Posted on Færðu inn athugasemd

Er eitthvað athugavert við þrátt fyrir (það) að?

Um daginn fékk ég handrit að grein til baka úr yfirlestri með nokkrum athugasemdum. Sumar þeirra féllst ég á en aðrar ekki, eins og gengur, en ein kom mér sérstaklega á óvart. Ég hafði skrifað þrátt fyrir að en yfirlesari breytt því í enda þótt með vísun í Málfarsbankann þar sem segir: „Orðasambandið þrátt fyrir fer oft illa á undan setningum: „hann kom ekki þrátt fyrir að hún hefði beðið hann“ eða „hann kom ekki þrátt fyrir það að hún hefði beðið hann“. Í staðinn færi betur á þótt eða enda þótt: hann kom ekki þótt hún hefði beðið hann; hann kom ekki enda þótt hún hefði beðið hann. Þrátt fyrir á fremur heim á undan nafnorðum (ásamt fylgiorðum): Hann kom ekki þrátt fyrir beiðni hennar. Þrátt fyrir góðan undirbúning komst liðið ekki í úrslit.

Ég hafði aldrei heyrt að eitthvað þætti athugavert við þrátt fyrir (það) en við nánari athugun fann ég þó svipaða athugasemd í bókinni Íslenskt málfar eftir Árna Böðvarsson: „Það er algengt að segja þrátt fyrir það að þar sem betra væri þó að eða þótt.“ Hvorki í Málfarsbankanum né hjá Árna kemur þó fram nokkur skýring á því hvers vegna „færi betur á“ eða „betra væri“ að nota þó að, þótt eða enda þótt í stað þrátt fyrir að og þrátt fyrir það að. En orðasambandið þrátt fyrir á undan nafnorði er eiginlega tvíyrt forsetning og greint þannig í orðabókum. Elstu dæmi um það eru frá lokum 18. aldar. Þegar þessi forsetning fer að standa með setningum á seinni hluta aldarinnar verður úr henni samtenging, ýmist þrátt fyrir það að eða þrátt fyrir að.

Elsta dæmi sem ég finn um lengri gerðina er í Þjóðólfi 1860: „og það þrátt fyrir það, að nálega allir embættismenn hennar hér, og þjóðþing landsins og allr þorri lýðsins er komið á gagnstæða skoðun og að fullri sannfæringu.“ Styttri gerðin virðist vera aðeins yngri – elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er í Norðlingi 1875: „hælir okkur fyrir norrænt þrek og kostgæfni í mörgum efnum, þrátt fyrir að vér verðum að heyja sífelt stríð.“ Í Stuttu ágripi af íslenskri mállýsingu handa alþýðuskólum eftir Halldór Briem frá 1891 er sambandið þrátt fyrir það að talið upp athugasemdalaust í hópi viðurkenningartenginga, og sama máli gegnir um fyrstu útgáfu af Íslenzkri málfræði Björns Guðfinnssonar frá 1937, sem og allar síðari útgáfur bókarinnar.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er aðeins styttri myndin, þrátt fyrir að, gefin sem samtenging (undir lýsingarorðinu þrár), en lengri myndin er þó er ekki bara eldri en hin, heldur einnig mun algengari allt fram á miðjan sjöunda áratug 20. aldar. Þá siglir þrátt fyrir að fram úr og síðan dregur mjög hratt sundur með myndunum og tíðni þeirrar styttri margfaldast – á þessari öld er þrátt fyrir að allt að hundrað sinnum algengara á tímarit.is en þrátt fyrir það að. Í Risamálheildinni er styttri myndin tæplega fjörutíu sinnum algengari en sú lengri, hvort sem litið er til allra texta eða einungis til samfélagsmiðla þar sem báðar gerðirnar eru reyndar hlutfallslega sjaldgæfar – þetta eru tengingar sem tilheyra fremur formlegu máli en óformlegu.

Í upphafi og fram á miðjan áttunda áratuginn var meirihluti dæma um lengri gerðina skrifaður með kommu á undan , þ.e. þrátt fyrir það, að. Þótt breyttar greinarmerkjareglur frá 1974 gætu reyndar spilað inn í gæti þetta bent til þess að þrátt fyrir hafi lengi verið skynjað sem forsetning með fornafninu það sem síðan tæki með sér setningu, frekar en þrátt fyrir að hafi verið skynjað sem heildstæð samtenging, þ.e. [þrátt fyrir [það, […]]] frekar en [þrátt fyrir það […]. Það fellur vel að því sem Jakob Jóh. Smári segir í Íslenzkri setningafræði frá 1920: „Setningar, sem hefjast á þrátt fyrir það, að, eru eiginlega að-setningar og nota hætti samkvæmt því – venjulega frsh. í beinni ræðu – t.d. hann er snarpur, þrátt fyrir það að hann er ungur […].“

En þetta hefur breyst – í Íslenskri nútímamálsorðabók segir um þrátt fyrir að: 'samtenging í aukasetningu (tekur oftast viðtengingarhátt af sögninni á eftir)'. Þannig hefur þrátt fyrir (það) fetað í fótspor annarra viðurkenningartenginga sem alltaf taka viðtengingarhátt. Þessi breyting á hætti, ásamt hinni miklu aukningu á notkun styttri gerðarinnar sem verður á svipuðum tíma og kommum snarfækkar í lengri gerðinni, gæti líka bent til þess að þrátt fyrir (það) hafi smátt og smátt verið að þróast í sjálfstæða og heildstæða samtengingu í huga málnotenda. Hvað sem þessu líður er ljóst að samböndin þrátt fyrir að og þrátt fyrir það að eiga sér meira en hálfrar annarrar aldar hefð og fráleitt að amast eitthvað við þeim.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mál er vald – vald er pólitík

Ég sá því sums staðar haldið fram í gær að skrif mín hér byggðust stundum á pólitík frekar en yfirlýstum tilgangi hópsins – „Það er nokkuð ljóst Eiríkur að þú ert að nota þennan hóp í einhverjum pólitískum tilgangi í stað þess að ræða íslensku og íslenskt mál“ var skrifað hér í hópnum og annars staðar var skrifað „Pólitíkin þvælist alltof oft fyrir íslenskufræðingnum“. Það er vissulega rétt að ég skrifa hér stundum um málefni sem eru pólitísk ágreiningsefni í samtímanum. Í gær var það áformað frumvarp um íslenskukröfur til leigubílstjóra, nýlega skrifaði ég um frumvarp um „lokað búsetuúrræði“, í fyrra skrifaði ég um tillögur þáverandi dómsmálaráðherra um „rafvarnarvopn“ og „afbrotavarnir“, og ýmislegt fleira mætti telja.

Allt er þetta vissulega pólitík. En það þýðir ekki að þessi skrif séu flokkspólitísk – að ég sé að skrifa í þágu einhvers tiltekins stjórnmálaflokks eða stjórnmálastefnu eða gegn einhverjum tilteknum flokki eða stefnu. Öll þessi skrif varða tungumálið og beitingu þess, og öll mín pólitísku skrif í þessum hópi miðast að því að gæta hagsmuna íslenskunnar og notenda hennar. Ástæðan fyrir því að ég skrifaði um áformað frumvarp Birgis Þórarinssonar um kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra er ekki sú að ég sé eitthvað sérstaklega á móti Birgi eða Sjálfstæðisflokknum, heldur sú að ég tel þetta frumvarp andstætt hagsmunum íslenskunnar eins og það er lagt upp – til þess fallið að kljúfa samfélagið sem er ekki íslenskunni í hag.

Vissulega voru „lokað búsetuúrræði“, „rafvarnarvopn“ og „afbrotavarnir“ allt saman mál á vegum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. En það var ekki ástæðan fyrir því að ég skrifaði um þessi mál, heldur var það vegna þess að í þeim var ýmist verið að nota ný orð í stað þeirra hefðbundnu eða snúa hefðbundinni merkingu íslenskra orða á haus, augljóslega í þeim tilgangi að hafa áhrif á skoðanir fólks á þeim málum sem um var að ræða. Slíkt fikt og blekkingarleikur með tungumálið er andstætt hagsmunum málnotenda og þess vegna áttu þau skrif fullkomið erindi í þennan hóp. Öðru máli hefði gegnt ef ég hefði verið að skrifa um efnisatriðið þessara mála – en það gerði ég ekki, heldur skrifaði eingöngu um hinn mállega þátt í þeim.

Því miður hættir alltof mörgum til að horfa á flest mál gegnum flokksgleraugu og ef fram kemur gagnrýni á eitthvert mál sem þeirra flokkur stendur fyrir finnst þeim eðlilegt að gera ráð fyrir að gagnrýnin sé sett fram á flokkspólitískum grunni frekar en vegna málefnalegrar andstöðu við umrætt mál. En það má ekki gleyma því að tungumálið og beiting þess er hápólitískt efni. Í tungumálinu felst vald, og þar sem er vald þar er pólitík. Ég vil með skrifum mínum reyna að valdefla almenna málnotendur, m.a. með því að leiða huga þeirra að því hvernig stjórnvöld, fyrirtæki og hvers kyns áhrifavaldar nýta sér tungumálið í eiginhagsmunaskyni. Eftir því sem við áttum okkur betur á því, þeim mun erfiðara verður fyrir ráðandi öfl að slá ryki í augu okkar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Forsendur krafna um íslenskukunnáttu

Ég sé að ýmsum finnst skjóta skökku við að ég skuli leggjast gegn áformuðu frumvarpi um kröfur til leigubílstjóra um íslenskukunnáttu, í ljósi þess að ég hafi gefið mig út fyrir að vera sérstakur talsmaður íslenskunnar og lagt áherslu á að hún sé notuð við allar aðstæður. Þess vegna verð ég að ítreka að ég er alls ekki á móti því að gerðar séu kröfur um íslenskukunnáttu í ýmsum störfum – ég tel það sjálfsagt og eðlilegt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ástæðan fyrir því að ég andmælti væntanlegu frumvarpi var hins vegar sú að það tók ekki heildstætt á málinu – snerist um örlítið brot vinnumarkaðarins og var augljóslega sett fram sem liður í fordómafullri umræðu síðustu vikna um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.

Þegar kjarasamningar stóðu fyrir dyrum haustið 2022 setti ég fram þá hugmynd að verkalýðhreyfingin gerði kröfu um að erlent starfsfólk gæti stundað íslenskunám á vinnutíma. Þessi hugmynd mæltist vægast sagt illa fyrir hjá verkalýðsforystunni þrátt fyrir að ég benti á að þetta þyrfti ekki að bitna á kröfum hreyfingarinnar til viðsemjenda því að hægt væri að senda ríkinu reikninginn að miklu leyti – eins og gert var í nýafstöðnum samningum. Þar taldi ríkið tilvinnandi að leggja fram 20 milljarða á ári til að samningar næðust og ég tel að það hafi verið rétt mat – samningarnir koma láglaunafólki og barnafólki sérstaklega til góða og það er til mikils vinnandi fyrir ríkið að tryggja frið og stöðugleika á vinnumarkaði.

En fyrst ríkið telur sig geta snarað út 20 milljörðum í samningana ætti það líka að geta lagt fram myndarlega upphæð til kennslu íslensku sem annars máls. Það er grundvallarforsendan fyrir því að hægt sé að gera auknar kröfur um íslenskukunnáttu í ýmsum störfum. Innflytjendur eiga það skilið að þetta sé gert, þótt ekki væri nema vegna framlags síns til hagvaxtar á Íslandi (hagvöxtur frá 2006-2021 var 0,74% á ári en án innflytjenda hefði hann verið 0,19%). Íslendingar eiga það skilið, ekki síst eldra fólk sem hefur takmarkaða færni í ensku, að geta fengið afgreiðslu og þjónustu á opinberu tungumáli landsins. Ekki síst á íslenskan á það skilið að við sinnum henni og gerum sem flestum kleift að nota hana en fælum fólk ekki frá henni.

Þetta kostar vissulega fé, en þótt ekki væri sett í það nema svona eins og tíundi hluti af því sem ríkið ætlar að verja í tengslum við kjarasamninga myndi það margborga sig á stuttum tíma. Atvinnurekendur fengju starfsfólk sem gæti sinnt fjölbreyttari störfum, félli betur inn í samfélagið og væri líklegt til að vera ánægðara. Fólkið sjálft yrði sveigjanlegra, gæti nýtt menntun sína betur, og yki möguleika sína á vinnumarkaði. Dregið væri úr hættunni á því að fólk af erlendum uppruna einangrist í samfélaginu, með öllum þeim erfiðleikum og hættum sem því geta fylgt, bæði fyrir fólkið sjálft og samfélagið. Og íslenskan gæti haldið áfram að vera burðarás samfélagsins, aðalsamskiptatungumálið í landinu og menningarleg kjölfesta okkar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Merkir umliggjandi og umlykjandi það sama?

Í dag var hér spurt hvort merkingarmunur væri á lýsingarorðunum umliggjandi og umlykjandi. Bæði orðin enda á -andi og eru því væntanlega upprunnin sem lýsingarháttur nútíðar – það síðarnefnda af sögninni umlykja sem er skýrð 'mynda hring (um e-ð), afmarka (e-ð)' í Íslenskri nútímamálsorðabók, með dæmunum fjöllin umlykja þorpið og sjórinn umlykur eyna. Sögnina umliggja er aftur á móti ekki að finna í orðabókum þótt fáein dæmi séu um hana á tímarit.is sem hugsanlega stafa af misheyrn eða misskilningi. Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Skemmtilegt orð „umliggja“ – þótt það eigi ekki að vera til. Átt mun vera við umlykja en svo skemmtilega vill til að það þýðir einmitt „liggja utan um“. Fagur fjallahringur umlykur sveitina.“

En þótt umliggja sé ekki í orðabókum er umliggjandi í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, skýrt 'omliggende', og fáein dæmi eru um orðið í Ritmálssafni Árnastofnunar, það elsta úr þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540. Rúm hundrað dæmi eru um orðið á tímarit.is, það elsta í Heimskringlu 1893: „Eru það því miklir nytsemdarmenn fyrir umliggjandi sveitir, er þessa veiði stunda.“ Í Risamálheildinni eru 50 dæmi um orðið. Þótt umliggjandi geti í fljótu bragði virst vera lýsingarháttur nútíðar af hinni sjaldgæfu sögn umliggja þarf svo ekki að vera. Eins er hugsanlegt, og raunar líklegt í þessu tilviki, að orðið sé myndað af lýsingarhættinum -liggjandi, af liggja, með því að bæta um- fyrir framan hann.

Í eldri dæmum virðist umliggjandi merkja svipað og aðliggjandi sem skýrt er 'sem liggur upp að' í Íslenskri nútímamálsorðabók, með dæminu eigendur aðliggjandi lóða mótmæltu byggingunni. Í Austra 1897 segir: „Þjóðminningardaginn héldu Reykvíkingar og umliggjandi héruð 2. f.m.“ Í Íslendingi 1920 segir: „Gegnir Illugason, einn af beztu fylgismönnum Brands Kolbeinssonar, hefir án efa búið einhversstaðar þar í umliggjandi sveit.“ Þarna ætti umlykjandi í merkingunni ‚liggja utan um‘ tæpast við. Í mörgum dæmum virðist þó einu gilda hvort notað er umliggjandi eða umlykjandi, t.d í Nýja dagblaðinu 1938: „Um sömu mundir var tekið að reisa mikið af nýhýsum með umliggjandi görðum utanvert við borgina.“

Mér finnst ekki ástæða til að efast um að umliggjandi og umlykjandi hafi upphaflega haft svolítið mismunandi merkingu, en í seinni tíð er trúlegt að munurinn hafi að mestu eða öllu leyti máðst út. Í umræðunum var bent á að enginn munur er á framburði þessara tveggja orða (miðað við venjulegan framburð með ófráblásnu k í umlykja) því að sá lengdarmunur sem kann að vera á áherslusérhljóðinu (i/y) í sögnunum liggja og lykja hverfur þegar atkvæði (um-) er bætt framan við og sérhljóðið er ekki lengur í fyrsta atkvæði. Þar sem bæði liggja og lykja eru merkingarlega eðlilegar er ekkert undarlegt að orðin blandist saman þótt vissulega væri æskilegt að halda í þann merkingarmun sem upphaflega virðist hafa verið á þeim.

Posted on Færðu inn athugasemd

Stöðvum áform um misnotkun íslenskunnar!

Aðalfyrirsögnin á forsíðu Morgunblaðsins í dag er „Íslenska verði skilyrði leigubílaleyfis“. Í fréttinni segir: „Áform eru uppi á Alþingi um framlagningu frumvarps til breytinga á lögum um leigubifreiðaakstur þar sem próf í íslensku verði gert að skilyrði fyrir því að menn geti aflað sér réttinda til aksturs leigubíla. Það er Birgir Þórarinsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur forgöngu í málinu. Ástæðan er ófremdarástand í þessum málaflokki […].“ Þetta er vont.  Ég hef vissulega talað fyrir því að við getum notað íslensku alltaf og alls staðar á Íslandi, en ég hef jafnframt lagt áherslu á að kröfur um íslenskukunnáttu verða að vera málefnalegar og það má ekki fyrir nokkra muni nota slíkar kröfur til að mismuna fólki á ómálefnalegan hátt.

Ég hef undanfarið beðið í angist eftir því að eitthvað af þessu tagi myndi gerast – að íslenskan yrði notuð opinberlega og purkunarlaust sem vopn í þeirri útlendingaandúð sem hér er miskunnarlaust alið á þessa dagana. Fólk í margvíslegum þjónustustörfum, svo sem í verslunum og á veitingastöðum, starfsfólk á hjúkrunarheimilum o.fl., á mun meiri og mikilvægari málleg samskipti við fólk en leigubílstjórar. En engin tillaga er gerð um íslenskukunnáttu þessa fólks, sem sýnir glögglega að hvatinn að þessari áformuðu tillögu er ekki vilji til að efla íslenskuna og styrkja stöðu hennar í landinu heldur er hún innlegg í þá ófrægingarherferð gegn fólki af erlendum uppruna sem nú er í gangi og hefur síðustu daga helst beinst gegn leigubílstjórum.

Hvert skyldi nú vera það „ófremdarástand“ sem vísað er til? Það kemur fram síðar í fréttinni: „Eftir að Morgunblaðið hóf umfjöllun um þessi mál hafa fjölmargir haft samband við blaðið og kvartað yfir samskiptum við erlenda leigubílstjóra. Hafa þær lotið að því að margir hverjir rati ekki um svæðin sem þeir aka um, [og] gjaldtaka hafi verið óheyrileg […].“ Mér er fyrirmunað að sjá hvernig ratvísi leigubílstjóra myndi aukast og fégræðgi minnka bara ef þeir kynnu íslensku. Þarna er augljóslega verið að nota íslenskukunnáttu sem yfirvarp til að bægja innflytjendum frá starfinu. Betra væri að koma bara hreint fram og segja að umsækjendur yrðu að heita íslensku nafni, vera hvítir á hörund, og geta rakið ættir sínar til Jóns biskups Arasonar.

Í frétt Morgunblaðsins segir: „Birgir kveðst vonast eftir samstöðu þingmanna stjórnarflokkanna í málinu og hefur m.a. rætt það við forsætisráðherra sem hann segir að hafi tekið vel í hugmyndir þessa efnis.“ Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að þingmenn, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, taki undir þessa tillögu. Og ég trúi því allra síst að forsætisráðherra geri það – til þess er hún alltof skynsöm og víðsýn. Þetta er skelfileg tillaga því að hún miðar að því að nota íslenskuna til að kljúfa þjóðina í okkur og hin og eyðileggja þar með möguleika tungumálsins á að vera burðarás samfélagsins sem ég held og vona að sé stefna stjórnvalda. Sameinumst um að hafna þessari tillögu og því hugarfari sem býr að baki henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Reimdu á þig skóna!

Í dag var hér spurt hvers vegna væri sagt geturðu reim skóna? en ekki geturðu reimt skóna?, þrátt fyrir að sagt sé geturðu reynt að gera þetta. Sagnirnar reyna og reima eru hljóðfræðilega mjög líkar – eini munurinn felst í nefhljóðinu, n eða m – en beygjast samt á mismunandi hátt. Báðar hafa veika beygingu, þ.e. fá sérstaka þátíðarendingu, en sú fyrrnefnda er reyndi í þátíð og (hef) reynt í lýsingarhætti þátíðar, en sú síðarnefnda er reimaði í þátíð og (hef) reimað í lýsingarhætti þátíðar. Langflestar sagnir í málinu beygjast eins og reima, fá endinguna -aði í þátíð, og allar nýjar sagnir sem bætast í málið, hvort sem um er að ræða nýyrði eða tökuorð, beygjast á þann hátt – sagnir eins og berskjalda, gúgla, deita, instagramma, fótósjoppa o.s.frv.

Flokkur sagna sem beygjast eins og reyna, fá -di í þátíð, er aftur á móti lokaður – í hann bætast ekki nýjar sagnir. Þess vegna virðist fyrir fram ólíklegt að reima leiti úr sínum stóra og opna flokki yfir í hinn tiltölulega litla og lokaða flokk þar sem reyna er fyrir. En það gerist nú samt stöku sinnum. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1999 vakti Gísli Jónsson athygli á því „að krakkar segja nú stundum „reimt“, en ekki reimað, um skóna sína.“ Hann benti á að reima hefði „lengi beygst eftir fyrsta flokki veikra sagna: reima – reimaði – reimað, en sem fyrr sagði, taka nú börn að færa hana yfir í þriðja flokk og beygja reima – reimdi – reimt.“ En málvöndunarmaðurinn Gísli tók þessu létt og bætti við: „Ekki virðist mér mikill skaði að því.“

Örfá dæmi um þetta má finna á tímarit.is, það elsta í Vísi 1965: „Tjöldin voru rammlega reimd saman og jafnvel sáum við hengilás fyrir einu.“ Í Vísi 1978 segir: „Tölur smella, rennilásar renna, skór reimdir og svo framvegis.“ Í Víkurfréttum 2017 segir: „Ég var með eina manneskju sem reimdi skóna mína.“ Um 90 dæmi eru um þessa beygingu í Risamálheildinni, þar af um 80 af samfélagsmiðlum. Á Bland.is 2003 segir: „Þeir eru reimdir á hliðinni.“ Á Málefnin.com 2008 segir: „Kenndi mér að gera eina slaufu vegna þess að það var einfaldara og ég reimdi skóna lengi þannig.“ Stundum velkist fólk greinilega í vafa – á Bland.is 2007 segir: „Ég var að kaupa mér æðislegan kjól nema að hann er reimdur … reimaður eða vott ever aftur fyrir háls.“

Ástæðan fyrir því að reima hefur tilhneigingu til að verða reimdi í þátíð, þrátt fyrir að þátíðarendingin -di sé margfalt sjaldgæfari en -aði, er væntanlega áhrif frá sögnum með sömu stofngerð sem flestar fá -di í þátíð – dreyma, geyma, gleyma, streyma og teyma. Þetta eru allt algengar sagnir en fyrir utan reima er sveima eina algenga sögnin með þessa stofngerð sem fær -aði í þátíð. Vissulega eru fyrrnefndu sagnirnar skrifaðar með ey en þær síðarnefndu með ei en sá munur kemur ekki fram í framburði. Ég tek undir það með Gísla Jónssyni að lítill skaði væri að því þótt reima yrði reimdi í þátíð. Jafnvel mætti halda því fram að sú breyting væri æskileg vegna þess að hún styrkti hinn tiltölulega fáliðaða flokk sagna sem fær þátíðarendinguna -di.

Posted on Færðu inn athugasemd

Getur lofthæð verið himinhá?

Ég rakst á fyrirsögnina „Óttar lögmaður keypti lúxusíbúð með himinhárri lofthæð“ á mbl.is. Ég er vanur að tala um mikla lofthæð fremur en háa en við snögga leit fann ég töluvert af dæmum um háa lofthæð á tímarit.is, það elsta í Tímanum 1931: „Síðar munu hafa borizt tilmæli í einhverri mynd frá því firma, sem smíðar tækin, um hærri lofthæð í vélasalnum.“ Örfá dæmi eru frá næstu áratugum en undir aldamótin varð þetta orðalag algengt, einkum í fasteignaauglýsingum – og stundum er einnig talað um lága lofthæð þótt það sé miklu sjaldgæfara. Samt sem áður er og hefur alltaf verið margfalt algengara að tala um mikla og litla lofthæð. En er eitthvað óeðlilegt við að tala um háa og lága lofthæð frekar en mikla og litla?

Í þessu sambandi má minna á umræðu um lýsingarorð með nafnorðinu gæði. Mörgum finnst óeðlilegt að tala um góð eða léleg gæði þar eð gæði sé komið af lýsingarorðinu góður og merkingin 'góður' því innifalin í nafnorðinu. Á sama hátt væri hægt að halda því fram að óeðlilegt sé að tala um háa eða lága lofthæð þar sem hæð er komið af lýsingarorðinu hár og merkingin 'hár' því innifalin í lofthæð. En þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Við hikum nefnilega ekkert við að tala um háa og lága upphæð og háa og lága fjárhæð, þrátt fyrir að -hæð í þeim orðum sé líka komið af hár, og við tölum líka um háa og lága hæð í landslagi. Í þessum tilvikum virðist það ekki trufla okkur að merkingin 'hár' sé innifalin – eða er hún það?

Hér er mikilvægt að átta sig á því að orðið hæð hefur í raun tvær merkingar. Annars vegar er merkingin 'spönn', þ.e. 'munur á hæsta og lægsta gildi sem stærð eða fall getur tekið' eins og spönn er skilgreint í Tölvuorðasafni, en hins vegar vísar það til tiltekins punkts eða magns. Í lofthæð er um fyrrnefndu merkinguna að ræða – þar er vísað til fjarlægðarinnar (spannarinnar) milli gólfs og lofts. Í orðum eins og fjárhæð og upphæð – og hæð – er aftur á móti um síðarnefndu merkinguna að ræða – þar er vísað í ákveðinn punkt en ekki í neina spönn. Með slíkum orðum er hægt – og venjulegt – að nota lýsingarorð eins og hár og lágur, þótt mikill og lítill gangi vissulega líka. En hár og lágur eru hins vegar óeðlileg þegar um spönn er að ræða.

Samt sem áður er nokkuð algengt að tala um háa og lága lofthæð eins og áður segir – hvernig stendur á því? Ég ímynda mér að ástæðan hljóti að vera sú að skilningur á orðinu lofthæð hafi breyst, a.m.k. í máli sumra – í stað þess að fjögurra metra lofthæð sé skilið sem 'spönnin milli gólfs og lofts er fjórir metrar' sé það skilið sem 'loftið er í fjögurra metra hæð'. Ég veit að þetta virðist kannski ekki vera skýr munur, og það er erfitt að orða þennan mun á skiljanlegan hátt, en þetta snýst sem sé um það hvort við horfum á fjarlægðina milli gólfs og lofts eða á loftið eitt og sér. Í síðarnefnda tilvikinu er orðið lofthæð komið í hóp með fjárhæð, upphæð og hæð í landslagi og þar með verður eðlilegt að nota sömu ákvæðisorð og tala um háa og lága lofthæð.

Það er auðvitað fjarri því að vera einsdæmi að skilningur fólks á orðum breytist og það hafi áhrif á það hvaða ákvæðisorð eru notuð með þeim. Hér má nefna að á 19. öld og á fyrstu áratugum 20. aldar virðist hafa verið mun algengara að nota lýsingarorðin mikill og lítill með bæði fjárhæð og upphæð en lýsingarorðin hár og lágur sem nú eru margfalt algengari. Það er því hægt að halda því fram að lofthæð sé að fara sömu leið og fjárhæð og upphæð fóru hundrað árum fyrr. Hvort fólk sættir sig við að talað sé um háa og lága lofthæð er svo smekksatriði. Ég er bara að benda á hver sé hugsanleg skýring á því að þetta virðist vera að breytast. Málbreytingar eiga sér nefnilega oftast einhverja ástæðu þótt hún liggi ekki alltaf í augum uppi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Af hverju notum við enskættuð orð og orðasambönd?

Ég hef iðulega haldið uppi vörnum fyrir eða sleppt því að fordæma ýmis orð, orðasambönd og orðanotkun sem er eða virðist vera bein yfirfærsla úr ensku – sumum þætti jafnvel eðlilegt að tala um „hráa ensku“. Meðal þessa er snjóstormur, eigðu góðan dag, ávarpa vandamál, áskorun, í tárum, í sársauka, í persónu, gaslýsing, byrðing, móment, fasa út, slæsa, sína, lúkk, kósí, ókei, næs, ranta, meika sens o.m.fl. Ég þykist vita að mörgum þyki ég alltof frjálslyndur í þessu. Mín afstaða er hins vegar sú, eins og ég hef oft sagt, að við eigum ekki að láta orð eða orðasambönd gjalda upprunans. Ef þau eru komin í einhverja notkun í íslensku er yfirleitt bæði ástæðulaust og tilgangslaust að beita sér gegn þeim og nær að snúa sér að brýnni vandamálum.

Ég hef sem sé engar áhyggjur af því þótt ýmis orð, orðasambönd og orðanotkun úr ensku rati inn í íslensku. Það sem mér finnst hins vegar ástæða til að huga að, og jafnvel hafa áhyggjur af, er hvers vegna þetta gerist. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Stundum vantar íslenskuna orð yfir tiltekna merkingu og þá er oft ekkert að því að taka upp erlent orð og laga það að íslensku eftir atvikum. Vissulega þykir mörgum æskilegra að smíða nýyrði úr íslenskum hráefnum en við munum aldrei geta smíðað nýyrði yfir öll ný fyrirbæri og hugtök. Þar að auki geta tökuorð haft ákveðna kosti fram yfir nýyrði, svo sem að þau vekja ekki óheppileg hugrenningatengsl vegna líkinda við önnur orð – hins margrómaða gagnsæis.

Stundum kjósa málnotendur að nota tökuorð þrátt fyrir að til sé íslenskt nýyrði og fyrir því geta líka verið mismunandi ástæður. Nýyrðið getur þótt of stirt eða hallærislegt, eða tökuorðið hefur verið búið að vinna sér hefð áður en nýyrðið kom til og málnotendur kæra sig ekki um að skipta. Nafnorðið flatbaka er dæmi um hvort tveggja – það er stirðara en pitsa sem var líka komið í notkun áður en flatbaka varð til. Einnig kemur fyrir að merkingu íslensks orðs sem samsvarar ensku orði að hluta er hliðrað svo að það samsvari enska orðinu betur. Engin íslensk sögn samsvaraði nákvæmlega ensku sögninni address og því hefur merkingu sagnarinnar ávarpa verið hnikað til. Þetta finnst mér hvort tveggja geta verið góðar og gildar ástæður.

Öðru máli gegnir hins vegar ef enskt orðalag er yfirfært beint þótt til sé íslenskt orð eða orðalag sem gæti gegnt nákvæmlega sama hlutverki. Ástæðan fyrir notkun enskættaða orðalagsins er þá ekki alltaf skortur á íslensku orði eða þörf fyrir betra orð, heldur oft þekkingarleysi eða hugsunarleysi – fólk þekkir ekki hefðbundið íslenskt orðalag eða hugsar ekki út í hvernig venja sé að orða eitthvað á íslensku. Þarna skiptir auðvitað máli hver á í hlut. Fólk sem hefur atvinnu af því að nota tungumálið, svo sem rithöfundar, fjölmiðlafólk, auglýsingafólk, almannatenglar, þýðendur o.fl., ber miklu ríkari ábyrgð en almennir málnotendur. Það er eðlilegt og mikilvægt að halda því við efnið, en vitanlega þarf að gæta kurteisi og forðast persónulegar athugasemdir.

En það er ekki endilega ástæða til að amast við tökuorði eða tökumerkingu þótt það sé strangt tekið óþarft, í þeim skilningi að til sé íslenskt orð eða orðasamband sem nota mætti í staðinn. Þvert á móti – nýjungar auðga málið og ekkert að því að málnotendur geti valið milli rótgróins íslensks orðalags og nýrra og ferskra orða og orðasambanda, þótt af erlendum uppruna séu. En ef ástæðan fyrir notkun tökuorðsins eða tökumerkingarinnar er þekkingarleysi eða hugsunarleysi er hætta á að þetta verki þveröfugt – valdi því að hefðbundið orðalag falli í skuggann eða gleymist og auki þannig einhæfni, dragi úr fjölbreytni, og rjúfi auk þess samfelluna í málinu. Þess vegna er mikilvægt að lesa sem mest til að auka orðaforða sinn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska er ekki erfiðasta tungumál í heimi

Á mbl.is var í gær áhugavert viðtal við skoskan mann sem hefur búið hér síðan 2016 – var að ljúka BA-prófi frá Háskólanum á Bifröst og hefur náð mjög góðu valdi á íslensku. Það er margt gott í þessu viðtali sem ástæða er til að taka undir, m.a. áherslan á mikilvægi þess að bjóða upp á fleiri hentug og ódýr íslenskunámskeið: „Barry segir mikilvægast að gefast ekki upp á íslenskunni. Hann bætir þó við að það vanti betri úrræði fyrir þá sem vilji læra íslensku og því verði stjórnvöld að bæta úr. Hann telur þau íslenskunámskeið sem eru í boði vera oft á óhentugum tímum og á stöðum sem geti verið erfitt að komast á. Einnig eru þessi námskeið dýr og fólk veit ekki að það getur fengið endurgreitt í gegnum stéttarfélagið.“

Barry leggur áherslu á mikilvægi þess að læra íslensku til að komast inn í samfélagið, en bendir á, eins og hér hefur oft verið gert, að Íslendingar þurfi að huga að málhegðun sinni við fólk sem er að læra íslensku: „Mér finnst líka að Íslendingar þurfi að vera aðeins betri í að skipta ekki yfir í ensku þegar þeir lenda í einstaklingum sem eiga íslensku ekki að móðurmáli. Þetta snýst um að finna gott jafnvægi.“ En þarna kemur líka fram algengur og lífseigur, en jafnframt mjög alvarlegur, misskilningur sem mikilvægt er að leiðrétta – um það hversu erfitt tungumál íslenska sé. „Þetta er líklega eitt erfiðasta tungumál í heimi til að læra en fyrir mig var það hluti af skemmtuninni. Að tala tungumál  sem kannski hálf milljón manns á jörðinni talar.“

Íslenska er ekki eitt erfiðasta tungumál í heimi. Því fer fjarri. Það er þjóðsaga sem einhvern veginn hefur komist á kreik og við virðumst vilja viðhalda – það er eins og við séum stolt af því, að það sé okkur metnaðarmál að íslenska sé erfið. Auðvitað er hún erfið ef stefnt er að því að kunna hana til hlítar (hvað svo sem það merkir) – en það gildir um öll tungumál. Það sem viðheldur þjóðsögunni er ekki síst óþol okkar gagnvart „ófullkominni“ íslensku sem kemur m.a. fram í því hversu fljót við erum að skipta í ensku. Við þurfum að slaka á kröfunum um kórrétta íslensku og kveða þessa þjóðsögu niður því að hætt er við að hún hræði útlendinga og fæli frá íslenskunámi. Íslenska með erlendum hreim og beygingarvillum er líka íslenska.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mannskari – og mannfjöldi og mannmergð

Ég fékk fyrirspurn um hvort orðið mannskari væri til, í merkingunni 'hópur fólks'. Orðið skari er vitanlega gamalt í málinu og vel þekkt í merkingunni 'hópur, flokkur, fjöldi', sem og ýmsar samsetningar – áhorfendaskari, barnaskari, fuglaskari, krakkaskari, stjörnuskari o.fl. Því mætti ætla að mannskari væri einnig til og jafnvel algengt, en það er þó ekki að finna í orðabókum, hvorki Íslenskri orðabókÍslenskri nútímamálsorðabók, og aðeins eitt dæmi um það er í Ritmálssafni Árnastofnunar – „Eg blanda mjer í mannskarana í stórstöðunum“ í öðrum árgangi ritsins Margvíslegt Gaman og alvara sem Magnús Stephensen gaf út 1818. Á tímarit.is má þó finna 72 dæmi um orðið, það elsta frá 1912, og 66 dæmi eru í Risamálheildinni.

Orðið mannskari er stofnsamsett en það er athyglisvert að nær allar aðrar samsetningar með -skari eru eignarfallssamsetningar. Það á við um öll orðin sem nefnd eru hér að framan og flest önnur sem ég hef fundið dæmi um. Helsta undantekningin er herskari sem áður merkti 'herflokkur' en merkir nú bara 'mikill fjöldi' – nokkurn veginn sama og orðið skari eitt og sér. Langflest þeirra örfáu dæma sem finnast um samsetninguna mannaskari eru úr bundnu máli þar sem bragformið kallar á tvíkvæðan fyrri lið. Það eru til ýmsar eignarfallssamsetningar með -mannaskari þar sem fyrri liðurinn er samsettur, svo sem embættismannaskari, blaðamannaskari o.fl., en eignarfallssamsetning er meginregla í orðum af þessu tagi.

Það er ekki bara í samsetningum með -skari sem mann- sker sig úr í því að mynda stofnsamsetningu. Sama máli gegnir um samsetningar með -fjöldi og -mergð sem hafa svipaða merkingu og -skari – fyrri liður þeirra er nær alltaf í eignarfalli fleirtölu en undantekningar eru orðin mannfjöldi og mannmergð. Vissulega er mannafjöldi til en þá vísar fjöldi oftast til ákveðinnar tölu eins og í „Mannafjöldi er misjafn nokkuð á þessum skipum, en meðaltal mun vera 14 á skip“ í Norðurlandi 1903, og „Í 7. töflu eru taldir bæir og mannafjöldi við línurnar“ í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands 1923. Einnig eru fáein dæmi um mannamergð en þar af nokkur úr bundnu máli þar sem tvíkvæður liður þarf að vera, eins og í mannaskari.

En hvers vegna myndar rótin mann- ekki eignarfallssamsetningar með -fjöldi, -mergð og -skari eins og flestar eða allar aðrar rætur? Um það er hæpið að fullyrða nokkuð en mér finnst freistandi að tengja það við tvíræðni orðsins maður. Ef notaðar eru eignarfallssamsetningar eins og mannafjöldi, mannamergð og mannaskari gæti leikið vafi á því hvort vísun fyrri hlutans væri almenn, eða hvort vísað væri til karlmanna eingöngu. En rótin mann- tengist karlmönnum ekkert sérstaklega – eða miklu síður – í huga fólks eins og m.a. sést á því að fólk sem hefur leitast við að koma með önnur orð fyrir maður til nota í almennri merkingu hefur stungið upp á manneskja, man og menni – sem öll eru af þessari rót. Þetta er samt bara skot út í loftið.