Í dag var sett inn í „Málspjall“ skjáskot af auglýsingu frá Icewear þar sem stendur „Einhleyputilboð 22% Af öllum vörum fyrir Vini Icewear“. Myndinni fylgdi athugasemdin „Icewear notaði nýtt orð í sinni auglýsingaherferð. Ég man ekki eftir að hafa séð byssur í þeirra verslunum.“ Þetta er málefnaleg athugasemd – fyrri hluti orðsins einhleyputilboð (sem raunar er skrifað í tvennu lagi í auglýsingunni) hlýtur að vera nafnorðið einhleypa sem er eingöngu skýrt 'byssa með eitt hlaup' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'einhleypt byssa' í Íslenskri orðabók. Það er samt ljóst að sú er ekki merking orðsins þarna – eins og segir réttilega í athugasemdinni selur Icewear ekki byssur. Enda liggur önnur skýring beint við.
Orðið einhleypa er þarna greinilega notað í sömu merkingu og einhleypingur, 'sá eða sú sem er hvorki í sambúð né hjónabandi'. Orðmyndunarlega og merkingarlega liggur það beint við – lýsingarorðið einhleypur merkir 'sem er hvorki í sambúð né hjónabandi' og veik kvenkynsorð eiga sér iðulega samstofna lýsingarorð – enda orðið einhleypa til fyrir þótt í annarri merkingu sé. Lýsingarorðið einhleypur er líka mjög algengt í málinu en nafnorðið einhleypa í upphaflegri merkingu mjög sjaldgæft og mörgum sennilega ókunnugt með öllu. Þess vegna er ekkert undarlegt þótt það sé tekið til handargagns og því gefin ný merking. Erfitt er að leita að dæmum vegna samfalls við lýsingarorðið einhleypur en þróunin virðist hafa byrjað kringum aldamót.
Í DV 2001 segir: „Tvær frægustu einhleypurnar í Hollywood eru nú komnar í eina sæng.“ Á Málefnin.com 2004 segir: „þá er ég einhleypa en hamhleypa til allra verka.“ Á Bland.is 2006 segir: „Kallinn minn er hvort eða er aldrei heima, er nánast einhleypa.“ En vorið 2019 birtist fyrirsögnin „Einhleypa vikunnar“ í þættinum „Makamál“ á Vísi og undir henni stóð: „Makamál kynna til leiks fyrstu Einhleypu vikunnar. […] Í hverri viku munu Makamál birta létt viðtal við einhleypan og spennandi einstakling.“ Á undanförnum sex árum hafa um hundrað einhleypur – bæði karlar og konur – verið teknar fyrir í þessum þáttum og það má því ætla að orðið einhleypa í þessari merkingu sé orðið sæmilega þekkt, a.m.k. í hluta málsamfélagsins.
En reyndar er hægt að finna eldra dæmi um orðið einhleypa í þessari merkingu – og þó. Í ræðu á Alþingi 1918 sagði Magnús Torfason: „Ef við athugum hverjir verst verða úti og mest þurfa atvinnunnar, þá eru það ekki einhleypingarnir eða einhleypurnar, heldur barnamennirnir.“ Þarna merkir einhleypa greinilega 'einhleyp kona' en einhleypingur 'einhleypur karlmaður' – vísar sem sé ekki til beggja kynja. Það er vel þekkt að málnotendur reyna oft að komast hjá því að nota karlkynsorð (starfsheiti, íbúaheiti o.fl.) um konur. Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Einnig koma við sögu […] Hreinn Sveinn sem er einhleypingur og Dúdda sem er einhleyp kona.“ Þarna væri hægt að segja Hreinn Sveinn og Dúdda sem eru einhleypingar – en það er ekki gert.
En það væri líka hægt að hugsa sér að nota orðið einhleypa um ástand, 'það að vera einhleypur' – um það ástand er ekkert orð til í málinu og því í raun nærtækara að nota einhleypa í þeirri merkingu en spandera því á merkingu sem orð er til fyrir. Einhver dæmi má reyndar finna um þessa merkingu orðsins – á Bland.is 2010 segir t.d. „ég er nánast alltaf þakklát fyrir einhleypuna mína þegar ég er hér inni“. Á Twitter 2021 segir: „Hefur einhver hérna í einhleypunni sinni, verið með rúmið sitt EKKI uppvið vegg á eina hliðina?“ Þessi merking virðist þó vera mjög sjaldgæf, enn sem komið er a.m.k., en notkun hennar – og þörf fyrir hana – gæti aukist á næstu árum vegna þess að útbreiðsla umrædds ástands fer ört vaxandi sums staðar í heiminum.
Í auglýsingunni sem nefnd var í upphafi er greinilega verið að nota einhleyputilboð í stað Singles Day tilboð sem víða sést í auglýsingum. Það er lofsvert að leitast við að nota íslensku sem mest í auglýsingum en samt er mikilvægt að það sé gert á réttan hátt og í samræmi við reglur málsins. Þarna er tvennt sem kemur til álita: Er í lagi að nota orðið einhleypa í þessari merkingu þótt það sé fyrir í málinu í annarri merkingu; og er í lagi að koma með nýtt orð þegar fyrir er í málinu orð sömu merkingar og af sama stofni? Báðum spurningum má hiklaust svara játandi – orðið er mjög sjaldgæft í eldri merkingu og misskilningur ólíklegur. Það er ekki heldur neitt að því að hafa tvö orð sitt í hvoru kyni, og einhleypa er styttra og liprara en einhleypingur.

+354-861-6417
eirikurr