Vörum okkur á skattsporinu!

Tungumálið er valdatæki – eitt öflugasta valdatæki sem fólk í lýðræðisþjóðfélagi getur beitt. Eins og öðrum valdatækjum er hægt að beita því á mismunandi hátt, af mismikilli fimi, og ná misgóðum árangri. Fólk sem hefur atvinnu af beitingu tungumálsins er þarna í mun sterkari stöðu en almenningur. Á seinni árum hafa ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki ráðið til sín upplýsingafulltrúa sem hafa það hlutverk að beita tungumálinu til að koma sjónarmiðum þessara aðila á framfæri. Það er ekkert athugavert við það, og þetta fólk er bara að vinna vinnuna sína og gera það sem það er gott í. En einmitt vegna þess að það beitir tækinu af færni og kunnáttu þurfum við að vera á varðbergi – gæta þess að ekki sé verið að misbeita sameign okkar, tungumálinu, til að slá ryki í augun á okkur á einhvern hátt.

Undanfarið hef ég nokkrum sinnum rekist á orðið skattspor í fjölmiðlum – einnig í myndinni skattaspor. Ég vissi ekki hvað þetta merkti og það er ekki í neinum orðabókum. Þegar ég fór að gúgla komst ég að því að orðið er ekki gamalt – það var kynnt til sögunnar í viðskiptablaði Morgunblaðsins 2015. Þar kemur fram að skattspor fyrirtækis tekur til allra opinberra gjalda sem fyrirtækið greiðir, hverju nafni sem þau nefnast, svo sem tekjuskatts, virðisaukaskatts, tryggingagjalds o.fl., og einnig til greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna. En ekki nóg með það – skattsporið tekur líka til þeirra skatta sem fyrirtækið dregur af launum starfsfólks og skilar í ríkissjóð, svo og til lífeyrisframlags starfsfólksins. Fyrirtækið er því að talsverðu leyti innheimtuaðili, ekki greiðandi.

Það má halda því fram að það sé sérkennilegt að hafa sérstakt orð sem nær yfir og sameinar jafnóskylda hluti sem hvers kyns skattgreiðslur fyrirtækis, skatta starfsmanna þess, greiðslur í lífeyrissjóð o.fl. – og tengja þetta allt við fyrirtækið, þetta er skattspor þess. En það þjónar alveg sérstökum tilgangi að hafa sérstakt orð yfir þetta. Það hefur oft verið nefnt að ástæðan fyrir því hversu illræmd hin svokallaða „þágufallssýki“ er, og hversu hart hefur verið barist gegn henni, sé ekki síst sú að hún hefur nafn. Fjöldi annarra sambærilegra eða róttækari breytinga er í gangi í tungumálinu án þess að vekja jafnmikla athygli eða andúð, vegna þess að þær hafa ekkert sérstakt nafn sem geri auðvelt að tala um þær. Það hefur mikið áróðursgildi að búa til orðið skattspor og fella allt mögulegt undir það.

Það er nefnilega alveg ljóst í hvaða tilgangi þetta orð var smíðað. Í kynningunni í Morgunblaðinu kom fram að fyrirmyndin að skattsporinu væri sótt til Danmerkur. „Þar sætti Carlsberg, alþjóðlegi drykkjarvöruframleiðandinn, mikilli gagnrýni þar sem svo virtist sem félagið greiddi litla skatta til samfélagsins. Í kjölfarið hafi KPMG dregið upp skattspor fyrirtækisins. „Þar kom í ljós að þeir borguðu skatt upp á 2,3 milljarða danskra króna, fyrirtæki sem veltir rúmlega 100 milljörðum. En þegar búið var að taka saman alla þá skatta sem tengdust starfseminni kom í ljós að heildarskattgreiðslur félagsins voru um 40 milljarðar danskra króna en ekki aðeins tekjuskatturinn sem þeir skiluðu til samfélagsins. Þessi nálgun dró í kjölfarið úr gagnrýni á fyrirtækið.““

Þarna kemur þetta fram svo skýrt sem verða má. Orðinu er beinlínis ætlað að gera hugarfar almennings í garð fyrirtækja jákvæðara. Þegar dæmi um notkun orðsins eru skoðuð kemur líka greinilega í ljós að það er ekki síst notað af forsvarsfólki stórfyrirtækja sem hafa verið gagnrýnd fyrir lágt framlag til samfélagsins en háar arðgreiðslur til eigenda. Þetta var t.d. áberandi í umræðu um styrki stjórnvalda til fyrirtækja vegna áhrifa covid-19 eins og kom fram í fréttatilkynningu Bláa lónsins fyrr í vikunni: „Í tilkynningunni segir jafnframt að skattspor Bláa Lónsins hf. hafi numið rúmlega 1,8 milljörðum króna á árinu sem sé rúmlega níföld sú fjárhæð sem félagið þáði í gegnum úrræði stjórnvalda.“ Einnig mætti vísa í umræðu um skattspor Icelandair og ýmissa sjávarútvegsfyrirtækja.

Skattspor er stutt og lipurt orð sem fer vel í málinu og engin ástæða er til að amast við í sjálfu sér. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga hvers vegna það er búið til og hvernig það er notað. Tilgangur þess er að bæta ímynd stórfyrirtækja í augum almennings. Það er ekkert óeðlilegt að fyrirtækin vilji gera það. En það er gríðarlega mikilvægt að við, almenningur, áttum okkur á því að þarna er verið að beita tungumálinu sem valdatæki á markvissan og úthugsaðan (svo að ekki sé sagt útsmoginn) hátt. Þetta sýnir vel mikilvægi þess að leggja áherslu á orðræðugreiningu í skólum – kenna fólki að leggja gagnrýnið mat á það sem áhrifamiklir aðilar bera á borð fyrir okkur.

Það er ýmislegt hægt

Sum ykkar muna kannski eftir sjónvarpsauglýsingunni þar sem Jón Gnarr í hlutverki prentsmiðjustarfsmanns ræddi í símann við viðskiptavin sem lét sér ekki nægja svarið „Nei, það er ekki hægt“ við einhverri spurningu og spurði hvers vegna það væri ekki hægt. Þá var Jóni nóg boðið og svaraði með þjósti: „Vegna þess að það er ekki hægt.

Fyrir nokkru skrifaði ég hér færslu um það að með hjartastuðtæki sem hefur verið sett upp í Árnagarði, og öðrum byggingum Háskólans, væru eingöngu leiðbeiningar á ensku. Þessi færsla vakti nokkra athygli og rataði m.a. í blöðin, og í framhaldi af henni fékk ég póst frá umsjónaraðilum innan Háskólans þar sem það var útskýrt fyrir mér að það væri ekki einfalt mál að hafa þessar leiðbeiningar á íslensku.

Ég sat þó við minn keip og hélt því fram að þetta væri sáraeinfalt. Og viti menn - í dag kom ég í Árnagarð og sá að leiðbeiningarnar voru komnar á íslensku, þannig að þetta reyndist ekki vera óleysanlegt vandamál.  En lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er: Þegar við spyrjum hvers vegna eitthvað geti ekki verið á íslensku eigum við ekki að láta okkur nægja svarið „Vegna þess að það er ekki hægt“. Það er nefnilega ýmislegt hægt.

Jamölu eða Jömulu?

Í gær rakst ég á blaðafrétt sem hófst svo: „Íslensku Eurovisionfararnir Systur hittu í dag úkraínsku söngkonuna Jömulu, sem sigraði Eurovison árið 2016. Þær Elín, Beta og Sigga tóku á móti Jamölu eftir æfingu hennar í dag með blómvendi og spjölluðu svo við söngkonuna og stund.“

Konan sem um ræðir heitir Susana Alimivna Jamaladinova en notar listamannsnafnið Jamala. Það birtist í tveimur myndum í fréttinni – Jömulu og Jamölu. Fyrra dæmið er í þolfalli en það seinna í þágufalli en það skiptir varla máli því að seinna í fréttinni kemur myndin Jamölu líka fyrir í þolfalli. Það sem þarna skiptir máli er að um aukafall er að ræða með endingunni -u.

Í íslensku er það alveg föst regla að einkvæð orð með a í stofni fá ö þess í stað ef þau fá beygingarendingu sem hefst á u: kakaköku, kallaköllum, o.s.frv. Þessi regla er mjög föst í okkur og við beitum henni iðulega á erlend orð þegar þau eru notuð í íslensku samhengi, ekki síst erlend kvenmannsnöfn svo sem Sarah, Tarja o.fl. En málið verður eilítið flóknara þegar tvö a eru í stofninum, í orðum eins og brandari, valtari, banani, sandali, Japani o.fl.

Þá kemur tvennt til greina: Að seinna a-ið breytist í ö en hitt haldist óbreytt, eða fyrra a-ið breytist í ö og það seinna í u. Orðin brandari og valtari fylgja yfirleitt seinna mynstrinu – þágufall fleirtölu er venjulega bröndurum og völturum en sjaldan brandörum og valtörum. Orðin banani og sandali gera ýmist – bæði bönunum og banönum er algengt, sem og söndulum og sandölum. Orð eins og Japani fylgja yfirleitt fyrra mynstrinu – þágufall fleirtölu er venjulega Japönum en sjaldan Jöpunum.

Bæði mynstrin koma sem sé fyrir og hvorugt eðlilegra eða réttara en hitt, en um að gera að fylgja málhefð – nota frekar bröndurum en brandörum og frekar Japönum en Jöpunum af því að ríkari hefð er fyrir fyrrnefndu myndinni. En þegar um er að ræða nöfn sem engin hefð er fyrir í íslensku, eins og Jamala og einnig fornafn varaforseta Bandaríkjanna sem heitir Kamala, hafa málnotendur frjálst val um það hvort mynstrið þeir nota – það er smekksatriði. Jamölu og Jömulu er því jafngilt, sem og Kamölu og Kömulu.

Það er skemmtilegt í þessari frétt að þarna eru báðar myndirnar, Jamölu og Jömulu, notaðar til skiptis. Það er ekkert einsdæmi þegar um val milli beygingarmynda er að ræða að sami málnotandi noti mismunandi myndir til skiptis, alveg ósjálfrátt og án þess að gera sér grein fyrir því. Ég hef sjálfur heyrt mann nota myndirnar sandölum og söndulum með stuttu millibili, án þess að nokkuð virtist ráða því annað en tilviljun.

Fyrsti apríl - eða hvað?

Frá og með deginum í dag, föstudeginum 1. apríl, er leyfilegt að segja og skrifa:

  • Það var beðið mig að fara
  • Ég var að versla mér mat
  • Keyptu þetta fyrir mig
  • Þetta er maður sem að ég þekki
  • Þau funda daglega
  • Hann réði ekki við þetta
  • Mikið af fólki kom á fundinn
  • Við hittumst ekki ósjaldan, jafnvel oft í viku
  • Þetta gerðist í lok síðasta áratugs
  • Hann hefur alltaf verið sjálfs síns herra
  • Gerið svo vel að rétta upp hend
  • Viltu dingla fyrir mig?
  • Ég vill ekki gera þetta
  • Svona er þetta á hinum Norðurlöndunum
  • Henni tókst að forða slysi
  • Ég gæti hafa gert þetta
  • Ég ætla að fá blöndu af báðu
  • Verðbólgan sígur upp á við
  • Þannig mönnum er ekki treystandi
  • Ég á von á að tapa þessu
  • Hárið mitt er farið að þynnast
  • Flokkurinn sigraði kosningarnar
  • Tíu smit greindust í gær
  • Markvörður Selfossar stóð sig vel
  • Ég geri mikið af því að lesa
  • Ég kynnti hana fyrir þessari bók
  • Hann er alveg eins og pabbi sinn
  • Mér bar gæfa til að fallast á þetta
  • Ég er að spá í þessu
  • Settu sneiðina í ristavélina
  • Ég var boðinn í mat
  • Opnunartíminn hefur verið lengdur
  • Verslunin opnar klukkan 9
  • Þetta hefur ollið miklum vandræðum
  • Ég þarf að mála hurðarnar
  • Ég er að fara erlendis
  • Ég er votur í fæturnar
  • Gatan er lokuð vegna lagningu malbiks
  • Þeir töluðu illa um hvorn annan
  • Ég opnaði hurðina og lokaði henni aftur
  • Ég sá bæði Kasper og Jesper og Jónatan
  • Ég er að fara eitthvert út í buskann
  • Það er verið að byggja nýjan veg
  • Þau tóku sitthvora bókina
  • Ég fór í kröfugöngu á fyrsta maí
  • Gæði þessarar vöru eru léleg
  • Ég senti bréfið í gær
  • Ég svaf illa í gærnótt
  • Göngum yfir brúnna
  • Mér langar í þessa bók

Eins og væntanlega hefur hvarflað að mörgum er textinn hér að ofan um nýjan málstaðal helber uppspuni og aprílgabb, enda vandlega tekið fram í upphafi að þessi staðall taki gildi 1. apríl. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og svo var einnig um þetta. Þarna eru tilfærðar 50 hversdagslegar setningar sem allar eiga það sameiginlegt að hafa vera taldar vond íslenska eða beinlínis rangt mál, og við þeim er eða hefur verið amast t.d. í Málfarsbankanum og ótal málfarsþáttum og -hópum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

Sumar þessara setninga eru vissulega þyrnir í augum margra – annaðhvort af því að þær samrýmast ekki málkennd þeirra eða þeim hefur verið kennt að þær séu rangt mál, nema hvort tveggja sé. En margar setninganna eru hluti af eðlilegu máli verulegs hluta málnotenda, og allar eiga sér áratuga sögu í málinu og eru málvenja stórra hópa. Þar með geta þær ekki talist „rangt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu – „rétt mál er það sem er í samræmi við mál­venju, rangt er það sem brýtur í bága við mál­venju“.

Ég get ómögulega séð að þessar setningar séu nokkur málspjöll. Þarna er oftast um að ræða smávægilegar breytingar á beygingarmyndum, fallstjórn eða merkingu einstakra orða – engar róttækar breytingar á málkerfinu nema þá „nýju þolmyndina“ en hún er viðbót en útrýmir ekki hinni hefðbundnu. Hundruð eða þúsundir sambærilegra breytinga hafa orðið á íslensku á undanförnum öldum án þess að þær hafi valdið rofi í málinu eða gert það ónothæft sem samskiptatæki. Þessar breytingar munu ekki heldur gera það.

Hitt er auðvitað annað mál að við erum flest alin upp við að þessar setningar séu „rangt mál“ og það er ekkert einfalt fyrir okkur að breyta þeirri skoðun – viðurkenna að það sem okkur var innrætt af foreldrum og kennurum, og höfum trúað á, sé ekki heilagur sannleikur. Ég hef sjálfur gengið í gegnum það. En allar þessar breytingar standa yfir og hafa gert það lengi – sumar eru jafnvel að mestu gengnar yfir. Því fyrr sem við hættum að berja hausnum við steininn, því betra – bæði fyrir okkur sjálf og íslenskuna.

Í nýrri bók minni, Alls konar íslenska, eru einmitt þessar 50 setningar teknar fyrir, skoðað hvers vegna hefur verið amast við þeim, sýnt fram á að iðulega er það byggt á misskilningi, og færð rök að því að við ættum að taka þær flestar í sátt sem góða og gilda íslensku. „Fréttin“ um nýjan málstaðal er vissulega aprílgabb – en ég vildi að hún hefði ekki verið það. Ég vildi að við hefðum kjark og tækifæri til að taka málstaðalinn til endurskoðunar og hætta að amast við eðlilegri þróun málsins sem ekki verður stöðvuð hvort eð er.

Þá gæfist okkur betri tími til að fást við það sem raunverulega skiptir máli: Að sjá til þess að íslenska sé notuð alls staðar þar sem þess er kostur, og unga fólkið fái jákvætt viðhorf til málsins og börnin hafi nægilega íslensku í málumhverfi sínu til að byggja sér upp traust málkerfi. Ef við fáum unga fólkið ekki til liðs við íslenskuna skiptir engu máli þótt okkur tækist að kenna öllum að segja mig langar og ég vil eins og páfagaukar.

Umfaðmandi íslenska

Sem betur fer hefur íslenskt þjóðfélag breyst mjög til batnaðar á undanförnum áratugum. Almenn þekking og skilningur á mannlegu eðli, hegðun og tilfinningum hefur aukist verulega – og jafnframt umburðarlyndi okkar gagnvart fjölbreytileik mannlífsins. Við áttum okkur á því að það er ekki svarthvítt eða í sauðalitunum eins og það var – eða við héldum að það væri – í gamla daga, heldur í öllum regnbogans litum. Meðal þess sem hefur breyst – eða réttara sagt komið upp á yfirborðið – er að fólk hefur margs konar kynhneigð og kynvitund og það eru ekki bara tvö kyn.

Tungumálið okkar, íslenskan, þarf að koma til móts við þessar breytingar. Tungumál sem ekki er í takt við samfélagið sem talar það á sér enga framtíð – og á ekki skilið að eiga sér framtíð. Ef okkur þykir vænt um íslenskuna hljótum við að vilja að hún umfaðmi alla notendur sína og skilji enga útundan. Tungumálið er nefnilega mjög öflugt valdatæki sem er hægt að beita bæði til góðs og ills. Stundum er því beitt til að halda jaðarsettu fólki föstu úti á jaðrinum með því að leyfa því ekki að eiga hlutdeild í tungumálinu, leyfa því ekki að nota þau orð sem það vill sjálft nota um sig og tilfinningar sínar.

Þau sem hafa ráðið yfir tungumálinu virðast hræðast það að missa einhver völd ef jaðarsett fólk fær að nota tungumálið á sínum eigin forsendum. Andstaða við það er oft rekin undir merkjum málverndar og látið eins og þau jaðarsettu vilji ráða því hvernig fólk tali, sagt að verið sé að spilla íslenskunni með því að útrýma góðum og gildum orðum og innleiða „orðskrípi“ í staðinn. Ýmist er því þá haldið fram að engin þörf sé á nýjum orðum eða lögð til „heppilegri“ orð sem ætti að nota í staðinn. Í báðum tilvikum er gert lítið úr upplifun jaðarsettra hópa og talað niður til þeirra.

Það er eðlilegt að fólk í viðkvæmri stöðu vilji nota þetta öfluga tæki, tungumálið, til valdeflingar – vilji fá að meta sjálft hvaða orðum það þarf á að halda og hvernig þau eiga að vera. Það er ekkert verið að krefjast þess að öllum finnist þessi orð frábær eða vilji nota þau – það er ekkert óeðlilegt að finnast ný orð skrítin og jafnvel kjánaleg. Það er hins vegar eðlilegt að ætlast til þess að það sé ekki gert gys að þessum orðum, eða fólkinu sem notar þau, eða gert lítið úr þörfinni fyrir þau. Málvernd án umburðarlyndis er málskemmd. Íslenskan á það ekki skilið að hún sé notuð til að meiða fólk.

Gisk

Ég sá í Málvöndunarþættinum að verið var að spyrja hvort orðið gisk í staðinn fyrir ágiskun væri rétt íslenska. Þessi spurning hefur komið upp áður. Á vef Eiðs heitins Guðnasonar, „Molar um málfar og miðla“, var árið 2012 vitnað í bréfritara sem sagði: „Í þættinum [...] (Á Rás tvö í Ríkisútvarpinu) segja þau skötuhjú [...] ævinlega þetta var gott gisk. Er það orð yfirleitt til í íslensku. Af hverju nota þau ekki bara ágiskun?“ Eiður sagðist ekki geta svarað „hversvegna þessir eftirlætis ambögusmiðir stjórnenda Ríkisútvarpsins nota ekki orðið ágiskun. Kannski þekkja þau ekki orðið.“

Þetta orð er vissulega ekki að finna í neinum orðabókum en hefur þó töluvert verið notað á undanförnum árum. Elsta dæmi sem ég fann um það er í Víkurfréttum 1993: „Þá er það ekki fleira í þessari viku, kæru tipparar eða giskarar. Góða tipp/gisk-helgi.“ Næsta dæmi er úr DV 2005: „Þarna er fyrst og fremst verið að spyrja um hvað menn spá en ekki hvað menn vilja,“ segir Össur og kallar þessa könnun „gisk“ Fréttablaðsins.“ Þar er gisk innan gæsalappa sem bendir til þess að það hafi ekki verið komið í almenna notkun.

Á næstu árum er svo slæðingur af dæmum. „Já, blint gisk er þá Siggi Sigurjóns“ í DV 2005, „Aldrei hefur reynt á hann svo að það er nokkuð gisk að átta sig á ákvæðum hans“ í Stúdentablaðinu 2006, „Hafnarfirði... þetta er samt algjört gisk“ í DV 2007, „Stig fást fyrir rétt gisk eða þegar einhver giskar á manns eigin skýringu“ í Morgunblaðinu 2009, „Rétt er að taka fram að í engu tilfellinu var um að ræða óskhyggju, aðeins hávísindalegt gisk“ í Morgunblaðinu 2010, „Eins og margir vita er í raun til lítils að spá fyrir um úrslit knattspyrnuleikja og rökstyðja giskið“ í Morgunblaðinu 2011, o.fl. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í 90, flest frá síðustu 5-6 árum.

Það er því enginn vafi á að þetta orð er komið inn í málið og sjálfsagt að bæta því í orðabækur. Þetta er stutt og snaggaralegt orð, miklu liprara en ágiskun. Orðmyndunin er eðlileg – það eru ýmis dæmi um að endingarlaus hvorugkynsorð séu mynduð af nafnhætti sagna með því að fella niður -a. Þótt orðið ágiskun sé til í málinu í þessari merkingu, og hafi verið það frá því fyrir miðja 19. öld, er engin ástæða til að amast við orðinu gisk – það er ekkert að því að eiga val. En vitanlega er ekki heldur nein ástæða til að gleyma ágiskun eða hætta að nota það orð.

Hringlótt og kössótt

Lýsingarorðið hringlótt sést stundum og heyrist í seinni tíð. Mörgum finnst það rangt og telja það „orðskrípi“ og „barnamál“. Vissulega er kringlótt venjulega myndin og um hana er fjöldi dæma þegar í fornmáli. En hringlótt er samt a.m.k. 200 ára gömul mynd – elsta (og raunar eina) dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um hana er úr kvæði eftir Bjarna Thorarensen. Orðið er að finna í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924, skýringalaust en með vísun í kringlótt, en elsta dæmi sem ég finn um það á tímarit.is er í Þjóðviljanum 1951: „maður um fimmtugt, stuttur, þrekinn með strítt hár sem stóð fram undan hringlóttum, svörtum flókahatti.“ Aðeins þrjú dæmi bætast við fram til 1980, en þá fjölgar þeim skyndilega og eru hátt á annað hundrað frá síðustu 40 árum. Þetta orð virðist því vera komið inn í málið.

Það leikur varla vafi á því að orðið er einhvers konar samsláttur úr kringlótt og hringlaga. Í sjálfu sér má segja að hringlótt sé gagnsærra en kringlótt – orðið hringur er margfalt algengara en kringla og líkingin augljósari. Hins vegar má spyrja hvaðan l-ið sé komið – það er ekkert l í hringur þótt það sé í kringla. Þess vegna mætti halda því fram að orðið ætti frekar að vera *hringótt. En samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er kringla eiginlega smækkunarorð af kringur sem merkir 'hringur' (sbr. hringinn í kring, allt um kring) og því ætti að mega líta á l-ið í hringlótt á sama hátt. Ég fæ því ekki séð annað en hringlótt sé fullkomlega rétt myndað og eðlilegt orð en alls ekkert „orðskrípi“. Þar með er ekki sagt að það eigi að koma í stað kringlótt – orðin geta alveg lifað hlið við hlið.

Annað skylt orð er kössótt sem merkir 'kantað' eða 'kassalaga'. Þetta orð er miklu nýrra og sjaldgæfara en hringlótt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu árið 2000: „Grafík leiksins er mjög flott, allar hreyfingar eru mjög vel gerðar og þó umhverfi sé allt örlítið kössótt er leikurinn svo stór og fljótur að hlaða sig að auðvelt er að fyrirgefa aðeins minni upplausn.“ Annað dæmi má nefna úr Morgunblaðinu 2015: „hvort sem pítsan var kringlótt eða „kössótt“ fúlsaði afi við henni.“ Í Vísi 2016 segir: „Augun á þeim eru orðin kössótt, þeir eru sjónvarpssjúkir, þeir ganga veginn til glötunar!“ Í Fréttatímanum 2016 segir: „Svo langar mig ekki að hafa skólann hvítan og kössóttan.“ En orðið er sjaldgæft – á tímarit.is eru dæmin ekki nema fimm, og sex til viðbótar í Risamálheildinni.

Lýsingarorð með viðskeytinu -ótt- vísa oftast til útlits og væntanlega er kössótt myndað með hliðsjón af öðrum orðum sem vísa til lögunar, t.d. kringlótt/hringlótt, hornótt, hnöttótt o.fl. Þegar -ótt- er skeytt við orð sem hefur a í stofni er a-inu venjulega skipt út fyrir ö skalli sköllótt, gatgötótt, fjallfjöllótt o.s.frv. Sögulega séð er þetta u-hljóðvarp sem stafar af því að forn mynd viðskeytisins var *uhta- og u-ið dró sérhljóðið í næsta atkvæði á undan í átt til sín. Þessar hljóðfræðilegu aðstæður eru löngu horfnar en viðskeytið hefur samt oftast þessi áhrif enn, líka í orðum sem eru mynduð löngu eftir að hljóðfræðilegar forsendur víxlanna hurfu. Þess vegna er venjuleg mynd þessa orðs kössótt, þótt nokkur dæmi um kassótt megi að vísu finna á netinu. Myndin kössótt sýnir að þessi orðmyndun lifir enn góðu lífi.

Orðið hringlótt er mun gagnsærra en kringlótt, og orðið kössótt finnst mér mun liprara en kassalaga. Þetta eru engin „orðskrípi“ heldur mynduð í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur, að því tilskildu að myndin kössótt sé notuð en ekki kassótt. Það eina sem er að þessum orðum er að við erum ekki vön þeim. Ný orð auðga orðaforðann, og séu þau mynduð samkvæmt íslenskum orðmyndunarreglum er engin ástæða til annars en fagna þeim, þótt ekki sé heldur nein ástæða til að láta þau útrýma orðum sem fyrir eru.

Opnar og ókeypis orðabækur

Undanfarna daga hefur talsverð umræða verið í fjölmiðlum um skort á opnum og ókeypis orðabókum á netinu. Ég skal síst gera lítið úr þeim skorti en vil samt minna á að á undanförnum 10-15 árum hefur orðið gerbylting í opnum aðgangi að mállegum gögnum. Nú er ókeypis aðgangur að íslenskri nútímamálsorðabók og ýmsum orðabókum milli íslensku og erlendra mála, þ. á m. allra Norðurlandamálanna og frönsku. Hægt er að leita í öllum þessum bókum í einu á Málið.is og þar eru einnig ýmis fleiri gögn, svo sem Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, Íslensk stafsetningarorðabók, Íslenskt orðanet og Íslensk orðsifjabók. Í tengslum við máltækniverkefni stjórnvalda hafa einnig orðið til gífurlega mikil og fjölbreytt málleg gögn sem eru aðgengileg í varðveislusafni CLARIN á Íslandi.

Það er hins vegar hárrétt að mikilvægustu orðabækurnar vantar – milli íslensku og ensku. Það er samt ekki þannig að ekkert sé til. Orð úr ýmsum fræðigreinum og iðngreinum má finna í Íðorðabankanum, og Hugtakasafn þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins hefur að geyma mikinn og fjölbreyttan orðaforða. En okkur vantar sárlega almennar orðabækur og þess vegna er sérstök ástæða til að fagna framtaki Sveinbjörns Þórðarsonar við að gera endurbætta útgáfu af ensk-íslenskri orðabók Geirs Zoëga aðgengilega, sem og framtaki Sigurðar Hermannssonar að búa til nýja ensk-íslenska orðabók með hjálp lýðvirkjunar. En þessi verk, sem sannarlega eru miklu betri en engin, geta ekki komið í stað viðamikilla nýrra orðabóka sem unnar væru frá grunni af hópi sérfræðinga.

Fyrir hálfu öðru ári skrifaði ég: „Meginforsendan fyrir því að íslenskan eigi sér framtíð er sú að áfram verði unnt að nota hana á öllum sviðum. Til að svo megi vera þurfum við að hafa íslenskan orðaforða á þessum sviðum – og vita af honum. Það er því mjög mikilvægt að setja af stað vinnu við nýja rafræna ensk-íslenskra orðabók sem verði í stöðugri endurnýjun. Þar þurfa notendur að geta gengið að upplýsingum um hvaða orð eru notuð í íslensku til að samsvara tilteknum enskum orðum – hvort sem um er að ræða íslensk nýyrði eða tökuorð. Þessi orðabók þarf að vera öllum opin og ókeypis – og það þarf að byrja á henni strax.“ Þetta er enn í fullu gildi – boltinn er hjá stjórnvöldum.

Íslenska sem öryggismál

Ég kom við á Árnagarði nýlega. Á leiðinni út rak ég augun í það að búið er að koma fyrir hjartastuðtæki í anddyrinu. Það er auðvitað mjög gleðilegt en ánægja mín yfir því dofnaði samt verulega þegar ég kom nær og sá að meðfylgjandi leiðbeiningar um hjartahnoð og beitingu tækisins voru eingöngu á ensku. Í Árnagarði af öllum húsum. Ef einhvers staðar í veröldinni á að hafa íslensku í heiðri er það þarna, beint á móti dyrunum inn á Árnastofnun. Mér skilst reyndar að þessi tæki tali við notandann, og tali meira að segja íslensku sem er að sjálfsögðu ánægjulegt.

Það breytir því ekki að slíkum tækjum eiga skilyrðislaust og undantekningarlaust að fylgja prentaðar leiðbeiningar á íslensku en ekki bara ensku. Einhverjum finnst þetta kannski óþarfa tuð enda er sú skoðun útbreidd á Íslandi að „það skilji allir ensku“. En þetta er ekki tuð heldur dauðans alvara. Ekki vegna þess að íslenska er opinbert mál á Íslandi þótt það skipti auðvitað máli, heldur vegna þess að það er fráleitt og óviðunandi að öryggistæki fylgi einungis leiðbeiningar á ensku.

Í því sambandi má minna á að það er ekki hægt að setja lyf á markað á Íslandi nema því fylgi íslenskar leiðbeiningar. Fyrir því eru gildar ástæður og vitanlega á að gilda það sama um öryggistæki eins og þetta. Ég geri ráð fyrir að það sé ekki lagaskylda að láta leiðbeiningar á íslensku fylgja, og stjórnvöld ættu þá að breyta því hið snarasta. En þótt það sé ekki skylda ættu framleiðendur eða innflytjendur hvers kyns öryggistækja að sjá sóma sinn í því að útbúa vandaðar leiðbeiningar á íslensku.

Þótt enskukunnátta sé vissulega útbreidd á Íslandi fer því fjarri að enskan sé öllum töm. Á ögurstund þar sem sekúndur geta skilið milli lífs og dauða skiptir öllu máli að leiðbeiningar séu á því máli sem fólk kann og skilur best. Fyrir flesta Íslendinga er það íslenska. Hins vegar er auðvitað jafnsjálfsagt að enskar leiðbeiningar fylgi líka, enda býr hér fjöldi fólks sem ekki skilur íslensku. Vitanlega er ekki hægt að hafa leiðbeiningar á öllum tungumálum en með tilliti til fjölda Pólverja sem hér býr væri líka æskilegt að hafa leiðbeiningar á pólsku. Ef þið rekist á einhvern öryggisbúnað sem ekki fylgja leiðbeiningar á íslensku skuluð þið endilega kvarta.

Hin ýmsu

Íslensk lýsingarorð hafa bæði svokallaða sterka beygingu (góður / góð / gott) og veika ((hinn) góði/ (hin) góða / (hið) góða). Meginreglan er sú að sterka beygingin er notuð þegar lýsingarorðin standa sjálfstæð eða með óákveðnum nafnorðum (án greinis) – hann er góður, góð bók. Veika beygingin er notuð þegar lýsingarorðin standa með ákveðnum nafnorðum (þ.e. með ákveðnum greini) eða ábendingarfornöfnum – góða bókin, hin góða bók. Frá þessu eru þó ýmsar undantekningar. Beyging ýmissa fornafna og töluorða ber talsverðan svip af beygingu lýsingarorða, en þau hafa þó yfirleitt aðeins sterka beygingu. Undantekning er raðtalan fyrstur sem hefur einnig veiku beyginguna fyrsti, og svo raðtölurnar þriðji og fjórði sem aðeins beygjast veikt eins og ég skrifaði nýlega um.

Þó eru þess dæmi að fornöfn eigi sér veikar myndir, einkum óákveðna fornafnið ýmis. Í málfarsþætti í Þjóðviljanum 1958 birtist bréf þar sem segir: „Ég minnist þess ekki, að þeir, sem rætt hafa eða ritað um íslenzka tungu, hafi minnzt á orðtakið hinir ýmsu, sem sjá má og heyra daglega í ræðu og riti, jafnvel lærðra manna. En mér finnst þetta ein hin aumasta rasbaga í íslenzku máli […].“ Þarna er ýmis sem sé notað með ábendingarfornafni, í setningarstöðu þar sem lýsingarorð myndi hafa veika mynd (hinir góðu). En aðeins fáeinir tugir dæma finnast um sterku beyginguna í þessari stöðu, t.d. „Þetta ætlum við að rannsaka og sjá hve djúpt úr jörðu hinar ýmsar bergtegundir eru komnar“ í Morgunblaðinu 1936 og „Annars eru hinir ýmsir hlutar bílsins frá mörgum fyrirtækjum“ í Tímanum 1966.

Mér finnst þessi dæmi mjög óeðlileg en veika beygingin aftur á móti mjög eðlileg. Um hana eru hátt í 160 þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta í Skírni 1851. Það er athyglisvert að af 40 elstu dæmunum, frá 1850-1859, eru 36 úr Þjóðólfi en aðeins fjögur úr öðrum ritum. Á næsta áratug bætast við dæmi úr nokkrum öðrum ritum þótt áfram séu flest dæmin úr Þjóðólfi. Það leikur varla vafi á að þau má rekja til Jóns Guðmundssonar sem varð ritstjóri blaðsins síðla árs 1852, en dæmi um umrætt orðasamband fara að sjást í því árið 1853. Jón var ritstjóri Þjóðólfs til 1874 og eftir það fer dæmum um sambandið fækkandi í blaðinu. Það er líka ekki óhugsandi að áðurnefnt dæmi í Skírni sé einnig komið frá Jóni – hann var ritstjóri Skírnis 1852 en gæti einnig hafa komið nálægt árgangnum 1851 án þess að ég geti fullyrt það.

Ég sé ekki betur en allar hugsanlegar myndir veikrar beygingar af ýmis komi fyrir – í þremur kynjum, tveimur tölum og fjórum föllum. Eintalan er vissulega margfalt sjaldgæfari en fleirtalan en það eru þó hátt í 500 dæmi um hana, svo sem „Sömuleiðis að hinn ýmsi litur jurta og blóma, stafi frá áhrifum sólarljóssins á jurtalífið“ í Dagskrá 1897, „Skólar, verksmiðjur og hin ýmsa starfsemi gengur nú sinn vana gang“ í Vísi 1977 og „Ástæðan fyrir lyktinni er sú að kjötvinnslan Kjarnafæði, sem er í næsta húsi við Rúvak, hefur verið dugleg við að reykja hið ýmsa kjötmeti“ í Degi 1987. Það er rétt að hafa í huga að hið sama gildir um hina „hefðbundnu“ sterku beygingu orðsins, að eintalan er þar margfalt sjaldgæfari en fleirtalan, sem er skiljanlegt út frá merkingu orðsins.

Flest höfum við væntanlega lært að ýmis sé óákveðið fornafn, og í Málfarsbankanum segir: „Orðið ýmis er að uppruna fornafn og því er ekki talið æskilegt að segja „hinir ýmsu menn“ eða „hinir ýmsustu aðilar“ enda er ýmis þá sett í stöðu lýsingarorðs. Fremur: ýmsir menn, alls konar fólk, mismunandi aðilar o.s.frv.“ En ýmis er reyndar greint sem lýsingarorð í flestum uppflettiritum um fornmálið, t.d. orðabók Fritzners, Norrøn grammatikk eftir Iversen, fornmálsorðabókinni í Kaupmannahöfn o.v. Sigfús Blöndal greinir orðið líka þannig í Íslensk-danskri orðabók. Við það bætist svo tilhneiging orðsins til að stigbreytast, hinir ýmsustu, en væntanlega er þar samt ekki um raunverulega stigbreytingu að ræða eins og ég hef áður skrifað um.

Andstaðan við þetta orðalag virðist byggjast á því að sem fornafn „eigi“ það ekki að hafa þessa beygingu eða setningarstöðu. En það er auðvitað fráleitt að halda því fram að eitthvað sé athugavert við orðalag sem á sér 170 ára sögu í málinu og nærri 160 þúsund dæmi eru um á tímarit.is, og rúm 40 þúsund í Risamálheildinni. Í ljósi þess að orðið hefur komið sér upp fullkominni veikri beygingu, og er notað í dæmigerðri setningarstöðu lýsingarorða, finnst mér einboðið að breyta greiningunni og skilgreina ýmis framvegis sem lýsingarorð sem hafi sterka og veika beygingu eins og önnur orð í þeim flokki – og taka orðalagið hin ýmsu í sátt.