Posted on

Aflifendur

Í gær var spurt í „Málspjalli“ um „gott, kraftmikið og valdeflandi orð“ sem mætti nota sem þýðingu á enska orðinu survivor. Skýring þess orðs í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi er í þrennu lagi: '1. eftirlifandi, maður sem lifir (e-n) . 2. e-r sem kemst lifs af. 3. e-ð sem enn er til eða heldur velli.' Í umræðum í „Málspjalli“ var stungið upp á orðum eins og sigurvegari og lifandi og nýyrðum eins og yfirstígandi, þraukari og tóri, auk þess sem ýmis nefndu lýsingarorð eins og lífseigur, þrautseigur og bjargfær eða orðasambönd eins og lifa af og bentu á að ekki væri alltaf nauðsynlegt að nota nafnorð í íslensku þótt það sé gert í ensku. Það er alveg rétt, en í þessu tilviki væri samt gott að hafa eitthvert nafnorð tiltækt.

Einn möguleiki væri að nota nafnorðið aflifandi – í fleirtölu aflifendur. Það orð hefur reyndar áður skotið upp kollinum, í umræðu um sams konar fyrirspurn í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ fyrir rúmu ári. Þar sagði Arnþrúður Heimisdóttir: „Orðið væri trúlega „aflifandi“, ef það nýyrði væri til.“ En það er ekkert því til fyrirstöðu að taka þetta orð upp og nota það í þessari merkingu. Það má hugsa sér að það sé leitt af lýsingarhætti nútíðar af sögninni aflifa sem er til í málinu og gefin í Íslenskri orðabók í merkingunni 'lifa af, lifa e-n' með dæmunum aflifa harðan vetur og aflifa ættmenn sína. Hér væri það fyrri merkingin og dæmið sem ætti við – í Víkverja 1874 segir t.d.: „Nú erum vér hér og víðar á landinu búnir að aflifa harðan vetr.“

Orðið aflifandi er hliðstætt við eftirlifandi sem vissulega er oftast notað sem lýsingarorð í merkingunni 'sem lifir eftir andlát tiltekins manns' (hún er eftirlifandi eiginkona hans)  en getur einnig verið nafnorð í merkingunni 'sá sem eftir lifir (eftir að aðrir deyja)' og er þá einkum notað í fleirtölu (eftirlifendur styrjaldarinnar, sjálfsvíg eru erfiðust fyrir eftirlifendur). En í stað þess að hugsa sér að nafnorðin aflifandi og eftirlifandi séu upphaflega lýsingarháttur nútíðar af sjaldgæfu sögnunum aflifa og eftirlifa má líta svo á að þarna sé um að ræða lýsingarhátt nútíðar af sögninni lifa, lifandi, og forsetningunum af og eftir sé bætt þar fyrir framan. Hvort tveggja er í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur. Mér finnst aflifandi alveg koma til greina.

En auðvitað er þetta ekki fullkomið orð fremur en flest önnur nýyrði og einhverjum kann að finnast að það nái ekki merkingunni í survivor eða sé villandi. Enska orðið merkir oft eða jafnvel oftast ekki beinlínis 'lifa af' heldur 'komast af, komast í gegnum' eða eitthvað slíkt (t.d. er talað um sexual assault survivor) og í umræðum var reyndar bent á að afkomandi væri kannski besta orðið – ef það væri ekki frátekið fyrir aðra merkingu. Í umræðum var líka nefnt að orðið væri óþægilega svipað aflífandi af sögninni aflífa. Þegar orð eru ókunnugleg reynum við alltaf að lesa einhverja merkingu út úr þeim og lendum þá stundum á villigötum. En ef málsamfélagið gefur nýjum orðum ákveðna merkingu venjumst við henni yfirleitt fljótlega.