Mál í takt við tímann
8. Íslensk málrækt felst í því að átta sig á að málið verður að henta málsamfélaginu á hverjum tíma og stöðnun í máli er ávísun á hnignun.
Þótt mikilvægt sé að halda í hefðir málsins er ekki síður mikilvægt að málið þróist með samfélaginu til að það geti gegnt hlutverki sínu sem samskiptatæki. Við þurfum sífellt að vera að endurskoða skilgreiningu okkar á orðum og notkun þeirra. Mörg orð sem áður þóttu góð og gild eru það ekki lengur vegna breyttra hugmynda eða samfélagsgerðar. Fæstum dettur í hug núorðið að nota fáviti um fólk (nema sem skammaryrði), og sama gildir um negri, vangefinn og mörg fleiri orð. Þarna er mikilvægt að tungumálið lendi ekki á eftir samfélagsþróuninni eða verði dragbítur á hana.
Eitt af því sem tungumálið þarf að endurspegla er staða kynjanna og jafnréttisviðhorf samtímans. Í íslensku er málfræðilegt karlkyn ómarkað (hlutlaust) og þess vegna segjum við Enginn má yfirgefa húsið þótt við vísum til blandaðs hóps karla og kvenna, og við segjum líka Allir tapa á verðbólgunni án þess að meina að það séu bara karlmenn í þeim hópi. Í þessu felst ekki nein karlremba eða útilokun kvenna – svona virkar tungumálið bara, og fyrir því eru sögulegar ástæður. Kyn í málfræði og kynferði fólks er tvennt aðskilið og þarf ekki að fara saman.
En þrátt fyrir það er ljóst að tengslin þarna á milli eru mjög sterk í huga fólks, og margar konur upplifa slíka notkun karlkyns sem útilokandi – finnst ekki vísað til sín og vilja nota hvorugkyn fleirtölu í staðinn, t.d. Engin mega yfirgefa húsið, Öll tapa á verðbólgunni. Sama gildir um kynsegin fólk sem skilgreinir sig ekki sem (eingöngu) annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Síðarnefndi hópurinn er líka ósáttur við að til sín sé vísað með fornafninu það – finnst það lítilsvirðandi og niðurlægjandi. Þess í stað hefur verið tekið upp nýtt hvorugkyns þriðju persónu fornafn, hán, til að nota þegar vísað er til fólks í þessum hópi.
Það koma vissulega upp ýmis álitamál við breytingar af þessu tagi. Notkun karlkyns sem ómarkaðs kyns er svo inngróin í málið að henni verður ekki auðveldlega breytt. Fornöfn eru líka einn grunnþáttur málkerfisins og það er meira en að segja það að taka upp nýtt fornafn. Það er líka óljóst hvernig slíkar breytingar geti orðið. Eiga þær að vera sjálfsprottnar meðal málnotenda, þannig að það sé látið ráðast hvort þær breiðast út og ná að lokum yfirhöndinni – eða á að reyna að koma þeim á með einhvers konar stýringu, og þá hvaðan og hvernig?
Hvað sem þessu líður er bráðnauðsynlegt að íslenskan komi til móts við breytt viðhorf. Annars vegar er það nauðsynlegt vegna málnotendanna. Tungumálið er ekki undanþegið jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum – það á ekki að mismuna fólki eða úthýsa því. Hins vegar er þetta nauðsynlegt vegna tungumálsins sjálfs. Líf íslenskunnar veltur á því að málnotendur tengi sig við hana, finnist hún vera sitt mál. Þess vegna þarf hún að breytast og endurnýja sig til að þjóna þörfum samfélagsins á hverjum tíma, eins og hún hefur alltaf gert. Hún þolir það alveg – og við þurfum að leyfa henni það.