Posted on Færðu inn athugasemd

Spikk og span

Orðasambandið spikk og span í merkingunni 'tandurhreint' er þekkt í íslensku en virðist ekki vera mjög gamalt í málinu. Í morgun sagðist hópverji hafa heyrt spick and span í amerískum þætti og hefði komið það á óvart þar sem hann hefði alltaf talið að það væri gömul dönskusletta. Elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er þrjátíu ára gamalt, í DV 1993: „Ofræstikonurnar sjá um að halda býtibúrunum spikk og span.“ Annað dæmi er úr Morgunblaðinu sama ár: „Það gengur allt svo vel hjá honum og stelpunum; allt „spikk og span“ og fullt af aga.“ Um aldamótin fara svo að sjást fleiri dæmi, og þá var líka stofnuð bílaþvottastöð undir heitinu Spikk & Span. Notkunin fer vaxandi – alls eru rúm 90 dæmi um orði á tímarit.is en rúm 300 í Risamálheildinni.

Það er ekki vafi á því að spikk og span er komið af enska sambandinu spick and span sem merkir í nútímamáli 'mjög snyrtilegt, hreint og vel hirt' og er komið af spick-and-span-new í 16. aldar ensku. Orðið spick er það sama og spike í nútímaensku, 'nagli', og span-new er komið af spánnýr í norrænu sem merkir upphaflega 'nýr eins og viðarspónn, rjúkandi, angandi eins og hefilspónn'. Sambandið spick-and-span-new sem kann að hafa orðið til fyrir áhrif frá spiksplinter nieuw í hollensku merkti því bókstaflega 'eins og nýsmíðað skip úr nöglum og timbri' en styttist síðan í spick-and-span og fékk merkinguna 'tandurhreint'. Líkingin er skiljanleg – ný tréskip voru ljós, hrein og snyrtileg en dökknuðu fljótt og létu á sjá.

En ekki er ólíklegt að notkun sambandsins spikk og span í íslensku megi m.a. rekja til ræstidufts með nafninu Spic and Span sem var framleitt í Bandaríkjunum frá 1933 og selt á Íslandi a.m.k. frá 1959. Í auglýsingu í Íslendingi það ár segir: „Ameríska hreinsiefnið SPIC AND SPAN til gólfþvotta og hreingerninga. Ekkert skrúbb. Ekkert skol. Engin þurrkun. Þér þurfið aðeins að blautvinda klútinn eða þvegilinn og strjúka einu sinni yfir og öll óhreinindi strjúkast af á svipstundu.“ Í auglýsingu í Morgunblaðinu 1960 segir: „Húsmóðirin hefir ávallt kviðið fyrir vorhreingerningunum en nú verða þær léttur leikur með Spic and Span.“ Þetta töfraefni var mikið auglýst fram til 1964 en virðist þá hafa horfið af markaðnum en orðið eftir í tungumálinu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Háir skaflar – eða djúpir?

Í Málvöndunarþættinum var vitnað í fyrirsögnina „Snjóskaflarnir allt að fjögurra metra djúpir“ á mbl.is og sagt „Hefði frekar notað hversu skaflarnir væru háir.“ Hér er við hæfi að vitna í greinina „Um þýðingarleysi“ sem Þorgeir Þorgeirson skrifaði í Tímariti Máls og menningar 1984: „Þó get ég ekki stilt mig um að nefna skemtilegt dæmi (sem einnig sannar hvað orðabókin getur verið tvíeggja vopn í þessu stríði). Frummál: (du) opsluges af en höj snedrive, verður í fyrsta uppkasti: (þú) ert gleyptur af háum snjóskafli. Þetta er lemstrað. Hvað er að? Vangaveltur og stunur, göngutúr niðrað Tjörn og loksins kemur það. Íslenskur snjóskafl er ekki hár heldur djúpur!!! Og setningin er flutt yfir svolátandi: (þú) sekkur í djúpan skafl sem gleypir þig.“

Þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Á tímarit.is eru talsvert fleiri dæmi um hár (snjó)skafl en djúpur (snjó)skafl, og í Risamálheildinni eru dæmin með hár meira en þrisvar sinnum fleiri en dæmin með djúpur, þannig að hár virðist vera aðalorðið og sækja á í þessu sambandi öfugt við það sem Þorgeir sagði. En þótt merkingin virðist svipuð er ekki alltaf hægt að skipta öðru orðinu út fyrir hitt vegna þess að þau endurspegla oft mismunandi sjónarhorn. Skaflinn er djúpur ef horft er á hann lóðrétt, ofan frá, t.d. ef maður sekkur í hann eins og í dæmi Þorgeirs. En hann er hár ef horft er á hann lárétt, t.d. ef staðið er við hlið hans. Íslenskur snjóskafl getur þess vegna verið bæði hár og djúpur, eða ýmist hár eða djúpur, eftir því hvernig á það er litið.

Þessi mismunandi sjónarhorn má sjá í textum frá ýmsum tímum. Í Ársriti hins íslenzka kvenfélags 1899 segir: „piltarnir í skóla þessum höfðu fleygt skólastjóranum á höfuðið út um gluggann og ofan í djúpan snjóskafl.“ Í Dýravininum 1909 segir: „Hann gróf sig í fönn í djúpum skafli.“ Í Morgunblaðinu 1956 segir: „Í svo sem tuttugu metra fjarlægð frá þeim tók skíðamaðurinn heljarmikið stökk, stakkst á höfuðið í djúpan snjóskafla og hvarf sjónum þeirra.“ Í Norðanfara 1873 segir: „Snjórinn er sagður hafa fokið saman í 15 feta háa skafla eða meira.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Hér eru nú stiku háir snjóskaflar á aðalgötum miðbæjarins.“ Í Jólablaðinu 1930 segir: „Stormurinn hefur hlaðið snjónum í háa skafla hér og þar.“

Hitt er annað mál að óvíst er að málnotendur geri alltaf þennan mun eða átti sig á honum, og oft getur sjónarhornið líka verið á hvorn veginn sem er. Í umræddri frétt mbl.is segir: „Búið er að stinga í gegnum skaflana á heiðinni, sem margir hverjir eru allt að fjögurra metra djúpir, að því er fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar“ – en þar segir hins vegar: „Búið er að stinga í gegnum skaflana sem margir hverjir eru allt að fjögurra metra háir“ (feitletrun mín). Hvort tveggja getur átt rétt á sér – það má segja að áður en farið er að moka séu skaflarnir djúpir því að þá er eingöngu horft á þá lóðrétt, en þegar búið er að moka göng í gegnum skaflana má tala um þá sem háa því að þá er hægt að vísa í stálið sitt hvoru megin við snjógöngin.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fólk að fornu og nýju

Orðið fólk hefur verið algengt í málinu alla tíð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'manneskjur' og 'fjölskylda, skyldmenni' (sbr. fólkið mitt) en upphafleg merking þess „er efalítið 'lýður, almenningur, mannfjöldi'“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Orðið hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum samsetningum – í safni Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP) eru taldar um níutíu samsetningar með -fólk sem seinni lið. Margar þeirra eru algengar enn í dag, s.s. alþýðufólk, heimafólk, heimilisfólk, hirðfólk, kvenfólk, landsfólk, mannfólk, smáfólk, vinnufólk, þjónustufólk, ættfólk – en aðrar sjaldgæfar eða horfnar úr málinu, s.s. fátækisfólk, hoffólk, hreinlífisfólk, karlafólk, karlmannafólk, leiðangursfólk, leikfólk, staðarfólk, ölmusufólk o.fl.

Í meirihluta tilvika eru einnig til samsvarandi samsetningar með seinni hlutann -maður og slíkar samsetningar eru vissulega margfalt fleiri – hátt í 1300 taldar í ONP. Oft kemur sami fyrri liður fyrir bæði með -fólk og -menn án þess að skýr merkingarmunur sé á orðunum og stöku sinnum eru lesbrigði í handritum þannig að -fólk er notað í einu handriti en -menn á sama stað í öðru handriti sama texta. Þó er hugsanlegt að -fólk sé fremur notað þegar ljóst á að vera að vísað sé til bæði karla og kvenna. Þannig eru fleiri dæmi um land(s)fólk en landsmenn, og einnig eru allmörg dæmi um hoffólk, staðarfólk, sóknarfólk o.fl. Einnig koma fyrir nokkur þjóðaheiti með -fólk Noregsfólk, Danalandsfólk, Frankaríkisfólk, Ísraelsfólk, Egyptalandsfólk og Afríkafólk.

Engin þessara þjóðaheita eru notuð í nútímamáli – meirihluti þjóða- og íbúaheita í málinu endar á -maður/-menn en á seinustu árum er farið að nota orð eins og Palestínufólk (sem reyndar kemur fyrst fyrir 1958) og Úkraínufólk við hliðina á Palestínumenn og Úkraínumenn. Þetta tengist sennilega persónulegri reynslu af fólkinu. Árið 2008 kom hingað hópur flóttafólks frá Palestínu, einkum konur og börn, og mörgum virðist hafa fundist óeðlilegt að tala um það fólk sem Palestínumenn. Sama er að segja um Úkraínufólk en það orð kom upp þegar flóttafólk fór að koma frá Úkraínu 2022. Orðið Rómafólk var nýlega tekið upp um þjóðflokk sem áður var kallaður Sígaunar – nær aldrei er talað um Rómamenn, en eintalan Rómamaður er notuð.

Ástæðan fyrir aukinni notkun samsetninga með -fólk á seinni árum er án efa sú að notkun orðsins -maður og samsetninga af því í vísun til allra kynja samræmist illa máltilfinningu mjög margra. Þetta er engin „misskilin jafnréttisbarátta“ heldur er hægt að sýna fram á það með skoðun á textum frá síðustu öld og fram á þennan dag að mjög oft eru notaðar aðrar leiðir en samsetningar með -maður til að vísa til kvenna. Í stað Bandaríkjamaðurinn X er stundum notað Bandaríkjakonan X en þó miklu fremur bandaríska konan X eða hin bandaríska X – í samsvarandi vísun til karlmanna er í yfirgnæfandi meirihluta tilvika notað Bandaríkjamaðurinn X. Þetta er tæpast hægt að túlka öðruvísi en svo að fólki finnist Bandaríkjamaður vísa til karls.

Þótt samsetningar með -fólk hafi tíðkast síðan í fornu máli eru þær vissulega oft nýrri eða sjaldgæfari en orð með -maður og það þarf að venjast þeim – en það þýðir ekki að þær séu verri íslenska, eða tilvist slíkra orða við hlið samsetninga með -maður sé einhver ógn við íslenskuna. Þvert á móti – það auðgar málið og getur gert texta líflegri ef völ er á fleiri en einu orði í sömu merkingu. Því hefur verið haldið fram að til samræmis við Palestínufólk og Úkraínufólk hljóti að verða að tala um Bandaríkjafólk, Kanadafólk, Norðfólk o.s.frv. En ekkert kallar á samræmi í þessu, enda fullt af ósamræmi fyrir í slíkum orðum. Orðin Bandaríkjamaður, Kanadamaður og Norðmaður eru miklu rótgrónari í málinu og erfiðara að koma nýjum orðum á framfæri.

Eins og hér hefur verið rökstutt er andstaða við samsetningar með -fólk ekki byggð á málfræðilegum forsendum og í henni gætir alls konar misskilnings. Ég sá því t.d. haldið fram á Facebook um daginn að orðið mannfólk væri dönskusletta. En Heimskringla Snorra Sturlusonar hefst á orðunum „Kringla heimsins, sú er mannfólkið byggir, er mjög vogskorin“ og þótt mál okkar væri kallað dönsk tunga á sínum tíma, og mandfolk sé vissulega til í dönsku – reyndar í merkingunni 'karlmenn' – er hæpið að saka Snorra um að hafa verið að sletta dönsku. Mér finnst sjálfsagt að nota tiltækar samsetningar með -fólk við hlið orða með -menn, og búa til nýjar – jafnvel Norðfólk ef því er að skipta þótt sennilega ætti það erfitt uppdráttar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ég fíla svo vel að vera Frónari

Hér var í dag spurt um hvenær tökusögnin fíla hefði orðið algeng í íslensku. Elsta dæmi sem þekkt er um hana í íslenskum texta er í Sunnanfara 1898: „Hvernig fílarðu? (þ.e. hvernig líðr þér?).“ Í Eimreiðinni 1901 segir: „Fílarðu ekki illa eftir trippið að norðan?“  Í Voröld 1919 segir, undir fyrirsögninni „Vesturheimska“: „Eg fílaði illa þennan morgun eftir að eg dressaði og fór þess vegna út fyrir vok.“ Í vesturheimska gamanblaðinu Fonnið 1921 segir: „Nú eru margir dagar síðan en ennþá getur maður fílað stinkinn.“ Í Speglinum 1928 segir: „En hvernig fílar þú?“ Í þessum dæmum er fíla ekki notuð á sama hátt og venjulega í nútímamáli, heldur merkir hún hér 'líða'. Í öllum tilvikum er líka verið að hæðast að enskuskotnu máli.

Sama máli gegnir um flest elstu dæmin þar sem sögnin er notuð eins og í nútímamáli en smátt og smátt er farið að nota fíla eins og hverja aðra enskuslettu, án sérstaks háðs. Í Lesbók Morgunblaðsins 1937 segir: „sumir „fíla sig svo illa til sjós“, eins og ungfrú ein tók til orða í heimspekilegri borðræðu um eðli og upptök sjóveikinnar.“ Í Fálkanum 1940 segir: „Og jeg sem fíla mig svo rosasjabbí eftir pimpiríið í gærkveldi.“ Í Heimilisritinu 1944 segir: „Ó, ég fíla mig svo vel hjá þér, elsku Kobbi.“ Í Þjóðviljanum 1954 segir: „Hvernig fílarðu þig í svona djammi?“ Þessi notkun sagnarinnar virðist hafa farið smátt og smátt vaxandi á sjötta áratugnum, ef marka má það sem Árni Böðvarsson segir um hana í Þjóðviljanum 1959:

„Eitt hinna leiðari tökuorða sem orðið hafa allföst í íslenzku á síðari árum í ákveðnum hópi fólks og þá fyrir ensk áhrif, er sögnin að fíla sig, í samböndum eins og „Hvernig fílarðu þig? hann fílar sig vel í þessu“. […] [O]rð eins og þetta er engin íslenzka og getur aldrei orðið. Það veldur málspjöllum, en fyllir ekkert opið skarð í málinu, því að íslenzk tunga á næg orð til að nota í þess stað. Orð af þessu tagi eru innbyrt í talmál nútímans af fólki sem hefur næsta litla þjóðerniskennd um tungu sína og finnst fínt að sletta ensku. Sízt ber að lasta kunnáttu í erlendum málum, en hins vegar mun þeim tamara að sletta útlendum orðum af þessu tagi sem kunna ekki nema hrafl í málinu og jafnvel vitlaust það litla sem þeir hafa nasasjón af.“

Dæmum um fíla fór þó enn fjölgandi og allt annað viðhorf kemur fram í grein um málfar unglinga á „Slagsíðunni“ í Morgunblaðinu árið 1974: „Um hugtök tilfinningalegs eðlis eru notuð hin ýmsu orð svo sem fílingur og að fíla hitt og þetta. Dæmi: „Ég fíla þessa grúppu,“ eða „hann var í ofsa fíling þarna um kvöldið“. Þetta hugtak er eitt af mörgum, sem erfitt er að snara í íslenzku án þess að merking raskist. Tilfinning nær því ekki nógu vel, því að ef maður „fílar einhverja grúppu“ þýðir það í raun eitthvað annað og meira en bara það að hafa tilfinningu fyrir viðkomandi hljómsveit. Ég verða að játa, að mér er ekki kunnugt um neitt orð í íslenzkri tungu, sem nota mætti með góðu móti, þegar talað er um að „fíla eitthvað“.“

Þessu andmælti reyndar Kristinn R. Ólafsson í Morgunblaðinu skömmu síðar: „Tilefni þessa bréfs míns er það, að skrifari greinarinnar kvaðst ekki þekkja neitt íslenskt orð, sem næði til fulls merkingu enska orðsins „feeling“. Langar mig því að benda honum á orðið þel, sem ég tel, að nái merkingunni fullkomlega. Það var geggjað þel í þessu; klístrað þel uppum alla veggi. Að fíla sig heitir því að þela sig eða þelast.“ Hvað sem fólki kann að finnast um þessa tillögu sló hún ekki í gegn, en notkun sagnarinnar fíla hélt áfram að aukast, og tók stökk um 1980 og sérstaklega þó upp úr 2000. Nú er þetta ein af algengari sögnum málsins og í Risamálheildinni eru hátt í áttatíu þúsund dæmi um hana – vissulega öll nema fimm þúsund af samfélagsmiðlum.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fíla skýrð 'líka (e-ð) vel, hafa dálæti á (e-u)' og merkt „óformlegt“, og í Íslenskri orðabók er hún merkt „slangur“. Þótt sögnin sé vissulega upphaflega komin úr ensku hefur hún slitið sig frá enskum uppruna á ýmsan hátt – hvorki fíla sig fíla þetta samsvarar nokkrum enskum orðasamböndum. Bent hefur verið á að føle sig til í dönsku og því gætu hugsanlega verið einhver áhrif þaðan, en það samband samsvarar þó ekki fíla sig nema að litlu leyti, merkir fremur 'finnast maður vera'. Sögnin fíla fellur fullkomlega að málinu ekki síður en príla, stíla, tvíla, víla o.fl. Út frá aldri sagnarinnar, tíðni, útbreiðslu, merkingu og gagnsemi finnst mér einboðið að viðurkenna hana sem fullgilt íslenskt orð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tilgangslaus umræða – ræðum það sem skiptir máli

Ég held að það sé fullreynt í þessum hópi að ræða kynhlutlaust mál. Sú umræða skilar engu nema leiðindum. Ég hef verið hikandi við að eyða hér innleggjum og athugasemdum um þetta efni vegna þess að ég hef verið sakaður um að leyfa ekki annað en það sem samræmist mínum skoðunum. Það er rangt – hér leyfist málefnaleg umræða og rökstuddar skoðanir um hvaðeina sem varðar tungumálið. En þessi umræða fer strax út í eitthvað annað. Eins og ég hef oft sagt get ég vel skilið andstöðu við breytingar í átt til kynhlutlauss máls, og fyrir henni má færa málefnaleg rök. En því miður er megnið af því sem hér er skrifað gegn kynhlutlausu máli – með nokkrum heiðarlegum undantekningum – ómálefnalegt og útúrsnúningur.

Ég verð hins vegar að segja að málflutningur þeirra sem styðja breytingar í átt til kynhlutlauss máls, eða hafa skilning á þeim, er yfirleitt mun málefnalegri, þótt á því séu vissulega undantekningar líka. Ég hef sjálfur skrifað hér á sjötta tug pistla um þetta málefni þar sem ég hef reynt að ræða og útskýra ástæður og eðli breytinganna án þess að vera með einhvern sérstakan áróður fyrir þeim og mun halda því áfram, enda er einn megintilgangur þessa hóps að birta fræðandi pistla um tungumálið frá ýmsum hliðum. Málefnalegir pistlar annarra, sem byggjast á rannsóknum og rökum, verða að sjálfsögðu einnig leyfilegir, en að öðru leyti frábið ég mér fyrirspurnir, athugasemdir og umkvartanir um kynhlutlaust mál.

Það er nefnilega svo margt annað mikilvægara sem við þurfum að ræða: „Mér finnst svo sorglegt að fólk skuli eyða svona mikilli orku og púðri í áhyggjur yfir þessum saklausu blæbrigðum og smekksatriðum málsins, þegar íslenskan er í raunverulegum lífsháska út af miklu stærri og alvarlegri hlutum. Það þarf að gera svo stóran skurk í íslenskukennslu, bæði fyrir innfædda og aðflutta, útgáfu á íslensku, textun, túlkun, þýðingum og talsetningu, og því að gera fleirum kleift að lifa á því að hugsa og skrifa á íslensku. Þess í stað fer allur krafturinn í að fjargviðrast yfir því að sumt af yngra fólkinu, sem þykir vænt um málið og reynir að nota það vel, skuli beita því þannig að það falli að þeirra heimsmynd og hugmyndum.“

Þetta skrifaði Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður, í umræðu um þessi mál á síðu Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar, og ég leyfi mér að taka það upp hér vegna þess að þetta er svo mikilvægt. Fólk getur haft mismunandi skoðanir á breytingum í átt að kynhlutlausu máli en þær verða ekki til þess að drepa íslenskuna og leiða ekki til hnignunar hennar. Þvert á móti – þær sýna áhuga fólks á málinu. Ég vitna áfram í Sigríði sem segist þó hafa „frekar íhaldssama máltilfinningu“: „Og mér finnst bara dásamlegt að fólki þyki nógu vænt um íslenskuna og hafi svo mikla trú á henni að það vilji þróa hana áfram. Íslenskan er rúmgóð og örlát, hér er nóg pláss fyrir bæði menn og fólk, þá og þau.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Þóstu vera dauður – eða þykstu vera dauður?

Í gær sá ég í textaþýðingu í Ríkissjónvarpinu setninguna „Þóstu vera dauður“. Þetta var þýðing á „Play dead“ og þóstu átti augljóslega að vera boðháttur af miðmyndinni þykjast. Mér fannst þetta hljóma svolítið undarlega en þó alls ekki vera fráleitt eins og við væri að búast. Boðháttur er nefnilega venjulega myndaður af nafnhætti og ætti því að vera þykstu j fellur hljóðrétt brott á undan samhljóði. En þykstu hljómar ekkert minna framandi en þóstu. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er hvorki gefinn boðháttur af germyndinni þykja né miðmyndinni þykjast. Vöntun á boðhætti í germynd á sér merkingarlegar ástæður – það er ekki hægt að skipa einhverjum að þykja eitthvað. En slíkar ástæður ættu ekki að hindra boðhátt af þykjast.

Á tímarit.is eru hvorki dæmi um þykstu þóstu, en í Risamálheildinni eru níu dæmi af samfélagsmiðlum um fyrrnefndu myndina en sjö um þá síðarnefndu. Á Hugi.is 2003 segir: „Helltu fullt af bjór í rúmið hans // hennar og þykstu vera að synda í því.“ Á Hugi.is 2006 segir: „Þykstu vera gáfumenni.“ Á Hugi.is 2008 segir: „Bíó, þykstu vera að geispa og taktu utan um hann.“ Á Twitter 2016 segir: „Misnotaðu vinkonu þína, ekki biðjast afsökunnar og þykstu svo vera feministi.“ Á Hugi.is 2003 segir: „þóstu þá ekki sjá mig eins og myndina!“ Á Bland.is 2006 segir: „Sláðu út rafmagninu og þóstu hringja eitthvert til að fá þær fréttir að það sé bilun í kerfinu.“ Á Twitter 2016 segir: „Hlauptu á veitingastað og þóstu hafa eldað sjálf.“

Boðháttur í miðmynd, af öðrum sögnum en þeim sem enda á -aði í þátíð, er raunar sárasjaldgæfur og sjaldnast gefinn upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Í Risamálheildinni eru það eiginlega bara fylgjast, leggjast og setjast sem koma fyrir í boðhætti – fylgstu, leggstu og sestu. Á tímarit.is eru þó 42 dæmi um boðháttinn sækstu, það elsta í Frækorni 1905: „Sækstu ekki um of eftir auðæfum.“ Þessi mynd er hliðstæð við þykstu en er ekki gefin upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og í Risamálheildinni eru engin dæmi um hana. Þar er aftur á móti eitt dæmi um boðháttinn sóstu – á Bland.is 2004 segir: „En ef þú ert alveg ákveðin í því að þetta er það sem þú vilt leggja fyrir þig, endilega sóstu eftir því.“

Sú mynd virðist leidd af þátíðinni sótti(st) og er því hliðstæður við þóstu sem hlýtur að vera komin af þátíðinni þótti(st). Það er vissulega óvenjulegt en þó ekki einsdæmi – dæmi finnast einnig um germyndarboðháttinn sót-tu í stað sæk-tu af sótti í stað sækja, og um át-tu í stað eig-ðu af átti í stað eiga, ork-tu í stað yrk-tu af orti í stað yrkja, stud-du í stað styd-du af studdi í stað styðja, auk myndarinnar keyp-tu í stað kaup-tu sem gæti verið af þátíðinni keypti í stað nafnháttarins kaupa þótt skýringin kunni einnig að vera önnur. Það virðast vera einhver tengsl milli þátíðar og boðháttar, e.t.v. vegna líkinda þátíðarendingarinnar -ði/-di/-ti við viðskeyti  boðháttar, -ðu/-du/-tu – samhljóð endinganna víxlast eftir sömu reglum í báðum tilvikum.

Mér finnst myndin sækstu ekkert óeðlileg, og mér finnst líka alveg eðlilegt að segja flækstu ekki fyrir og svíkstu ekki um. Á tímarit.is eru þó aðeins tvö dæmi um flækstu en fjórtán um svíkstu, og í Risamálheildinni eitt dæmi um fyrrnefndu myndina en ekkert um þá síðarnefndu – hvorug er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Myndin þykstu er hliðstæð þessum myndum. Hún er sú boðháttarmynd sem við mætti búast af þykjast og ég sé í raun ekkert á móti henni, hvorki hljóðfræðilega né merkingarlega – við þurfum bara að venjast henni. Myndin þóstu á sér skýrar hliðstæður eins og áður segir en í ljósi þess að afleiðsla boðháttar af þátíð er undantekning og reglulega myndin þykstu er vel nothæf er rétt að mæla frekar með henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Töluðu pabbi og mamma rangt mál?

Í umræðu um kynhlutlaust mál í Vísi, á Bylgjunni og Samstöðinni undanfarna daga hefur því verið haldið fram að nú sé farið að tíðkast í skólum að láta nemendur koma textum yfir á kynhlutlaust mál. Í umræðunni er ýmist talað um að nemendur séu látnir breyta textunum eða leiðrétta þá. Nú veit ég ekkert um hvort þetta er gert, og þá hvaða fyrirmæli eru gefin, en í mínum huga er grundvallarmunur á þessu tvennu. Ef nemendur eru beðnir að leiðrétta texta felst í því að hann sé rangur. Sé þeir aftur á móti beðnir um að breyta texta í átt til kynhlutleysis felst ekki endilega í því að textinn sé rangur, heldur getur þetta verið góð og gagnleg æfing í stíl við ýmsar aðrar sem lagðar eru fyrir nemendur, eins og t.d. að breyta beinni ræðu í óbeina.

Í samtali um þetta á Samstöðinni var spurt: „Hvaða skilaboð erum við að gefa börnunum okkar þegar við segjum þeim að tungumálið sem foreldrar þeirra og afar og ömmur tala sé rangt?“ Það má sannarlega taka undir að slík skilaboð eru óheppileg, en kannski hefði mátt huga að þessu fyrr. Þetta er nefnilega nákvæmlega það sem við höfum verið að gera í skólum síðan í byrjun tuttugustu aldar. Börn sem hafa sagt mér langar, ég vill, hitta læknirinn, til systir minnar o.s.frv. hafa svo sannarlega fengið að heyra það að hafa lært „rangt mál“ í foreldrahúsum, enda hlutverk málvöndunar sagt „að lyfta þeim, sem ekki hafa átt nógu góðan „pabba og mömmu“ yfir málstig foreldranna“ eins og málfræðiprófessor skrifaði fyrir rúmum fimmtíu árum.

Auðvitað er það hlutverk skólanna að fræða nemendur um mismunandi málsnið og tilbrigði í máli. Það er mikilvægt að nemendur átti sig á stöðu mismunandi tilbrigða í málsamfélaginu og þess vegna er sjálfsagt að benda á að tilbrigði eins og mér langar, ég vill, hitta læknirinn, til systir minnar o.s.frv. eru ekki hluti af málstaðlinum og þar af leiðandi getur verið óheppilegt að nota þau við aðstæður þar sem ætlast er til formlegs og hefðbundins máls. En í slíkum ábendingum þarf ekki að felast, og má ekki felast, fordæming á þessum tilbrigðum, og það er óviðunandi að nemendur fái þau skilaboð „að tungumálið sem foreldrar þeirra og afar og ömmur tala sé rangt“. Það gildir bæði um klassískar „málvillur“ og kynjað mál.

En hvort sem fólki líkar betur eða verr er kynhlutlaust mál að breiðast út og þess vegna eðlilegt að kennarar fræði nemendur um það. Fái nemendur fyrirmæli um að „leiðrétta“ texta á hefðbundnu máli er það vissulega óheppilegt vegna þess að þeir eru vitanlega ekki „rangir“ í neinum skilningi. En æfing í að breyta textum þannig að þeir verði á kynhlutlausu máli eykur skilning á tungumálinu og vekur athygli á því að breyting af þessu tagi er hreint ekkert einfalt mál. Það er einmitt oft talað um að mikið ósamræmi sé í máli þeirra sem reyna að tileinka sér kynhlutlaust mál. Hugsanlega gæti slík æfing meira að segja orðið til þess að nemendur komist á þá skoðun að þetta sé alltof flókið og hverfi frá því að breyta máli sínu í átt til kynhlutleysis.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er maðurinn í útrýmingarhættu?

Fyrr í vikunni skrifaði Vala Hafstað grein á Vísi með titlinum „Útrýming mannsins á RÚV“. Þar heldur hún því fram að undanfarin ár hafi „óprúttinn nýlenskuher gert aðför að tungumálinu okkar úr ýmsum áttum, staðráðinn í að innleiða hina kynlausu nýlensku í nafni jafnréttisbaráttu“. Það er fullkomlega eðlilegt að breytingar á máli og málnotkun í nafni kynhlutleysis og jafnréttisbaráttu falli fólki misvel í geð, og sjálfsagt og nauðsynlegt að ræða þær breytingar á málefnalegan hátt. En þótt stóryrði, útúrsnúningar, uppnefni, rangfærslur, háðsglósur og uppspuni um ætlun fólks geti verið vel til þess fallið að fá athygli og dreifingu – mörg læk og margar deilingar – hentar þetta illa sem framlag til málefnalegrar umræðu.

Því miður kemur þetta allt fram í grein Völu Hafstað. Hún segir t.d.: „Hluti þessarar misskildu jafnréttisbaráttu fréttamannanna felst í því að útrýma orðinu maður hvenær sem færi gefst. Að sama skapi má ekki lengur tala um suma, aðra, flesta eða nokkra í hlutlausri merkingu.“ Þetta er rangt, og það þarf ekki að leita lengi á vef Ríkisútvarpsins til að finna fjölda dæma frá síðustu vikum um einmitt þessi atriði sem fullyrt er að hafi verið „útrýmt“ og ekki megi tala um. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hefur margsinnis lýst því yfir að engin fyrirmæli hafi verið gefin um útilokun þessara orða og margt starfsfólk Ríkisútvarpsins hefur einnig staðfest að það hafi aldrei orðið fyrir neinum þrýstingi í þá átt. En samt er haldið áfram að fullyrða þetta.

Málfarsráðunauturinn segir  hins vegar „að sumt af samstarfsfólki sínu á stofnuninni kjósi að draga úr karllægni tungumálsins“ og það er ljóst að stundum er hvorugkyn óákveðinna fornafna notað í Ríkisútvarpinu þar sem venja hefur verið að nota karlkyn, og stundum er orðið fólk og samsetningar af því notað í stað maður og samsetninga af því. Það er ekki bannað, frekar en að nota maður og karlkynsmyndir fornafna, en því fer samt fjarri að allt starfsfólk Ríkisútvarpsins noti málið á þennan hátt. Það er nú einu sinni þannig að við tökum meira eftir því nýja sem við heyrum en því sem við erum vön og það er sennilega ástæðan fyrir því að fólk ímyndar sér  – ranglega – að búið sé að úthýsa orðinu maður og karlkynsmyndum óákveðinna fornafna.

Vala segir líka að í misskilinni jafnréttisbaráttu sinni hafi fréttafólki „tekist að innleiða orð á borð við starfsfólk, vísindafólk, björgunarfólk, verkafólk, iðnaðarfólk, flóttafólk o.s.frv.“ í staðinn fyrir samsvarandi orð með seinni hlutann -maður. Orðið verkafólk kemur fyrst fyrir á tímarit.is árið 1848 og hefur verið mjög algengt lengi þótt dregið hafi úr tíðni þess á síðustu árum. Orðið starfsfólk kemur fyrst fyrir 1901, og það hefur einnig lengi verið mjög algengt.  Orðið flóttafólk kemur fyrst fyrir 1878 og hefur verið algengt áratugum saman. Orðið iðnaðarfólk kemur fyrst fyrir 1883 en hefur alla tíð verið sjaldgæft og á vef Ríkisútvarpsins er aðeins að finna fimm dæmi um það. Orðin vísindafólk og björgunarfólk eru áratuga gömul.

Það er því ljóst að fráleitt er að tala um að fréttafólk Ríkisútvarpsins hafi „innleitt“ umrædd orð sem öll eru gömul í málinu og flest hafa lengi verið mjög algeng. En Vala bætir við í háði: „Það hlýtur hver maður að sjá að réttara væri að tala um Ísraelsfólk og Bandaríkjafólk. Sömuleiðis gengur ekki lengur að tala um Kanadamenn, Norðmenn og Úkraínumenn. Nei, Kanadafólk, Norðfólk og Úkraínufólk skal það heita.“ Reyndar er Ísraelsfólk gamalt í málinu og sennilega eldra en Ísraelsmenn, en ég hef aldrei heyrt eða séð orðin Kanadafólk og Norðfólk notuð. Ég finn fjögur dæmi um Úkraínufólk á vef Ríkisútvarpsins en fjölmörg um Úkraínumenn. Hins vegar er töluvert af dæmum um Palestínufólk en það orð er meira en hálfrar aldar gamalt.

Þó tekur steininn úr þegar Vala segir: „Í stað þess að segja að 27 manns hafi farist í flóðum, eða 11 manns hafi verið handteknir er nú sagt þar á bæ að 27 hafi farist í flóðum og 11 hafi verið handtekin.“ Þetta túlkar hún sem lið í „útrýmingu“ orðsins maður vegna þess að það eigi alltaf að nefna einingar með tölum. En í fyrsta lagi er fljótlegt að finna á vef Ríkisútvarpsins fjölmörg dæmi frá síðustu vikum um að manns sé notað á eftir tölum, og í öðru lagi er fráleitt að halda því fram að alltaf þurfi að nefna einingar með tölum. Því er einmitt oft sleppt þegar augljóst er um hvað er að ræða, eins og í þeim dæmum sem Vala nefnir, og þannig hefur það lengi verið og þótt eðlilegt. Á tímarit.is eru t.d. 176 dæmi um fimm fórust, það elsta frá 1926.

Vala segir líka: „Fréttamenn RÚV hafa enn ekki áttað sig á að orðið forseti er karlkyns, en helmingur frambjóðenda kvenkyns, þ.m.t. ein fyrirsæta, og því ótækt að halda sig við þetta starfsheiti, fari svo að kona verði kosin.“ Þótt vissulega sé stundum reynt að draga úr karllægni málsins með því að skipta um orð beinist andstaðan yfirleitt ekki gegn karlkynsorðum almennt, heldur fyrst og fremst gegn orðinu maður og samsetningum af því. Þegar Stúdentaráð Háskóla Íslands lagði niður starfsheitið formaður fyrir sex árum í nafni kynhlutleysis var orðið forseti einmitt tekið upp í staðinn – þrátt fyrir að vera karlkynsorð. Hér er því verið að gera fólki upp ætlun, fyrir utan að tala niður til fólks með því að segja að það hafi „enn ekki áttað sig á“.

Eins og ég sagði í upphafi er fullkomlega eðlilegt að fólk hafi misjafnar skoðanir á þessum málum. Íslenskan er okkur tilfinningamál, okkur er annt um hana og viljum helst hafa hana eins og við tileinkuðum okkur hana á máltökuskeiði. Sumum finnst samt ástæða til að gera ákveðnar breytingar á máli sínu og málnotkun vegna þess að málið sé mjög karllægt á ýmsan hátt. Ég get vel skilið þessa afstöðu og ýmis rök fyrir henni, en ég get líka vel skilið andstöðu við breytingarnar og rök fyrir henni. Þess vegna er mikilvægt að hægt sé að ræða þetta á málefnalegan hátt, þar sem fólk sýni skoðunum og tilfinningum annarra tillitssemi og virðingu, í stað þess að fara í skotgrafir og hrópa þaðan gífuryrði gegn ímynduðum „nýlenskuher“.

Posted on Færðu inn athugasemd

– eða þannig (sko)

Eitt gagnlegasta orðasamband málsins er eða þannig. Þetta orðasamband er mjög algengt í nútímamáli – hátt í fjögur þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni. Sambandið er einnig til í afbrigðinu eða þannig sko sem var algengt á níunda áratugnum en virðist vera nær horfið – aðeins rúm 20 dæmi í Risamálheildinni. Því er oft hnýtt aftan í það sem sagt er í ýmsum tilgangi. Í Íslenskri orðabók er sambandið sagt „óformlegt“ og skýrt 'eða eitthvað í þá veru, e-ð svoleiðis'. Þannig er það vissulega oft notað, t.d. þegar við treystum okkur ekki til eða viljum ekki eða nennum ekki að útskýra nákvæmlega það sem um var rætt eða lýsa því, og treystum á að viðmælendur eða lesendur þurfi ekki eða hafi ekki áhuga á að vita öll smáatriði.

Fáein dæmi: Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Ekki er öll hagkvæmni hagkvæm eða þannig.“ Í Austurglugganum 2010 segir: „Skuli skipulagi breytt þarf að bera ákvörðunina undir þá sem næst búa, eða þannig.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Ég geystist áfram með vindinn í hárinu og fannst ég geta allt … eða þannig.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Þetta gekk í rauninni ágætlega eða þannig.“ Í Monitor 2011 segir: „Platan kom út í byrjun september og var gefin út bæði hérlendis og í rauninni út um allan heim eða þannig.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Diskóið er einmitt svo mikill glimmerharmur eða þannig.“ Í héraðsdómi frá 2018 segir: „Þeir hafi farið og stoppað þetta, en þeir hafi ekkert verið að kýla hvor annan eða þannig.“

Oft er einnig um að ræða meðvitaðar ýkjur eða úrdrátt, t.d. í Morgunblaðinu 2010: „Stekk hinn hressasti fram úr, tek stigann í tveimur stökkum eða þannig“ og í Morgunblaðinu 2011: En hún […] reis upp að nýju, aldrei raunar jafngóð, en viðkvæðið alltaf þetta: Ég er ágæt eða þannig.“ En samhengi sýnir að sambandið er líka oft notað í kaldhæðni, í merkingunni 'eða hitt þó heldur'. Í Breiðholtsblaðinu 2010 segir: „Ég byrjaði heldur seint að drekka eða þannig. Ekki fyrr en 12 ára.“ Í frétt um kosningar í Norður-Kóreu í Fréttablaðinu 2019 segir: „Búast má við spennandi kosningum, eða þannig.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Þess á milli að horfa á Skonrokkþætti eða stelast í plötur systkina okkar með ómældri ánægju þeirra, eða þannig.“

Það er hægt að negla uppruna þessa sambands mjög nákvæmlega niður. Að vísu er á tímarit.is dæmi í Templar frá 1907 sem svipar til nútímanotkunarinnar: „hafa þau ætíð verið geymd til síðustu stundar og verið þá rædd sem hvert annað aukaatriði, í hálfan kl.tíma eða þannig.“ Annað dæmi er í auglýsingu í Morgunblaðinu 1977: „Slúbert er farinn að vinna og vinnur bara vel, þrælduglegur og stendur sig vel, enda góðrar ættar í báða fætur, eða þannig.“ En að öðru leyti sprettur sambandið fram í árslok 1979 og strax í ársbyrjun 1980 kemur fjöldi dæma um það. Þegar að er gáð kemur í ljós að sambandið má rekja til Þórhalls Sigurðssonar, Ladda – bankastjóra Brandarabankans sem var fastur liður í Stundinni okkar í Sjónvarpinu um það leyti.

Í Vísi 1980 er rætt við bankastjórann sem var „svolítið viðutan og þjáist af alls konar kækjum“. Á eftir undirfyrisögninni „...eða þannig“ segir: „Allir, sem einhver viðskipti hafa við brandarabankann, kannast við að bankastjórinn viðhefur alltaf viss orðatiltæki, eða þannig. Laddi er spurður hvernig maðurinn hafi vanið sig á þetta. „Ég er sjálfur með þennan kæk, eða þannig,“ segir hann. „En bankastjórinn gerir meira úr honum en ég. Þetta er eiginlega orðið hans eigið vörumerki, eða þannig.“ Og það er ekki laust við, að fleiri hafi tekið þetta upp eftir bankastjóranum. Að minnsta kosti virðist undirrituðum blaðamanni Vísis, sem heimsótti þá félaga í brandarabankanum, að þetta sé farið að heyrast æ víðar, – eða þannig sko.“

Posted on Færðu inn athugasemd

– og öfugt

Í nýlegum viðtalsþætti í Ríkissjónvarpinu sagði maður um konu sína: „Ég vil að henni líði mjög vel með mér og það er held ég alveg öfugt.“ Í Málvöndunarþættinum var vakin athygli á þessu og spurt hvort hann hefði ekki átt að segja gagnkvæmt í stað öfugt. Flest þeirra sem tóku þátt í umræðu um þetta töldu að gagnkvæmt hefði verið eðlilegt þarna – sem ég get tekið undir – og sum þeirra töldu að rökrétt merking setningarinnar væri sú að konunni væri ekki umhugað um líðan mannsins. En er líklegt að ætlun mannsins hafi verið að segja það? Er trúlegt að hann hefði farið að nefna það í sjónvarpsviðtali ef svo væri? Vitanlega ekki – en getur það staðist að nota þetta orðalag í þeirri jákvæðu merkingu sem maðurinn hefur örugglega lagt í það?

Það er löng hefð fyrir því að nota sambandið og öfugt um einhvers konar gagnkvæmni í samskiptum eða samspili tveggja aðila eða fyrirbæra. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið skýrt ‚og gagnstætt‘ með dæminu við getum lært margt af þessari þjóð og öfugt – þ.e., þjóðirnar geta lært margt hvor af annarri. En oft er þetta flóknara, eins og í Skólablaðinu 1907: „Gulbrúnir og gulir litir fara t. d. vel við blátt; rauðmálað trjávirki á vel við grænan vegg, og öfugt.“ Hér er ekki hægt að setja og gagnkvæmt eða og gagnstætt í staðinn fyrir og öfugt. Væntanlega merkir það ekki og grænn veggur á vel við rauðmálað trjávirki, heldur að víxla megi litunum, þ.e. og öfugt standi fyrir og grænmálað trjávirki á vel við rauðan vegg.

Annað dæmi um flóknari vensl má finna í Norðlingi 1881. Þar er sagt að útgjöld skuli skrifa í kostnaðardálk en tekjur í afrakstursdálk og síðan sagt: „Við lok reiknings ársins leggur maður saman summurnar í dálkunum og dregur minni töluna frá hinni meiri; þá kemur út skaði eða ábati, sem hefir orðið á hverri skákinni það ár. Hafi kostnaðardálkurinn stærri töluna lýsir það því að skaði hefir orðið, og öfugt.“ Hér væri ekki heldur hægt að setja og gagnkvæmt eða og gagnstætt í stað og öfugt – það stendur annaðhvort fyrir en ef kostnaðardálkurinn hefur minni töluna hefur orðið gróði eða en ef afrakstursdálkurinn hefur stærri töluna hefur orðið gróði. Það kemur út á eitt hvorn kostinn við veljum – merkingin í þessu fer ekkert á milli mála.

Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Þeir búa yfir ákveðnum kostum sem ég hef ekki og öfugt.“ Þrátt fyrir að kostirnir séu ekki nefndir vefst ekkert fyrir okkur að skilja setninguna – ljóst er að þeir sem um er rætt hafa ekki sömu kosti og bæta þannig hvor annan upp. Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2010 segir: „Í kumlinu á Grímsstöðum í Mývatnssveit […], þar sem tveir hestar höfðu verið lagðir í gröfina, höfðu dýrin verið hlutuð í tvennt og víxlað þannig að frampartur annars lá með afturparti hins og öfugt.“ Hvernig ættum við að orða það sem og öfugt stendur fyrir? Það væri ekki hægt að segja og afturpartur annars lá með framparti hins, eða frampartur hins lá með afturparti annars. En það vefst samt ekkert fyrir okkur að skilja þetta.

Það gagnstæði eða sú gagnkvæmni sem og öfugt felur í sér er sem sé með ýmsu móti og ekki alltaf auðvelt að orða hana á annan hátt, og oft mætti halda því fram að notkunin á og öfugt sé ekki „rökrétt“. En út frá aðstæðum og samhengi er samt yfirleitt enginn vafi á því hver merkingin er. Það sem ruglar fólk e.t.v. í ríminu í dæminu sem vísað var til í upphafi er innskotið „og [það er held ég alveg] öfugt“ sem leiðir til þess að öfugt hefur þarna setningarstöðu lýsingarorðs frekar en atviksorðs. En það segir sig samt sjálft að merkingin hlýtur að vera 'hún vill að mér líði mjög vel með sér'. Það er góð regla í mannlegum samskiptum að leggja það sem annað fólk segir út á besta veg en beita ekki orðhengilshætti þótt „rökréttur“ kunni að vera.