Hvað er íslenskt orð?

Í morgun var hér spurt hvort computer says no væri íslenska. Þetta er þekktur frasi sem á uppruna sinn í gamanþáttunum Little Britain frá því upp úr aldamótum og fólk bregður oft fyrir sig þótt annars sé verið að tala íslensku. Í fljótu bragði kann það að virðast fráleitt að spyrja hvort þetta sé íslenska – þetta er setning sem er tekin í heilu lagi úr ensku og öll orðin ensk. En þetta er samt gagnleg spurning því að hún knýr mann til að velta því fyrir sér hvernig við skilgreinum íslensku og íslensk orð. Hvaða skilyrði þarf orð eða orðasamband að uppfylla til að geta talist íslenska? Ef hægt er að rekja orð til frumnorrænu er það ótvírætt íslenska, en hvað með öll þau orð sem hafa bæst í málið frá upphafi Íslandsbyggðar? Er ekkert þeirra íslenska?

Auðvitað væri fráleitt að neita öllum þeim orðum um að teljast íslensk og engum dettur það í hug. Fjölmörg tökuorð almennt hafa lagað sig algerlega að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – orð eins og prestur, sápa, bíll og ótalmörg fleiri. Aðlögun dugir þó ekki alltaf til – orð eins og rúta þótti til skamms tíma vafasamt vegna uppruna síns þótt það falli alveg að málinu. Hins vegar njóta ýmis tökuorð fullrar viðurkenningar enda þótt þau hafi ekki lagað sig fullkomlega að íslensku málkerfi – orð eins og biskup „ætti“ t.d. að hafa nefnifallsendingu og vera *biskupur og nafnið Jón „ætti“ að vera *Jónn. Orð eins og bíó, partí, mótor og lager falla ekki fullkomlega að íslensku hljóðkerfi en varla er samt hægt að neita þeim um þegnrétt í málinu.

En ný orð koma ekki eingöngu úr erlendum málum. Það er sífellt verið að búa til nýyrði sem sum hver eiga sér beinar erlendar fyrirmyndir en önnur ekki. Stundum eiga þessi orð sér enga ættingja í málinu – eru bara hljóðastrengur sem er gefin ákveðin merking. Nýlegt dæmi um það er orðið kvár sem kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 árið 2020 og er notað um kynsegin fólk, hliðstætt orðunum karl og kona. En oftast eru þessi nýyrði þó leidd af orðum sem fyrir eru í málinu með afleiðslu eða samsetningu – dæmi um það eru orðin hittingur og fagn sem hér var nýlega fjallað um. Þótt íslenskur uppruni þessara orða sé ótvíræður dugir það samt ekki endilega til að málnotendur sætti sig við þau – en þau hljóta samt að teljast íslenska.

Um þetta mætti skrifa langt mál en ég legg til að við setjum okkur eftirfarandi viðmið: Frumforsenda fyrir því að hugsanlegt sé að telja eitthvert orð eða orðasamband íslenskt er að það sé notað í setningarlegu samhengi með orðum sem eru ótvírætt íslensk. Það þýðir að computer says no getur ekki talist íslenska vegna þess að það er heil setning þar sem öll orðin eru ensk. Aftur á móti gætu orð eins og næs, kúl, kósí, beila, ókei, tsjilla, fótósjoppa og fjölmörg fleiri talist íslenska samkvæmt þessu viðmiði þótt þau falli misvel að málkerfinu – og líka orð eins og aksjúalí og beisiklí sem nýlega voru hér til umræðu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru öll þessi orð iðulega notuð í íslenskum setningum innan um íslensk orð.

Ég legg áherslu á að þótt notkun í íslensku setningarsamhengi sé að mínu mati forsenda fyrir því að hægt sé að telja orð íslenskt þýðir það ekki að slík notkun geri orðið sjálfkrafa íslenskt. Þar þarf fleira að koma til, a.m.k. nokkur hefð – orðið þarf að vera komið í töluverða notkun í íslensku samhengi (og svo má auðvitað deila um hvað „töluverð notkun“ sé). Mörgum gæti líka fundist eðlilegt að gera kröfu um einhverja lágmarksaðlögun að málkerfinu en erfitt gæti reynst að ná samstöðu um viðmið í því efni. Og svo getur málkerfið líka breyst. Íslensk orð hafa fram undir þetta ekki byrjað á tsj-, en hugsanlega má segja að tilkoma framburðar eins og tsjald á orðinu tjald geri það að verkum að orðið tsjilla brjóti ekki endilega hljóðskipunarreglur málsins.

Ég held sem sé að það sé borin von að við getum svarað því í eitt skipti fyrir öll þannig að öllum líki hvort eitthvert tiltekið orð sé íslenskt eða ekki. Og ég held líka að það sé í góðu lagi. Á endanum er það málsamfélagið sem sker úr um þetta – ef málnotendur vilja nota eitthvert orð í íslensku gera þeir það og kæra sig kollótta um hvort það er kallað íslenskt eða ekki. Hér má rifja upp það sem Halldór Halldórsson prófessor sagði í skilgreiningu á réttu máli í Stíganda 1943: „Það mætti því segja, að það eitt sé rétt mál, sem hlotið hefir þá viðurkenningu að vera rétt mál.“ Skilgreining á íslensku orði er þá: „Það mætti því segja að það eitt sé íslenskt orð sem hlotið hefur þá viðurkenningu að vera íslenskt orð.“ Ég held að við komumst ekki mikið lengra.

Að efla hatur

Herferð Jafnréttisstofu, „Orðin okkar“, er rekin undir kjörorðinu „Notum orðin okkar til að uppræta hatur, ekki efla það“. Um daginn var spurt hér út í þessa orðanotkun – fyrirspyrjanda fannst óeðlilegt að tala um að efla neikvæða hegðun og vildi heldur tala um að auka hatur, ýta undir hatur eða eitthvað slíkt. Málið snýst sem sé um það hvort sögnin efla vísi í eðli sínu til einhvers sem er jákvætt eða æskilegt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin skýrð 'gera (e-ð) öflugri, styrkja (e-ð)' og í Íslenskri orðabók hún skýrð 'styrkja' en einnig 'halda, stofna til'. Í hvorugu tilvikinu kemur beinlínis fram að sögnin sé aðallega eða eingöngu notuð í jákvæðri merkingu þótt hugsanlega megi draga þá ályktun af notkunardæmum sem tekin eru.

Sambandið efla hatur er meira en 150 ára gamalt í málinu – elsta dæmið í Gefn 1870: „blaðamennirnir eru búnir að æsa þjóðirnar og efla hatur og illindi á allar lundir.“ Ýmis dæmi eru um efla með öðrum orðum sem telja má neikvæð. Í Degi 1922 segir: „Þeir vilja efla ófriðinn í landinu, með því að kjósa á þing hinn skæða ófriðarsegg Ingólf Bjarnarson í Fjósatungu.“ Í DV 1983 segir: „Verðlagsstjóri hefur um nokkurt skeið beitt öllu skrifstofuliði sínu til þess að efla styrjöld gegn Reykjavíkurborg.“ Í Morgunblaðinu 1969 segir: „Skriffinnarnir sitja sem sé við sinn keip og reyna að efla óvild í stað athafna.“ Í Alþýðumanninum 1933 segir: „Þeir vilja fara inn á þing til þess að hrópa og hafa hátt, auka glundroðann, efla sundrungina.“

Þarna eru, auk haturs, orðin ófriður, styrjöld, óvild og sundrung, en einnig má finna dæmi um óvináttu, reiði, fjandskap og ýmis fleiri neikvæð orð. Það er því enginn vafi á að mörgum finnst ekkert athugavert við að nota sögnina efla um eitthvað sem er neikvætt eða óæskilegt. En hitt er líka ljóst að margfalt algengara er að sögnin sé notuð í jákvæðri eða hlutlausri merkingu. Við getum litið svo á að sögnin hafi tvo merkingarþætti – grunnmerking hennar sé hlutlaus, 'auka, styrkja', en auk þess hafi hún í máli margra, en ekki allra, merkingarþáttinn 'jákvætt'. Það er ekkert að því að við notum ekki öll sögnina á alveg sama hátt – hvorugt er réttara en hitt, og þessi munur er ekki þess eðlis að líklegt sé að hann valdi misskilningi.

Að blóta þorra – í þolfalli eða þágufalli

Þótt þorrablót séu gömul var ekki farið að nota sambandið blóta þorra fyrr en nýlega – elsta dæmi um það er í Tímanum 1954: „Eyfirðingafélagið í Reykjavík hefir jafnan haldið við hinum þjóðlega sið, er mjög tíðkaðist heima í héraði, að blóta þorra.“ Í Morgunblaðinu sama ár segir: „Blótaður verður þorri í „þurrki““ og „Senn er þorri á enda. Taka menn nú að blóta hann.“ Orðið þorri er eins í öllum aukaföllum og fallið sést því ekki í sambandinu blóta þorra en dæmið blóta hann sýnir að um þolfall er að ræða. Sama gildir um þolmyndina, blótaður verður þorri – germyndarandlag í þolfalli fær nefnifall þegar það er gert að frumlagi í þolmynd, en ef þorri stæði í þágufalli í blóta þorra ætti fallið að haldast í þolmynd sem yrði þá þorra blótað.

Slík dæmi eru reyndar til, það elsta í Degi 1963: „Enn er þorra blótað að fornum sið.“ Í fyrirsögn í Vísi 1965 segir: „Blótað þorra í Glasgow.“ Athyglisverð dæmi eru í auglýsingu frá Ferðafélagi Íslands 1976. Í Þjóðviljanum segir: „Þorri blótaður í Þórsmörk“ en í öðrum blöðum stendur „Þorra blótað í Þórsmörk“. Þarna er trúlegt að prófarkalesari Þjóðviljans hafi breytt setningunni. Töluvert má finna af hliðstæðum þolmyndardæmum en einnig koma fyrir fáein germyndardæmi þar sem ákveðinn greinir sýnir að um þágufall er að ræða, það elsta í Fréttum – Eyjafréttum 1991: „Enda Austfirðingar að blóta þorranum.“ Í Bæjarins besta 1995 segir: „Undanfarnar tvær vikur hafa fjölmargir landsmenn haldið við þeim gamla sið að blóta þorranum.“

Sögnin blóta merkti í fornu máli 'dýrka' eða 'fórna', en merkingin 'formæla' bættist síðar við – trúlegt er „að kristnum mönnum hafi þótt það athæfi heiðingja að blóta goð ófagurt“ segir Jón G. Friðjónsson. Í Málfarsbankanum segir: „Merki sögnin dýrka stýrir hún þolfalli: blóta þorrann, goðin. Merki hún hins vegar fórna eða formæla stýrir hún þágufalli: blóta dýri til árs og friðar; blóta einhverju í sand og ösku.“ En af hverju í ósköpunum ætti fólk að dýrka þorrann? Hann var löngum erfiður – talað er um að þreyja þorrann og hann „gefur grið ei nein“, „engri skepnu eirir“ o.s.frv. Það er eðlilegra að líta svo á að um sé að ræða merkinguna 'fórna' – blóta þorra merkir þá 'færa þorranum fórnir' til að blíðka hann og þorra er þá þágufall en ekki þolfall.

Þegar blóta merkir 'fórna' vísar andlagið í nútímamáli yfirleitt til þess sem fórnað er, en „[í] fornu máli merkti orðasambandið blóta goðum 'færa goðum fórn' segir Jón G. Friðjónsson. Bæði í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók kemur líka fram að í merkingunni 'fórna' geti sögnin tekið tvö þágufallsandlög – blóta einhverjum einhverju. Dæmi um þetta má finna í Dagsbrún 1896: „menn gátu ekki gert sér guðina hliðholla eður vinveitta með öðru en því, að blóta þeim dýrum eða mönnum.“ Í blóta þorra má líta svo á að þorra svari til fyrra andlagsins – þorrinn er þiggjandi fórnarinnar. Þetta er hliðstætt því þegar seinna andlagi sagnarinnar gefa er sleppt – talað er um að gefa skepnum án þess að tilgreina hvað gefið er.

Eins og áður segir er sambandið blóta þorra ekki gamalt – frá því um miðja síðustu öld. Vitanlega var sögnin til með þolfalli í merkingunni 'dýrka' og því ekki óeðlilegt að þolfall væri oftast notað í þessu sambandi. Ekki er ólíklegt að tengsl þágufallsins við merkinguna 'bölva, formæla' hafi haft þau áhrif að fólk hafi forðast þágufall í blóta þorra til að koma í veg fyrir samfall við þá merkingu, þótt nú megi reyndar finna dæmi um að leikið sé með hana í auglýsingum og þorranum bölvað í sand og ösku („veldu helvítis, andskotans, djöfulsins Goða og Kjarnafæði“). Mér finnst samt eðlilegast að líta svo á að þarna sé um merkinguna 'fórna' að ræða og sé því ekkert athugavert við að blóta þorranum þótt þolfallið sé vitaskuld líka eðlilegt.

Mikilvægi jákvæðrar umræðu

Í þessum hópi er lagt bann við athugasemdum um málfar og málnotkun einstaklinga og hópa. Til að sýna hvað ég vil forðast með þessu langar mig að rifja upp nokkur dæmi um athugasemdir úr öðrum málfarshópum. Fyrsta dæmið er frá því um daginn þegar slagorðinu Það sést hverjir drekka Kristal var breytt í Það sést hver drekka Kristal. Næsta dæmi er síðan rétt fyrir jól, þegar blaðakona á Morgunblaðinu notaði óvenjulega en rétta beygingarmynd (spúst) í frétt um eldgos við Sundhnúkagíg. Þriðja dæmið er nokkurra ára gamalt og kannski grófast. Það sýnir viðbrögð við innleggi um framburð tiltekins ráðherra á ákveðnu hljóðasambandi (rn) – þessi framburður er vissulega sjaldgæfur en þó er um vel þekkta mállýsku að ræða.

(1) „Þetta er kolruglað. Það er verið að stórskemma okkar fallega mál“; „Þetta er bara hallærislegt en það er kannski tískan í dag“; „Þessa bull málnotkun skal enginn maður fá mig til að nota“; „Alger fáviska; þetta er svo heimskulegt að engum tárum tekur, það á að nota óákveðna fornafnið rétt, annað er heimska“; „Ömurlegt“; „Alveg einstaklega hálfvitalegt, og getur hreinlega ekki verið málfræðilega rétt; skelfileg rétthugsunarhandaflsmálþróun“; „Þeir sýna íslensku máli lítilsvirðingu“; „Rétt ein málvillan; þetta er meira ruglið“; „Fáránlegt“; „Málfarsleg fátækt, eymd og volæði villuráfandi málvillinga“; „Sorglegt metnaðarleysi“; „Glatað“, „Algjört rugl“; „Hallærisleg aðför að tungumálinu“; „Asnalegt bara, smábarna mál“.

(2) „Unga fólkið er að meika það á Mogganum“; „Þvílíkt orðalag er þetta háskólamenntuð manneskja sem hefur slíkt orðalag“; „Nei nú er mér allri lokið, sá eða sú sem skrifaði þetta hefði ekki átt að komast upp úr fyrsta bekk“; „Úr hvaða skóla útskrifaðist hann?“; „Þetta lið er ekki talandi“; „Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla“; „Fara blaðamenn ekki i skóla?; algjörlega ómenntaðir dregnir beint upp úr fjóshaug“; „Eru blaðamenn ekki búnir að eyða meirihluta æfinnar í skóla en rita svona bull í opinberan fjölmiðil??“; „á hverju er þetta lið????“; „Þau eru 3gja að verða 5“; „Hvernig er hægt að birta svona frétt á „barnamáli“?“.

(3) „ekki boðlegt af menntamálaráðherra landsins“; „linmælgi“; „skrítið að heyra þetta latmæli“; „hefur ekki þótt til fyrirmyndar“; „snilld að hafa menntamálaráðherra sem er ekki talandi á eigin tungu“; „kann ekki að bera fram réttilega“; „svona mannvitsbrekkur eru við stjórnvölinn í menntamálum þjóðarinnar“; „bull og getuleysi“; „talkennarar og skólar […] hafa lausnir við svona málhelti“; „ambögur og málhelti“; „ekkert til sóma“; „ofreyni sig við að reyna að vanda sig“; „mögulegt að tunguhaft valdi þessum framburði hjá ráðherranum“; „afleitt að vera svona linmælt“; „klúðra svona feitt“; „of ung til að valda embættinu“; „stressast svona og gengur í barndóm þegar hún talar“; „menntamálaráðherra þjóðarinnar er ótalandi á eigin tungu“.

Þetta eru bara sýnishorn – í öllum tilvikum voru athugasemdir í sama dúr miklu fleiri. Það er ótrúlegt að einhverjum skuli finnast eðlilegt að skrifa á þann hátt sem þarna er gert, jafnvel um tiltekið nafngreint fólk og tengja málfar þess við meinta andlega og líkamlega ágalla – það er auðvitað mannfjandsamlegt og nálgast að vera meiðyrði. En þar fyrir utan á ég bágt með að sjá að orðfæri af þessu tagi sé íslenskri tungu til framdráttar, eða það sé hrein og skær ást á tungumálinu sem liggur þarna að baki. Aftur á móti veit ég fjölmörg dæmi um að svona umræða hefur hrakið fólk úr þeim hópum sem um er að ræða og fælt það frá þátttöku í málfarsumræðu. Ég er einn þeirra og orðræða af þessu tagi varð einmitt til þess að ég stofnaði þennan hóp.

Sumum finnst óeðlilegt að banna neikvæðar athugasemdir og umræðu í hópnum og eiga erfitt með að sætta sig við það, og svo leggur fólk vissulega mismunandi skilning í það hvað sé neikvætt. Það er ekki bannað að hrósa fólki, en að öðru leyti lít ég svo á að öll vísun í málfar og málnotkun tiltekinna einstaklinga og hópa sé óheimil vegna þess að þótt ekki sé endilega verið að amast við einhverju finnst fæstum þægilegt að verið sé að vekja athygli á málfari þeirra. Það er hins vegar oft hægt að vekja umræðu um tiltekin málfarsatriði með almennum spurningum með hlutlausu orðalagi í stað þess að hneykslast eða vísa í málfar einstaklinga, og það er í góðu lagi. Ef fólk sættir sig ekki við þetta er auðvelt að finna vettvang fyrir neikvæðni.

„Bjargar lögfræðin íslenskunni?“

Í gær fór ég á fróðlegt málþing á vegum Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík. Yfirskrift þingsins var „Bjargar lögfræðin íslenskunni?“ og frummælendur voru þrír lögfræðingar úr ólíkum áttum. Það var mikill samhljómur í máli þeirra um að lagasetning og eftirfylgni stjórnvalda gæti komið íslenskunni að verulegu gagni. Ég er sammála því mati og hef reyndar skrifað um dugleysi stjórnvalda við að framfylgja þeim lögum sem þó eru til og varða íslenska tungu, svo sem ákvæðum um málstefnu sveitarfélaga í Sveitarstjórnarlögum, ákvæðum um fyrirtækjaheiti í Lögum um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð og ákvæðum um auglýsingar á íslensku í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Á málþinginu var einnig talað um Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslenskt táknmáls frá 2011. Þessi lög voru ágæt á sínum tíma og eru góð svo langt sem þau ná – en þau ná alltof skammt og hafa of þröngt gildissvið. Í fyrstu grein þeirra segir: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi“ og í annarri grein segir: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Allir sem eru búsettir hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi svo sem nánar er mælt fyrir um í sérlögum.“ Ég veit reyndar ekki til þess að þessi sérlög hafi verið sett en þar kann vanþekkingu minni að vera um að kenna.

Það er stór galli á lögunum að þau taka eingöngu til opinberra aðila. Í 8. grein segir: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu“ og í 4. grein segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Í lögunum er ekki stakt orð um skyldur einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka til að nota íslensku, hvað þá ákvæði um aðgerðir ef svo er ekki gert. Í öðrum lögum eru ákvæði um íslensk nöfn fyrirtækja og að auglýsingar sem eiga að höfða til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku en þeim lögum er slælega framfylgt eins og áður segir.

Það er kominn tími til að uppfæra Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og mér finnst mikilvægt að við þá uppfærslu verði gildissvið laganna víkkað þannig að þau taki einnig til einkaaðila – fyrirtækja og félagasamtaka. Það er eðlilegt að þeim verði gert skylt að nota íslensku, t.d. í auglýsingum og kynningarefni. Það kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að enska – eða annað erlent tungumál – verði einnig notað, en frumskilyrði á að vera að íslenska sé alls staðar í öndvegi. Það þarf einnig að gera atvinnurekendum, bæði opinberum aðilum og einkaaðilum, skylt að gera erlendu starfsfólki kleift að stunda íslenskunám með vinnu. Í lögunum verða að vera ákvæði um viðurlög ef út af er brugðið, og þeim þarf að beita.

Öðru máli gegnir um ákvæði sem varða mál og málnotkun einstaklinga. Fyrir utan Lög um mannanöfn sem eru sér á báti (og ættu að falla brott að mínu mati) eru slík ákvæði mér vitanlega aðeins í Lögum um ríkisborgararétt þar sem í upptalningu skilyrða fyrir ríkisborgararétti segir: „Umsækjandi hafi staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem ráðherra setur í reglugerð.“ Á málþinginu var nefnt að þetta próf væri létt, jafnvel of létt. Um það get ég ekki dæmt en vel má vera að ástæða sé til að þyngja prófið. Hins vegar sækir ekki nema lítill hluti þeirra útlendinga sem hér búa um íslenskan ríkisborgararétt þannig að auknar kröfur til þeirra hefðu lítil almenn áhrif á íslenskukunnáttu innflytjenda, heldur hefðu fyrst og fremst táknrænt gildi.

En að öðru leyti finnst mér ekki koma til álita að setja nein ákvæði í lög um mál, málnotkun og málkunnáttu einstaklinga. Það væri að mínu mati alvarleg takmörkun á tjáningarfrelsi fólks, byði heim margvíslegri misbeitingu og mismunun og ýtti undir þjóðernishroka. Það er ekki hægt að halda lífi í íslenskunni með lögum – hún lifir ekki nema við, notendur hennar, viljum að hún lifi. Það er hægt – og þarf – að styrkja íslenskuna á ýmsan hátt, með kennslu í íslensku sem öðru máli, með gerð afþreyingar- og fræðsluefnis á íslensku, o.s.frv. En hinn margþvældi frasi „vilji er allt sem þarf“ á ekki við hér (og raunar sjaldnast) – það þarf líka aðgerðir, fyrst og fremst vitundarvakningu um að íslenskan skipti máli og það þurfi að hlúa að henni.

Öráreitni?

Í dag og undanfarið hefur töluvert verið rætt hér um athugasemdir sem gerðar eru við „ófullkomna“ íslensku fólks sem er að læra málið. Sum þeirra sem taka þátt í umræðunni segjast þekkja slíkar athugasemdir vel en önnur segjast ekkert kannast við slíkt þrátt fyrir að umgangast innflytjendur mikið. Í sjálfu sér þarf þetta ekkert að vera óeðlilegt – auðvitað eru aðstæður misjafnar, við umgöngumst ekki öll sama eða sams konar fólk og reynsla okkar getur því verið ólík í þessu efni eins og öðrum. Það er samt athyglisvert að Íslendingar virðast sjaldnast kannast við athugasemdir af þessu tagi en innflytjendur þekkja þær yfirleitt vel. Þótt ég geti auðvitað ekki fullyrt neitt um þetta grunar mig að þessi munur sé ekki tilviljun.

Mér finnst mun líklegra að þarna sé iðulega um að ræða öráreitni sem við sem eigum íslensku að móðurmáli tökum ekki eftir, af því að við verðum ekki fyrir henni. „Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum og eiga sinn þátt í jaðarsetningu þess“ segir á vefnum Hinsegin frá Ö til A. Oft eru þetta góðlátlegar athugasemdir eða grín sem ekki er illa meint en verkar samt stuðandi á fólk sem fyrir því verður þótt öðrum finnist það jafnvel krúttlegt. Vissulega má gæta þess að lenda ekki í ofurviðkvæmni hvað þetta varðar en það skiptir máli að við hugum að því hvernig við bregðumst við frávikum í máli innflytjenda.

Íslendingar, innflytjendur – og íslenska

Innflytjenda- og útlendingamál eru heitasta umræðuefnið í samfélaginu um þessar mundir. Í „Torginu“, ágætum umræðuþætti í Sjónvarpinu í gær, voru þátttakendur sammála um að íslenskan væri mikilvægasti þátturinn í inngildingu innflytjenda og rótfestingu þeirra í íslensku samfélagi. En það er mikilvægt að skoða þennan þátt frá þremur sjónarhornum: Sjónarmiði (innfæddra) Íslendinga, sjónarhorni innflytjenda, og sjónarhorni íslenskunnar. Inngildingin veltur á því að okkur takist að sætta þessi sjónarmið sem stundum stangast dálítið á – og ekki bara sætta þau á yfirborðinu, heldur samþætta þau í eina heildstæða málstefnu. Í þeirri málstefnu þurfa allir aðilar að gefa eitthvað eftir en fá í staðinn eitthvað á móti.

Íslendingar þurfa að sætta sig við að geta ekki notað íslensku alltaf og alls staðar á Íslandi, en eiga á móti rétt á íslenska sé notuð þar sem þess er nokkur kostur og ávallt sé reynt að koma til móts við þá á einhvern hátt. Innflytjendur þurfa að leggja það á sig að læra íslensku, en eiga á móti rétt á að þeim sé liðsinnt við það og komið til móts við þá með góðum ókeypis íslenskunámskeiðum, vönduðum kennslugögnum, íslenskukennslu á vinnutíma og síðast en síst umburðarlyndi gagnvart ófullkominni íslensku. Íslenskan verður að sætta sig við að vera stundum töluð með hreim, ófullkomnum beygingum og óvenjulegri orðaröð, en fær á móti tækifæri til að lifa og dafna um langa framtíð og vera burðarás í fjölmenningarsamfélagi.

Það virðist vera almenn skoðun Íslendinga að íslenskan sé sérlega erfitt tungumál – og það er eiginlega eins og við viljum hafa það þannig, okkur sé metnaðarmál að íslenskan sé erfið og finnist hún verða merkilegra tungumál fyrir vikið. En það er ekkert sem bendir til þess að íslenska sé erfiðari en gengur og gerist um tungumál – erfiðleikastig tungumáls fer eftir ýmsu, svo sem móðurmáli þeirra sem eru að læra málið, þeim málum sem þau kunna, o.s.frv. Ég hef lengi talið að þessi hugmynd eigi einkum rætur í því að vegna þess hve lengi Ísland var eintyngt samfélag erum við svo óvön að heyra íslensku talaða af öðrum en þeim sem eiga hana að móðurmáli að við dæmum öll frávik frá venjulegu máli mjög hart.

Þetta leiðir til þess að við gerum mjög oft athugasemd við málfar þeirra sem eru að læra íslensku, hvort sem það er hreimur, beygingar eða annað, látum í ljós óþolinmæði og skiptum iðulega yfir í ensku. Þess vegna missir fólk kjarkinn, gefst upp á íslenskunni og fær það á tilfinninguna að það geti ekki gert neitt rétt og íslenskan hljóti þess vegna að vera óskaplega erfið – og vissulega er íslenska erfið ef ætlast er til að hún sé töluð fullkomlega rétt. En það gildir vitanlega um öll tungumál. Það er ekkert síður erfitt að ná móðurmálsfærni í ensku en íslensku eins og hér var nýlega skrifað um. Enskumælandi fólk er hins vegar vant því að heyra ensku talaða á ótal vegu og kippir sér venjulega ekkert upp við það.

Rannsóknir benda til þess að mikill meirihluti innflytjenda vilji læra íslensku. En með því að bregðast ekki nógu vel við tilraunum fólksins og vilja til þess að tala málið hrekjum við það yfir í ensku. Margt fólk sem hingað kemur lærir ensku á undan íslensku – eða í staðinn fyrir íslensku – og á samskipti við Íslendinga og aðra hópa innflytjenda á ensku, enda þótt hún sé ekki móðurmál þess. Þetta er auðvitað ekki fullkomin enska, meira að segja oft mjög léleg enska. En okkur er alveg sama um það, enda er okkar enska ekki fullkomin heldur þótt við höldum það oft. Við erum viðkvæm fyrir hönd íslenskunnar en ekki enskunnar. Það er í sjálfu sér skiljanlegt – en ef við viljum íslenskunni vel er grundvallaratriði að breyta um viðhorf.

Víða hvar

Um daginn rakst ég fyrir tilviljun á orðið víðahvar í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „Málið átti að vera vandað, og er það líka á sumum stöðum, enn nokkurskonar tilgerð og sérílagi dönskusletturnar skemma þó víðahvar gott efni.“ Ég er vanur að nota efsta stig atviksorðsins víða í þessu sambandi og segja víðasthvar – eða víðast hvar. Athugun leiðir í ljós að víðahvar var nokkuð notað á nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu en fremur lítið eftir það og er mjög sjaldgæft núorðið þótt dæmum bregði vissulega fyrir enn – reyndar oftast rituð í tvennu lagi, víða hvar. Efsta stigið víðast hvar, stundum ritað víðasthvar, hefur hins vegar verið margfalt algengara síðan um miðja 19. öld, en elstu dæmi um bæði samböndin eru frá 18. öld.

Kannski væri eðlilegast að líta á víðahvar og víðasthvar sem samsett orð en það er þó ekki gert í orðabókum heldur litið á þetta sem orðasambönd sem skýrð eru undir víða í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924: „v. hvar, paa mange Steder“ og „víðast hvar, paa de allerfleste Steder, næsten overalt“. Sama máli gegnir um Íslenska orðabók: „víða hvar víða“;  „víðast hvar á flestum stöðum“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er víðast hvar fletta í sömu merkingu. Þar sem ég nota ekki víða hvar átta ég mig ekki á því hvort notendur þessa sambands gera eða hafa gert áðurnefndan mun á merkingu þess og víðast hvar. Erfitt er að átta sig á því út frá ritmálsdæmum vegna þess að mjög oft gæti hvor merkingin sem er átt við og samhengi sker ekki úr.

Þrátt fyrir það er hægt að finna dæmi sem sýna að þessi munur hefur ekki alltaf verið gerður. Í DV 2013 segir t.d.: „Fjölskyldumynstrið er ansi ólíkt því sem þekkist víða hvar á Vesturlöndum. Fjölskyldan samanstendur nefnilega af einni eiginkonu, fimm eiginmönnum og einum syni.“ Þarna ætti merkingin 'á flestum stöðum' augljóslega fremur við en 'víða', og trúlegt að svo sé í mun fleiri dæmum þótt erfitt sé að sýna fram á það. Ástæðan fyrir því að sambandið víða hvar hefur að mestu horfið úr málinu gæti annaðhvort verið sú að hvar bætir engu við merkingu víða og hafi því þótt óþörf viðbót, eða merkingarmunur víða hvar og víðast hvar, sem alla tíð var margfalt algengara, hafi dofnað svo að fyrrnefnda sambandið varð óþarft og lognaðist út af.

Hittingur

Orðið hittingur er meira en hundrað ára gamalt í málinu. Elsta dæmi um það á prenti er í Skólablaðinu 1921: „Oft er það að eins hittingur, ef menn frjetta slíkt.“ Í Tímanum 1941 segir: „Bæirnir eru því einangraðir of mjög frá öðrum og menn geta naumast komizt heiman eða heim nema af hittingi.“ Í Morgunblaðinu 1954 segir: „Það er næstum hittingur – segir hún – að við fáum kjól eða kápu við okkar hæfi.“ Í Fiskifréttum 1991 segir: „Þetta er mikill hittingur en við vorum heppnir að þessu sinni.“ Augljóst er af samhengi að hittingur merkir 'tilviljun' í þessum dæmum, og má tengja það við sambandið það hittist svo á sem merkir 'það er/var tilviljun'. En þessi merking er ekki í orðabókum og virðist ekki hafa verið algeng – líklega horfin úr málinu.

Orðið er líka notað í skyldri merkingu, 'tilviljun' eða 'heppni', í brids: „Hittingur er það kallað þegar spilarar þurfa að velja á milli tveggja jafngildra möguleika“ segir í Morgunblaðinu 2008. Þar snýst málið um að hitta á rétta möguleikann, vera hittinn – „Sumir eru getspakari en aðrir og Norðmaðurinn Geir Helgemo er sérlega hittinn“ heldur blaðið áfram. Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun er í Vísi 1966: „Austur spilaði út tíguláttu, sem var greinilega „hittings“ útspil.“ Einnig var orðið stundum notað um fiskveiðar: „Í nótt lentum við í góðum hittingi“ segir í Morgunblaðinu 1978, „Minn félagsskapur og ég lentum aldrei í neinu skoti, hittingi eða hvað maður kallar það þegar fiskurinn bara tekur og tekur“ segir í Degi 2000.

En undanfarin 20 ár eða svo hefur orðið aðallega verið notað í nýrri merkingu – 'óformleg samkoma, það að hittast, spjalla o.s.frv.' eins og segir í Íslenskri orðabók; 'óhátíðleg samkoma vina eða fjölskyldu' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi sem ég finn um þá merkingu er reyndar úr Fálkanum 1946: „Helena og ég hittumst æði oft, en eini tilgangurinn minn með þeim hittingum var sá að fá einhverjar fregnir af Wöndu.“ Þetta er þó einangrað dæmi og annars sjást ekki dæmi um þessa merkingu fyrr en eftir aldamót, fyrst á samfélagsmiðlum eins og vænta má: „Og ef það er hittingur á kvöldin komast þær sem eru að vinna“ á Bland.is 2002, „Tekin létt og óvænt æfing eftir góðan hitting á Símnet“ á Hugi.is 2002.

Dæmum fer svo ört fjölgandi á samfélagsmiðlum næstu ár en þróunin í formlegra máli er mun hægari. Stöku dæmi fara þó að sjást í prentmiðlum upp úr þessu – „og mátti m.a. sjá til fyrrum vinkvenna ungfrú Íslands sem voru með hitting“ segir í DV 2002, „Elfa, er einhver „hittingur“ núna“ segir í Morgunblaðinu 2002, „Þetta var ekki langur hittingur og tók fljótt af“ segir í DV 2004, „síðan er oftast hittingur á Vegamótum“ segir í Fréttablaðinu 2005. En sprenging virðist verða í notkun orðsins fyrir fimm árum eða svo. Í Risamálheildinni eru níu þúsund dæmi um orðið, þar af um 7.400 á samfélagsmiðlum. Þessi mikla notkun bendir til þess að um sé að ræða mjög gagnlegt orð sem bæti úr brýnni þörf – við höfum ekki annað orð fyrir þessa merkingu.

Vissulega væri stundum hægt að nota orðið fundur en hittingur er samt yfirleitt óformlegri og oft tilviljanakenndur fremur en fyrir fram ákveðinn (og tengist þannig merkingunni 'tilviljun' sem orðið hafði áður). Í Íslenskri orðabók er orðið hittingur þó merkt „slangur“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Það er líka stundum amast við því í málfarsumræðu á samfélagsmiðlum. En þetta er eðlileg orðmyndun af sögninni hitta og ýmis önnur dæmi um orð mynduð með viðskeytinu -ingur af sögnum með svipaðri stofngerð – brettingur af bretta, léttingur af létta, styttingur af stytta, þvættingur af þvætta o.fl. Mér finnst þess vegna einboðið að létta öllum hömlum af hittingi og telja þetta gott og gilt orð.

Fagn

Orðið fagn er bæði að finna í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók í merkingunni 'tilþrifamikið látbragð íþróttamanns sem fagnar góðum árangri í keppni, t.d. við að skora mark í knattspyrnu'. Þetta orð er a.m.k. aldarfjórðungs gamalt í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1998: „Þetta „fagn“ framherjans var gagnrýnt af mörgum, m.a. dómara úr heimsmeistarakeppninni.“ Í ræðu á Alþingi 2001 var sagt: „En ég ítreka fögnuð minn og segi eins og í Vestmannaeyjum að mörg „fögn“ eru á bak við það að hv. þm. skuli þó vera opinn fyrir breytingunum.“ Í DV 2002 segir: „Það var mikið talað um það fyrir æfingu að ég skoraði aldrei og gæti því aldrei tekið þetta fagn.“ Í elstu dæmum eru oft hafðar gæsalappir um orðið.

Fáein dæmi má finna um fagn í blöðum og á samfélagsmiðlum frá fyrsta áratug þessarar aldar, en eftir 2010 verður það mjög algengt og í Risamálheildinni eru dæmin um það a.m.k. hátt á annað þúsund. Einhverjum gæti fundist orðið óþarft vegna þess að málið á önnur nafnorð mynduð af fagna orðin fagnaður ʻgleðskapur, veislaʼ og fögnuður ʻþað að fagna, mikil gleðiʼ eru leidd af þessari sögn með viðskeytinu -uður. En fagn er sérstök tegund af gleðskap og þess vegna ekkert óeðlilegt að til verði sérstakt orð til að tákna þá merkingu. Orðið er myndað af sögninni fagna með því að sleppa nafnháttarendingunni -a. Slík orðmyndun er eðlileg og algeng og orðið fellur vel að málinu og rímar við önnur hvorugkynsorð eins og agn, gagn og magn.

Í Íslenskri orðabók er fagn sagt „óformlegt“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það sagt „óstaðfest nýyrði“. Það er í sjálfu sér eðlilegt – orðið er nýlegt og það tekur tíma fyrir okkur að venjast eða sætta okkur við ný orð, auk þess sem þetta orð er komið úr íþróttamáli sem oft þykir fremur óformlegt og ekki fínt. Sumum virðist líka finnast orðmyndun af þessu tagi tilheyra óformlegu máli og vissulega er hún algeng þar þótt ýmis orð sem svona eru mynduð séu fullgild í málinu og hafi verið það lengi. En út frá þessu má velta því fyrir sér hvað þurfi til að orð fái fulla viðurkenningu – séu höfð án gæsalappa í rituðu máli og tekin athugasemdalaust í orðabækur. Það er erfitt að segja, en mér finnst allavega fagn hafa unnið sér inn viðurkenningu.