Posted on

Magn og fjöldi

Nýlega var í „Málspjalli“ spurt um notkun orðsins magn í setningunni „Til að áætla magn ferðamanna á landinu var heildarfjöldi [svo] þeirra árið 2024 deilt niður á 52 vikur“ sem tekin er úr skýrslunni Tillögur að neyðarbirgðum matvæla á Íslandi frá árinu 2025. Fyrirspyrjandi sagðist hafa vanist því að nota orðið fjöldi í samböndum af þessu tagi. Vissulega er meginreglan sú að tala um fjölda þegar átt er við eitthvað teljanlegt en nota magn um safnheiti, en þó er rétt að athuga að í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið magn skýrt 'það sem tekur til umfangs, stærðar eða fjölda' og í Íslenskri orðabók er það skýrt 'megind, það sem tekur til massa, stærðar eða fjölda e-s'. Þarna er því á báðum stöðum gert ráð fyrir að magn geti vísað til fjölda.

Það er ekki einsdæmi að talað sé um magn ferðamanna eða magn af ferðamönnum. Í DV 1992 segir: „Núna sjá Portúgalar mikið eftir því að hafa lagt svona mikla áherslu á magn ferðamanna frekar en gæði.“ Á vef Víkurfrétta 2002 segir: „það sem hefur kannski komið mér mest á óvart er hið ótrúlega magn af ferðamönnum sem koma hingað í öllum veðrum.“ Í DV 2005 segir: „Gríðarlegt magn af ferðamönnum koma til Reykjavíkur.“ Á mbl.is 2016 segir: „við erum með óhemju magn af ferðamönnum á öllu landinu.“ Í fréttum Ríkisútvarpsins 2015 sagði: „Það hefur ekki farið framhjá neinum að ferðamenn streyma hingað í áður óþekktu magni.“ Þetta tók Eiður Guðnason upp í málfarsmolum sínum og sagði: „Ekki magn ferðamanna, takk.“

En orðið magn hefur svo sem verið notað um annars konar fólk en bara ferðafólk. Í grein Helga J. Halldórssonar, „Málfar blaða og útvarps“, í Skírni 1975 segir: „Kona skrifaði mér og sagðist hafa heyrt í útvarpinu talað um mikið magn af fólki við jarðarför.“ Í DV 2006 segir: „Á svæðinu var ótrúlegt magn af fólki.“ Í Eyjafréttum 2010 segir: „Mikil snerting við mikið magn af fólki.“ Í Vísi 2011 segir: „Það er alveg gríðarlegt magn af fólki sem birtist.“ Á mbl.is 2022 segir: „Það er náttúrulega ofboðslegt magn af fólki sem gengur Laugaveginn.“ Þetta hefur stundum verið gagnrýnt – í Fréttablaðinu 2007 segir Njörður P. Njarðvík: „Megum við kannski búast við að heyra talað um verulegt magn af fólki á sýningu? Hljómar það ekki fremur aulalega?“

Þegar að er gáð kemur í ljós að ýmis fordæmi eru fyrir því að nota magn um teljanleg fyrirbæri. Í Morgunblaðinu 1978 segir t.d.: „Bændur á Sikiley framleiða umtalsvert magn af appelsínum sem enginn hefur neitt við að gera.“ Þótt appelsínur séu auðvitað teljanlegar væri mjög óeðlilegt að tala þarna um mikinn fjölda appelsína fremur en umtalsvert magn af appelsínum. Í Frey 1985 segir: „Getum boðið mikið magn af girðingarstaurum úr trönuefni á mjög hagstæðu verði.“ Hér gegnir sama máli – girðingarstaurar eru teljanlegir en óeðlilegt væri að tala um fjölda girðingarstaura. Í Vísi 1975 er auglýst „talsvert magn af gangstéttarhellum“ en ekki töluverður fjöldi af gangstéttarhellum þótt gangstéttarhellur séu teljanlegar – og svo mætti lengi telja.

Það er sameiginlegt flestum eða öllum dæmum þar sem magn er notað um teljanleg fyrirbæri, hvort sem það er fólk eða annað, að stökin í hópnum, einstaklingarnir, skipta ekki máli heldur heildin – massinn. Oftast er um mikinn fjölda að ræða – þótt talað sé um mikið magn af fólki er aldrei sagt *lítið magn af fólki heldur fátt fólk. Í dæminu um magn ferðamanna í upphafi er það ekki beinlínis fjöldi ferðamanna sem skiptir máli heldur vægi þeirra í matarþörf þeirra sem eru í landinu á hverjum tíma. En vissulega er það oft matsatriði hvort það er massinn sem skiptir máli frekar en einstaklingarnir, og þá hvort eðlilegt er að nota magn – það getur bæði farið eftir þeim fyrirbærum sem um er að ræða (ferðafólk, appelsínur) og verið misjafnt milli málnotenda.