Í „Málspjalli“ var spurt í dag hvort það ógnaði íslenskunni að taka sturtu. Þetta orðalag er nýlegt í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2004: „Vaknaði fyrir alvöru, tók sturtu.“ Það hefur oft verið gagnrýnt. Í Morgunblaðinu 2018 sagði Helgi Snær Sigurðsson: „æ oftar verður maður var við að fólk gerir ekki greinarmun á ensku orðalagi og íslensku. Fólk „tekur“ sturtu, svo dæmi sé tekið.“ Í Víkurfréttum 2020 sagði Inga Birna Ragnarsdóttir: „Lendi oft í að leiðrétta ellefu ára stjúpson minn sem notar enska setningaruppbyggingu. Til dæmis: […] „ég ætla að taka sturtu“ í staðinn fyrir „ég ætla að fara í sturtu“.“ Rúm fimmtíu dæmi eru um þetta orðalag í Risamálheildinni, öll af samfélagsmiðlum, en í mörgum þeirra er verið að gagnrýna það.
En þótt taka sturtu sé ekki gamalt í málinu, og trúlega komið úr ensku, má finna eldri dæmi um orðalagið taka steypibað en orðið steypibað er samheiti við sturta og þótti betra mál – í orðalista með fyrirsögninni „Vandið málið! Varist mállýti!“ í Hlín 1942 er línan „Sturta = steypibað.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1931 segir: „Enginn fær að fara í laugina án þess að taka steypibað að loknu sundi.“ Í Bræðrabandinu 1945 segir: „Allir urðu að taka steypibað einu sinni í viku.“ Í Heilsuvernd 1956 segir: „Það er alltaf nóg að taka steypibað.“ Í Vísi 1959 segir: „Þá var hann spurður hvernig hann hefði tekið steypibað og haldið sér þurrum fyrir því.“ Í Vikunni 1967 segir: „Kerlaug er ágæt í 7-8 mánuði, en síðasta mánuðinn er öruggara að taka steypibað.“
Mun eldri dæmi má þó finna um sambandið taka bað. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar 1899: „Hinum […] var leyft að fara tafarlaust, eptir að hafa tekið bað.“ Almanakið var að vísu gefið út í Winnipeg þannig að þarna gæti verið um ensk áhrif að ræða, en skömmu síðar fer þetta að sjást í blöðum á Íslandi. Í Þjóðólfi 1909 segir: „Því næst dró hún stórt baðker yfir hlemminn […] og tók að afklæða sig, eins og hún ætlaði að taka bað.“ Í Syrpu 1915 segir: „Hún tók bað og fékk nýjan klæðnað frá hvirfli til ilja.“ Í Íslendingi 1920 segir: „Eru tveir klefar í hvorri; fara baðgestir úr fötum og klæða sig í öðrum, en taka bað í hinum.“ Í Vísi 1929 segir: „Fólki skal bent á, að best er að taka bað kl. 10-12 árdegis.“
Sum þessara dæma um sambandið taka bað eru vissulega úr þýðingum og því hugsanlega undir áhrifum frá ensku orðalagi, en ýmis dæmi um sambandið má þó finna í textum frumsömdum á íslensku á tímarit.is, enda er hægt að finna mun eldri dæmi um þetta samband. Í Þorláks sögu helga segir: „Ormur breiðbælingur […] tók bað í Skálholti.“ Í Gísls þætti Illugasonar segir: „Eftir það tóku þeir bað.“ Í Þiðriks sögu af Bern segir: „Hann hefir tekið bað í þeim stað er nú er kallað Þiðreks bað.“ Einnig eru allmörg dæmi í fornu máli um sambandið taka laugar í sömu merkingu, t.d. „Flosi tók laugar og lið hans“ í Brennu-Njáls sögu, „Gakk nú þar til er Magnús konungur hefir tekið laugar“ í Morkinskinnu og „þá tók konungur þar laugar“ í Heimskringlu.
Við höfum því dæmi um fjögur hliðstæð orðasambönd – taka sturtu, taka steypibað, taka bað og taka laugar. Tvö þau síðastnefndu koma fyrir í fornu máli, taka steypibað er hátt í hundrað ára gamalt, en elstu dæmi um taka sturtu eru frá þessari öld. Vitanlega gæti það samband hafa orðið til út frá eldri samböndum en þó er miklu líklegra að notkun þess í nútímamáli megi rekja til enska sambandsins take a shower. Og þá er spurningin: Eigum við að láta sambandið gjalda (sennilegs) ensks ætternis síns og amast við því, eða eigum við að segja að það sé ekkert athugavert við það vegna þess að algerlega hliðstæð sambönd hafi tíðkast allt frá fornu máli? Ég hef tilhneigingu til að láta sambandið njóta vafans og segja að það sé góð og gild íslenska.

+354-861-6417
eirikurr