Posted on

Af gefnu tilefni – að því tilefni

Ég var spurður í morgun hvort ekki væri „alveg í lagi að segja af gefnu tilefni“. Ég sagði að það hefði yfirleitt verið kennt að það væri rangt, og í Málfarsbankanum segði: „Athuga þó að sagt er að gefnu tilefni.“ Aftur á móti er sagt af engu tilefni, af þessu tilefni o.s.frv. Ástæðan fyrir því að ekki er notuð sama forsetning í af engu tilefni og gefnu tilefni er sú að setningagerðin er önnur. Í fyrra dæminu stendur óákveðna fornafnið engu sem einkunn með tilefni en í því seinna stendur lýsingarhátturinn gefnu sem viðurlag og gæti líka staðið á eftir nafnorðinu – að tilefninu gefnu eða að þessu tilefni gefnu. Merkingin er þá 'eftir að tilefni hefur verið gefið'. Aftur á móti er útilokað að breyta orðaröð í hinu dæminu og segja *af tilefni(nu) engu.

Forsetningin hefur því sams konar tímatilvísun í að gefnu tilefni og hún hefur í ýmsum samböndum eins og að loknu verki, að liðnum degi, að honum látnum o.s.frv.. En sú tilvísun er væntanlega ekki sérlega ljós í huga málnotenda í sambandinu að gefnu tilefni, enda er tímavísunin ekki eins ríkur þáttur í gefa og í ljúka, líða og látast. Við það bætast áhrif frá öðrum samböndum með tilefni þar sem forsetningin af er notuð, eins og af þessu tilefni og af engu tilefni. Þess vegna „verður að læra sérstaklega hvort orðið er notað“ segir Árni Böðvarsson í Íslensku málfari og leggur áherslu á að rétt sé „að segja [...] að gefnu tilefni, [...] en [...] „af gefnu tilefni“ er rangt.“ Sama gerir Jón G. Friðjónsson í „Íslensku máli“ í Morgunblaðinu 2003.

En það er sannarlega engin nýjung að segja af gefnu tilefni. Alls eru hátt í 3.400 dæmi um það samband á tímarit.is, það elsta í Norðanfara 1882: „Af gefnu tilefni frá minni hálfu.“ Dæmin um gefnu tilefni eru vissulega sex sinnum fleiri, eða um 20.400, en það elsta er úr Skuld 1877 og því litlu eldra en elsta dæmið með af: „Að gefnu tilefni skulum vér geta þess.“ Í Risamálheildinni er munurinn öllu minni – þar eru dæmin með rúmlega fjórum sinnum fleiri en dæmin með af. Eins og við er að búast fara áhrifin líka í hina áttina, þannig að komi í stað af. Á tímarit.is eru samtals hátt í 2.500 dæmi um því tilefni og þessu tilefni í stað af því tilefni og af þessu tilefni, og í Risamálheildinni eru hátt í 2.200 dæmi um sömu sambönd.

Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru dæmin um af gefnu tilefni meira en helmingur á við dæmin um – 962 á móti 1716. Það er því ljóst að í óformlegu máli almennra málnotenda er sambandið af gefnu tilefni mjög algengt. Í pistli frá 2018 í Málfarsbankanum segir Jón G. Friðjónsson: „verð ég að viðurkenna að ég sé engan merkingarmun á orðasamböndunum að gefnu tilefni og af gefnu tilefni; ég hef ekki séð nein dæmi er sýni þennan mun.“ Það er þá tæpast við því að búast að almennir málnotendur sjái nokkurn mun sem leiðbeini þeim um hvora forsetninguna „eigi“ að nota og það verður þá bara utanbókarlærdómur sem veldur ruglingi. Auðvitað er löngu komin hefð á af gefnu tilefni og algerlega fráleitt að telja það rangt.