Í fyrirsögn á mbl.is í dag segir „Þurftu frá að hverfa vegna blindfærðar“ og orðið blindfærð er einnig notað í texta fréttarinnar. Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var bent á þetta og sagt: „Ég vandist því að talað var um blindbyl annars vegar og ófærð hins vegar.“ Orðið blindfærð er ekki að finna í neinum orðabókum en þetta er samt ekki fyrsta dæmið um það. Á Facebook-síðu mbl.is 2015 segir: „hætta er á blindfærð á fjallvegum með kvöldinu“ og á mbl.is 2024 segir: „Spáð er 14 til 18 metrum á sekúndu, blindfærð og skafrenningi.“ Nú hefur blindfærð reyndar verið breytt í blindófærð sem er gefið í Íslensku orðaneti og eitt dæmi finnst um, í Vikuútgáfu Alþýðublaðsins 1932: „heimilisfeðurnir reknir af heimilum sínum í blindófærð um hávetur.“
Þótt blind(ó)færð hljómi ókunnuglega er löng hefð fyrir því að nota hvorugkyn lýsingarorðanna blindaður og blindur um lélegt skyggni, oftast vegna snjókomu – einkum þegar fólk er á ferð. Í Degi 1957 segir: „Gerði þá myrkt af hríð og mjög blindað.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Mikið hafði snjóað í logni um nóttina og því mjög blindað.“ Í Vísi 1961 segir: „Dimmt var í lofti, snjór yfir öllu og mjög blint.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Loka varð Reykjanesbraut um tíma en mjög blint var á brautinni.“ Einnig má finna dæmi um að lýsingarorðið blindur sé notað með nafnorðinu færð – í Fréttablaðinu 2007 segir: „því gæti orðið nokkuð blind færð.“ Þarna er auðvitað stutt yfir í samsetninguna blindfærð sem er ágætlega gagnsæ.
Nokkrar samsetningar sem enda á -færð eru til – langalgengust auðvitað ófærð en einnig t.d. vetrarfærð, vonskufærð, kafalds(ó)færð, þæfings(ó)færð. Tvö þau síðarnefndu koma fyrir bæði með -færð og -ófærð sem seinni lið. Ég sé ekki að blindfærð – eða blindófærð, hvort sem heldur væri – sé neitt verri eða óeðlilegri samsetning. Einhverjum gæti fundist þetta orð óþarft vegna þess að það merki sama og ófærð en ég er ósammála – merkingin í blindfærð er þrengri en í ófærð vegna þess að fram kemur að ástæða ófærðarinnar er vont skyggni. Ef ástæðan er snjór á vegum frekar en vont skyggni er hins vegar hægt að tala um kafalds(ó)færð eða þæfings(ó)færð. Mér finnst blindfærð gott og gagnlegt orð – og alveg ástæðulaust að breyta því í blindófærð.

+354-861-6417
eirikurr