Íslenska er alls konar

14. Íslensk málrækt felst í því að gera sér grein fyrir því að íslenska er alls konar og ýmis tilbrigði í máli auðga það en spilla því ekki.

Okkur hættir til að halda að sú íslenska sem við erum sjálf alin upp við, hvert og eitt, sé betri og réttari en sú sem fólk af öðru landshorni eða á öðrum aldri talar, og okkur hættir til að telja að annað en það sem við þekkjum sjálf eða erum vönust sé rangt. Um þetta má t.d. sjá fjölmörg dæmi í málfarshópum á samfélagsmiðlum þar sem er  daglegt brauð að fólk setji inn dæmi um eitthvert orð eða orðalag sem það hefur heyrt eða séð og kannast ekki við – oftast til að furða sig eða hneykslast á því, ef ekki fordæma það. Iðulega er þó um að ræða orð eða orðalag sem er gamalgróið í málinu, en e.t.v. bundið við ákveðinn landshluta eða aldurshóp, eða hefur látið undan síga fyrir öðru afbrigði.

Það er líka mjög algengt að fólk hafi áhyggjur af því að tiltekið orð sé að útrýma öðru sem hafi verið hefðbundið að nota um sama fyrirbæri. Ég veit ekki hvað oft ég hef séð fólk gera athugasemdir við að orðið snjóstormur komi í staðinn fyrir hríðbylur og ýmis önnur orð sem fólk tilfærir, og nýlega var fólk að láta í ljós áhyggjur af því að orðið snjófjúk væri að útrýma skafrenningi. Þegar að er gáð kemur yfirleitt í ljós að því fer fjarri að eldri orðin, þau sem fólk hefur áhyggjur af, séu að hverfa úr málinu – þau eru oftast mun algengari en hin, sem fólki finnst vera að útrýma þeim. En við tökum meira eftir nýjungum en því sem við erum vön.

Setningafræðilegar breytingar geta líka auðgað málið. Sambandið getur hafa virðist koma fram á 19. öld og var áður iðulega leiðrétt í hefur getað – en merking þessara tveggja sambanda er hreint ekki sú sama, enda lifa þau hlið við hlið. Svipað má segja um sambandið vera að gera eitthvað, en iðulega er amast við aukinni notkun þess í setningum eins og Þeir voru að spila vel og Ég er ekki að skilja þetta í stað Þeir spiluðu vel og Ég skil þetta ekki. En nýja afbrigðið útrýmir ekki hinu eldra, heldur bætist við, enda er merkingin ekki alveg sú sama. Það má þess vegna halda því fram að þessar nýjungar geri okkur kleift að tjá fíngerðari merkingarblæbrigði en áður var hægt.

Fólk hefur það stundum á móti nýjungum í máli, bæði nýjum orðum og nýjum setningagerðum, að þær séu óþarfar og segist vera „á móti því að breyta málinu nema þörf sé á því“. Þó er iðulega lögð áhersla á mikilvægi þess að íslenska sé „auðugt og blæbrigðaríkt mál“. Þetta kemur ekki alveg heim og saman. Nýjungar í máli eru iðulega óþarfar, strangt tekið, en þær auðga samt málið – gera okkur kleift að tjá sömu hugsun á mismunandi hátt. Í íslensku hafa alla tíð verið margs konar tilbrigði – í framburði, orðafari, beygingum, setningagerð og merkingu. Slík tilbrigði eru eðlileg og mikilvæg í lifandi máli. Íslenskan er nefnilega alls konar – fögnum fjölbreytileikanum!