Posted on Færðu inn athugasemd

Maðurinn hefur verið fundinn heill á húfi

Ég er alltaf að rekast á ný og ný dæmi um að ensk setningagerð sé að síast inn í málið. Reyndar þarf ekki alltaf að vera um nýjung að ræða þótt ég hafi ekki tekið eftir einhverju fyrr. Þessi áhrif einkennist nefnilega af því að orðin eru öll íslensk og vegna þess hversu mettuð við erum af ensku tökum við ekki alltaf eftir því að þau eru notuð á annan hátt en venja er að gera á íslensku – við erum farin að hugsa á ensku að einhverju leyti. Nýjasta dæmið sem ég hef séð af þessu tagi var í DV í gær: „Sun fjallar um málið og segir að Gascoigne hafi verið fundinn nánast meðvitundarlaus í svefnherbergi sínu í Poole á föstudagskvöld.“ En hafi verið fundinn er ekki hefðbundið orðalag í íslensku þótt í frétt the Sun segir „was found semi-conscious“,

Auðvitað er var fundinn rétt mynduð þolmynd af finna og notuð í ákveðnu samhengi, t.d. hann var fundinn sekur. En í dæmum eins og því sem hér um ræðir, þar sem verið er að segja frá atburði, er venja að nota miðmyndina finnast en ekki þolmyndina var fundinn – hefðbundið mál væri segir að Gascoigne hafi fundist nánast meðvitundarlaus. Sé hins vegar verið að lýsa ástandi fremur en segja frá atburði er venja að nota nútíðina er fundinn, þar sem fundinn er lýsingarorð en ekki sagnmynd, en ekki hjálparsögnina hafa. Í Viðskiptablaðinu 2019 segir: „Nýr leigjandi hefur verið fundinn að vélinni.“ Í hefðbundinni íslensku væri sagt nýr leigjandi er fundinn að vélinni. En í hvorugu tilvikinu er verið fundinn hefðbundin íslenska.

Ég hef fundið slæðing af dæmum um báðar þessar setningagerðir, en í sumum tilvikum gæti sambandið verið hvort heldur er lýsing á atburði eða ástandi. Í frétt af týndu veski í DV 2022 segir: „Svo virðist sem að eigandinn hafi verið fundinn.“ Þarna er hægt að líta á hafi verið fundinn sem lýsingu á fundi eigandans og þá væri eðlilegt að segja eigandinn hafi fundist, en einnig er hægt að líta á þetta sem lýsingu á núverandi ástandi og þá væri eðlilegt að segja eigandinn sé fundinn. Sama máli gegnir um frétt á vef Ríkisútvarpsins 2019: „Mannsins [svo] sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir í morgun hefur verið fundinn heill á húfi.“ Sé þetta frásögn af fundinum væri sagt fannst – sé það lýsing á stöðu mála væri sagt er fundinn.

Þessi setningagerð virðist vera nýleg í málinu þótt útilokað sé að tímasetja upphaf hennar nákvæmlega, og varla vafi á enskum uppruna hennar. Hún er algengust í óformlegu málsniði, en reyndar finn ég dæmi um hana í breytingum frá 2016 á höfundalögum þar sem segir: „Með munaðarlausu verki er átt við verk í rituðu máli, hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk þar sem enginn rétthafi hefur verið fundinn þrátt fyrir ítarlega leit.“ Þarna væri venjuleg íslenska að segja enginn rétthafi hefur fundist en þessi texti á rætur í Evróputilskipun og gæti verið orðrétt yfirfærsla á has been found þótt ég hafi ekki getað staðfest það. En síðar í sömu grein er notuð miðmynd og sagt: „Ef rétthafi verks sem áður hefur ekki fundist gefur sig fram [...].“

Vissulega má segja að þetta sé lítilfjörleg breyting og þótt hún sé tilkomin fyrir ensk áhrif er þetta auðvitað íslenska. Orðin eru íslensk og setningagerðin íslensk – það er bara ekki venja að nota hana á þennan hátt. En eins og ég hef áður sagt hef ég ekki sérstakar áhyggjur af enskum áhrifum út af fyrir sig, heldur af því hvernig og hvers vegna málnotendur taka ómeðvitað upp enska setningagerð. Það stafar væntanlega annars vegar af því hversu mikil enska er í málumhverfi þeirra, og hins vegar af því að þeir lesa ekki nógu mikið af hefðbundinni íslensku til að málkerfi þeirra standist hið enska máláreiti. Við getum ekki losnað við enskuna úr málumhverfinu en við getum vel styrkt íslenskuna og það verðum við að gera með öllum ráðum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Það er oft merkingasnautt

Í „Málvöndunarþættinum“ sá ég innlegg þar sem höfundur sagðist hafa verið leiðrétt fyrir að nota það í upphafi setninga eins og það er rigning úti og það var kveikt á ofninum þegar ég kom heim – á þeirri forsendu að það vísaði þar ekki til neins sem hefði komið fyrir í samræðum áður. Vissulega er það í upphafi setninga oft vísandi, annaðhvort persónufornafn eða ábendingarfornafn. Ef við segjum Ég er búinn að lesa blaðið getum við haldið áfram og sagt Það liggur á borðinu, og þá er það persónufornafn sem vísar til orðsins blaðið og er í hvorugkyni eins og það. Við getum líka sagt Það blað er löngu farið í ruslið og þar er það ábendingarfornafn í hvorugkyni eintölu – stendur hliðstætt með nafnorðinu blað en vísar jafnframt til orðsins blaðið í upphafssetningunni.

En mjög algengt er einnig að það í upphafi setninga sé harla merkingarsnautt, án þeirrar tilvísunar sem annars er helsta kennimark fornafna. Merkingarleysi þess má m.a. marka af því að hægt er að fella það brott án þess að merking setningarinnar breytist í nokkru. Slíkt það er ýmist nefnt aukafrumlag, gervifrumlag eða leppur og oftast talið hafa eingöngu setningafræðilegt hlutverk, en ekki merkingarlegt. Ekki er unnt að fara nákvæmlega í saumana á þessu á þessum vettvangi, en í einfölduðu máli má segja að það sé notað til að koma í veg fyrir að setning hefjist á sögninni. Þetta það kemur því eingöngu fram í upphafi setningar, en hverfur sporlaust ef setningunni er breytt þannig að annar liður, svo sem andlag, atviksliður eða forsetningarliður, er settur fremst.

Við getum því sagt Það rignir mikið í Reykjavík núna, en ekki *Mikið rignir það í Reykjavík núna, *Í Reykjavík rignir það mikið núna eða *Núna rignir það mikið í Reykjavík. Því hefur verið haldið fram að tilkoma merkingarsnauðs það sé ein þeirra setningafræðilegu breytinga sem hafi orðið á íslensku á undanförnum öldum, þar eð slíkt fyrirbæri hafi ekki verið til í fornu máli. Þannig segir Jakob Jóh. Smári í Íslenzkri setningafræði frá 1920: „Nú er oft bætt inn mállægu frumlagi (það eða hann) þar, sem ekkert frumlag var að fornu.“ Ekki hefur verið kannað nákvæmlega hvenær sú breyting hafi orðið, þótt Þorbjörg Hróarsdóttir hafi sýnt fram á í meistararitgerð 1998 að mikil aukning hafi orðið í notkun slíks það í byrjun 19. aldar.

Notkun merkingarsnauðs það var lengi mjög stílbundin og margfalt meiri í talmáli og óformlegu ritmáli, svo sem einkabréfum, en í formlegri textum. Oft  hefur líka verið amast við notkun þess, a.m.k. í riti. Þannig segir Jakob Jóh. Smári í Íslenzkri setningafræði frá 1920: „Fallegast mál er að nota þetta aukafrumlag sem minst“, og Björn Guðfinnsson tekur í sama streng í Íslenzkri setningafræði frá 1943: „Bezt fer á að nota þetta aukafrumlag sem minnst“. Mörg kannast líklega við það að svipuðum sjónarmiðum hafi verið haldið að þeim í skóla. En þetta er úrelt – merkingarsnautt það er löngu komið inn í formlegt ritmál og ekkert við notkun þess að athuga þar frekar en annars staðar. Hins vegar má segja að það setji oft léttari blæ á stílinn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Heppilega tók ég eftir þessu

Í frétt á vefmiðli í gær rakst ég á setninguna „barnalæknir í sumarfríi sem heppilega átti leið hjá hlúði að honum“ og hrökk aðeins við vegna þess að mér fannst atviksorðið heppilega vera notað þarna á óvenjulegan hátt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'sem kemur sér vel' með notkunardæminu svo heppilega vildi til að læknir var nærstaddur sem er vitaskuld merkingarlega svipað dæminu í fréttinni, enda er það ekki merkingin sem truflar mig þarna heldur setningarstaðan – samkvæmt minni málkennd getur heppilega ekki staðið á þessum stað í setningu. Í hefðbundnu nútímamáli held ég að ævinlega sé hægt að setja atviksorðið vel í stað heppilega án þess að setningagerð raskist, en það er ekki hægt í tilvitnuðu dæmi.

Þegar að er gáð reynist þessi notkun heppilega ekki vera einsdæmi í umræddri frétt – allnokkur dæmi má finna um hana frá síðustu árum. Á Bland.is 2005 segir: „Höfðum heppilega sal sem við gátum fengið lánaðan.“ Í DV 2012 segir: „þrettán af eignarhaldsfélögunum fimmtán hafi heppilega verið stofnuð sama daginn.“ Í DV 2018 segir: „Hér er sögð saga konu sem hefur heppilega misst minnið kvöldið sem hún virðist hafa framið glæp.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Ég myndi segja að tískuáhugi minn hafi heppilega þróast í rétta átt undanfarin ár.“ Í Vísi 2020 segir: „hún náði í fjármálastjóra Samhjálpar sem hafði heppilega heyrt allt um vandræði Wei.“ Í engu þessara dæma væri hægt að setja vel í stað heppilega í hefðbundnu máli.

Það má líka finna töluvert af dæmum þar sem heppilega er notað í upphafi málsgreinar. Á Bland.is 2005 segir: „Heppilega er það samkomulag að við systkinin gefum ekki hvert öðru gjafir.“ Á fótbolti.net 2006 segir: „Heppilega þá fór eitt eintak af gögnum til enska knattspyrnusambandsins.“ Á Twitter 2014 segir: „Heppilega fór ég ekki í Versló.“ Í Morgunblaðinu 2014 segir: „Heppilega höfðum við betur.“ Á mbl.is 2015 segir: „Heppilega var læknir um borð.“ Í Viðskiptablaðinu 2016 segir: „Heppilega þá er þetta ykkar vandamál, ekki okkar.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Heppilega hefur ekki þurft að leita af fólki í skriðunum á Seyðisfirði.“ Í DV 2020 segir: „Heppilega hefur slíkt gengið eftir upp til hópa.“

Svona er ekki hægt að nota heppilega í hefðbundinni íslensku, en í hliðstæðum setningum á ensku væri aftur á móti eðlilegt að nota atviksorðið luckily og lítill vafi á því að þarna liggur ensk setningagerð að baki, þótt áðurnefnd dæmi séu í fæstum tilvikum þýðingar. En þótt enska lýsingarorðið lucky þýði 'heppinn' þýðir atviksorðið luckily ekki beinlínis 'heppilega', heldur 'sem betur fer' eða 'til allrar hamingju' og þau orðasambönd væri eðlilegt að nota í dæmunum hér að framan. Þarna er sem sé ekki bara verið að breyta íslenskri setningagerð, því að atviksorð þeirrar merkingar sem um ræðir getur ekki staðið á þessum stað í setningu í hefðbundnu máli, heldur líka breyta merkingu atviksorðsins heppilega úr '(sem kemur sér) vel' í 'sem betur fer'.

Elstu dæmin sem ég hef fundið um þessa notkun heppilega eru tuttugu ára gömul og af samfélagsmiðlum eins og hér hefur komið fram, en langflest dæmanna eru þó frá síðustu fimm árum, þar af mörg úr vef- og prentmiðlum. Það er því greinilegt að þessi notkun er að aukast hratt, og ekki lengur bundin við óformlegt málsnið samfélagsmiðla. Málnotendur dvelja löngum stundum í enskum menningarheimi og ekki undarlegt að þeir verði fyrir áhrifum frá enskri setningagerð og merkingu sem síast inn í íslensku án þess að fólk verði þess vart – þetta er bara eitt margra dæma um slíkt. Einstakar ábendingar eða leiðréttingar duga skammt til að hamla gegn þessari þróun – eina leiðin til að hægja á henni er að hvetja fólk til að lesa meira á íslensku.

En þótt þessi notkun heppilega sé án efa komin úr ensku á síðustu árum er hún samt ekki algjör nýjung í málinu. Í Stuttum siðalærdómi fyrir heldri manna börn frá 1799 segir: „heppilega hafði Jósep séð þetta fyrir fram.“ Í bréfi til Jóns Sigurðssonar frá 1837 segir: „Heppilega hefi eg meðtekið frá yðar góðu hendi afskrift af ýmsum merkilegum kvæðum.“ Í Nýjum félagsritum 1846 segir: „þá snerist blaðið heppilega við.“ Í Þúsund og einni nótt í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar frá miðri nítjándu öld segir: „Ferjumaður komst heppilega inn í sama fylgsnið.“ Ekki verður betur séð en þessi dæmi séu nokkurn veginn hliðstæð nútímamálsdæmunum hér að framan, en annað mál er hvort fólki finnst þau réttlæta áðurnefnda nútímanotkun heppilega.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að læsa, eða aflæsa – þarna er efinn

Í „Málspjalli“ var sögnin aflæsa og merking hennar til umræðu. Í Íslenskri orðabók er hún skýrð 'læsa, harðlæsa' og svipuð skýring, 'læsa (hurð)', er í Íslenskri nútímamálsorðabók en orðið þó merkt „gamalt“. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1922 er sögnin skýrð 'aflaase' og varla vafi á að sú danska sögn liggur að baki. Elsta dæmi um sögnina á tímarit.is er í Norðanfara 1881: „þar sofa vinnumenn í aflæstu húsi“. Í Svövu 1895 segir: „læddist hún inn í sitt eigið herbergi. Hún aflæsti dyrunum.“ Í Þjóðólfi 1893 segir: „Hjallurinn var ekki aflæstur.“ Í Þjóðviljanum unga 1896 segir: „Hann lokaði hurðinni, og aflæsti um leið.“ Í öllum þessum dæmum er ljóst að sögnin merkir 'læsa', og það gildir um öll dæmi lengst af tuttugustu öld.

En á síðasta fjórðungi aldarinnar fer að bera á annarri merkingu. Í Alþýðublaðinu 1977 segir: „Hann ákvað að snúa aftur, […] þaut af stað og aflæsti bakdyrunum, ef hann skyldi þurfa að koma þar inn.“ Í Norðurlandi 1977 segir: „Þau læstu aldrei dyrunum að kofa sínum á kvöldin til þess að þurfa ekki að hafa fyrir að aflæsa á morgnana.“ Í Vikunni 1978 segir: „Hann kinkaði kolli, þegar hann sá DeMarco. aflæsti hliðinu og opnaði það upp á gátt.“ Í Vikunni 1981 segir: „Ég aflæsti útidyrunum og steig til hliðar svo hann kæmist framhjá. Hann tvísté méðan ég lokaði og læsti.“ Í Þjóðlífi 1987 segir: „Svo dæmi séu nefnd þá eru hurðalæsingar miðstýrðar (allar hurðir læsast eða aflæsast þegar lykli er snúið í bílstjórahurðinni).“

Í þessum dæmum er augljóst að aflæsa merkir ekki 'læsa', heldur 'opna, taka úr lás'. Dæmum um þá merkingu fjölgaði smátt og smátt fram að aldamótum en tóku þá mikinn kipp. Nú held ég að megi fullyrða að í næstum öllum dæmum um sögnina sé hún notuð í nýju merkingunni. Þessi merkingarbreyting er í sjálfu sér mjög eðlileg – forskeytið af- hefur í mörgum tilvikum það hlutverk að snúa við merkingu sagnarinnar sem það tengist. Nærtækt dæmi er tengja og aftengja en fjölmörg önnur dæmi má nefna – ferma og afferma, bóka og afbóka, helga og afhelga, laga og aflaga, siða og afsiða, o.s.frv. Það er ekki óeðlilegt að málnotendur túlki aflæsa á sama hátt, enda er það mjög sérkennilegt að læsa og aflæsa skuli hafa sömu merkingu.

En það voru líklega einkum tvær tækninýjungar undir aldamótin sem ýttu undir þessa breytingu á merkingu sagnarinnar. Annars vegar var tilkoma fjarstýringa til að læsa bílhurðum og taka læsinguna af, og hins vegar tilkoma farsíma sem hægt var að læsa – eða læstust sjálfkrafa. Í báðum tilvikum var nauðsynlegt að eiga lipurt orðalag um að setja læsingu á og taka hana af, og það kallaði eiginlega á eina sögn um hvorn verknað um sig. Við þetta bættist að báðar nýjungarnar bárust okkur úr hinum enskumælandi heimi þar sem orðin lock og unlock eru notuð um þetta, og það liggur beint við að þýða þau með læsa og aflæsa. Mér finnst sjálfsagt að gera það, og líta svo á að eldri merking sagnarinnar aflæsa sé úrelt en sú nýja hin eina rétta.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er hægt að gista heima?

Í frétt Ríkisútvarpsins af gosinu á Sundhnjúksgígaröðinni í nótt sagði: „Ekki liggur fyrir hve margir gistu í Grindavík í nótt.“ Í „Málspjalli“ var spurt hvort hægt væri að nota sögnina gista um það þegar fólk dveldi heima hjá sér. Það er ekki óeðlileg spurning – gista er vissulega skylt nafnorðinu gestur og í Íslenskri orðsifjabók er sögnin skýrð 'vera um nætursakir (eða lengur) hjá e-m utan heimilis, vera gestur e-s' en í Íslenskri orðabók er hún skýrð 'vera um nætursakir, nátta sig' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'dvelja e-s staðar yfir nótt'. Í hvorugri bókinni er sem sé tekið fram að dvölin þurfi að vera utan heimilis þótt e.t.v. megi halda því fram að eðlilegt sé að lesa það út úr skýringunum. En gista á heimili sínu á sér samt langa hefð.

Í Tímanum 1942 segir: „Ef þetta hús verður byggt, verða í því […] einhver ítök fyrir þingmenn, sem búa í grennd við Reykjavík, gista heima á nóttum, en þurfa að hafa það sem kalla mætti dagheimili í bænum.“ Í Alþýðublaðinu 1955 segir: „Íslenzkir menn, sem vinna við flugvöllinn, skipta mörgum þúsundum. Meginhluti þeirra á heima í Reykjavík og sumir þeirra gista heima hvern dag.“ Í frétt um útihátíð í Viðey í Morgunblaðinu 1984 segir: „vegna þess hve hátíðarsvæðið er skammt frá borginni og samgöngur verða tíðar teljum við ekki ólíklegt að ýmsir muni gista heima og vera í Viðey á daginn.“ Í DV 1999 segir: „Nú er ég í þjálfun sem gengið hefur vel og er að verða það sjálfbjarga að ég get farið að gista heima hjá mér um helgar.“

Fjölmörg fleiri hliðstæð dæmi mætti tína til þar sem talað er um að gista heima. Eins og dæmin sýna er það venjulega þannig að fólkið sem gistir heima dvelur að verulegu leyti annars staðar, oft mikinn hluta sólarhringsins eða vikunnar, þannig að það er ekki sjálfgefið að gista heima – gistingin þar er í einhverjum skilningi óvænt, óviðbúin eða óregluleg. Í því tilviki sem um var spurt er ljóst að þetta á við. Flestir eða allir Grindvíkingar eiga sér samastað utan Grindavíkur þar sem þeir dveljast margir meira og minna enda þurfa þeir alltaf að vera undirbúnir að rýma bæinn. Gisting þeirra í Grindavík er því ekki regluleg og notkun sagnarinnar gista í umræddri frétt var þess vegna fullkomlega í samræmi við málhefð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvernig er boðhátturinn af (um)gangast?

Í „Málvöndunarþættinum“ var nýlega vakin athygli á setningunni „Umgangastu orkufólk“ á vef Dale Carnegie og spurt hvort þetta væri „góð ráðlegging“. Þarna var augljóslega verið að vísa til boðháttarins umgangastu og í umræðum var bent á að ganga væri í boðhætti gakk, og gakktu með viðskeyttu annarrar persónu fornafni – boðháttur miðmyndar ætti því að vera gakkstu, í þessu tilviki umgakkstu, vegna þess að miðmynd væri mynduð úr germynd að viðbættu -st. Þetta er þó ekki ótvírætt – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er ekki gefinn boðháttur af umgangast en um ganga segir: „Viðtekinn boðháttur er gakktu en beygingarmyndinni gangtu bregður líka fyrir.“ Í miðmynd gefur Beygingarlýsingin hins vegar boðháttinn gangstu.

Meginreglan um myndun boðháttar er að hann er eins og nafnháttur án nafnháttarendingarinnar -a, venjulega að viðbættu annarrar persónu fornafninu þú sem birtist ýmist sem -ðu, -du eða -tu eftir gerð stofnsins – far-ðu (< far þú), kom-du (< kom þú), ver-tu (< ver þú). Sögnin ganga er þó undantekning frá þessu – þar, eins og í binda sem hefur boðháttinn bittu, hafa samlaganir leitt til þess að við fáum gakk-tu og bit-tu í stað gang-tu og bin-tu, þótt áhrifsbreytingar valdi því að við fáum oft gangtu og bintu. En að því gefnu að miðmynd sé leidd af germynd með því að bæta -st við, og boðháttur germyndar sé gakk+tu – sem er hin viðurkennda mynd þótt hún sé ekki algild eins og áður segir – ætti boðháttur miðmyndar að vera gakk+st+u.

Boðháttur af miðmyndinni gangast kemur vart til greina af merkingarlegum ástæðum nema í sambandinu gangast við einhverju. „Vertu ekki eins og saltstólpi, heldur gakkstu við ábyrgð þinni“ segir í Morgunblaðinu 1990 og er það eina dæmið sem ég finn um boðháttinn. Örfá dæmi eru hins vegar um boðhátt af umgangast. Í Þjóðviljanum 1955 segir: „umgakkstu þennan stað eins og það væri skrúðgarðurinn heima hjá þér.“ Í Vikunni 1963 eru þrjú dæmi, m.a: „umgakkstu þá vini þína sem þér þykja skemmtilegir.“ Í Morgunblaðinu 1985 segir: „umgakkstu þá vini þína sem þér þykja skemmtilegir.“ Í DV 1980 segir: „umgangstu meira manneskju sem á erfitt með að eignast kunningja.“ Í DV 2005 segir: „Umgangstu fólk sem er hamingjusamt.“

Þarna eru sem sé fimm dæmi um boðháttinn umgakkstu, þar af þrjú augljóslega nátengd, og tvö um boðháttinn umgangstu. Í Risamálheildinni eru 140 dæmi um boðháttinn gangtu, á móti rúmlega 720 um gakktu, en ekki eitt einasta dæmi um boðhátt miðmyndar – hvorki af gangast umgangast. Í ljósi þess að Risamálheildin hefur að geyma hátt í þrjá milljarða orða er enginn vafi á því að umræddar myndir eru afspyrnu sjaldgæfar – svo sjaldgæfar að engar líkur eru á að venjulegir málnotendur kunni þær utan að, geymi þær í minni sínu. Það þýðir auðvitað ekki að við getum ekki beitt þeim ef á þarf að halda – það þýðir hins vegar að við þurfum að búa þær til hverju sinni út frá þeim reglum sem við höfum tileinkað okkur. En hverjar eru þær?

Ein regla er vissulega sú sem áður var nefnd, að sérhver beygingarmynd miðmyndarinnar sé leidd af samsvarandi beygingarmynd germyndar með viðbættu -st. En annar möguleiki er að gera ráð fyrir að það sé aðeins grunnmynd miðmyndarinnar, nafnhátturinn, sem sé leidd af germyndinni á þennan hátt – þ.e. gang-a > gang-a-st. Þegar einu sinni er búið að leiða miðmyndina út sé hún síðan beygð eftir almennum reglum málsins, óháð germyndinni. En ef við myndum boðhátt miðmyndarinnar (um)gangast beint af nafnhættinum eins og almenna reglan er, í stað þess að mynda hann af boðhætti germyndarinnar, fáum við ekki (um)gakk-st-u, heldur (um)gang-a-st-u – sem er einmitt myndin sem vitnað var til í upphafi.

Sumar beygingarmyndir sumra orða eru svo sjaldgæfar að litlar líkur eru á að málnotendur hafi nokkurn tíma rekist á þær, og engar líkur á að þeir kunni þær utan að. Sem betur fer gerir málhæfnin okkur kleift að búa til myndir sem við kunnum ekki út frá þeim reglum sem við kunnum – og stundum getur verið val um það hvaða reglu við beitum, og ómögulegt að halda því fram að ein leið sé rétt en önnur röng. Nú ætla ég alls ekki að fara að mæla með myndinni (um)gangastu – ég er bara að benda á að hún er mynduð í samræmi við almenna reglu í málinu. Við getum auðvitað haft þá skoðun að þarna hefði fremur átt að beita annarri reglu, en í stað þess að ergja okkur yfir því ættum við fremur að gleðjast yfir sköpunarmætti málsins.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nú er Gunna á nýju skónum

Eins og alkunna er og ég hef stundum skrifað um skarast notkunarsvið forsetninganna á og í mjög oft. Oft er hægt að nota þær báðar með sömu eða hliðstæðum nafnorðum – stundum í sömu merkingu en oftast er þó einhver blæbrigðamunur á. Einn hópur orða þar sem báðar forsetningar eru notaðar en í aðeins mismunandi hlutverkum eru orð um fatnað. Við förum í föt og erum í fötum – þar er ekki hægt að nota á. Hins vegar er oft hægt að nota á um tilteknar flíkur við tilteknar aðstæður. Í kvæðinu „Aðfangadagskvöld“ eftir Ragnar Jóhannesson er Gunna á nýju skónum, Siggi á síðum buxum og Solla á bláum kjól. Hins vegar væri tæpast hægt að segja Gunna er á skóm, Siggi er á buxum og Solla er á kjól – þar yrði að vera í.

Það virðist sem í sé hin sjálfgefna og hlutlausa forsetning um föt – hún er notuð til að tilgreina að fólk sé klætt í tiltekinn fatnað, án þess að honum sé lýst nánar. Þegar fatnaðinum er lýst á einhvern hátt, tegund flíkur tilgreind eða vísað til tiltekinnar flíkur er hins vegar hægt að nota á, eins og í dæmunum hér að framan. Um þetta mætti taka fjölmörg dæmi. Það er tæpast hægt að vera á sokkum, en á sextándu öld var uppi kona sem var kölluð Ragnheiður á rauðum sokkum. Það er ekki heldur hægt að vera á treyju en Valtýr á grænni treyju er þekkt þjóðsagnapersóna. Þótt tæpast sé hægt að vera á skóm er til bók sem heitir Strákur á kúskinnsskóm. Það er líka hægt að vera á blankskóm, á stuttbuxum o.m.fl.

Forsetningin á er sem sé yfirleitt ekki notuð með dæmigerðum orðum um tilteknar flíkur, eins og buxur, skyrta, kjóll, sokkar, skór o.fl., nema þeim sé lýst nánar, annaðhvort með lýsingarorði eða í samsettu orði. Ef hún er notuð með slíkum orðum er yfirleitt um eitthvað óvenjulegt er að ræða. „Þér vil eg kenna að þekkja sprund / sem þar á buxum ganga“ kvað Sigurður Breiðfjörð eftir Grænlandsdvöl sína. Á þessum tíma þekktist það ekki á Íslandi að konur klæddustu buxum og þess vegna er á buxum eðlilegt. Í vísu eftir Símon Dalaskáld um Steingrím bónda á Silfrastöðum segir: „Hann er á tíu buxum“ (eða í annarri útgáfu „stendur á tíu buxum“) – það er vitanlega óvenjulegt að klæðast svo mörgum buxum og þess vegna er notað á.

Það eru ýmis tilbrigði í þessu og væntanlega munur milli málnotenda á því hvenær eðlilegt þykir að nota á, og þótt hægt sé að nota á við tilteknar aðstæður virðist það aldrei vera skylda – alltaf er hægt að nota í, líka þar sem á væri mögulegt. Gott dæmi um það er að finna í laginu „Sandalar“ þar sem Laddi syngur „Í sandölum og ermalausum bol“. Það er alveg eðlilegt, en vegna þess að sandalar er ekki hlutlaust orð um skó heldur ákveðin tegund, og bolnum er lýst – hann er ermalaus – gæti hann eins sungið Á sandölum og ermalausum bol. Það er líka ljóst af dæmum á netinu að iðulega er vitnað í þessa ljóðlínu með á – í Risamálheildinni eru t.d. fjórtán dæmi með í en tíu með á, sem sýnir að mörgum málnotendum finnst eðlilegt að hafa á þarna.

Þetta á við notkun forsetninganna með greinislausum nafnorðum en öðru máli gegnir þegar nafnorðið hefur ákveðinn greini. Yfirleitt er ekki hægt að nota ákveðinn greini nema orðið sem um er að ræða hafi verið nefnt áður. Þess vegna getum við ekki sagt ég er í skyrtunni nema vísað sé til ákveðinnar skyrtu sem búið er að nefna. En notkun með á lýtur ekki þeim reglum – við getum sagt ég er á skyrtunni án þess að nokkur skyrta hafi verið nefnd. Þar er hins vegar ekki vísað til tiltekinnar skyrtu, heldur verið að lýsa því hvernig ég er klæddur. Nafnorðið vísar til þess í hverju er verið yst klæða, og forsendan fyrir því að nota á og ákveðinn greini með heiti flíkur er sú að klæðnaðurinn sé lítill, eða minni en við væri að búast við tilteknar aðstæður.

Þannig getum við sagt ég er á brókinni, ég er á bolnum, ég er á skyrtunni, ég er á náttfötunum, ég er á sokkaleistunum, ég er á inniskónum o.fl. vegna þess að sá klæðnaður er frekar lítill við flestar aðstæður, en ekki *ég er á úlpunni, *ég er á buxunum eða slíkt vegna þess að sá klæðnaður er varla nokkurn tíma minni en við væri að búast. Oft fer það eftir aðstæðum hvort hægt er að nota á og ákveðinn greini – þótt við gætum sagt ég er á peysunni í hörkufrosti um hávetur væri það mjög óeðlilegt í sumarhita. Í óformlegu máli og með óformlegum orðum hefur þessi notkun á og ákveðins greinis víkkað út og nær til þess að vera ekki bara léttklæddur heldur í alls engu – talað er um að vera á túttunum, vera á pjöllunni, vera á sprellanum o.fl.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kjarnorkuákvæðið

Hið svokallaða kjarnorkuákvæði er mjög til umræðu þessa dagana. Þar er vísað til 71. greinar Laga um þingsköp Alþingis þar sem segir m.a.; „Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd. Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.“ En hvers vegna er þetta kallað kjarnorkuákvæði?

Þetta er bein þýðing á the nuclear option sem vísar til ákvæðis sem unnt er að nota til að stöðva málþóf í öldungadeild Bandaríkjaþings. Þar kom heitið upp árið 2003 og vísar til þess að beiting ákvæðisins sé örþrifaráð sem geti haft alvarleg og eyðileggjandi áhrif á báða deiluaðila, rétt eins og beiting kjarnorkusprengju. Elsta dæmi sem ég þekki um orðið kjarnorkuákvæði í íslensku er í viðtali í Morgunblaðinu 2012 en þar segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sem þá var í stjórnarandstöðu: „Mér finnst ólíklegt að ríkisstjórnin muni beita því sem í daglegu tali er kallað kjarnorkuákvæðið og hefur ekki verið beitt, að mér skilst, síðan 1949 þegar það urðu óeirðir á Austurvelli vegna aðildar að Nató.“

Ákvæðið hefur reyndar verið notað eftir það, en það skiptir ekki máli hér. En þótt Sigmundur Davíð hafi vísað til þess árið 2012 að orðið sé notað „í daglegu tali“ er ekkert sem bendir til þess að svo hafi verið og ekki ólíklegt að hann hafi sjálfur komið með orðið úr ensku inn í íslenska umræðu. Þrátt fyrir að umrætt ákvæði hafi lengi verið í þingsköpum og málþóf hafi margoft verið stundað á Alþingi bæði fyrr og síðar, og leiðir til að stöðva það hafi iðulega verið til umræðu, kemur orðið kjarnorkuákvæði aðeins fyrir í þetta eina skipti svo að ég viti fram til 2019. Þá brá því fyrir nokkrum sinnum í umræðu um að stöðva málþóf Miðflokksins um þriðja orkupakkann, en hefur svo lítið sést aftur fyrr en nú þegar það er í öllum fréttum.

Orðið kjarnorkuákvæði er vitanlega mjög gildishlaðið og augljóslega notað sem grýla til að fæla frá notkun ákvæðisins. Það er líka augljóst hvernig tilkoma orðsins hefur breytt umræðunni um ákvæðið – ekkert bendir til þess að beiting þess í fyrri skipti hafi haft alvarlegar afleiðingar og áður var stundum rætt um beitingu þess án þess að nokkuð væri ýjað að alvarlegum afleiðingum. „Það eru leiðir í þingsköpum til þess að stöðva málþóf. Í þingsköpum er að finna 71. greinina. Hún er enginn helgidómur og hefur aldrei verið“ sagði Ólína Þorvarðardóttir þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu 2013. Þetta er mjög gott dæmi um það hvernig orð eru notuð í pólitískum tilgangi til að stýra umræðu og móta skoðanir fólks.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kynusli í knattspyrnulýsingum

Lýsingar og viðtöl frá Evrópumóti kvenna í knattspyrnu eru hreint hunang fyrir áhugafólk um mál og kyn. Þar koma nefnilega upp ýmsir árekstrar milli málfræðilegs kyns og kyns þeirra sem um er rætt og það er mjög áhugavert hvernig þeir árekstrar eru leystir. Annars vegar koma þeir fram í máli karlkyns þjálfara þegar þeir tala um lið sitt og frammistöðu þess. Þjálfarinn er auðvitað ekki að spila og ekki beinlínis hluti af liðinu og því lægi beinast við að hann talaði um það í kvenkyni og notaði þriðju persónu fornafnið þær. Samt sem áður er ekki óeðlilegt að hann samsami sig liðinu og telji sig eiga hlut í frammistöðu þess, hvernig sem hún er, og noti þess vegna fornafn fyrstu persónu fleirtölu, við. En hvaða kyn lýsingarorða og fornafna á að nota?

Meginreglan í íslensku er auðvitað sú að nota hvorugkyn fleirtölu í vísun til kynjablandaðs hóps og þess vegna mætti búast við að karlkyns þjálfari kvennaliðs segði við vorum góð, við vorum léleg o.s.frv. En einhvern veginn hljómar það samt undarlega að karlkyn þjálfarans dugi til að breyta kyninu úr kvenkyni í hvorugkyn, í ljósi þess að hann er ekki að spila og lýsingarorðið vísar til frammistöðu kvennanna sem eru inni á vellinum. Ég man fyrst eftir því að hafa tekið eftir því hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni sem var þjálfari kvennalandsliðsins fyrir rúmum áratug að hann notaði kvenkyn fleirtölu – „mér fannst við óheppnar að tapa þessum leik“ og „Svo vorum við óheppnar á móti Kína“ sagði hann t.d. í viðtali við fótbolta.net árið 2009.

Mér fannst þetta dálítið undarlegt á sínum tíma en um leið áttaði ég mig á því að þetta væri líklega skásta leiðin – þótt karlkyn sé notað í kynhlutlausri merkingu í hefðbundnu máli er það ótækt þarna, og hvorugkynið fannst mér ekki heldur alveg eðlilegt eins og áður segir. En þetta er með ýmsu móti – mér sýnist að eftirmaður Sigurðar Ragnars, Freyr Alexandersson, hafi yfirleitt notað hvorugkyn fleirtölu, t.d. „við spiluðum taktískt mjög vel og vorum góð í leiknum“ og „við erum bara hörmuleg í leiknum gegn Austurríki“ í viðtali í DV 2017. Mér hefur líka heyrst að núverandi landsliðsþjálfari, Þorsteinn Halldórsson, noti oft hvorugkyn fleirtölu –  talar um að við þurfum að „vera bara svolítið við sjálf“, „vera óttalaus“ o.fl.

Það er hins vegar erfitt að skoða þetta vegna þess að ekki er alltaf hægt að treysta því hvernig fjölmiðlar vinna úr viðtölum. Í nýlegri frétt DV byggðri á viðtali við Þorstein Halldórsson um tapleik gegn Sviss er haft eftir honum „við vorum ekki nógu góð í dag til að klára þennan leik“ – sem hann sagði örugglega ekki, samkvæmt upptöku af viðtalinu. Í frétt á vef Ríkisútvarpsins byggðri á sama viðtali er haft eftir Þorsteini „við vorum ekki nógu góðar til að klára þennan leik“ – sem hann gæti hafa sagt en mér heyrist hann jafnvel segja „við vorum ekki nógu góðir“. Í frétt á Vísi 2023 um annan leik er haft eftir Þorsteini „Hefðum mátt vera aðeins rólegri þegar við vorum komnar þangað“ en mér heyrist hann segja „þegar við vorum komin þangað“.

Annað atriði sem kemur upp varðar þjóðaheiti sem öll eru karlkyns í íslensku – Danir, Svíar, Frakkar, Ítalir, Englendingar o.s.frv. Ég hef áður bent á að þótt þessi heiti séu að nafninu til kynhlutlaus, vísi til fólks af öllum kynjum, eru skýrar vísbendingar um að margir málnotendur noti þau síður um konur og vísi oft til þeirra á annan hátt. Þess vegna kom það mér ekkert á óvart þegar ég heyrði „Frakkarnir virðast vera frústreraðar“ í lýsingu í gær – lýsingarorðið var sem sé í kvenkyni fleirtölu þrátt fyrir að eiga við karlkynsorðið Frakkar. Ég hafði ekki tekið eftir þessu áður en það virðist samt ekki vera alveg nýtt – í viðtali við Sigurð Ragnar Eyjólfsson á vef KSÍ 2013 sagði hann: „Svíar eru mjög hreyfanlegar, duglegar að hreyfa sig án bolta.“

Vissulega er löng hefð fyrir merkingarlegri sambeygingu með ákveðnum orðum sem oftast vísa til kynjablandaðs hóps, eins og foreldrar og krakkar sem oft taka með sér lýsingarorð og fornöfn í hvorugkyni þrátt fyrir að vera karlkynsorð – foreldrar mínir eru skilin, krakkarnir voru þæg. Á undanförnum árum hefur slík sambeyging færst í vöxt eins og ég hef skrifað um – nú er oft notað kvenkyn með karlkynsorði sem vitað er að vísar til konu, eins og forsetinn var viðstödd. Samt sem áður myndi flestum líklega þykja setning eins og Svíar eru mjög hreyfanlegar ótæk við venjulegar aðstæður. Í þessu samhengi finnst mér hún þó fullkomlega eðlileg – það hljómar undarlega að nota karlkyn lýsingarorðs þarna þegar ljóst er að eingöngu er vísað til kvenna.

Þarna eru ýmis tilbrigði og því fer fjarri að allir karlkyns þjálfarar kvennaliða noti kvenkyn fleirtölu þegar þeir tala um sig og lið sitt, og því fer líka fjarri að allir lýsendur kvennaleikja noti kvenkyn lýsingarorða með karlkyns þjóðaheitum. En mikilvægt er að átta sig á að þarna er ekki um að ræða meðvitaðar breytingar á málinu í átt til kynhlutleysis. Þótt oft sé – með réttu – lögð áhersla á að ekki megi setja samasemmerki milli málfræðilegs kyn og kyns fólks breytir það því ekki að í huga málnotenda eru oft mjög sterk tengsl þarna á milli, og í þessum dæmum eru almennir málnotendur bara að nota það kyn lýsingarorða og fornafna sem þeim finnst eðlilegast hverju sinni út frá málkennd sinni. Engin ástæða er til að gera athugasemdir við það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ódýrt verð

Í „Málvöndunarþættinum“ var vitnað í frétt á síðu Ríkisútvarpsins þar sem sagði „Þar er hægt að fá allt á milli himins og jarðar á mjög ódýru verði“ og spurt hvort þetta væri „orðin góð og gild íslenska“? Um það má vitanlega deila – í Málfarsbankanum segir: „Vörur geta verið dýrar eða ódýrar en verð þeirra ekki. Í því sambandi er frekar talað um hátt eða lágt verð.“ Samt sem áður er ljóst að löng hefð er fyrir því að nota lýsingarorðin dýrt og ódýrt með nafnorðinu verð – og einnig fyrir gagnrýni á þá málnotkun. Í ritdómi Jóns Ólafssonar um ljóðmæli Einars H. Kvaran í Heimskringlu 1893 segir: „Verðið er gífrlega dýrt.“ Í svari Einars í Lögbergi sama ár segir: „Jeg hef aldrei fyrr heyrt talað um „dýrt verð“ heldur „hátt verð“ og „dýra hluti“.“

Jón lét Einar vitanlega ekki eiga neitt hjá sér og benti á að sambandið dýru verði keypt kemur fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584 þar sem segir í Fyrra Korintubréfi: „Þér eruð dýru verði keyptir“. Þetta samband er vitaskuld mjög algengt í málinu og hefur lengi verið, og tæpast dettur nokkrum í hug að amast við því. En lýsingarorðin dýrt og ódýrt eru líka notuð með verð í öðru samhengi þótt það sé ekki eins algengt. Í Íslendingi 1875 segir: „Nú fær austanmaðurinn útlendu vörurnar hjá kaupmönnum með eins ódýru verði, eins og nærsveitamaðurinn.“ Í Ísafold 1894 segir: „Jeg undirskrifuð tek að mjer að sauma karlmannsfatnað og önnur föt, fyrir ódýrt verð.“ Í Morgni 1927 segir: „Alt, sem mikils er vert, kostar fyrirhöfn og dýrt verð.“

Í Risamálheildinni eru þúsundir dæma um dýrt og ódýrt með verð, meginhlutinn í þágufalli, með sögnunum kaupa, selja, gjalda og borga, og með forsetningunni á á (ó)dýru verði. En talsvert er einnig af dæmum um nefnifall, í samböndum eins og (ó)dýrt verð og verðið er/var (mjög) (ó)dýrt. Þetta er hliðstætt við dýr og ódýr fargjöld sem einnig er oft amast við og ég hef skrifað um. Ýmsum finnst þetta vissulega órökrétt en það skiptir ekki máli – tungumálið er ekki og á ekki að vera fullkomlega rökrétt enda eru ótal dæmi um annað. Bæði (ó)dýr verð og (ó)dýr fargjöld á sér langa hefð í málinu, er mjög útbreitt og hlýtur að teljast rétt mál samkvæmt öllum viðmiðum. Það táknar auðvitað ekki að fólk sem fellir sig ekki við þetta þurfi að taka það upp.