Posted on

Hvers vegna eru jólin stundum rauð?

Í Facebook-hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var spurt hvers vegna andstæðan við hvít jól – sem er auðskilið – væri rauð jól en ekki auð jól. Í Íslenskri orðabók er ein merking lýsingarorðsins rauður sögð 'snjólaus, auður' með dæmunum rauð jörð og rauð jól. „Með rauð jól er því átt við snjólausa auða jörð um jól“ segir á Vísindavefnum í svari við spurningunni „Af hverju er snjólausum jólum lýst sem „rauðum jólum“ en ekki svörtum?“ En þetta svarar samt ekki þeirri spurningu hvers vegna lýsingarorðið rauður getur haft þessa merkingu – og eingöngu með þessum tilteknu nafnorðum (og að því er virðist einnig með nafnorðinu vetur í hendingunni „Veturinn rauður, vorið blítt“ úr kvæði frá átjándu öld, en það er skylt).

Á Vísindavefnum er bent á að til er orðatiltæki sem „felur í sér þá trú manna að væri jörð auð um jól yrði snjór um páska og öfugt“. Elsta dæmið um það er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1864: „Ef jól eru rauð, verða hvítir páskar, en rauðir, ef jól eru hvít“. Þar kemur einnig fram að svipað orðasamband er til í dönsku – en grøn jul bringer snehvid påske og hvid jul giver en grøn påske. Þessi sambönd eru svo lík að milli þeirra hljóta að vera einhver tengsl og þá er mun líklegra að íslenska orðasambandið hafi verið búið til með hliðsjón af því danska en öfugt. Munurinn er sá að í dönsku er talað um græn jól eða páska en í íslensku um rauð – „grænn merkir þarna 'snjólaus, auður' eins og rauður í íslensku“ segir á Vísindavefnum.

Það er auðskilið hvers vegna grænt er notað í dönsku – það er litur grassins. En hvers vegna verða íslensku jólin rauð? Það væri auðvitað fráleitt að tala um græn jól á Íslandi – þótt gras sem grær á ræktuðum túnum nútímans geti verið býsna grænleitt um jólaleytið var það ekki þannig áður fyrr. Þegar danska orðatiltækið var yfirfært á íslensku þurfti því að finna eitthvert annað lýsingarorð í stað þess að hafa jólin græn. Ef verið er að nota litarorð á annað borð liggur beint við að tala um rauð jól vegna þess að það slær oft rauðleitri slikju á sölnað gras eða sinu í vetrarsólinni. En auðvitað kann líka vel að vera að þetta hafi ekki verið upphafið, heldur hafi verið talað um rauð jól og rauða jörð löngu áður en áðurnefnt orðatiltæki kom inn í málið.

Ég held sem sé að það sé í raun misskilningur að lýsingarorðin rauður í íslensku og grøn í dönsku merki 'snjólaus, auður' í þessum samböndum, heldur hafi þau upphaflega sína eiginlegu litarmerkingu í þeim en merkingin 'snjólaus, auður' er í raun forsenda þess að liturinn komi fram. Í dönsku er þetta augljóst, en í íslensku kannski ekki eins, vegna þess að í nútímanum er sölnað gras ekki áberandi í umhverfi okkar flestra. En það hlýtur að vera einhver skýring á því að rauður virðist merkja 'snjólaus, auður' með orðinu jörð, og svo jól þar sem það vísar til jarðarinnar, og ég sé ekki aðra en þessa. Það er aldrei talað um t.d. rauð fjöll, rauða kletta eða rauðar götur sem búast mætti við ef rauður merkti í raun 'snjólaus, auður'.