Út frá sambandinu láta vaða á súðum sem ég var að skrifa um í gær fór ég að skoða sambandið láta vaða sem er skýrt 'láta verða af því, framkvæma (það)' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þetta samband er hvorki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 né Íslenskri orðabók sem getur bent til þess að það sé ekki gamalt þótt vitaskuld komist ekki allt í orðabækur – en ég finn ekki heldur nein gömul dæmi um sambandið í þessari merkingu í textum. Í eldri dæmum er augljóslega vísað til tungumálsins, ýmist í samböndum eins og láta <þetta> vaða sem er gefið í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt '(þora að) segja það', eða láta allt vaða sem er gefið í Íslenskri orðabók og skýrt 'segja hvað sem vera skal, hvað eina sem kemur í hugann'.
Í bréfi frá 1852 birtu í Akranesi 1956 segir: „Ég læt allt vaða í einu, því naumur er tími.“ Í Speglinum 1937 segir: „párið þið nú, strákar, meðan andinn er yfir mér og ég læt vaða.“ Í Lögbergi 1953 segir: „Dregur Gestur að svo búnu hverja myndina annarri háðulegri af þeim félögum og lætur allt vaða, hversu svívirðilegt sem það er.“ Í Mánudagsblaðinu 1956 segir: „Sá sem er ófeiminn og lætur allt vaða, stendur án efa betur að vígi en sá, sem er feiminn, hikandi og fullur af vanmáttarkennd.“ Í Alþýðublaðinu 1958 segir: „Hitt smíðar glópa, að láta allt vaða, sem í hugann kemur.“ Í Morgunblaðinu 1985 segir: „Þú minnir fólk á að viðra skoðanir sínar og skrifa þér eða hringja [og því] sest ég nú niður mitt í sláturtíðinni og læt vaða.“
Í þessum dæmum virðist merkingin vera býsna nálægt merkingunni í sambandinu láta vaða á súðum sem er skýrt 'tala mikið og láta allt flakka' í Íslenskri nútímamálsorðabók og trúlegt að um sé að ræða styttingu á því sambandi. En á seinni árum hefur merkingin víkkað. Í Vikunni 1962 segir: „ég galaði í hann á móti og sagði honum að láta vaða.“ Í Austurlandi 1964 segir: „Loka bara augunum og láta vaða“. Í íþróttafrétt í DV 1975 segir: „ég lét vaða en framhjá.“ Í auglýsingu í Morgunblaðinu 1981 segir: „Sjóarinn eldhressi – með leppinn – lætur vaða.“ Í DV 1982 segir: „Þá fyrst fór að skyggja þegar stúdentar sem kenna sig við umbætur létu vaða.“ Í þýðingu á myndasögu í Morgunblaðinu 1985 segir „Ég læt vaða!“ (þýðing á „Here I go!“).
Dæmum um þessa merkingu á tímarit.is fer svo ört fjölgandi á síðasta áratug tuttugustu aldar og einkum eftir aldamót – eru hátt í níu hundruð í Risamálheildinni. Það er nokkuð ljóst að merkingarbreytingin stafar af því að í stað þess að skilja setningar eins og ég læt vaða sem 'ég hika ekki við að segja það mig langar til' hafa málnotendur farið að skilja þær almennari skilningi sem 'ég hika ekki við að framkvæma það sem mig langar til'. Sú víkkun er í sjálfu sér mjög skiljanleg og eðlileg. Þróunin virðist sem sé vera láta vaða á súðum > láta <þetta, allt> vaða > láta vaða. Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig málið er alltaf að breytast – ný orð og orðasambönd verða til, oft án þess að við veitum því athygli. Þannig helst málið lifandi.

+354-861-6417
eirikurr