Posted on

Óviðurkvæmileg orðanotkun um fólk

Í frétt á mbl.is í gær er vísað í ummæli dómsmálaráðherra og sagt: „Þorbjörg segir umræðu um endursendingar hælisleitenda mjög háværa í Evrópu“ og í annarri frétt á sama miðli sama dag er vísað í ræðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins í fyrirsögninni „Velti upp endursendingum á Palestínumönnum“. Þetta orðalag hefur tiðkast nokkuð undanfarin ár – elstu dæmi sem ég finn í fljótu bragði er í Morgunblaðinu 2008 þar sem talað er um „nauðsyn þess að endurskoða íslensk lagaákvæði um undanþágu frá banni við endursendingu fólks.“ Langflest þeirra á annað hundrað dæma sem eru um sögnina endursenda og nafnorðið endursending í þessu samhengi í Risamálheildinni eru þó frá því 2020 og síðar. En er eðlilegt að nota þessi orð?

Sögnin endursenda er í Íslenskri orðabók skýrð 'senda aftur til sendanda' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'senda póst aftur til sendanda' með dæminu hann endursendi bréfið óopnað. Þetta á sem sé við um póst eða vörur – ekki fólk. En sögnin endur-senda felur í sér að það sem um er að ræða hafi verið sent í upphafi – það sé einhver sendandi. Nú kann að vera uppi rökstuddur grunur um að einhver dæmi séu þess að fólk sé sent til Íslands beinlínis til þess að stunda skipulagða glæpastarfsemi. En hvort sem eitthvað er til í því eða ekki á það ekki við um venjulegt flóttafólk eða hælisleitendur. Það fólk leitar til landsins í neyð, til að sleppa úr lífhættu eða ömurlegum aðstæðum í heimalandi sínu, en er ekki sent hingað til að fremja glæpi.

Þess vegna er það ótækt að nota sögnina endursenda um flóttafólk og hælisleitendur – það er í andstöðu við hefðbundna merkingu og notkun sagnarinnar. En það er ekki það versta, heldur hitt að þessi málnotkun felur í sér óþolandi smættun fólksins – það er verið að niðurlægja það, gera lítið úr því með því að tala um það eins og hverja aðra vöru sem hægt er að neita móttöku á og skila, senda aftur til sendanda. Eðlilegast og réttast er að segja vísa brott, því að það er það sem verið er að ræða. Ég veit ekki hvort orðalagið sem vísað var til í upphafi er komið frá þeim sem vísað var í, eða hvort það var frá blaðamanni (þeim sama í báðum tilvikum) en hvort sem heldur er þá er þetta óviðeigandi og óviðurkvæmilegt orðalag sem ber að fordæma harðlega.