PISA

Ég hjómaði yfir PISA-skýrsluna og fór á fund um hana á Menntavísindasviði  Það er auðvitað alvarlegt mál að útkoma íslenskra unglinga á lesskilningsprófi fari versnandi en það er athyglisvert að lesskilningurinn er sér á báti í þessu – útkoman í stærðfræði- og náttúrufræðilæsi er svipuð og síðast (en ekki góð). Þetta vekur þá spurningu hvort útkoman í lesskilningsprófinu endurspegli fyrst og fremst veikari stöðu íslenskunnar í málsamfélaginu á síðustu árum en áður – sem ýmsar vísbendingar eru um.

Það hefur margsinnis verið bent á það hvernig samfélags- og tæknibreytingar hafa þrengt að íslenskunni undanfarinn áratug – t.d. í grein minni í Skírni 2016, grein okkar Sigríðar Sigurjónsdóttur í Netlu í fyrra, og í ótal erindum sem við höfum haldið undanfarin ár í tengslum við rannsóknarverkefnið Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Þróunin ætti því ekki að koma á óvart.

Þetta kallar á önnur viðbrögð en ef um tæknileg atriði varðandi læsi er að ræða.  Læsisátakið sem hefur verið í gangi er gott og gilt en það er samt hætt við að það skili litlu ef ekki er um leið hugað að því að styrkja stöðu íslenskunnar í samfélaginu, ekki síst meðal barna og unglinga. Til þess þarf margvíslegar aðgerðir og það er mikilvægt að ráðast að rótum vandans. Máltækniátak er í gangi, en það þarf líka að stórauka útgáfu á góðu lestrarefni fyrir börn og unglinga, framleiðslu á íslensku sjónvarps- og margmiðlunarefni, tölvuleikjagerð á íslensku, o.fl.

Til að byggja upp traust málkerfi barna á máltökuskeiði skiptir öllu máli að tala sem mest við börnin, lesa fyrir þau og lesa með þeim, og láta þau lesa sjálf þegar þau hafa aldur til. En þetta dugir ekki til þegar kemur að því að þjálfa lesskilning, eins og hann er mældur t.d. í PISA-prófum. Til að öðlast góðan lesskilning þurfa börnin að læra annars konar orðaforða en fæst með venjulegum yndislestri, og ná valdi á fjölbreyttari og flóknari setningagerðum en notaðar eru í samtölum og afþreyingarefni.

Þennan orðaforða og þessar setningagerðir þarf að kenna sérstaklega, með því að láta börn og unglinga lesa viðeigandi texta. Ef við viljum bæta lesskilning ungs fólks held ég að það sé forgangsverkefni að efla rannsóknir á íslenskum orðaforða og setningagerð – setja fram rökstudd viðmið um það hvaða orðaforða og hvaða setningagerðir hver aldurshópur þarf að hafa á valdi sínu, og útbúa síðan viðeigandi kennsluefni fyrir hvern aldurshóp.

Við höfum núna miklar upplýsingar um orðaforða í mismunandi textategundum. Risamálheildin sem komið hefur verið upp hjá Árnastofnun hefur að geyma á annan milljarð orða úr fjölbreyttum textum – fréttum, lagatextum, dómum, þingræðum, fræðsluefni, bloggi o.fl. Þarna eru komnar forsendur til að útbúa skrá um orð sem mikilvægt er að börn og unglingar tileinki sér, og nýta þá skrá til að velja eða semja texta sem hægt er að láta þau lesa.

Það skiptir öllu máli að átta sig á að ábyrgðin á því að bæta úr verður ekki lögð á skólakerfið eitt og sér – þetta er ekki síður verkefni foreldra og annarra uppalenda, og samfélagsins í heild. Það er mjög mikilvægt að auka íslenskukennslu í skólum og endurskoða námsefni eins og mennta- og menningarmálaráðherra vill gera, en það dugir skammt ef grundvöllurinn, sem er lagður á máltökuskeiði á fyrstu árum barnsins, er of veikur. Samtal foreldra og barna, og lestur fyrir börn og með börnum, er frumforsendan.

Ef þessi grundvöllur er sterkur getur skólakerfið byggt ofan á hann. En þá skiptir máli að kennslutíminn sé nýttur vel – ekki í ófrjóa greiningarvinnu eða vonlausa baráttu við langt gengnar málbreytingar, heldur í lestur hvers kyns texta, eflingu orðaforða og þjálfun í ritun og munnlegri tjáningu.