Úr forskeyti í rót – endurtúlkun ör-

Forskeytið ör- er gamalt í málinu og tengist nafnorðum, lýsingarorðum og sögnum – „merking mismunandi, aðallega ýmist neitandi eða herðandi“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Í Orðum, öðru bindi Íslenskrar tungu, segir Guðrún Kvaran að orðið sé notað í fleiri en einni merkingu: „Ein þeirra gefur orði neikvæða merkingu sem í er fólgin einhvers konar smækkun eins og öreigi 'sá sem ekkert á', örvænta 'vænta einskis', örmagna 'sá sem ekki hefur magn, kraft'. Það getur einnig gefið orði, sem í eðli sínu er neikvætt, jákvæða merkingu, til dæmis öruggur 'sá sem engan ugg, ótta hefur'.“ Einnig getur það „haft merkinguna 'mjög' í smækkandi merkingu þegar því er skeytt framan við lýsingarorð, til dæmis örsmár, örlítill, örsnauður“.

En merking og hlutverk ör- hefur breyst – í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt sem 'fyrri liður samsetninga sem táknar e-ð mjög smátt'. Líklegt er að þessi merkingarbreyting stafi af endurtúlkun forskeytisins í orðum eins og örlítill og örsmár. Í stað þess að skilja fyrri liðinn sem herðandi í merkingunni 'mjög' hafi málnotendur farið að skilja orðið á sama hátt og t.d. agnarlítill sem merkir 'lítill eins og ögn' og túlkað örlítill sem 'lítill eins og ör' (þótt ör sé ekki til sjálfstætt í þessari merkingu). Heildarmerking orðsins færist því í raun yfir á forliðinn og hann fer að lifa sjálfstæðu lífi í þeirri merkingu og taka þátt í nýjum samsetningum. Í þessu nýja hlutverki er eiginlega eðlilegt að líta á ör- sem rót fremur en forskeyti, hliðstætt t.d. smá-.

Eitt elsta orðið af þessu tagi er líklega öreind sem er þýðing á particle og er síðan snemma á 20. öld. En einhvern tíma á öldinni var farið að nota ör- sem þýðingu á forliðnum micro- og við það hljóp mikill vöxtur í notkun þess, einkum í tengslum við margvíslegar tækni- og samfélagsnýjungar. Í nýlegum orðum eins og örbylgjaörforrit, örfyrirtæki, örgjörvi, örgreining, örmerki, örnámskeið, örríki, örskipun, örskynjari, örtækni, örtölva og ótalmörgum öðrum samsvarar ör- yfirleitt micro- þótt stöku sinnum sé það einnig notað sem þýðing á mini- (sem annars er oftast þýtt smá-) og jafnvel nano-. Þessi liður er einstaklega lipur í samsetningum og sjálfsagt að nýta hann til að smíða ný orð, eins og t.d. örnám fyrir micro-credentials.

Hvernig upplifið þið merkinguna í upplifun?

Sögnin upplifa og nafnorðið upplifun voru hér til umræðu í gær. Þessi orð hafa ekki alltaf þótt vönduð íslenska – í móðurmálsþætti Vísis 1956 sagði Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Sögnin að upplifa eitthvað er mjög notuð nú, en hún er tekin beint úr dönskunni, opleve noget. Hún fer illa í íslenzku, og samkvæmt ísl. málvenju virðist hún hljóta að merkja endurlifa, lifa eitthvað upp aftur. Fólk upplifir hið líklegasta og ólíklegasta, upplifir skemmtanir, upplifir daga, upplifir jafnvel störf. Ætti að forðast að taka þannig til orða, enda er auðvelt að komast hjá því.“ Seinna sama ár var sögnin aftur tekin fyrir í þættinum og sagt: „Ávallt er hægt að nota íslenzka sögn þar sem upplifa er notuð, svo sem lifa, reyna, þola, eiga, vinna o.s.frv.“

Sama gildir um nafnorðið upplifun en Baldur Jónsson benti á að viðskeytið -un væri yfirleitt aðeins notað til að mynda verknaðarnafnorð af sögnum sem enda á -aði í þátíð en ekki af svokölluðum ȇ-sögnum eins og lifa en frá því væru þó undantekningar. „Helst eru innlifun og upplifun, hálfdanskrar ættar, sbr. d. indleve og opleve (þar af ísl. upplifa) […]“ og Baldur taldi að í raun og veru væru „slík orð rangmynduð“. Elsta dæmi um upplifa á tímarit.is er frá 1893 en elsta dæmi um upplifun frá 1938. Tíðni beggja orða jókst lengi smátt og smátt, en mjög hratt eftir 1980 – alls eru yfir hundrað þúsund dæmi um sögnina og um fimmtíu þúsund um nafnorðið. Þetta er því enn eitt dæmi um að ábendingar í málfarsþáttum hafi lítið að segja.

En umræðan í gær snerist ekki um uppruna orðanna upplifa og upplifun heldur merkingu þeirra og notkun. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið skýrt 'góð eða áhrifarík reynsla sem maður verður fyrir' með dæminu tónleikarnir voru alveg einstök upplifun. Sögnin er skýrð 'verða fyrir ákveðinni reynslu' og eitt notkunardæmið er ‚amma hefur upplifað ýmislegt um dagana‘ sem fellur vel að skýringunni. En sögninni fylgja tvö önnur notkunardæmi – hann fór vestur til að upplifa magnaða orku jökulsins og hvernig upplifðuð þið skólagönguna á þeim tíma?. Í þessum dæmum er merkingin eiginlega frekar 'skynjun, tilfinning' en 'reynsla'. Vissulega er ekki alltaf mikill munur á þessu en hann getur samt verið mikilvægur.

Þessi merkingarmunur endurspeglast í setningagerðinni. Ef merkingin er 'reynsla' tekur upplifa oftast með sér nafnorð sem andlag – „Börn sem hafa upplifað hungursneyð þroskast ekki eðlilega“ segir í Morgunblaðinu 2017, „Það er ekkert auðveldara að upplifa trúnaðarbrot í nánu sambandi“ segir í Fréttablaðinu 2019. Ef merkingin er 'skynjun, tilfinning' getur upplifa einnig tekið nafnorðsandlag, eins og „Ég skil samt að hann upplifir höfnun“ í Vísi 2019, en oftast tekur hún samt persónu- eða ábendingarfornafn að viðbættum samanburðarlið eða aukasetningu, oft með þannig eða svo – „Starfsfólkið upplifði þetta sem vantraust“ segir í Vísi 2011, „Ég upplifi það þannig að fólk hafi fengið alla þá aðstoð sem það þurfti“ segir í Morgunblaðinu 2015.

Merkingin 'reynsla' er væntanlega eldri eins og orðabókaskýringar benda til, en 'skynjun, tilfinning' virðist vera aðalmerkingin í seinni tíð. Meginmunurinn er sá að reynsla er hlutlæg en skynjun eða tilfinning huglæg. Þess vegna er ekki hægt að draga reynslu í efa eða hafna henni nema með rökum en skynjun eða tilfinning er einstaklingsbundin – þar verður rökum ekki við komið á sama hátt. Umræðan í gær spratt einmitt af því að málshefjanda fannst orðin upplifa og upplifun iðulega notuð til að draga úr vægi þess sem sagt er – til að benda á að ekki væri um óumdeildar staðreyndir að ræða heldur einstaklingsbundna skynjun eða tilfinningu og gefa þar með í skyn, meðvitað eða ómeðvitað, að önnur hlið kynni að vera á málinu.

Um þetta er auðvelt að finna fjölda dæma. Í Morgunblaðinu 2007 segir: „Starfsfólk Tryggingastofnunar harmar að upplifun Rögnu Bjarkar af samskiptum við Tryggingastofnun skuli vera á þann veg sem hún lýsir.“ Í fyrirsögn í DV 2010 segir: „KB ráðgjöf harmar upplifun feðgina.“ Í Vísi 2016 segir: „Þykir mjög leitt að upplifun Helgu hafi verið á þennan veg.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2018 segir: „Stjórninni þykir leitt að upplifun fráfarandi starfsmanna hafi verið með þessum hætti.“ Á mbl.is 2020 segir: „Ragnar segir […] að honum þyki leitt að upplifun félagsmanna skuli vera með þessum hætti.“ Á Vísi 2024 segir: „Spítalinn telji afar miður að upplifun […] hafi verið sú að ekki væri hlustað á áhyggjur hennar og ábendingar.“

Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við að nota upplifun og upplifa á þennan hátt, en það er hins vegar ljóst að þau sem tala um upplifun í þessum dæmum telja að umrædd upplifun sé ekki í fullu samræmi við staðreyndir. Það er vitanlega rétt að fólk upplifir hlutina oft öðruvísi en þeir eru í raun og veru, en upplifunin skiptir samt máli og það er mikilvægt að hlusta á hana og taka tillit til hennar. Þess vegna er óheppilegt ef orðin eru notuð til að draga úr vægi þess sem haldið er fram og jafnvel höfð um eitthvað sem ekki byggist á skynjun eða tilfinningu heldur beinlínis reynslu, eins og ef sagt er að það sé slæmt að fólk upplifi að það komist ekki að hjá lækni. Það er ekkert víst að orðin séu alltaf notuð svona viljandi, en mikilvægt að hafa þetta í huga.

Að lifa eins og blóm í eggi

Í Málvöndunarþættinum sá ég bent á – ekki í fyrsta skipti – að algengt væri að tala um að lifa eins og blóm í eggi þegar átt væri við blómi í eggi. Í eðlilegum framburði fellur áherslulaust sérhljóð reyndar ævinlega brott í enda orðs ef næsta orð hefst á sérhljóði og þess vegna er útilokað að greina milli blóm í eggi og blómi í eggi í töluðu máli, en oft er gerð athugasemd við rugling í riti. Í Skírni 1975 segir Helgi J. Halldórsson: „Oft heyrist sagt og sést ritað að lifa eins og blóm í eggi. En það er auðvitað ekkert blóm í egginu heldur blómi, kk., vb., þ.e. rauðan.“ Á barnasíðu Morgunblaðsins 1997 segir: „Blómi getur merkt eggjarauða og það er alls ekki verið að tala um eitt einasta blóm þegar sagt er blómi í eggi – alls ekki segja né skrifa blóm í eggi.“

En hér er ekki allt sem sýnist. Í Merg málsins segir Jón G. Friðjónsson: „Elsta og jafnframt algengasta mynd orðatiltækisins er frá 18. öld: lifa sem blóm í eggi […] en afbrigðið með blómi er kunnugt frá síðari hluta 20. aldar […]. Líkingin er dregin af eggi en eggjarauðan nefnist blóm, hk. og blómi, kk.“ Afbrigðið blómi í eggi er reyndar eldra en Jón telur – elsta dæmi um það er í Ísafold 1908: „Hér hefir þú lifað, Stafa, eins og blómi í eggi.“ Hvorugkynsmyndin blóm í þessari merkingu er a.m.k. frá fyrri hluta 18. aldar – elsta dæmi um hana er í Fjórðu bók um þann sanna kristindóm eður náttúrunnar bók eftir Johann Arndt frá 1732: „og líkja þeir þeim við eitt egg, í hverju að fyrst er það hvíta, og síðan blómið, sem situr mitt í því hvíta.“

Karlkynsmyndin blómi í þessari merkingu er mun yngri – ég hef ekki fundið eldri dæmi um hana en áðurnefnda setningu í Ísafold 1908, og hún er ekki gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – þar er sambandið lifa eins og blóm í eggi hins vegar undir blóm sem sagt er notað í merkingunni 'Blommen i et Æg' í talmáli. Í Íslenskri orðsifjabók segir: „Merkingin 'eggjarauða' í ísl. orðunum blóm og blómi er vísast tökumerking úr dönsku.“ Líklegt er að síðarnefnda orðið hafi fengið þessa merkingu vegna misskilnings á sambandinu blóm í eggi – vegna samfalls í framburði hafi málnotendur getað skilið það svo að þar væri um að ræða orðið blómi sem er gamalt í málinu í samböndum eins og vera í blóma lífsins, standa með blóma o.fl.

Trúlegt er að fólk hafi fundið merkingarlegan skyldleika með þessum samböndum og sambandinu lifa eins og blóm í eggi og það sé ástæðan fyrir þeirri lífseigu skoðun að blómi sé „réttara“ en blóm í þessu sambandi. Eðlilega er fólk yfirleitt með í huga hina venjulega merkingu orðsins blóm, '(skrautlegur) hluti plöntu eða trés', '(potta)planta', eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók, og finnst hún ekki eiga við. Enda hefur orðið ekki þá merkingu í þessu sambandi, en vegna þess að það kemur aldrei fyrir annars er ekki við því að búast að málnotendur átti sig á því hvaða merkingu það hefur þarna. En þótt blóm í eggi sé ótvírætt upphaflegra en blómi í eggi er vitaskuld komin hefð á síðarnefndu gerðina líka.

Hitt er svo annað mál að þótt enginn vafi sé á að í sambandinu lifa eins og blóm í eggi hafi blóm upphaflega merkinguna 'eggjarauða' er trúlegt að nútíma málnotendur skilji þetta yfirleitt svo að þarna merki blóm '(skrautlegur) hluti plöntu eða trés' – þau sem telja blóm í eggi rangt nota þann skilning sem rök fyrir því að myndin blómi sé sú rétta eins og fram kom í upphafi. Þau sem nota blóm í eggi þrátt fyrir þennan skilning láta það væntanlega ekki trufla sig að þetta sé ekki „rökrétt“ – enda er engin ástæða til þess. Í málinu úir og grúir af orðum og orðasamböndum sem strangt tekið eru ekki „rökrétt“ eða hafa „brenglast“ eða „afbakast“ á ýmsan hátt – en við notum þau samt vandræðalaust, af því að þau hafa öðlast hefð og við vitum hvað þau merkja.

Pása

Nafnorðið pása er mjög algengt í málinu en í Íslenskri orðabók er það sagt „óformlegt“ enda úr ensku eða dönsku, pause. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er það gefið athugasemdalaust og skýrt 'stutt hlé frá e-u, t.d. vinnu, námi'. Elsta dæmi um orðið á tímarit.is er úr gamanblaðinu Speglinum 1945: „Hér verður dálítil pása, meðan fundarmenn klappa.“ Lengi vel, allt fram yfir 1970, var orðið nær eingöngu haft um hlé á spilamennsku, yfirleitt á dansleikjum. Í Jazzblaðinu 1949 segir: „í allan þennan tíma fengu þeir aðeins tuttugu mínútna ,,pásu“.“ Í sama blaði 1950 segir: „Ég spilaði oft í „pásum“ fyrir trommuleikara“ og „Hann lék á skólaböllum með Óla Gauk og Steina Steingríms – tók í píanóið í ,,pásu“. Orðið var þá mjög oft innan gæsalappa.

Eftir 1970 var hins vegar smátt og smátt farið að nota orðið pása um ýmiss konar önnur hlé, einkum á vinnu, og hætt var að hafa það innan gæsalappa, jafnframt því sem tíðni þess margfaldaðist. Í Tímanum 1972 segir: „Það voru sko engar pásur á bænum þeim, bara unnið í striklotu, klukkustundum saman. Frændurnir voru heppnari. Þeir fengu pásur á eftir hverri röð.“ Í Morgunblaðinu sama ár segir: „Ég er búin að vinna hér á fjórða mánuð og einstaka sinnum fæ ég pásu. Pásurnar eru fínar.“ Í Vísi 1973 segir: „Þegar blaðamennirnir komu í æfingarstöð lögreglunnar á Seltjarnarnesi, var pása hjá nemendum í lögregluskólanum.“ Tíðni orðsins hefur haldið áfram að aukast undanfarna áratugi, einkum eftir aldamót.

En pása er ekki bara nafnorð – eins og í ensku er orðið líka notað sem sögn en sú notkun er nýrri og hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi sem ég finn um sögnina er í Degi 1993: „nú ætlaði hann að pása frá söginni og ræða dálítið um hugðarefni sitt.“ Annað dæmi er í Orðlaus 2003: „Þeir útvöldu sem fá vinnu nýta flestir hvert tækifæri til að pása, hangsa í matartímum og reykingapásum.“  Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Ég pásaði í miðri nostalgíustunu.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Tónarnir byrja að streyma um loftin blá klukkan 16; síðan verður pásað í matarhléi milli 18 og 20, en þá byrjar tónaflóðið aftur.“ Í Norðurslóð 2008 segir: „Í skarðinu pásaði ég aðeins, þó ekkert væri útsýnið.“

Í þessum dæmum merkir sögnin pása 'hvíla sig' og er áhrifslaus – tekur ekki með sér neitt andlag. Þetta er þó ekki algengasta notkun sagnarinnar. Í Fréttablaðinu 2005 segir: „Hægt að „pása“ beina sjónvarpsútsendingu o.fl.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Ég […] þurfti að pása Desperate housewifes þáttinn.“ Í Fréttatímanum 2016 segir: „Gott að geta „pásað“ kennarann.“ Í Vísi 2017 segir: „Það pásar „Call of Duty“ leikinn um leið og það hringir inn í umræðuþætti.“ Í Morgunblaðinu 2021 segir: „ég pásaði því ræmuna til að horfa á nýjustu fréttir af gosinu og bólusetningunni.“ Þarna tekur sögnin andlag og merkir 'stöðva tímabundið', 'gera hlé á' eða eitthvað slíkt og er oftast notuð um áhorf eða hlustun á stafrænt efni, spilun tölvuleikja o.fl.

Þótt orðið pása sé vitanlega tökuorð eins og áður segir fellur það ágætlega að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – nafnorðið er hliðstætt tjása og sögnin hliðstæð rása og mása. Tökuorð sem falla alveg að málinu auðga það en spilla því ekki, og eina gilda ástæðan sem gæti verið fyrir því að amast við þeim er sú að þau komi í stað orða sem fyrir eru í málinu og ýti þeim burt. En þannig er það ekki með pása – þótt nafnorðið merki 'hlé' kemur það alls ekki í stað þess orðs í öllum tilvikum. Það er t.d. aldrei talað um pásu í bíói, á sinfóníutónleikum o.s.frv. Áhrifssögnin pása í samböndum eins og pása myndina kemur ekki heldur í staðinn fyrir neina eina sögn. Það er sjálfsagt að viðurkenna bæði nafnorðið og sögnina sem fullgild íslensk orð.

„Lýtalaus íslenska“ er ekki til

Undanfarið hefur orðið töluverð umræða um íslensku í Ríkisútvarpinu, m.a. í framhaldi af kæru Kristjáns Hreinssonar skálds til menningar- og viðskiptaráðherra „vegna notkunar íslenskrar tungu hjá fjölmörgum starfsmönnum Ríkisútvarpsins“. Kæran „lýtur að meintum lögbrotum sem snúa að einhliða ákvörðun starfsmanna RÚV, um að breyta íslenskri tungu, fyrst og fremst með því að auka notkun hvorugkyns og draga úr notkun karlkyns í nafni kynhlutleysi í málfari […]. Þessi leið starfsmannanna gengur gegn lagaákvæðum um að leggja rækt við íslenskuna og viðhafa lýtalaust málfar.“ Með tali um „lögbrot“ er væntanlega vísað í Lög um ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013, en þar er fjallað um íslenska tungu í nokkrum greinum.

Í fyrstu grein laganna segir: „Ríkisútvarpið [...] skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“ Í sjötta tölulið þriðju greinar segir: „Ríkisútvarpið skal sinna menningarlegu hlutverki sínu m.a. með því að: [...] Leggja rækt við íslenska tungu.“ Í sjöttu grein segir: „Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins, skal fylgja íslenskt tal, íslensk talsetning eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. [...] Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausri íslensku.“ Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Á [RÚV] eru lagðar þær skyldur að gera sitt ýtrasta til að miðla íslensku máli þannig að hlustendur, lesendur og áhorfendur geti treyst því að tal og texti sé ávallt á lýtalausri íslensku.“

En hvernig er „lýtalaus íslenska“? Lýsingarorðið lýtalaus er skýrt 'sem hefur enga galla, gallalaus' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Forsenda fyrir því að slíkt orð hafi einhverja merkingu er að til sé einhver fullkomin fyrirmynd eða líkan – þá er hægt að skilgreina öll frávik frá þeirri fyrirmynd sem galla eða lýti. En þegar um tungumál er að ræða er slík fyrirmynd ekki til. Í öllum tungumálum eru til einhver tilbrigði og þótt samstaða kunni að vera um einhvern málstaðal tekur hann aldrei á þeim öllum. Ákvæði um „lýtalausa íslensku“ er því í raun merkingarlaust enda er það orðalag ekki notað í nýjum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðherra við RÚV heldur sagt: „Áhersla skal lögð á vandað mál í öllum miðlum […].“

Það er sjálfsagt að gera þá kröfu til starfsfólks Ríkisútvarpsins að það vandi sig í öllum sínum störfum. En óbilgjörn krafa um „lýtalausa íslensku“ getur beinlínis unnið gegn meginmarkmiði Laga um Ríkisútvarpið eins og það er sett fram í fyrstu grein laganna: „Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.“ Að útiloka annað fólk en það sem talar „lýtalausa íslensku“ (og er varla til) stuðlar vitaskuld ekki að „lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni“ í samfélaginu. Þvert á móti – það hamlar lýðræðislegri umræðu, hampar ákveðnum hópum á kostnað annarra og klýfur samfélagið.

Í skilgreiningu á vönduðu máli í Málstefnu RÚV segir: „Vandað mál er markvisst og felst í viðeigandi orðavali, réttum beygingum og eðlilegri orðskipan. Í framburði skal gætt að skýrri hljóðmótun, réttum áherslum og eðlilegu hljómfalli samfellds máls.“ Í málstefnunni segir einnig: „RÚV hefur fyrst og fremst málrækt að leiðarljósi í málstefnu sinni en málpólitík er þó samofin henni. Fylgt er skilgreiningu á málrækt í málfræðiorðasafni í Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.“ Þar segir m.a.: „Málrækt getur líka náð til annarra tilrauna [en þeirra að mynda ný orð af innlendum stofni eða laga erlend orð að beygingum og hljóðkerfi þess] til þess að gera málið hæfara til að þjóna hlutverki sínu í samfélaginu.“

Þetta er mjög mikilvægt. Það er grundvallaratriði að málfar í Ríkisútvarpinu endurspegli fjölbreytileika samfélagsins á hverjum tíma, enda segir í áðurnefndum þjónustusamningi: „Gert er ráð fyrir að málstefna Ríkisútvarpsins sé í stöðugri endurskoðun og í henni séu einnig sett fram viðmið um mismunandi málsnið eftir tegundum dagskrárefnis.“ Í málstefnunni segir líka: „Mikilvægt er að hafa í huga að málsnið getur verið með ýmsu móti og misjafnlega formlegt. Orðaval og talsmáti kann að taka mið af því.“ Í þessu felst vitanlega skilningur og viðurkenning á því að mál getur verið vandað án þess að vera einsleitt. Umburðarlyndi gagnvart tilbrigðum og fjölbreytileika í máli er forsenda þess að RÚV geti sinnt skyldum sínum við samfélagið.

Þess vegna er áðurnefnd kæra Kristjáns Hreinssonar út í hött – „lýtalaus íslenska“ er ekki til og fráleitt að fullyrða að breytingar sem sumt starfsfólk Ríkisútvarpsins hefur gert á máli sínu í átt til kynhlutleysis valdi því að íslenskan sé „dauðadæmd“. Þótt skoðanir séu skiptar á þeim breytingum er ljóst að þau sem þær gera telja sig vera að „leggja rækt við íslenska tungu“. Hins vegar er óhætt að fullyrða að aðrar og miklu stærri hættur steðja að íslenskunni um þessar mundir, og ef á að gagnrýna RÚV fyrir óvandað mál er nær að beina sjónum að notkun enskra orða í íslensku samhengi þar sem völ er á íslenskum orðum. Því miður ber töluvert á þessu í RÚV – en ég læt ykkur eftir að íhuga hvers vegna fremur er kært út af kynhlutlausu máli.

Mig langar (til) að hitta þig

Hér hefur nokkrum sinnum verið spurt um það hvort forsetningin til sé á undanhaldi með langa – hvort mig langar að hitta þig og mig langar til að hitta þig séu gömul tilbrigði eða hvort það fyrrnefnda sé að leysa það síðarnefnda af hólmi. Því er til að svara að langa að er vissulega yngra en langa til að en þó gamalt, a.m.k. síðan um miðja 19. öld. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: „Segir hún sig langi að fara með Helga“ og „segir hann við fóstra sinn að sig langi að sigla í önnur lönd“. Samkvæmt tímarit.is eru bæði tilbrigðin algeng og hafa verið síðan á seinni hluta 19. aldar, en langa til að var þó lengi mun algengara. En eftir 1980 og einkum á þessari öld, hefur langa að sótt í sig veðrið og er nú allt að þrisvar sinnum algengara en langa til að.

Í nútímamáli er merking sagnarinnar langa 'sækja í (e-ð), vilja (e-ð) mjög gjarnan, hafa löngun í (e-ð)' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók. Í fornu máli er merkingin hins vegar frekar 'þrá, bíða með óþreyju eftir' eða jafnvel 'hlakka til' og þá fylgir sögninni oftast til en stundum eftir. Sögnin tekur þá oftast nefnifallsfrumlag. Í Íslensku hómilíubókinni segir: „sá er þeir höfðu margar aldir langað til að sjá.“ Í Alexanders sögu segir: „langar hann mjög til að bardaginn skuli takast sem fyrst.“ Í Orkneyinga sögu segir: „Orkneyingar mundu lítt langa til, að hann kæmi vestur þangað.“ Stundum er frumlagið þó í þolfalli – í Alexanders sögu segir: „langar mig til að við megum sjá náttúru þess heimsins.“  En langa að, án til, kemur ekki fyrir.

Þessi merkingarbreyting sagnarinnar langa, úr 'þrá' í 'vilja, hafa hug á', er ekki mikil, ekki algild og e.t.v. ekki mjög greinileg en mér finnst hún samt ótvíræð. Mér finnst freistandi að tengja undanhald til við þessa breytingu og halda því fram að mig langar til að hitta þig merki ‘ég þrái að hitta þig’ en mig langar að hitta þig merki fremur 'ég vil hitta þig' eða 'ég hef hug á að hitta þig'. Forsetningin til vísar oft til tíma, eins og í hlakka til einhvers, og það er fremur ákveðin tímavídd í þrá eitthvað en í vilja/þurfa eitthvað. Vissulega er merkingarmunur sambandanna lítill, og trúlegt að málnotendur hafi mismunandi tilfinningu fyrir þessu, en ég held samt að þetta skipti máli þótt fleira geti einnig spilað inn í, svo sem tilgangsleysi til.

Nafnháttarsetningar hafa ekkert sýnilegt fall og form þeirra er óbreytt hvort sem til er á undan þeim eða ekki. En í fornu máli tók til ekki bara með sér nafnháttarsetningu í sambandinu langa til, heldur gat einnig tekið nafnorð sem þá stóð í eignarfalli. Í Vopnfirðinga sögu segir: „Brodd-Helgi var heldur ókátur um sumarið og langaði mjög til komu Þorleifs.“ Í Mikjáls sögu segir: „Gerist nú þegar gleði mikil í fólki guðs, svo að langar til bardagans.“ En í nútímamáli hefur til alltaf staðarmerkingu í slíkum dæmum – við getum sagt mig langar til borgarinnar en ekki *mig langar til fararinnar. Í langa til gegnir til því engu hlutverki lengur – hvorki stýrir falli né hefur tíma- eða staðarmerkingu. Þetta tilgangsleysi getur stuðlað að því að það sé fellt brott.

Enn ein snilldin – margar snilldir?

Áðan deildi ég hér pistli um hið stórmerkilega íslenskuátak á Ísafirði og lét fylgja umsögnina „Enn ein snilldin frá Gefum íslensku séns“. Þetta skrifaði ég umhugsunarlaust, en svo fékk ég bakþanka: Ef þetta er enn ein snilldin hljóta að vera komnar einhverjar snilldir áður – en orðið snilld er aldrei haft í fleirtölu, er það? Það er skýrt 'eitthvað snjallt, mikil leikni, miklir hæfileikar' í Íslenskri nútímamálsorðabók og sú merking býður ekki upp á fleirtölu enda hljóma margar snilldir eða þrjár snilldir nokkuð torkennilega. En þegar að er gáð reynist fleirtalan vera gefin upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og það hlýtur að þýða að einhver dæmi séu um hana – enda reynist svo vera, þegar að er gáð.

Í ferðaminningum Tómasar Sæmundssonar frá 1832 segir: „Hér af má sjá, að við sjónarleikinn eru flestar snilldir viðhafðar“ og í ræðu Tómasar frá 1841 segir: „þar eiga og allar hinar fögru snilldirnar heima“. Þarna merkir snilld eiginlega 'list'. Í rímu eftir Jón Þórðarson frá 1864 sem birtist í Strandapóstinum 1977 segir: „Þá er Hildur húsfreyja / hög á snilldir mannkosta.“ Í kvæði eftir Ingimund Gíslason í Ísafold 1895 segir: „tímanum fylgdi hann með snilldum.“ Í grein eftir Stephan G. Stephansson í Baldri 1907 segir: „Svona koma syndir og snilldir feðranna út í dagdómum barnanna.“ Í kvæði eftir Sighvat Borgfirðing í Þjóðviljanum 1907 segir: „þín var útrétt opt til bjargar / og að vinna snilldir margar / auðsnilld, sterka hjálpar hönd.“

Það er athyglisvert að langflest dæmi um fleirtöluna frá tuttugustu öld eru úr kveðskap, og líklegt að rím og hrynjandi valdi því stundum að orðið er notað í fleirtölu. En þegar kemur fram á þessa öld fer fleirtalan að sjást oftar – í viðtali í Fréttablaðinu 2009 segir: „Barði hefur stofnað hljómplötuútgáfuna Kölska sem er undirmerki hjá Senu og segist ætla að gefa út þrjár snilldir á ári. […] „Ég er langt kominn með að finna snilldirnar þrjár fyrir næsta ár.““ Þessar snilldir eru hljómplötur og snilld merkir því 'snilldarverk'. Allmörg dæmi um fleirtöluna frá síðasta aldarfjórðungi má finna á samfélagsmiðlum og þar er merkingin hliðstæð – yfirleitt vísað til einhvers hlutar eða verknaðar. Sama gildir um enn ein snilldin sem er algengt frá aldamótum.

Þótt fleirtalan sé algeng í óformlegu máli samfélagsmiðla virðist hún enn sem komið er lítið sem ekkert vera notuð í formlegra máli þótt sambönd eins og enn ein snilldin sem fela í sér sams konar vísun til hlutar eða verknaðar séu algeng þar. Þetta er enn eitt dæmi um að farið sé að nota fleirtölu af orði sem áður var yfirleitt aðeins notað í eintölu vegna þess að orðið hefur fengið víkkaða eða nýja merkingu – auk almennrar og óhlutstæðrar vísunar er það farið að vísa til einstakra og oft áþreifanlegra fyrirbæra, eintaks af þeirri tegund sem um er rætt, og þá er fleirtalan eðlileg og sjálfsögð. Í þessu tilviki á fleirtalan sér líka gömul fordæmi og það ætti þess vegna ekkert að vera því til fyrirstöðu að tala um snilldir – við þurfum bara að venjast því.

Skriffinnur og Skraffinnur

Í gær var hér spurt um uppruna nafnorðsins skriffinnska sem er skýrt '(óhófleg) umsýsla sem tefur framkvæmdir' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt '(bureaukratisk) Pedanteri' og það rímar vel við elstu dæmi um orðið – það fyrsta er í Þjóðólfi 1877: „þetta er eitt skriffinnsku-bragð (Bureaukratismus) og hindurvitni, sem vart á sinn líka.“ Næsta dæmi er í Fróða 1881: „Stríðið í bræðralandi voru Noregi heldur jafnt og þjett áfrarn milli stjórnarinnar annars vegar, sein styðst við skriffinnskuna (bureaukratíið), og þingsins hins vegar, sem styðst við þjóðarviljann.“ Í báðum dæmunum er orðið skýrt með erlendri samsvörun innan sviga sem bendir til þess að það sé nýtilkomið á þessum tíma.

Það er augljóslega skylt nafnorðinu skriffinnur sem skýrt er 'skrifstofumaður í stjórnsýslu' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'sá sem skrifar mikið, blekbullari' í Íslenskri orðabók þar sem það er sagt „niðrandi“, en í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 er það skýrt 'Smörer, Skribler; Bureaukrat'. Elsta dæmi um það er á svipuðum aldri, úr Ísafold 1878: „Gortsjakoff hafði svarað brjefi Salisburys, og gengur í gegn atriðum hans eins og góður og reyndur „skriffinnur“, sem þvælir mál í dómi.“ Orðið var algengt á fyrri hluta síðustu aldar og fram yfir 1980 en hefur dalað á síðustu áratugum, enda sagt „gamaldags“ í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið skriffinnska á sér svipaða sögu en dæmum um það hefur þó ekki fækkað nálægt því jafn mikið.

Í grein í Stundinni 2016 benti Jóhannes Benediktsson á að einnig er til orðið skraffinnur og vitnaði í Sigurð A. Magnússon í Samvinnunni 1970: „Skal skriffinnum blaða og skraffinnum útvarps vinsamlega bent á að taka sér ungu kynslóðina til fyrirmyndar um ábyrgðarfullan og umbúðalausan málflutning.“ Augljóst er að þessum orðum er þarna stillt upp sem hliðstæðum um málæði, annars vegar í riti og hins vegar í tali – skraffinnur er skýrt 'masgefinn maður, málskrafsmaður' í Íslenskri orðabók og skraffinnska er þar skýrð 'málæði'. En skraffinnur er miklu eldra orð en skriffinnur og kemur fyrir í fornu máli – „Hver yðar sveina vill hjálpa skraffinni þessum, svo hann komist af fjallinu?“ segir í Bárðar sögu Snæfellsáss.

Heimildirnar benda til að skriffinnur sé myndað seint á 19. öld, væntanlega með hliðsjón af skraffinnur. Fyrri liðirnir, skrif- og skraf­-, eru auðskiljanlegir og eðlilegir miðað við merkingu orðanna – en hvaðan kemur seinni liðurinn, -finnur? Um það veit ég ekkert, en get bara komið með ágiskanir. Skraffinnur er stundum notað sem mannsnafn – „hann kallaði hann aldrei nema Skraffinn“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Hugsanlega er sú notkun upprunaleg og Skraffinnur myndað í stíl við  mannanöfn eins og Dagfinnur, Geirfinnur, Þorfinnur o.fl. án þess að -finnur hafi einhverja merkingu – gæti eins verið Skrafmundur, Skrafgeir eða eitthvað slíkt. A.m.k. er ólíklegt að hægt sé að tengja skriffinnur og skraffinnur við ákveðinn Finn.

Afrán

Ég staldraði í dag við fyrirsögnina „Afrán hvala tvöfaldast á þessari öld“ á mbl.is. Ég hef svo sem oft séð orðið afrán áður, en fór að velta merkingu þess og notkun fyrir mér. Orðið er hvorki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en er í orðasafninu Sjávarútvegsmál í Íðorðabankanum. Þar kemur fram að ensk samsvörun þess sé predation en það orð er skýrt 'the fact that an animal hunts, kills, and eats other animals' eða 'sú staðreynd að dýr veiðir, drepur og étur önnur dýr'. Samheiti þess sé át, enda segir í fréttinni: „Í skýrslu sem kom út árið 1997 var lagt mat á afrán hvala á þeim tíma og var niðurstaðan þá sú að hvalirnir ætu um sex milljónir tonna af sjávarfangi […] Sambærilegar tölur nú eru 13,4 milljónir tonna af sjávarfangi […].“

Orðið afrán virðist vera um 50 ára gamalt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Frey 1976, þar sem vitnað er í grein eftir Agnar Ingólfsson frá 1973: „hið tiltekna fæðumagn setur stofnum þeirra mörk, en afrán ránfugla og annarra rándýra skiptir þar litlu sem engu máli.“ Í Ægi 1979 segir: „einkum vegna afráns ránfiska á fæðufiskum sínum.“ Í Náttúrufræðingnum 1980 segir: „Afrán hrafna kann því að vera ástæðan fyrir tilfærslu kríuvarpsins.“ Í Tímanum 1982 segir: „Hinsvegar telur Karl Skírnisson erfitt að dæma um áhrif afráns minks á fiskframleiðslu í ferskvatni.“ Í Degi 1992 segir: „Rannsóknir á afráni sjófugla á nytjastofnum verði stórauknar.“ Í Ægi 1992 segir: „Það er erfitt að meta nákvæmlega áhrif afráns sela á veiðar nytjastofna.“

En flest dæmi frá þessari öld eru um afrán hvala. Í Fiskifréttum 2000 segir: „Afrán hvala og annarra sjávarspendýra á fiskistofnunum hafi hins vegar farið mjög vaxandi og því beri brýna nauðsyn til þess að hefja hvalveiðar að nýju.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Það gefur augaleið að hóflegar hvalveiðar myndu draga úr afráni hvala.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Útvegsmenn á Hornafirði krefjast þess einnig að hvalveiðar verði þegar hafnar af krafti og þannig dregið úr afráni hvala úr fiskistofnunum.“ Í Ægi 2002 segir: „Afrán hvala úr fiskistofnunum nemur til lengri tíma litið margföldum tekjum af hvalaskoðun.“ Í DV 2003 segir: „afrán hvala úr lífríkinu hefur mikil áhrif á möguleika okkar til fiskveiða.“

Það er alveg ljóst af þessum dæmum að afrán uppfyllir ekki þá grundvallarkröfu sem gera verður til íðorða að þau séu hlutlaus. Notkun orðsins á augljóslega að koma því inn hjá lesendum að hvalirnir séu að ræna af okkur – ýmist beint með því að éta fisk eða óbeint með því að éta átu sem fiskurinn æti ella. Jafnvel mætti ætla að verið væri að venja lesendur við þetta orð í Morgunblaðinu 1995: „Við Gísli Víkingsson höfum lagt mat á fæðunám eða afrán hvala.“ Auðvitað væri eðlilegt að tala um át eða fæðunám – það eru hlutlaus orð. Það skiptir ekki máli hvaða skoðun við höfum á hvalveiðum – gildishlaðin og skoðanamyndandi orð eins og afrán á ekki að nota, allra síst í umræðu um viðkvæm deilumál eins og hvalveiðar eru.

Hladdu símann!

Í dag var hér spurt hver væri boðháttur sagnarinnar hlaða. Eins og fram kemur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er venjulega myndin, með viðskeyttu annarrar persónu fornafni, hladdu – en hlað þú ef fornafnið er ekki haft viðskeytt. Þessi boðháttur var sjaldgæfur til skamms tíma – innan við tuttugu dæmi fram til síðustu aldamóta á tímarit.is. En með tilkomu fartölva, farsíma, rafskútna og ýmissa annarra rafhlöðudrifinna tækja sem þarf að hlaða hefur þörf fyrir að nota hlaða í boðhætti stóraukist á síðustu áratugum, auk þess sem sögnin er notuð í samböndum eins og hlaða upp og hlaða niður. Tíðni boðháttarins hefur því aukist, en minna en við væri að búast – ekki eru nema tæp 40 dæmi um hladdu í Risamálheildinni.

Það kom líka fram í umræðum að mörgum virðist enn finnast boðhátturinn hladdu framandi eða hljóma óeðlilega – hann væri „mjög óþjáll og ekki notaður í daglegu tali“ –  og vildu reyna að finna leið fram hjá honum, t.d. með umorðun. Þetta er vel þekkt – í Degi-Tímanum 1997 segir: „Hladdu! Furðulegur boðháttur.“ Á Twitter 2016 segir: „Síminn minn sagði "hladdu batteríið". Mér fannst það eitthvað óþægilegt.“ Á Twitter 2017 segir: „Er hladdu orðskrípi eða rétt?“ Fjöldi hliðstæðra boðháttarmynda er þó til – boðháttur af vaða er vaddu, af ráða ráddu, af ákveða ákveddu, af breiða breiddu, af biðja biddu, af bíða bíddu, af sjóða sjóddu, af ræða ræddu, o.fl. Flestar þessara mynda eru algengar og hljóma eðlilega í eyrum málnotenda.

Boðháttur er myndaður af stofni sagna sem kemur fram í nafnhætti, og allir þessir boðhættir eru reglulega myndaðir þótt það sé kannski ekki augljóst. Stofn allra sagnanna endar á , og við hann bætist fornafnið þú sem verður -ðu í áhersluleysi – hlað-ðu. En langt eða tvöfalt ð er ekki til í íslensku – þar sem tvö ð koma ættu að koma saman kemur alltaf fram langt eða tvöfalt dd í staðinn. Það er ekki bundið við boðháttinn – þetta gerist líka í þátíð margra sagna eins og breið-ði > breiddi, ræð-ði > ræddi, í mörgum lýsingarorðum (sem eru upphaflega lýsingarháttur þátíðar af sögn) eins og klæð-ður > klæddur, sað-ður > saddur (sbr. seðja), í nafnorðum eins og breið-ð > breidd, víð-ð > vídd, og í gælunöfnum eins og Gudda.

Vegna þess að þessi boðháttarmyndun er regluleg og hljóðbreytingin ðð > dd á sér fjölmörg fordæmi mætti búast við að boðhátturinn hladdu hljómaði eðlilega í eyrum málnotenda, en því virðist vera misbrestur eins og áður segir. Ástæðan er sennilega sú að myndir með -ddu eru óneitanlega talsvert ólíkar nafnháttarmyndum með -ða. Slíkur munur truflar okkur ekki í þeim orðum sem við erum vön og alin upp við, svo sem bíddu, ræddu o.s.frv., en eins og áður segir var boðháttur af hlaða sjaldgæfur til skamms tíma og þrátt fyrir að víxl ð og dd séu algeng í málinu virðast málnotendur ekki tengja þetta auðveldlega. En vegna aukinnar tíðni hlaða má búast við að dæmum um boðháttinn fari fjölgandi og við venjumst smátt og smátt við hladdu.