Það er yfirleitt varasamt að taka erlenda umræðu um tiltekið orð og yfirfæra hana á íslenskt orð sem talið er samsvarandi. Þótt orðin merki nokkurn veginn það sama getur aldur þeirra og uppruni verið mismunandi, sem og tengsl við önnur orð, hugrenningatengsl sem orðin vekja, og margt fleira. Ég benti t.d. á það fyrir nokkru að þótt sagt sé að hugtakið þjóðarmorð hafi verið búið til 1944 er þar vísað til enska orðsins genocide – íslenska orðið þjóðarmorð er miklu eldra. Annað dæmi er orðið drusla sem hefur undanfarin 10-15 ár verið notað sem þýðing á enska orðinu slut í merkingunni 'lauslát kona', en margt í grein um orðið og notkun þess á mbl.is átti ekki við íslenska orðið – greinin var augljóslega þýdd og verið að tala um orðið slut.
Undanfarin 15-20 ár hafa hægrisinnuð öfl í Bandaríkjunum haldið því fram að þar væri í gangi það sem þau kalla „War on Christmas“ sem felist í því að draga sem mest úr notkun orðsins Christmas vegna tengingar þess við kristna trú. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undanfarið nefnt það sem eitt dæmi um hvernig stefna hans sé í sókn að jólakveðjan Merry Christmas sé nú aftur notuð í staðinn fyrir Happy Holidays sem hafi tröllriðið öllu undanfarið – „We brought back Merry Christmas““ segir hann. Eins og stundum vill verða hjá Trump er ýmislegt málum blandið í sambandi við þetta og breytingin kannski ekki eins mikil og hann vill meina, en látum það liggja milli hluta – bandarísk orðanotkun er ekki viðfangsefni þessa hóps.
Ég nefni þetta samt ekki hér að ástæðulausu. Því hefur nefnilega nýlega verið haldið fram að svipuð þróun sé í gangi á Íslandi – fólk sé farið að forðast að segja Gleðileg jól en segi þess í stað Gleðilega hátíð. Rithöfundurinn Stefán Máni skrifaði nýlega á X: „„Gleðilega hátíð“ er úrkynjað og meðvirkt pc newspeak. Það er gleðileg jól“. Eftir að þessu hafði verið mótmælt harðlega og bent á dæmi sem sýna að Gleðilega hátíð hefur verið notað í meira en öld til að óska gleðilegra jóla sagði hann: „Gleðilega hátíð er gömul kveðja, notuð áður fyrr til að óska fólki gleðilegra jóla. Í dag aftur á móti er kveðjan mest notuð af fólki sem vill ekki móðga trúlausa/ekki kristna eða hefur eitthvað á móti kristni eða gamaldags jólum.“
Elsta dæmi sem ég finn um sambandið gleðileg hátíð er í Heimskringlu 1889: „útgefendurnir óska öllum lesendum „Hkr.“ gleðilegrar hátíðar.“ Þetta blað kom út 26. desember, og á sömu síðu er grein með fyrirsögninni „Gleðileg jól.“, þannig að augljóst er að hátíð vísar þarna til jólanna. Alla tíð síðan hefur gleðileg hátíð verið algeng jólaósk þótt gleðileg jól sé margfalt algengara, og ekkert sem bendir til þess að síðarnefnda kveðjan sé á undanhaldi. Það má líka halda því fram að fólk líti oft á jól og áramót sem eina samhangandi hátíð þannig að gleðilega hátíð getur náð yfir hvort tveggja enda oft vísað til hvors tveggja með sambandinu yfir hátíðarnar – og svo lýkur jólunum að gömlu tali ekki fyrr en á þrettándanum, 6. janúar.
Í umræðu um áðurnefnda færslu Stefáns Mána sagði Andri Snær Magnason: „Þetta er innflutt tuð.“ Það er hárrétt, og gott dæmi um hversu varasamt það er að flytja umræðu um einstök orð milli málsamfélaga. Þótt enska orðið Christmas og íslenska orðið jól séu vissulega yfirleitt talin merkja það sama er uppruni þeirra og orðsifjar gerólíkt, og þar með hugrenningatengsl. Enska orðið tengist augljóslega Jesú Kristi og kristinni trú, en slík tenging er ekki innbyggð í orðið jól – það orð var upphaflega notað um heiðið miðsvetrarblót en færðist síðan yfir á fæðingarhátíð Krists sem var haldin um svipað leyti. Þótt það kunni að vera viðkvæmt að mati einhverra að nota Christmas í ensku er því engin ástæða til að yfirfæra þá viðkvæmni á íslenska orðið jól.

+354-861-6417
eirikurr