Category: Málfar

Íþróttamaður ársins

Í síðustu viku var tilkynnt um niðurstöður í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Stundum hefur titillinn verið gagnrýndur á þeim forsendum að hann sé of karllægur vegna þess að orðið maður og samsetningar af því tengist karlmönnum meira en konum í huga margra. Þetta var m.a. til umræðu hér í hópnum fyrir tveimur árum og þá birti einn hópverja svar stjórnarmanns í Samtökum íþróttafréttamanna við bréfi um þetta mál. Stjórnarmaðurinn sagði „alveg rétt að þetta mætti vera betur í takt við tímann“ og „við munum taka þetta fyrir á næsta aðalfundi hjá okkur í vor með það í huga að breyta þessu“. Mér er ekki kunnugt um hvort tillaga um breytingu kom fram, en hafi svo verið hefur henni greinlega verið hafnað.

Vitanlega er það rétt sem oft er bent á að þótt orðið maður vísi oft til karla hefur það líka almenna merkingu – vísar til tegundarinnar sem við erum öll af, karlar, konur og kvár. En það breytir því ekki að orðið hefur oft karllæga slagsíðu, ekki síst þegar það er notað um tiltekinn einstakling eins og í tilviki íþróttamanns ársins. Þetta kom vel fram í kynningu á þeim tíu sem fengu flest atkvæði í kjörinu. Í þeim hópi voru fjórir karlar og sex konur. Karlarnir voru allir kynntir með samsetningu af -maðurknattspyrnumaður (tveir), handknattleiksmaður, sundmaður. Konurnar voru hins vegar allar kynntar með samsetningu af -konaknattspyrnukona (tvær), fimleikakona, sundkona, lyftingakona, kraftlyftingakona.

Þetta er fullkomlega eðlilegt og mér hefði fundist mjög óeðlilegt og hljóma undarlega ef t.d. hefði verið talað um Ástu Kristinsdóttur fimleikamann eða Sóleyju Margréti Jónsdóttur kraftlyftingamann. Þess vegna hljómar óneitanlega svolítið sérkennilega að tala um Íþróttamann ársins, Glódísi Perlu Viggósdóttur knattspyrnukonu – en vitanlega hefði samt ekki gengið að kalla hana Íþróttakonu ársins. En Íþróttamaður ársins hefur verið kjörinn í nærri sjötíu ár og það er auðvitað ekki einfalt að breyta þessum titli, enda ekki augljóst hvað ætti að koma í staðinn – hugsanlega íþróttamanneskja, með vísun til þess að Rás tvö í Ríkisútvarpinu hefur undanfarin ár valið manneskju ársins í stað manns ársins eins og áður var.

Óvíst er þó að því orði yrði vel tekið – í áðurnefndu bréfi sagðist stjórnarmaður í Samtökum íþróttafréttamanna „ekki hrifinn af orðinu manneskja“ og fyndist það „bara ljótt“, en hins vegar væri hægt að finna „eitthvað annað hlutlaust“, til dæmis íþróttahetja. Orðið íþróttamanneskja hefur þó eitthvað verið notað í sambærilegum titlum, t.d. hefur „íþróttamanneskja ársins“ verið kosin nokkur undanfarin ár í Borgarbyggð og Strandabyggð, og nú hafa Fjarðabyggð og Akranes bæst í hópinn og e.t.v. fleiri sveitarfélög. Hugsanlegt er að þessi notkun breiðist út þótt mér finnist orðið íþróttamanneskja ekki að öllu leyti heppilegt. Ég tel samt æskilegt að reynt verði að finna titil sem ekki er jafn karllægur og íþróttamaður ársins óneitanlega er.

Að búa ekki yfir snefil/snefli af gæsku

Orðið snefill er ekki ýkja algengt en þó vel þekkt og einkum notað með neitun, í sambandinu ekki snefill sem skýrt er 'ekki vottur af e-u, ekki vitundarögn' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þótt það komi langoftast fyrir í nefnifalli eða þolfalli ættu önnur föll ekki að valda vandkvæðum, enda liggur beint við að beygja orðið eins og vel þekkt og algeng orð með sömu stofngerð svo sem hefill og trefill sem eru hefli og trefli í þágufalli eintölu. Þess vegna fannst mér áhugavert þegar ég rakst á orðalagið „láta eins og þau byggju yfir snefil af gæsku“ í nýrri skáldsögu. Sambandið búa yfir tekur venjulega með sér þágufall, en þarna er notuð þolfallsmyndin snefil í stað snefli sem búast mætti við út frá beygingu hliðstæðra orða.

Við nánari athugun kom í ljós að þetta er ekki einsdæmi. Í athugasemd við orðið í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Orðið er mjög sjaldséð í þágufalli en orðmyndunum snefli og snefil bregður fyrir.“ Á tímarit.is eru rúm 40 dæmi um snefli, t.d. „Hljómsveitin býr ekki yfir snefli af kunnáttu“ í Tímanum 1977. Erfitt er að leita að dæmum um að myndin snefil sé notuð í þágufalli en það virðist a.m.k. jafnalgengt – nefna má að fjögur dæmi eru um búa (ekki) yfir snefil en þrjú um búa (ekki) yfir snefli. Það kemur á óvart að snefill skuli þannig haga sér á annan hátt en önnur karlkynsorð með hljóðasambandið -efill í stofni sem öll virðast fá -efli í þágufalli – grefill, refill, skefill, Hnefill o.fl., auk hefill og trefill.

Hér er nauðsynlegt að athuga að töluverð breyting verður á stofni þessara orða í þágufalli eintölu (og allri fleirtölunni, í þeim orðum þar sem hún er notuð). Áherslulausa sérhljóðið i í viðskeytinu -ill fellur brott þegar beygingarending hefst á sérhljóði – trefil+i verður ekki *trefili, heldur trefli. Þetta er regla sem gildir undantekningarlítið um sérhljóðin a, i og u í áhersluleysi, sbr. hamar+i > hamri, jökul+i > jökli. En þegar i fellur brott úr sambandinu -efil leiðir það til þess að f (sem er borið fram v milli sérhljóða) og l standa saman, og sambandið fl inni í orðum eða í lok orða er ævinlega borið fram bl tefla og afl er borið fram tebla og abl. Þess vegna segjum við trebli og treblar þótt við berum fram v í trefill, trefil og trefils.

Við lærum þessar stofnbreytingar áreynslulaust á máltökuskeiði og hugsum ekkert út í þær þegar við notum algeng orð eins og hefill og trefill. En almennt séð viljum við helst halda stofni orða sem mest óbreyttum í öllum beygingarmyndum og þess vegna geta hljóðbreytingar af þessu tagi truflað okkur þegar um er að ræða sjaldgæfar myndir. Sú virðist vera raunin með orðið snefill sem er langoftast notað í þolfalli og þágufalli eins og áður segir. Þegar við þurfum að nota þágufallið eigum við það því ekki „á lager“ ef svo má segja, heldur þurfum að búa það til í samræmi við þær reglur sem við kunnum. Það þýðir að við förum að hugsa út í það, og þá tökum við eftir því hversu miklar breytingar þarf að gera á stofninum í myndinni snefli.

Það er hægt að forðast myndina snefli með því að sleppa því að bæta við -i í þágufalli. Það er í sjálfu sér ekki andstætt málkerfinu – þótt meginhluti sterkra karlkynsorða fái að vísu -i í þágufalli eintölu er líka mikill fjöldi orða endingarlaus í því falli. En ef endingunni er ekki bætt við verður ekki neitt brottfall úr stofninum og við fáum myndina snefil – sem er eins og þolfallsmyndin en samt góð og gild þágufallsmynd. Með þessu móti er hægt að forðast myndina snefli sem vissulega hljómar nokkuð framandi. Orðið er aldrei notað í fleirtölu en ef við þyrftum á fleirtölunni að halda gætum við ekki leyst málið á sama hátt – þar er enginn annar kostur en nota endingar sem hefjast á sérhljóði og fá út *sneflar, borið fram sneblar.

Það er ekkert einsdæmi að reynt sé að forðast myndir með hljóðbreytingum í stofni. Orðanefnd Verkfræðingafélags Íslands vildi t.d. fremur nota veiku myndina rafali sem þýðingu á elektrisk generator en sterku myndina rafall. Ástæðan virðist hafa verið sú að nefndin vildi forðast fleirtöluna raflar sem væri borið fram rablar og nota fremur rafalar. Það er líka sagt að þegar stofnun fyrirtækis til að standa að gerð Hvalfjarðarganga var í undirbúningi hafi flestum litist vel á heitið Spölur – þangað til fólk áttaði sig á því að það ætti að vera Speli í þágufalli en sú mynd var nær óþekkt fram að því og hljómaði mjög framandi í upphafi. En hún vandist þó fljótt og nú man fólk tæpast eftir því að hún hafi nokkurn tíma þótt undarleg.

Systerni

Um daginn var hér spurt hvort til væri eitthvert kvenlægt orð sem samsvaraði orðinu bróðerni systerni er „eitthvað skrítið“ sagði fyrirspyrjandi. Í umræðum var minnt á orð eins og systralag og systraþel sem vissulega eru til í málinu þótt þau séu ekki mjög algeng og finnist ekki í almennum orðabókum, en einnig var bent á að bróðerni ætti ekkert síður við um konur en karla – skýring þess í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'gott samkomulag, vinsemd'. En það sýnir einmitt að orðin systralag og systraþel, svo ágæt sem þau eru, samsvara alls ekki bróðerni því að þau eru eingöngu notuð um konur að því er virðist. Væntanlega er verið að spyrja um orð sem hefur almenna merkingu en er laust við þann karllæga blæ sem bróðerni óneitanlega hefur.

Orðið systerni hljómar vissulega frekar ókunnuglega og er ekki í almennum orðabókum frekar en systralag og systraþel en það er þó til í málinu – á tímarit.is eru tíu dæmi um orðið, það elsta í Heimskringlu 1888. Í Skírni 1909 segir: „Það er systerni á milli nýnorðrænu málanna, t. d. norsku og sænsku.“ Þetta er í grein eftir Jóhannes L. L. Jóhannsson sem var málfræðingur (þó ekki lærður) og mikill málvöndunarmaður. Í Tímanum 1959 segir: „Eiginkonur Brútusar og Cæsars fá sér kaffisopa í systerni eftir víg Cæsars.“ Í Veru 1995 segir: „Þetta fór auðvitað fram í mesta systerni, eins og venjan er í Kvennalistanum.“ Dómur um tónleika fjögurra sópransöngkvenna í Lesbók Morgunblaðsins 2009 ber fyrirsögnina „Í ferauknu systerni“.

Viðskeytið -erni kemur fyrir í ýmsum orðum, m.a. skyldleikaorðunum faðerni, móðerni og bróðerni. Orðið systerni er myndað á sama hátt og ekkert við það að athuga frá orðmyndunarlegu sjónarmiði – það þarf bara að venjast því. Hins vegar er spurning hvað fólk vill láta það merkja. Í dæmunum sem tilfærð eru hér að framan, og öðrum dæmum sem ég hef fundið, hefur það augljóslega ekki almenna vísun heldur vísar til kvenna (eða kvenkynsorða eins og tungumálaheita) og er þar með ekki samsvörun við bróðerni. En vegna þess hversu sjaldgæft orðið er hefur sú merking ekki unnið sér hefð og því væri vel hægt að taka orðið upp í almennri merkingu og nota það um fólk af öllum kynjum – eins og bróðerni.

Jólatréssala

Þessa dagana glymja auglýsingar um jólatrjáasölu í útvarpinu. Auðvitað er ekkert við það orð að athuga, en til skamms tíma var myndin jólatréssala þar sem fyrri liðurinn er í eintölu þó miklu algengari. Sú mynd virðist líka vera eldri í málinu þótt ekki muni miklu – elsta dæmi um hana á tímarit.is er frá 1948, en elsta dæmi um þá fyrrnefndu frá 1953. Dæmin um jólatréssala eru nærri þrisvar sinnum fleiri en um jólatrjáasala og það var ekki fyrr en eftir aldamót sem dæmum um síðarnefndu myndina fór að fjölga. Árið 2012 sigldi hún fram úr fyrrnefndu myndinni og á árunum 2010-2019 eru dæmin um jólatrjáasala nærri helmingi fleiri en um jólatréssala. Í Risamálheildinni eru dæmin um myndirnar álíka mörg.

Eina hugsanlega skýringin sem ég sé á þessari auknu notkun myndarinnar jólatrjáasala á kostnað jólatréssala er misskilin málvöndun – að fólk telji síðarnefndu myndina „órökrétta“ vegna þess að verið sé að selja fleiri en eitt tré. Slíkar athugasemdir má víða finna í málfarshópum og athugasemdadálkum, þrátt fyrir að Málfarsbankinn segi: „Bæði orðin jólatréssala og jólatrjáasala eru rétt mynduð.“ Það er nefnilega alls ekki alltaf þannig að tala fyrri liðar í samsettu orði endurspegli fjölda þess sem um er rætt. Þetta hefur oft verið hér til umræðu og um það má nefna ótal dæmi, svo sem rækjusamloka, perutré, stjörnuskoðun, nautalund, lambalæri, nýrnagjafi o.s.frv. Myndin jólatréssala er alveg hliðstæð við þessi orð.

Að vökva blómum – og vatna þeim

Í greininni „Ástkæra, ylhýra málið“ sem birtist í Regin 1942 og ég hef áður vitnað í kvartar Friðrik Hjartar yfir ýmsum málbreytingum – sú athyglisverðasta er að hans sögn „fráhvarf frá nefnifalli og þolfalli til þágufalls“. Um þetta nefnir hann ýmis dæmi, bæði af frumlögum með sögnum eins og langa og dreyma, en einnig af andlögum með sögnum eins og pakka, framlengja, skora – og vökva. „Þá er sagt, að nú þurfi að vökva blómunum, vökva görðunum, í stað þess að segja: að vökva blómin, vökva garðana, m. ö. orðum: vökva eitthvað, ekki vökva einhverju.“ Sögnin vökva tekur vissulega með sér þolfall í fornu máli en er gefin upp með bæði þolfalli og þágufalli í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og þágufallið er greinilega gamalt.

Það er notað í einu af elstu dæmum um sögnina á tímarit.is, í Norðurfara 1849: „svo menn þessvegna víst hefðu getað sparað það blóð, sem nú ei varð til annars enn að vökva götum Parísar.“ Í Skuld 1879 segir: „þessi ungi maðr er líka „eik“, sem visnar, ef henni er ekki vökvað.“ Í sögunni „Lífið í Reykjavík“ eftir Gest Pálsson frá 1888 segir: „sumir eru í óða önn að vökva blómum og trjám.“ Í Frey 1904 segir: „Það má auka blómgunina og lengja blómgunartímann með því að vökva þeim með áburðarlegi.“ Í Búnaðarritinu 1907 segir: „auk þess þarf að vökva blómkálinu með áburðarlegi.“ Í Sindra 1921 segir: „Það þarf þannig að vökva rakri steypu í eigi minna en ½ mánuð.“ Í Blika 1936 segir: „Það þarf að vökva því dyggilega.“

Þágufall virðist hafa verið töluvert notað með vökva á seinni hluta nítjándu aldar og langt fram eftir þeirri tuttugustu, en dæmum fer fækkandi eftir miðja öldina. Yngsta dæmi sem ég hef fundið á tímarit.is er í Morgunblaðinu 1992: „Jafnframt er í húsgæslukerfinu þjónusta öryggisvarða VARA sem tvisvar í viku tæma póstkassa, vökva blómum og gefa gæludýrum.“ Tvö yngri dæmi fundust í Risamálheildinni: „Mun minni hætta fólgin í að vökva blómum“ á Málefnin.com 2006 og „hann fór til þess að vökva plöntunum“ í héraðsdómi frá 2012. En ég hafði aldrei rekist á þágufallið og hélt að það væri alveg horfið – þangað til í gærkvöldi að ég heyrði í sjónvarpinu eldri mann á Ísafirði tala um að vökva blómunum.

Þessi maður hefur væntanlega alist upp við notkun þágufalls með vökva og vitanlega engin ástæða til að amast við því. Það er í sjálfu sér vel skiljanlegt að vökva hneigist til að taka með sér þágufall í stíl við sagnir eins og vatna og brynna sem eru merkingarlega skyldar þótt þær séu vissulega einkum notaðar um húsdýr. Notkun vökva og vatna skarast þó eitthvað – til eru dæmi eins og „Margir hirða ekki nógu vel um að vökva fénu“ í Búnaðarritinu 1914, og allnokkur dæmi um að vatna blómum, t.d. í Æskunni 1924: „Í blómgarði við húsið var mær ein ung og vatnaði blómunum.“ Þetta virðist hverfa upp úr 1970 og í ritdómi í Morgunblaðinu 1981 segir: „Sem gamall sveitamaður hlýt ég að vara við reykvískunni að „vatna blómum“.“

Ég var í tveimur kosningaköffum

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var spurt um setninguna „Ég treysti á að við fáum kökuafgangana frá einhverju af þessum kosningaköffum“ sem fyrirspyrjandi taldi að væri  „augljóslega rangt“ en spurði hvaða mynd væri rétt að nota þarna. Þarna er greinilega verið að nota orðið kosningakaffi í þágufalli fleirtölu sem einhverjum kann að þykja vafasamt, enda engin fleirtala orðsins gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það má þó finna dæmi um fleirtöluna á netinu – „Vinstri græn og Samfylking eru með sín kosningakaffi í Edinborgarhúsi frá 14-17“ segir í Bæjarins besta 2017, „Þar sem ég veit að við hjónin kjósum líklega ekki það sama finnst mér líklegt að við mætum í tvö kosningakaffi“ segir á mbl.is 2024.

Ýmis fleiri dæmi má finna um fleirtölu annarra samsettra orða þar sem -kaffi er seinni liður. Í bókinni Fyrir daga farsímans eftir Böðvar Guðmundsson segir: „Hún dró Siggu með sér í nokkur sunnudagakaffi en Sigga sagði að lokum þvert nei.“ Í Húna 2015 segir: „Fleiri prjónakaffi verða í Kvennaskólanum í vetur.“ Í Vísi 2020 segir: „Svo eru kannski foreldrakaffi.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Bókakaffi með ákveðin þemu eru t.d. haldin tvisvar á ári.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Haldin verða Vísindakaffi á kaffihúsum Reykjavíkurborgar.“ Í Vísi 2004 segir: „Þegar við komum aftur voru internetkaffi á hverju götuhorni og allir með gemsa.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Netkaffi eru ekki á hverju strái í Sýrlandi.“

Orðið kaffi eitt og sér er vissulega ekki til í fleirtölu frekar en önnur orð um vökva og drykki – ef það er notað í grunnmerkingu sinni. En í þessum orðum vísar það ekki til drykkjarins kaffi, heldur ýmist til viðburða (kosningakaffi, sunnudagakaffi, prjónakaffi, foreldrakaffi, bókakaffi, vísindakaffi) eða fyrirtækja (internetkaffi, netkaffi). Í fyrri merkingunni mætti t.d. setja kaffisamsæti eða kaffiboð í staðinn, en í þeirri seinni kaffihús. Öll þau orð eru til í fleirtölu þannig að það er augljóslega ekkert á móti því frá merkingarlegu sjónarmiði að nota samsetningar með -kaffi í fleirtölu – ef þær vísa til teljanlegra fyrirbæra. Þess eru ýmis dæmi að orð sé aðeins til í eintölu í einni merkingu en bæði í eintölu og fleirtölu í annarri merkingu.

Eins og í öðrum hvorugkynsorðum (nema einkvæðum orðum með a í stofni) er nefnifall og þolfall fleirtölu af samsetningum með -kaffi eins og eintalan. Í þágufalli fleirtölu bætist endingin -um við eins og er nánast algilt í nafnorðum, og þá fellur -i brott úr stofninum sem er líka nánast algild regla þegar tvö áherslulaus sérhljóð koma saman – kaffi+um > kaffum. En þá er u komið í næsta atkvæði á eftir a-inu í stofni og til kemur enn ein nánast algild regla sem setur ö í stað a við slíkar aðstæður – kaffi+um > kaffum > köffum. Þótt kosningaköffum kunni að hljóma framandi er það því ekki bara rétt mynd, heldur eina hugsanlega myndin í þágufalli fleirtölu ef orðið kosningakaffi er notað í fleirtölu á annað borð – sem er sem sé fullkomlega eðlilegt.

Fræðsla er betri en fyrirframgefin skoðun

Eins og margsinnis hefur komið fram er þessi hópur ætlaður fyrir umræðu, fræðslu og fyrirspurnir um mál, málfræði og málfar. Ef við rekumst á eitthvað í máli sem er nýtt, ókunnuglegt eða í ósamræmi við það sem við höfum vanist eða verið kennt að væri rétt, þá er auðvitað eðlilegt að við viljum forvitnast eitthvað um það og veltum því fyrir okkur hvort þarna sé um nýyrði að ræða, málbreyting að stinga upp kollinum, málfar sem tíðkist annars staðar á landinu eða í öðrum þjóðfélagshópum en við tilheyrum, leifar úr eldra máli eða fyrnska, fljótfærnis- eða frágangsvilla, eða eitthvað annað. Þessum hópi er ætlað að vera vettvangur fyrir slíkar spurningar – og fjölmargar aðrar – og svör við þeim, eftir því sem kostur er.

En grundvallaratriði er að umræðan á að vera jákvæð. Það þýðir að innlegg og athugasemdir þar sem ekki er verið að spyrjast fyrir heldur gera athugasemdir við málfar, leita staðfestingar á eigin skoðun eða fordómum, segja hvað fari í taugarnar á fyrirspyrjanda eða gefa sér að eitthvað sé rangt eiga ekki erindi hingað inn. Efnisatriðin sem um er að ræða í slíkum innleggjum geta oft átt rétt á sér, en framsetningin ekki. Stundum hef ég eytt innleggjum af þessu tagi vegna andans í þeim en tekið samt fyrir það atriði sem um var rætt. Sumum finnst þetta kannski einstrengingsleg afstaða en ég trúi því einlæglega að það sé hægt – og nauðsynlegt – að ræða íslenskt mál á jákvæðum nótum, án þess að hnýta í málnotkun annarra.

Þess vegna bið ég ykkur að hafa þetta í huga. Hikið ekki við að vekja hér máls á hvers kyns atriðum í máli og málfari sem vekja áhuga ykkar eða forvitni, en gerið það án fyrirframgefinnar afstöðu, til dæmis í formi spurninga. Þegar ég svara spurningum eða skrifa fræðandi pistla um málfar reyni ég að skoða málið frá öllum hliðum þannig að lesendur geti sjálfir myndað sér skoðun. Stundum segi ég mína skoðun á því hvað sé rétt, og stundum gengur hún í berhögg við það sem vanalega hefur verið kennt – en ég ætlast ekkert til þess að öllum falli niðurstaða mín í geð. Meginatriðið er að fólk fái forsendur til að taka sjálfstæða afstöðu í stað þess að halda dauðahaldi í það sem hefur verið kennt, án þess að hafa nokkur rök fyrir því.

Bóndahjón

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurt hvort það væri að „verða málvenja“ að tala um bónda í staðinn fyrir bændur í fleirtölu. Tilefnið var frétt í Vísi þar sem orðið bóndahjón kom nokkrum sinnum fyrir, t.d. í „Hann lýsti akstri sínum ekki sem ógnvænlegum líkt og bóndahjónin gerðu“. Þar sem um er að ræða hjón, karl og konu, mætti vissulega virðast rökréttara að nota þarna eignarfall fleirtölu í fyrri lið samsetningarinnar og segja bændahjón. Hvoruga myndina, bóndahjón eða bændahjón, er þó að finna í Íslenskri orðabók eða Íslenskri nútímamálsorðabók. Aftur á móti er myndin bóndahjón flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 sem sýnir að hún er a.m.k. hundrað ára gömul – bændahjón er þar hins vegar ekki að finna.

Báðar myndirnar eru þó gamlar í málinu og elstu dæmi um þær á tímarit.is frá svipuðum tíma. Í Víkverja 1874 er talað um „einstök heimili, þar sem bóndahjónin væru sérlega vel fallin til að ala upp börn og segja þeim til“ og í Norðlingi 1878 segir: „Mánudaginn 9. júlí seinastl. héldu bændahjónin Klemens Klemensson og Ingibjörg Þorleifsdóttir gullbrúðkaup sitt að Bólstaðarhlíð.“ Síðarnefnda myndin er þó töluvert algengari – um hana eru 400 dæmi á tímarit.is en rúm 230 um þá fyrrnefndu. Í Risamálheildinni er munurinn hlutfallslega minni – 74 dæmi um bóndahjón en 106 um bændahjón. Það er því ljóst að jafnvel þótt myndin bóndahjón teldist „órökrétt“ hefur hún fyrir löngu unnið sér hefð og hlýtur að teljast rétt mál.

En í þessu tilviki þarf samt ekki að vísa til hefðar heldur er myndin bóndahjón fullkomlega eðlileg og rökrétt. Í fyrsta lagi má benda á að í fornu máli var eignarfall fleirtölu af bóndi ekki bænda eins og nú er, heldur bónda – myndin bænda var ekki orðin algeng fyrr en um 1400 eins og ég skrifaði nýlega um. Það er fjarri því að vera einsdæmi að gamlar beygingarmyndir varðveitist í samsettum orðum, og því er ekki óhugsandi að orðið bóndahjón hafi verið myndað áður en breytingin varð og fyrri hluti orðsins sé því í raun eignarfall fleirtölu. Vissulega virðast engin dæmi vera um orðið bóndahjón eldri en frá seinni hluta nítjándu aldar, en þess eru fjölmörg dæmi að orð lifi í málinu í fleiri aldir án þess að komast á pappír – eða skinn.

Líklegast er þó að bónda- sé þarna eignarfall eintölu, en öfugt við það sem gæti virst í fljótu bragði er það fullkomlega eðlileg orðmyndun og í samræmi við málhefð. Fjöldi dæma er um að eignarfall eintölu sé notað í samsetningum þar sem fleirtala væri „rökrétt“. Þetta er einkum algengt í veikum kvenkynsorðum, svo sem stjörnuskoðun, gráfíkjukaka, perutré o.s.frv., en kemur þó einnig fyrir í fjölda annarra tilvika. Nefna má orð eins og landsleikur þar sem ævinlega eru tvö landslið að spila saman og því mætti segja að *landaleikur væri rökréttara orð. Þótt svo geti virst að „rökréttara“ væri að nota fleirtölu í samsetningum með -hjón á það viðmið einfaldlega ekki við þarna – mörg samsett orð eru „órökrétt“ en samt fullkomlega viðurkennd.

En svo er orðið bóndahjón ekki einu sinni „órökrétt“ ef betur er að gáð. Eins og bent var á í umræðum í Málvöndunarþættinum eru orð eins og prestshjón, læknishjón, kaupmannshjón og fleiri slík mjög algeng, þótt talsvert hafi dregið úr tíðni þeirra á seinni árum. Þarna er notuð eintala í fyrri lið, enda hjónin kennd við starf annars þeirra – áður ævinlega karlsins – þau eru ekki bæði prestar, læknar eða kaupmenn. Orðið bóndi var til skamms tíma nær eingöngu notað um karlinn – kona hans var ekki bóndi, heldur húsfreyja. Þess vegna er eintalan í bóndahjón í fullkomnu samræmi við önnur orð af þessu tagi. Vissulega má segja að bændahjón sé í betra samræmi við nútíma hugmyndir og málnotkun, en það þýðir ekki að bóndahjón sé rangt mál.

Fokviðri

Í frétt á mbl.is fyrir nokkrum dögum var sagt „Tjón varð á brú sem er í byggingu fyrir vestan í fokviðrinu í dag.“ Orðið fokviðri er vissulega sjaldgæft og á Facebook-síðu mbl.is bar nokkuð á því að fólk hneykslaðist – talaði um „Óþarfa nýyrði“ og segði „Svo núna á að reka rokið út því það er ekki nógu fínt lengur“. En orðið er ekki nýyrði – elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Paradísarmissi Miltons sem séra Jón Þorláksson þýddi snemma á 19. öld og kom út 1828 – þar er talað um „fljúgandi flíkur / í fokviðri“. Þetta er eina dæmið um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, en orðið er líka í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem það er þýtt 'forrygende Vejr' og í Íslenskri orðabók í merkingunni 'rok, hvassviðri'.

En orðið er vissulega sjaldgæft, a.m.k. á prenti. Ekkert dæmi er um það í Risamálheildinni og á tímarit.is er aðeins eitt dæmi – í grein um séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal eftir Össur Skarphéðinsson í Lesbók Morgunblaðsins 1994 þar sem segir: „Eftir mikið fokviðri í febrúar 1763 orti séra Björn ljóð.“ Hér í hópnum var hins vegar bent á að orðið væri töluvert notað fyrir vestan sem samræmist því að bæði Jón Þorláksson og Össur Skarpéðinsson eru ættaðir að vestan. Þetta er því skemmtilegt dæmi um orð sem hefur lifað í a.m.k. meira en tvær aldir án þess að komast nokkuð að ráði á prent en sýnir jafnframt að það er gott að fletta upp í orðabókum áður en fullyrt er að um nýyrði sé að ræða – hér hefði dugað að fletta upp á málið.is.

Að segja ósatt um árás á íslenskuna

Í haust var lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu trans fólks. Þar eru meðal annars lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn sem ganga eingöngu út á að nota orðið foreldri í stað orðanna faðir og móðir og orðið stórforeldri í stað orðsins afi í texta laganna. Þannig verði fyrsta málsgrein áttundu greinar laganna t.d. „Kenninöfn eru tvenns konar, foreldrisnöfn og ættarnöfn“ í stað „Kenninöfn eru tvenns konar, föður- eða móðurnöfn og ættarnöfn“, og í stað „Hver maður skal kenna sig til föður eða móður nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo“ í annarri málsgrein sömu greinar komi „Hver maður skal kenna sig til foreldris nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo.“

Þessar breytingar eru mikilvæg réttarbót og því dapurlegt að þær skuli rangtúlkaðar í pólitískum tilgangi. Í grein eftir Helgu Dögg Sverrisdóttur frambjóðanda Lýðræðisflokksins í Vísi segir: „Á síðasta löggjafarþingi Íslendinga lögðu fáir þingmenn fram frumvarp til þess að breyta ákveðnum orðum. […] Lýðræðisflokkurinn hafnar svona skemmdarverkum á tungumálinu. Hefðbundin góð og gild orð sem vísa til um hvern ræðir á ekki að breyta. […] Breytingartillagan er aðför að fjölskyldunni og íslenskunni. […] Höfundur frábiður sig að þessi skemmdarverk á íslenskum orðum sem ylja flestum hjörtum haldi áfram. Hvað er yndislegra en að tala um ömmu og afa, langömmu og langafa, móður og föður, frænda og frænku, pilt og stúlku?“

Það er óljóst hvað langafi og langamma, frændi og frænka, hvað þá piltur og stúlka, koma málinu við, en Helga Dögg Sverrisdóttir er þekkt fyrir andstöðu gegn trans fólki og því þarf þetta ekki að koma á óvart – ekki frekar en þau ósannindi hennar að orðið leghafi sé komið inn í lög um þungunarrof og það fyrir tilstilli núverandi heilbrigðisráðherra. Það er hins vegar öllu alvarlegra þegar sjálfur forsætisráðherra landsins stekkur á þennan vagn í færslu á X fyrir nokkrum dögum: „Í dag er pabba og afadagur í leikskólanum. Ég mæti í kaffi sem stoltur afi. Það er ótrúlegt en satt að nokkrir þingmenn vildu breyta kenninöfnum í mannanafnalögum. Ég væri ekki lengur afi heldur foreldri foreldris. Vitleysan ríður ekki við einteyming.“

Umræddar breytingar eru sjálfsagðar og eðlilegar og raunar óhjákvæmilegar til að ákvæði laga um mannanöfn samræmist ákvæðum laga um kynrænt sjálfræði sem leyfa hlutlausa skráningu kyns. En gagnstætt því sem haldið er fram er einungis verið að breyta því hvernig vísað er til foreldra í lögunum – það er ekki verið að gera neina breytingu á kenninöfnunum sjálfum eins og sést vel á því að lagt er til að þriðja málsgrein áttundu greinar orðist svo: „Foreldrisnöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef því er að skipta, kemur nafn foreldris í eignarfalli með eða án viðbótarinnar son, dóttir eða bur.“ Það er sem sé áfram hægt að vera Benediktsson og Sverrisdóttir – eða Benediktsbur og Sverrisbur ef fólk vill.

Það er ljóst að forsætisráðherra segir ekki satt þegar hann skrifar að „nokkrir þingmenn vildu breyta kenninöfnum“ – það hefur aldrei verið lagt til. Vitanlega hefur ekki heldur verið lagt til að hrófla við orðinu afi – eða faðir og móðir – og fráleitt að halda því fram. Annaðhvort er lesskilningi forsætisráðherra stórlega ábótavant eða hann fer vísvitandi með rangt mál. Fólk getur haft misjafnar skoðanir á þessum breytingartillögum en þegar um er að ræða réttarbætur til handa jaðarsettum hópi sem á undir högg að sækja er einstaklega ómerkilegt og lágkúrulegt að snúa út úr og beinlínis fara með rangt mál í pólitískum tilgangi. Það er fyrir neðan virðingu forsætisráðherra, jafnvel þótt hann sé í miðri kosningabaráttu.