Nafnorðið gír er skýrt 'gangur, stig, vinnslustig í tannhjólakerfi við vél til að færa út átak, breyta hraða eða stefnu, einkum í farartækjum' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi um það á tímarit.is er úr þýddri sögu eftir Arthur Conan Doyle í Rökkri 1923: „„Gírunum“ er öðruvísi fyrirkomið í þessum bíl en þeim gamla.“ Við orðið gírunum er neðanmálsgrein þar sem segir: „Nýyrði. Í raun réttri orðrétt þýðing af enska orðinu “gear”. Mun þýðandi sögu þessarar ekki harma, þó það falli í gleymskudá, ef annað orð býðst og betra.“ Þetta dæmi sýnir ekki kyn orðsins, en seinna í sögunni kemur fram að það er haft í hvorugkyni, gírið: „Eg hafði ekið með fullum hraða og ætlaði að færa til gírsprotana, svo meðalhraðagírið tæki við af stórhraðagíri.“
Í greininni „Um nýyrði í tæknimáli“ í Skírni 1962 segir Steingrímur Jónsson: „Af orðanefnd V.F.Í. var lagt til, að í vélfræðinni yrði tekið upp orðið gír fyrir enska orðið gear og notuð hvorugkynsmyndin, gírið. Nokkrum árum síðar komst þetta orð inn í bílamálið, en var þá notað karlkyns, gírinn, og virðist það hafa náð fótfestu á þessu sviði, enda þótt ætla mætti, að hvorugkynsmyndin þætti viðfelldnari.“ En í raun virðist orðið alltaf hafa verið haft í hvorugkyni framan af og það er ekki fyrr en seint á fjórða áratugnum sem karlkynið fer að ryðja sér til rúms. Ekki er ljóst hvers vegna gír skipti um kyn en hugsanlega má rekja það til áhrifa annarra karlkynsorða með sömu stofngerð, einkum vír – önnur eru sjaldgæf, eins og fír (eða fýr) og tír.
Elsta dæmi um karlkynið er í Morgunblaðinu 1938: „Við rannsókn kom í ljós að gangvjelin stóð í öðrum gír.“ Karlkynið náði fljótt yfirhöndinni en hvorugkynið sést þó stöku sinnum fram á sjötta áratuginn og er t.d. notað í Bókinni um bílinn eftir Axel Rönning frá 1952. Í Vísi 1955 segir: „Bílstjórinn skipti á annað „gír“ í snatri og sneri bílnum bókstaflega „á blettinum“.“ Ekki má svo gleyma Bjössa á mjólkurbílnum sem „stígur bensínið / í botn á fyrsta gíri“ eins og segir í texta Lofts Guðmundssonar frá 1954. Þar er að vísu ekki hægt að fullyrða um kynið en gír virðist yfirleitt ekki fá -i-endingu í þágufalli eintölu þegar það er í karlkyni. Aftur á móti fá sterk hvorugkynsorð undantekningarlaust -i í þágufalli þannig að sennilega er þetta hvorugkyn.
Orðið gír hefur getið af sér ýmis orðasambönd sem notuð eru sem líkingar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er gefið sambandið skipta um gír í merkingunni 'breyta vinnuhraða, koma sér í annan ham, breyta lífsháttum sínum' og Jón G. Friðjónsson nefnir það einnig í Merg málsins. Elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1965: „Það getur stundum verið erfitt að skipta um gír, eins og ég kalla það í samskiptum við fólkið, að fara í skyndingu úr gleði þess inn í sorg, eða úr sorg í gleði.“ Elsta dæmi um skipta um gír í merkingunni 'stórauka hraðann' er í Tímanum 1968: „það hefði verið líkast því sem Hemery hefði skipt um gír, þegar hann kom á beinu brautina, og geystist framúr öðrum hlaupurum og kom langfyrstur í mark.“
Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nefnt sambandið komast í gírinn í merkingunni 'komast í rétta stemmningu eða hugarástand'. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Helgarpóstinum 1983: „þá neyðist hann til að verja persónuna og kemst í gír og grínið fúnkerar alveg prýðisvel.“ Annað dæmi er í Helgarpóstinum 1986: „Hann var kominn í gír, í hópi efstu manna og virtist til alls líklegur.“ Örfá dæmi eru um þetta samband fram að aldamótum en þá verður það skyndilega algengt – yfir þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni. Sambandið koma sér í gír(inn) sést fyrst í Morgunblaðinu 1998: „hann vonaði að svartsýnin sem honum hefði fundist svo ríkjandi væri bara aðferð Eyjamann til að koma sér í gír.“ Um það eru um 500 dæmi í Risamálheildinni.
Í Merg málsins nefnir Jón G. Friðjónsson einnig sambandið í góðum gír sem merkir 'í góðu formi, í góðu skapi, á góðu róli, í góðu lagi' eða eitthvað slíkt. Elsta dæmið um þetta samband er í Helgarpóstinum 1986: „Í stóra salnum situr sparibúinn hópur á vegum eins ráðuneytisins að halda upp á merkisafmæli. „Fram, fram fylking!“ syngja þau í góðum gír.“ Annað dæmi er í DV 1992: „Þetta er allt saman í góðum gír og lítur vel út.“ Stundum virðist sambandið jafnvel notað sem skrauthvörf í merkingunni 'undir áhrifum áfengis' eins og í Morgunblaðinu 2008: „Þá fékk hann sér örlítið í tána, leið vel, var kátur og í góðum gír.“ Sambandið varð mjög algengt á tíunda áratugnum og í Risamálheildinni er hátt á þriðja þúsund dæma um það.
Orðið -gír er líka notað sem seinni liður ýmissa samsetninga, í merkingunni 'skap, hugarástand' eða eitthvað slíkt. Þessi orð eru oftast notuð með greini, í samböndum eins komast í X-gírinn, fara í X-gírinn, vera í X-gírnum o.þ.h. Elsta dæmi sem ég finn um þetta er í Tímanum 1948: „Stjórnarvagninn er ennþá í dýrtíðarfeninu, þrátt fyrir það, þó hann hafi verið settur í framsóknar-„gírinn“.“ En algengasta orðið af þessu tagi er líklega jólagírinn – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1997, en 450 dæmi eru um það í Risamálheildinni. Alls eru hátt í þúsund slík orð í Risamálheildinni, um flest bara eitt dæmi. Algengust eru sumargírinn, kosningagírinn, helgargírinn, fórnarlambsgírinn, föstudagsgírinn, keppnisgírinn og dansgírinn.
Af nafnorðinu gír er leidd sögnin gíra sem einnig kemur fram í líkingum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er gefið sambandið gíra sig upp í merkingunni 'setja sig í gírinn, koma sér í rétt ástand'. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Þjóðviljanum 1986: „Nú sé ég fyrir mér að einhverjir gíra sig upp í vandlætingu.“ Sambandið var frekar sjaldgæft fram að aldamótum en í Risamálheildinni eru 1500 dæmi um það. Einnig er til sambandið gíra sig niður sem merkir 'hægja á sér, rifa seglin'. Elsta dæmi um það er í Lesbók Morgunblaðsins 1981: „Aftur á móti er ennþá verið að gíra sig niður.“ Þetta samband var nokkuð notað á tíunda áratugnum en er mun sjaldgæfara en gíra sig upp – í Risamálheildinni eru tæp 200 dæmi um það.