 segir: „Svo veður allt á súðum hjá honum.“ Í Vísi 2016 segir: „Þá óð á súðum hjá seðlabankastjóranum.“
Elsta dæmi sem ég finn um mannlegan geranda með vaða á súðum er í Morgunblaðinu 1970: „Krúsjeff hafði vaðið á súðum.“ Í Dagblaðinu 1978 segir: „Hann óð á súðum.“ Í Þjóðviljanum 1985 segir: „Formaðurinn veður á súðum í atvinnurekendapólitík sinni.“ Í Alþýðublaðinu 1989 segir: „Össur Skarphéðinsson, doktor í fiskeldisfræði og fyrrum ritstjóri Þjóðviljans veður á súðum í viðtali við nýjasta tölublað af Þjóðlífi.“ Upp úr 1990 fjölgar dæmum af þessu tagi þótt enn sé langsamlega algengast að sögnin láta sé höfð með. Nýleg dæmi eru „Fámennur en hávær hópur óð á súðum vikum saman í fjölmiðlum“ í Vísi 2022 og „Þeir voru reknir úr Flokki fólksins eftir kvöldið alræmda á Klaustri, þar sem þingmenn óðu á súðum“ í Fréttablaðinu 2019.
Það er sem sé ljóst að notkun sambandsins hefur breyst – sögnin láta fylgir ekki alltaf með því núorðið og það fær oft geranda. Um leið má vitanlega segja að upphaflega líkingin við skip sem boðaföll ganga yfir dofni eða tapist. Á þetta var bent í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2019 og sagt: „Í grein einni var reitt hátt til höggs og höfundur sást ekki fyrir. Var þá sagt að hann hefði „vaðið á súðum“. Þannig getur enginn vaðið. Súð er byrðingur á skipi. Siglt er djarflega og ekki fengist um það þótt öldurnar skelli á súðinni. Maður lætur vaða á súðum.“ En þessi breytta notkun sambandsins er orðin meira en þrjátíu ára gömul og spurning hvort hún hefur unnið sér hefð eða hvort ástæða sé til að amast við henni. Því verða málnotendur að svara.

+354-861-6417
eirikurr