Posted on

Þrettándinn

Í dag er þrettándinn. Það heiti er eins og flest væntanlega vita stytting á þrettándi dagur jóla en það orðasamband kemur fyrir þegar í fornu máli – í annál frá fyrsta hluta fjórtándu aldar segir t.d.: „Vígður Karl bróðir Louis Frakkakonungs til konungs yfir Sikiley af páfa þrettánda dag jóla.“ Styttingin þrettándi þekkist einnig í fornu máli – í bréfi frá 1461 segir: „de tempore bók frá aðventu og fram yfir þrettánda.“ Árni Björnsson segir í Sögu daganna að styttingin komi fyrst fyrir á prenti í rímtali Guðbrands biskups Þorlákssonar 1576 og bætir við: „Frá 1692 hefur þrettándi án greinis staðið í öllum almanökum.“ Þegar þrettándi stendur án greinis má líta á orðið sem raðtölu og styttingu á þrettándi dagur jóla, í samræmi við uppruna þess.

En öðru máli gegnir ef orðið er með greini, þrettándinn – þá verður að líta á það sem nafnorð. Það virðist ekki vera fyrr en seint á nítjándu öld sem almennt er farið að nota orðið þannig – elsta dæmi sem ég finn um það er í Fjölni 1838: „Að vísu gjörði um þrettándann fádæma hörkur og harðviðri.“ Næsta dæmi er í Norðra 1855: „Veðráttufarið var fyrst eftir nýárið svipað því og fyrir það, en eptir þrettándann blotaði.“ Í Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags 1878 segir: „Þrettándinn var lengi haldinn sem mikill helgidagur“ og „kirkjurnar voru þá allar ljósum prýddar, svo að fyrir þá sök var þrettándinn kallaður ljósa-hátíð“. Upp úr þessu fer dæmum fjölgandi, en myndin þrettándinn verður þó ekki algeng fyrr en á tuttugustu öld.

Auðvitað er samt enn algengt að nota orðið án greinis, einkum þegar það stendur í forsetningarlið í tímaviðmiðunum. Í Fréttatímanum 2011 segir: „Þróunin hafi versnað enda standi sprengingarnar í um vikutíma, frá því að flugeldasala hefst milli jóla og nýárs og fram á þrettánda.“ Í Bæjarblaðinu Jökli 2023 segir: „Kveikt er á ljósum aðventuna og að þrettánda.“ Í Fréttatímanum 2010 segir: „Yfirleitt voru ekki liðnir margir dagar frá þrettánda þegar myndarlegu nágrannarnir klifruðu upp á svalir og þök og fjarlægðu ljósaskreytingarnar.“ Þarna væri líka hægt að nota greini og segja fram á þrettándann, að þrettándanum og frá þrettándanum en það er samt mun algengara og eðlilegra að nota greinislausu myndina.

Þegar orðið er án greinis er hægt að líta á það sem töluorð eins og áður segir, styttingu á lengra orðasambandi, og í sjálfu sér gæti það líka verið stytting á t.d. þrettánda desember, þrettánda janúar o.s.frv. – það er bara samhengið sem sýnir að átt er við þrettándann, 6. janúar. En þegar orðið er með greini verður að líta á það sem nafnorð, og ef verið er að tala um daginn sjálfan en ekki nota hann sem viðmið er hann yfirleitt hafður með greini. Ef við segjum í dag er þrettándi eða þrettándi er skemmtilegur dagur yrði það væntanlega skilið sem sem 'þrettándi dagur mánaðarins og tæplega er hægt að segja *þetta var á þrettánda eða *ég á afmæli á þrettánda – þar verður að hafa orðið með greini, nota nafnorð en ekki töluorð.