Málfræðikennsla

Um daginn hringdi í mig framhaldsskólanemi sem ég kannast við og var að spyrja mig út í orðflokkagreiningu. Hann var á leið í íslenskupróf og var óviss á ýmsum atriðum en hafði lært utan að nokkrar þumalfingursreglur um einkenni ákveðinna orðflokka og var að bera undir mig hvort einhverjar líkur væru á að þær kæmu honum í gegnum prófið.

Það var greinilegt að íslenska var ekki uppáhaldsnámsgrein hans – hann er í iðnnámi og gat ómögulega séð nokkurn tilgang í þessari greiningu. Ég gat ekki annað en tekið undir það. Mér finnst fráleitt að verja takmörkuðum kennslutíma í íslensku í tilgangslausa og steingelda greiningu af þessu tagi, og í vonlausa baráttu gegn áratuga gömlum málbreytingum sem gera málinu engan skaða. Þetta þýðir alls ekki að ég sé á móti allri málfræðikennslu – skárra væri það nú. Málfræðin er gagnleg til að átta sig á uppbyggingu tungumálsins og til að auðveldara sé að leiðbeina um ýmis atriði í meðferð þess.

EN – og það er stórt EN – til að hún nýtist á þann hátt þarf að vera á einhverju að byggja. Það þarf að vera búið að þjálfa nemendur í að lesa margs konar texta og fjalla um hann frá ýmsum hliðum. Það þarf að vera búið að vekja áhuga nemenda á málinu og fjölbreytileik þess. Þá getur málfræðikennslan verið gagnleg – og jafnvel skemmtileg ef rétt er á haldið. Greiningarvinna án grundvallar er hins vegar bara til bölvunar.

Af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að hún tekur tíma frá mikilvægari hlutum – lestri margvíslegra texta, þjálfun í orðaforða og lesskilningi, ritun, munnlegri tjáningu o.þ.h. Hins vegar vegna þess að hún gerir nemendur fráhverfa íslensku sem námsgrein og elur á neikvæðum viðhorfum þeirra til málsins. Nú veit ég auðvitað að kennsla í grunn- og framhaldsskólum er með ýmsu móti og dettur ekki í hug að fullyrða að áherslur í kennslunni séu alls staðar á greiningu og rétt mál. En samræmdu prófin gera a.m.k. sitt til að viðhalda þessu. Ef við ætlum að bæta árangur okkar í PISA verður að breyta þessu.