Posted on

Skiptir íslenskukunnátta máli fyrir verkafólk?

Formaður Eflingar skrifar langan pistil á Facebook í framhaldi af erindi sínu á málþingi ASÍ á föstudaginn var um stöðu kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði. Þótt ég sé ósammála henni um sumt er mjög margt þarna sem ég get tekið undir, ekki síst um óæskileg áhrif þeirrar atvinnustefnu sem hefur „síðasta áratug snúist um að hingað flyttist fólk í þeim tilgangi að vinna í láglaunastörfum“. Ég skrifaði í pistli í fyrra: „Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms.“

Ein ástæðan sem formaðurinn nefnir fyrir því að frjálst flæði vinnuafls sé „eftirsóknarvert fyrir efnahagslega og pólitíska valdastétt“ er þessi: „Lýðræðisleg þátttaka væri að mestu skilin eftir í heimalandinu. Fyrsta kynslóð innflytjenda tæki yfirleitt ekki þátt í kosningum, sem gerði það að verkum að þau yrðu ekki hópur sem gæti haft áhrif á útkomu þingkosninga; því væri mjög auðvelt fyrir stjórnmálafólk að láta sem hagsmunir þeirra skiptu engu máli.“ Þetta er alveg rétt, en ég held að þarna hlyti aukin íslenskukunnátta að geta breytt einhverju. Ef innflytjendur skildu almennt íslensku gætu þeir frekar fylgst með pólitískri umræðu, líkur á að þeir tækju þátt í kosningum ykjust, og stjórnmálafólk og flokkar sæju frekar hag sinn í að taka tillit til þeirra.

Formaðurinn segir einnig: „Að sjálfsögðu er alltaf gagnlegt að geta talað tungumál landsins sem búið er í. En það er ekki töfralausn á þeim grafalvarlegu kerfisbundnu vandamálum sem aðflutt verkafólk býr við. Við vinnum ekki gegn stéttaskiptingu, arðráni og misskiptingu með því að læra íslensku. Jafnvel þótt allt aðflutta verkafólkið sem starfar á íslenskum vinnumarkaði myndi á morgun vakna altalandi á íslensku yrðu þau enn verkamenn við störf á byggingasvæðum, á hótelum, við ræstingar, í eldhúsum, á hjúkrunarheimilum og leikskólum.“ Í framhaldi af þessu segir formaðurinn „það er ekki mitt hlutverk eða félaga minna í stjórn eða trúnaðarráði eða samninganefnd að kenna fólki íslensku eða vinna að verndun þjóðtungunnar“.

Þetta er auðvitað hárrétt – þótt því megi bæta við að það er ekki heldur hlutverk verkalýðsfélaga að gera lítið úr verndun þjóðtungunnar eins og mér finnst formaðurinn stundum gera með tali sínu. Ég held reyndar að ein leið til að vinna gegn stéttaskiptingu, arðráðni og misskiptingu sé að innflytjendur læri íslensku og fer ekki ofan af því að með því aukast möguleikar þeirra á vinnumarkaði auk þess sem dregið er úr hættu á að svindlað sé á þeim. En vitaskuld er það rétt að íslenskukunnátta ein og sér bætir stöðu fólks ekki endilega mikið. Aðalvandinn er nefnilega viðhorf Íslendinga – til ensku, ófullkominnar íslensku, og ekki síst til innflytjenda almennt. Ef okkur er í raun og veru annt um íslenskuna þurfum við virkilega að taka okkur tak í þeim efnum.

Okkur formann Eflingar greinir vissulega á um það hvort íslenskukunnátta sé eða geti orðið innflytjendum til hagsbóta á einhvern hátt. Eins og ég hef oft reynt að rökstyðja held ég að svo sé, en ætla ekki að fara að þrasa um það – það er allt í lagi að við séum ósammála um þetta. Formaðurinn tekur vitanlega afstöðu út frá því sem hún telur gagnast umbjóðendum sínum best og það kann vel að vera að einhliða áhersla á mikilvægi íslenskukennslu dragi athyglina frá öðru sem máli skiptir fyrir innflytjendur. En ég tel að hagsmunir innflytjenda geti vel farið saman við hagsmuni íslenskunnar – eða ættu a.m.k. ekki að þurfa að rekast ekki á við þá. Það er hvorki innflytjendum í hag né íslenskunni að þessu tvennu sé stillt upp sem andstæðum.

Posted on

Að daga uppi – eða dala uppi

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins nýlega stóð: „Svo eiga sumir gripir það til að dala uppi á heimilum fólks.“ Í „Málvöndunarþættinum“ var réttilega bent á að dala uppi ætti væntanlega að vera daga uppi, enda hefur þessu nú verið breytt. Mér fannst samt forvitnilegt að kanna hvort þetta væri einföld innsláttarvilla eða hvort einhver fleiri dæmi væru um dala uppi í þessari merkingu – og svo reyndist vera. Í Víkurfréttum 2005 segir: „Hvar ætli það verkefni hafi dalað uppi?“ Á Twitter 2018 segir: „Þetta má ekki dala uppi eins og Sundabrautin.“ Í Ljósmæðrablaðinu 2021 segir: „Hugmyndir koma stundum viljandi og stundum óvænt, sumar dala uppi snemma.“ Í Vísi 2022 segir: „Svo þornuðu sjensarnir upp og hann dalaði uppi einn.“ Örfá önnur dæmi má finna.

Sambandið daga uppi er skýrt 'gleymist, verður afgangs' í Íslenskri nútímamálsorðabók. En þar er einnig gefið sambandið <tröllið> dagar uppi – 'tröllið verður að steini (þegar dagsbirtan fellur á það)'. Þar er komin upphafleg merking sambandsins sem víða kemur fyrir í þjóðsögum en merkingin 'gleymist, verður afgangs' er yfirfærð – og mjög eðlileg. En ef fólk þekkir ekki þessi tengsl eða áttar sig ekki á þeim verður merking sambandsins ekki gagnsæ og það skapar forsendur fyrir breytingum. Hugsanlegt er að málnotendur tengi þetta við sögnina dala sem merkir 'fara aftur, versna' – þarna munar aðeins einu hljóði og þótt merkingin sé ekki sú sama er alveg hægt að sjá ákveðinn merkingarskyldleika. Þetta er þó bara órökstudd tilgáta.

Í framangreindum dæmum um dala uppi sést ekki hvort frumlagið er í nefnifalli eða þolfalli, en í Íslenskri nútímamálsorðabók kemur fram að fall frumlagsins með sambandinu daga uppi geti verið hvort heldur sem er. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók er sambandið hins vegar eingöngu gefið með þolfallsfrumlagi, og í Málfarsbankanum segir: „Sögnin daga er ópersónuleg. Með henni stendur frumlag í þolfalli. Frumvörpin dagaði (ekki „döguðu“) uppi í þinginu. Tröllkarlana dagar uppi.“ Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2007 nefnir Jón G. Friðjónsson setninguna „þá erum við eins og nátttröll sem hafa dagað uppi í breyttum heimi“ sem dæmi um setningu „þar sem vikið er frá málvenju“. En það er hæpið.

Í greininni „Sagnir með aukafallsfrumlagi“ í Íslensku máli 1997 segir Jóhannes Gísli Jónsson: „Aukafallsfrumlag er sjaldan þolandi og aukafallsfrumlag með þetta merkingarhlutverk hefur tilhneigingu til að fá nefnifall.“ Sem dæmi um þetta nefnir hann „Tröllskessuna (þf.) àTröllskessan (nf.) dagaði uppi“. Þetta er fjarri því að vera nýtt. Í Þjóðólfi 1893 segir: „þau döguðu uppi, voru ekki útrædd.“ Í Kirkjublaðinu 1894 segir: „flögðin döguðu uppi fyrir hinni upprennandi morgunsól.“ Í Vikuútgáfu Alþýðublaðsins 1929 segir: „Hún dagaði uppi.“ Í Morgunblaðinu 1932 segir: „Áskorun þessi dagaði uppi í þinginu.“ Svo mörg og gömul dæmi eru um nefnifall með daga uppi að það hlýtur að teljast málvenja og jafnrétt og þolfall.

Nú spyrjið þið kannski: Hvers vegna í ósköpunum að eyða púðri í dala uppi sem er augljós villa sprottin af misskilningi eða misheyrn og hefur lítið breiðst út? Svarið er að það er alltaf gaman og áhugavert að skoða tilbrigði í málinu og velta því fyrir sér hvernig og hvers vegna þau koma upp. Tilbrigði af þessu tagi – sem í upphafi eru auðvitað málvillur – geta nefnilega sagt manni ýmislegt um eðli málsins og málbreytinga, og stundum breiðast þau út og verða á endanum rétt mál. Athuganir á svona tilbrigðum geta líka leitt mann út á aðrar áhugaverðar brautir – ef ég hefði ekki farið að garfa í dala uppi hefði ég ekki áttað mig á tilbrigðunum í frumlagsfalli með daga uppi. En aðallega er ég samt að skrifa um þetta vegna þess að mér finnst það svo gaman.

Posted on

Neikvæð umræða er niðurdrepandi

Þegar ég stofnaði hópinn „Málspjall“ fyrir rúmum fimm árum var eitt helsta markmiðið að efla jákvæða umræðu um íslenskuna – mér fannst allt of mikil neikvæðni og oft á tíðum Þórðargleði ríkja í umræðunni, ekki síst í „Málvöndunarþættinum“. Þetta hefur að einhverju leyti tekist – ég hef leitast við að skrifa hér fræðandi pistla um ýmis tilbrigði í málinu og svara fyrirspurnum án þess að fordæma tilbrigði. En ég átta mig á því að í seinni tíð hefur umræðan orðið neikvæðari en skyldi, og á því ber ég fulla ábyrgð með fjölmörgum pistlum um dapurlegar framtíðarhorfur íslenskunnar og óþarfa enskunotkun á ýmsum sviðum. Hvorugt er sérlega upplífgandi eða jákvætt og því í fullkominni andstöðu við upphafleg markmið hópsins.

Vissulega hef ég það mér til afsökunar að markmið skrifanna er ekki að hneykslast heldur að vekja fólk til vitundar um stöðu íslenskunnar og  brýna það til að gera betur, og ég held að það sé mikilvægt og geri vonandi eitthvert gagn. En það breytir því ekki að þetta setur neikvæðan svip á umræðuna og hætt er við að það fæli fólk frá hópnum. Og ekki bara það – hættan er líka sú að þessi neikvæða umræða verki þveröfugt við það sem stefnt er að og dragi úr trú fólks á íslenskuna og framtíð hennar. Þarna er vandrataður vegur milli hvatningar sem blæs fólki í brjóst heilbrigðum metnaði fyrir hönd íslenskunnar og trú á framtíð hennar, og svo svartagallsrauss sem fyllir fólk bölsýni og sannfærir það um að íslenskan sé á fallandi fæti.

En þrátt fyrir að umræðan undanfarið – ekki bara í „Málspjalli“ heldur líka annars staðar – hafi oft verið með neikvæðum formerkjum hefur hún sýnt að áhugi á stöðu íslenskunnar er mikill. Áskorunin er því að virkja þann áhuga til raunverulegra aðgerða – án þess að gera tunguna að pólitísku bitbeini um leið. Það er vel hægt – umræða um minnkandi lestur á skáldsögum Halldórs Laxness í framhaldsskólum hefur til dæmis kallað fram ýmsar frásagnir af frjórri og skapandi íslenskukennslu í skólum. Það þarf að snúa neikvæðum barlómi og tuði upp í jákvæða umræðu um hvað hægt sé að gera – og gera það síðan. Það er nefnilega ýmislegt hægt að gera, og flest af því kostar ekki neitt – nema smávegis hugsun og tillitssemi. Þar má m.a. nefna:

Að tala sem mest við börn og unglinga og fjölga símalausum samverustundum barna og foreldra; að lesa fyrir börnin og með þeim, hvetja þau til lestrar og vera þeim góð fyrirmynd á því sviði; að nota alltaf íslensku ef þess er nokkur kostur og vera uppörvandi við fólk sem er að læra málið í stað þess að leiðrétta það óumbeðið eða skipta yfir í ensku; að þrýsta á stjórnvöld að móta stefnu um móttöku og inngildingu innflytjenda og fylgja þeirri stefnu eftir með aðgerðum; og vitaskuld að vera jákvæð og skapandi í okkar eigin málnotkun og sýna málnotkun annarra virðingu og umburðarlyndi þótt hún sé önnur en við teljum rétta eða erum vön. Margt fleira mætti nefna og ég heiti á ykkur að fylla „Málspjall“ af jákvæðum fréttum af íslenskunni.

Posted on

Pólitísk misnotkun íslenskunnar

Í grein í Viðskiptablaðinu í gær vísar varaformaður Miðflokksins í grein sem Bubbi Morthens („mistæk samviska þjóðarinnar“) skrifaði nýlega í Morgunblaðið og segir: „Bubbi er þó sömu fjötrum bundinn og okkar helsti málfarslegi aðgerðaleysissinni, Eiríkur Rögnvaldsson. Í þeirra hópi snarhemlar öll umfjöllun um innflytjendamál á hárréttum stað við leyfileg mörk opinberrar umræðu á frjálslyndum vinstri væng, nefnilega í léttvægum athugasemdum um ófullnægjandi aðkomu hins opinbera að íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þótt sú umræða sé áratugagömul og þótt það verkefni hafi augljóslega aldrei verið alveg raunhæft, get ég sannarlega tekið undir að útlendingar verða að hafa hér bæði hvata og tækifæri til þess að læra íslensku.“

En í þessum orðum opinberar varaformaðurinn að hann hefur annaðhvort ekki kynnt sér málið ýkja vel eða er ekki sérlega annt um sannleikann. Tæpast er hægt að segja að umræða um mikilvægi opinbers stuðnings við íslenskukennslu innflytjenda sé „áratugagömul“ enda voru innflytjendur sárafáir fram yfir aldamót. Ég sé ekki heldur hvers vegna verkefnið var „augljóslega […] aldrei raunhæft“. En þetta eru aukaatriði. Aðalatriðið er að það er fráleitt að halda því fram að umræða um þessi mál, a.m.k. af minni hálfu, hafi ekki náð lengra en að „léttvægum athugasemdum um ófullnægjandi aðkomu hins opinbera að íslenskukennslu fyrir útlendinga“. Þau sem hafa lesið það sem ég hef skrifað vita að þetta er rangt – kolrangt.

Ég hef vissulega oft gagnrýnt stjórnvöld, bæði fyrri ríkisstjórn og þá sem nú situr, fyrir lítinn stuðning við kennslu í íslensku sem öðru máli. En ég hef ekki síður gagnrýnt atvinnurekendur fyrir að gera engar kröfur um íslenskukunnáttu og liðsinna starfsfólki ekki við íslenskunám. Ég hef gagnrýnt ferðaþjónustuna harkalega fyrir að halda ferðafólki frá íslensku á ýmsan hátt. Ég hef skrifað um óþarfa og óeðlilega enskunotkun á ýmsum sviðum – á ráðstefnum, á skiltum, í auglýsingum og víðar. Ég hef brýnt fyrir fólki að sýna þeim sem eru að læra málið þolinmæði, stilla óumbeðnum leiðréttingum í hóf og skipta ekki að óþörfu yfir í ensku. Ég hef skrifað um meðvirkni okkar og meðvitundarleysi gagnvart því hvernig íslenskan hörfar fyrir ensku.

En ég hef líka skrifað um nauðsyn breyttrar atvinnustefnu og sagt: „Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms. Þess í stað þarf að leggja áherslu á atvinnugreinar þar sem eru færri en betur launuð störf sem krefjast menntunar. Vandinn verður þá minni vegna þess að fólkið er færra, og við fáum fólk sem hefur betri aðstæður til íslenskunáms.“ En ég bætti við: „Kannski verðum við bara að sætta okkur við að fórna íslenskunni fyrir hagvöxtinn.“

Það verður ekki betur séð en varaformaðurinn reki vanda íslenskunnar fyrst og fremst til fjölgunar innflytjenda. Gott og vel – segjum að ég sé réttnefndur „aðgerðaleysissinni“ sem ekki hefur neitt fram að færa til bjargar íslenskunni – af því að ég vil ekki tala gegn innflytjendum – og hugum að því hvaða aðgerðir varaformaðurinn boði í því efni. Ég sé ekki að hann nefni neitt, nema nauðsyn þess að auka fæðingartíðni og fækka þar með innflytjendum (hann segir „ljóst að þessi innflytjendastraumur til Íslands helst að einhverju leyti í hendur við samdrátt í barneignum“ sem er auðvitað nokkuð sérkennileg skýring vegna þess að það hlýtur að taka a.m.k. tuttugu ár að samdráttur í barneignum komi fram í fækkun fólks á vinnumarkaði).

En segjum samt að varaformanninum yrði að þeirri ósk að fæðingartíðni snarhækkaði og innflutningur fólks til landsins stöðvaðist algerlega nú þegar. Eftir sem áður eru fyrir í landinu tugir þúsunda innflytjenda sem tala ekki íslensku nema að takmörkuðu leyti, og það fólk er ekkert að fara – ef það gerði það, annaðhvort af frjálsum vilja eða yrði hrakið burt með einhverjum ráðum, hryndi þjóðfélagið samstundis eins og öllum má ljóst vera. Við þurfum á þessu fólki að halda næstu áratugina, a.m.k. þangað til börnin sem fæðast á næstu árum geta tekið við störfunum sem það sinnir nú. Ef við viljum halda íslenskunni sem aðalsamskiptamáli í atvinnulífinu verðum við þess vegna að kenna innflytjendum íslensku. Við höfum ekkert val.

Auðvitað veit varaformaður Miðflokksins þetta allt saman þótt hann hiki ekki við að ljúga því að ég sé „aðgerðaleysissinni“ sem hafi engar tillögur að aðgerðum til að bæta stöðu tungunnar. En tilgangur hans með þessum skrifum er augljóslega ekki að ræða uppbyggilega um vanda íslenskunnar – sem vissulega er raunverulegur – og lausnir á honum. Tilgangurinn er að slá pólitískar keilur. Það er t.d. vitanlega meðvitað hjá honum að tala alls staðar um útlendinga frekar en innflytjendur. Það er dapurlegt – en ekki óvænt – að íslenskan skuli þannig gerð að pólitísku bitbeini. Það er ekki til þess fallið að efla samstöðu um hana, sem er þó mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Við skulum sameinast um að hafna pólitískri misnotkun íslenskunnar.

Posted on

Eðlilegar kröfur um íslenskukunnáttu

Þegar komið er inn í verslun eða á veitingastað og starfsfólk ávarpað á íslensku er svarið iðulega „English please“. Fólk verður oft pirrað yfir þessu og það er eðlilegt – íslenska er opinbert mál á Íslandi og við eigum að geta vænst þess að geta notað hana við kaup á hvers kyns vörum og þjónustu. En í staðinn fyrir að taka pirringinn út á starfsfólkinu, eða yppta öxlum og skipta yfir í ensku án frekari umhugsunar, ættum við að velta aðeins fyrir okkur hvers vegna þetta er svona. Hvernig stendur á því að fólk í þjónustustörfum getur ekki talað tungumál landsins – og virðist stundum ekki sjá neina ástæðu til þess? Hugsaðu þér nú að þú sért útlendingur sem er kominn til Íslands til að vinna. Þú veist lítið um landið og ekkert um tungumálið sem þar er talað.

Það fyrsta sem mætir þér við komuna til landsins eru skiltin í Leifsstöð þar sem enska er víðast hvar enn með stærra letri á undan íslensku þrátt fyrir ítrekuð loforð um breytingar. Svo tekurðu flugrútuna til Reykjavíkur þar sem þú hefur bókað gistingu í nokkrar nætur í „X Apartments“ stutt frá Hlemmi. Þar eru allar merkingar og upplýsingar eingöngu á ensku. Daginn eftir röltirðu niður Laugaveginn og heyrir heilmikla ensku og önnur tungumál sem þú kannast við – og hugsanlega einhverja íslensku en þú getur ekki vitað það því að þú þekkir ekki málið. En á þessari göngu sérðu að nær allar verslanir og veitingastaðir heita enskum nöfnum, og nær öll skilti og merkingar eru á ensku. Sama máli gegnir um matseðla fyrir utan veitingastaði.

Þú ferð inn á veitingastað í miðborginni til að spyrjast fyrir um möguleika á vinnu. Þér er sagt að það vanti alltaf fólk og spurt hvort þú getir byrjað á morgun. Samtalið fer vitanlega fram á ensku, og ekki er minnst á kröfur um íslenskukunnáttu. Enda hvarflar ekki annað að þér eftir áðurgreind kynni af Íslandi en enska sé opinbert tungumál í landinu, eða a.m.k. alls staðar gjaldgeng. Þess vegna veist þú ekki hvaðan á þig stendur veðrið þegar viðskiptavinur ávarpar þig á máli sem þú skilur ekki en giskar á að hljóti að vera íslenska. Kannski finnst þér þetta dónaskapur af því að þú vissir ekki betur en enska væri aðalsamskiptamál landsins. Kannski segirðu þess vegna óþarflega hvatvíslega „English please“ og pirrar viðskiptavininn.

Það sem ég er að benda á með þessu er að það er alls staðar verið að senda þau skilaboð að enska sé fullgilt samskiptamál á Íslandi og það hefur vitanlega leitt til þess að mörgum sem hingað koma finnst eðlilegt að nota hana en ástæðulaust að læra íslensku. Eigendur og stjórnendur fyrirtækja bera þarna mikla ábyrgð – þeir senda þessi skilaboð með skiltum og merkingum, og þeir hafa svikist um að gera kröfur um íslenskukunnáttu til starfsfólks síns. En ábyrgðin er líka hjá okkur, almennum málnotendum – við höfum látið þetta viðgangast, látið þetta yfir okkur ganga án þess að mótmæla kröftuglega. Við eigum auðvitað ekki að láta bjóða okkur þetta. Við eigum að krefjast þess að geta notað íslensku á öllum sviðum.

Það er samt vitanlega ekki þannig að við getum skellt slíkri kröfu á fyrirvaralaust. Það verður að gefa fólki aðlögunartíma til að læra íslensku – annað er vitanlega ótækt gagnvart fólki sem hingað hefur komið og ráðið sig í vinnu án þess að til þess væru gerðar nokkrar kröfur um íslenskukunnáttu. Við súpum seyðið af því að hafa ekki verið búin undir straum innflytjenda á síðustu 10-15 árum og hafa ekki mótað neina stefnu á þessu sviði heldur flotið sofandi að feigðarósi. En ég legg áherslu á að krafan um íslenskukunnáttu starfsfólks á ekki að beinast að fólkinu sjálfu heldur að atvinnurekendum – það eru þeir sem þurfa að sjá til þess að starfsfólk þeirra hafi tíma, aðstöðu og fjárhagslegar forsendur til að læra málið.

Posted on

Gengisfelld íslenskukennsla

Halla Hrund Logadóttir og fleiri þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram eftirfarandi tillögu til þingsályktunar um íslenskukennslu fyrir innflytjendur: „Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga, að útfæra fjárhagslega hvata á borð við skattfrelsi eða aðrar ívilnanir til að gera eldri borgurum kleift að veita innflytjendum íslenskukennslu og taka þátt í samtalsverkefnum til að efla íslenskukunnáttu þeirra.“ Markmið tillögunnar er að efla íslenskukunnáttu innflytjenda og stuðla að auknum menningarlegum tengslum ólíkra þjóðfélagshópa, og einnig að auka samfélagslega þátttöku eldri borgara.

Í greinargerð segir: „Þrátt fyrir aukið framboð á íslenskunámskeiðum hefur íslenskukunnátta innflytjenda batnað minna en vonir stóðu til.“ Ástæðurnar eru m.a. sagðar „skortur á fullnægjandi málstuðningi, sérstaklega í leik- og grunnskólum; fá tækifæri til að eiga samtöl á íslensku utan formlegs skólaumhverfis; fá tækifæri til að æfa framburð og talfærni; félagsleg fjarlægð milli hópa sem hamlar samskiptum og samfélagsþátttöku“. Þetta er allt satt og rétt, og einnig það sem segir í framhaldinu: „Lykilverkefni næstu ára er að tryggja að einstaklingar og fjölskyldur sem setjast hér að tileinki sér tungumálið svo að ekki myndist tvær þjóðir í einu landi með ólík tækifæri til framtíðar. Samtal við Íslendinga skiptir þar lykilmáli.“

En þótt markmið tillögunnar sé göfugt verður að setja spurningarmerki við aðferðina. Það virðist vera nokkuð útbreidd skoðun að til að geta kennt innflytjendum íslensku þurfi ekki annað en tala málið og af tillögunni má ráða að gert sé ráð fyrir því að hver sem er geti stokkið inn í íslenskukennslu án nokkurs sérstaks undirbúnings. En það má ekki gleyma því að kennsla – ekki síður íslenskukennsla en annað – er fag sem fólk menntar sig til í mörg ár. Okkur sárvantar kennara með sérmenntun í kennslu annars máls, og það er sannarlega ekki hvetjandi fyrir fólk að fara í slíkt nám ef starfið er gengisfellt á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir. Að kalla þetta „kennslu“ og tala um „að veita innflytjendum íslenskukennslu“ er fyrir neðan allar hellur.

Það breytir því ekki að vissulega gætu áhugasamir eldri borgarar gert gagn í samtalsþjálfun en ég hef miklar efasemdir um að slík vinna ætti að vera launuð – mun eðlilegra væri að kanna áhuga eldri borgara á sjálfboðavinnu við að tala við innflytjendur og sjálfsagt að athuga hvernig væri hægt að útfæra slíkt. Ég er hræddur um að samþykkt tillögu af þessu tagi yrði fyrst og fremst skálkaskjól fyrir stjórnvöld – ódýr en gagnslítil aðferð til að halda því fram að verið væri að efla kennslu íslensku sem annars máls. Það vekur líka athygli að ekkert kemur fram í greinargerð um að nokkurt samráð hafi verið haft við sérfræðinga eða kunnáttufólk á þessu sviði. Þótt tillagan sé lögð fram af góðum hug tel ég að skaðlegt væri að samþykkja hana.

Posted on

Hástökk án atrennu

Í umræðum um íslenskukunnáttu og íslenskukennslu er því iðulega haldið fram, og hneykslast á, að verið sé að draga úr kröfum til nemenda. Þetta hefur komið skýrt fram í Laxnessumræðu síðustu daga en er ekki nýtt og hefur t.d. oft verið nefnt í sambandi við málfræðikennslu og meinta undanlátssemi í baráttu gegn „þágufallssýki“ og öðrum „málvillum“. Í þessari umræðu er oft notað líkingamál úr hástökki og því haldið fram að verið sé að „lækka rána“. En þá gleymist að sú hæð rárinnar sem hástökkvari kemst yfir fer ekki eingöngu eftir stökkkrafti hans heldur einnig lengd atrennunnar. Þótt heimsmet karla í hástökki sé venjulega sagt vera 2,45 metrar er metið í hástökki án atrennu ekki nema 1,70 metrar – aðeins 69% af hinu.

Það er engin ástæða til að ætla að stökkkraftur nemenda – námsgeta þeirra og áhugi – sé minni en áður þegar kemur að íslenskunámi. En vegna þess hversu mikið málumhverfið hefur breyst undanfarna öld er óhjákvæmilegt að þegar nemendum á þriðja tug tuttugustu og fyrstu aldar er gert að stökkva í málheimi fyrri hluta tuttugustu aldar, hvort sem hann birtist í skáldsögum Halldórs Laxness eða reglum Björns Guðfinnssonar um „rétt“ mál og „rangt“, þurfi þau lengri atrennu en áður – ef ránni er haldið í sömu hæð. Ef lengd atrennunnar er óbreytt en ránni haldið í sömu hæð og áður er því í raun verið að gera auknar kröfur til nemenda. Ef við viljum ekki að ráin sé lækkuð þarf þess vegna að huga að því hvort og hvernig hægt er að lengja atrennuna.

Lenging atrennu getur til dæmis falist í góðum stuðningi og leiðsögn kennara og ég efast ekkert um að víða sé verið að gera vel í þeim efnum. En lengingin gæti líka krafist aukins tíma til íslenskukennslu í grunn- og framhaldsskólum og spurning hvort vilji eða forsendur séu til þess. Langbest væri samt ef atrennan hæfist strax við upphaf máltöku, með lestri fyrir börn og með  þeim – en þar að auki þurfa foreldrar að vera börnum sínum góð fyrirmynd. Það er mikilvægt að bækur séu til og sýnilegar á heimilum og börn alist upp við það að eðlilegt og sjálfsagt sé að bækur séu í kringum þau og foreldrar þeirra lesandi, bæði fyrir sig og börnin. Ef börn sjá foreldra sína aldrei lesa bækur eru ekki miklar líkur á að þau fái sjálf áhuga á lestri.

Þess vegna er það mikið áhyggjuefni þegar ungt fólk í framhaldsskólum segist sjaldan eða aldrei lesa bækur utan skólans. Búast má við að margt af þessu unga fólki verði foreldrar innan fárra ára og ef þau verða ekki farin að lesa þá munu börn þeirra varla fá mikinn áhuga á lestri heldur. Þetta er því vítahringur sem nauðsynlegt er að brjótast út úr og það verður ekki lögð of mikil áhersla á mikilvægi heimilanna í þessu sambandi. Skólarnir þurfa vissulega að taka við og koma til móts við nemendur á ýmsan hátt en þeir geta ekki byggt ofan á grunn sem ekki hefur verið lagður. Tímabundin lestrarátök eru ekki líkleg til að skila miklum árangri vegna þess að þetta er langtímaverkefni sem aldrei lýkur, og við verðum öll að taka virkan þátt í.

Posted on

Á RÚV að hætta starfsemi á ensku og pólsku?

Í umræðum á Alþingi í gær sagði þingmaður: „Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að beita fullum þunga ríkisvaldsins til þess að senda skýr skilaboð um að íslenska sé og verði eina almenna og viðurkennda samskiptamálið í okkar þjóðfélagi.“ Ég get sannarlega tekið undir það að æskilegt og mikilvægt er að íslenska sé og verði aðalsamskiptamálið í landinu, en ekki endilega það eina – hugum aðeins að því hvað „eina almenna og viðurkennda samskiptamálið“ merkir. Ef það væri tekið bókstaflega merkti það t.d. að Pólverjar á Íslandi, sem eru á þriðja tug þúsunda, mættu ekki nota pólsku í samskiptum sín á milli. Ég vona – og þykist vita – að þingmaðurinn hafi ekki átt við þetta, en spurningin er samt: Hvar ætti að draga mörkin?

Jafnvel þótt litið sé fram hjá innbyrðis samskiptum þeirra sem eiga sama erlenda tungumálið að móðurmáli er nefnilega ljóst að það er fullkomlega óraunhæft eins og sakir standa að útiloka önnur tungumál en íslensku sem samskiptamál í landinu. Hér eru tugir þúsunda með annað móðurmál en íslensku og það fólk notar iðulega ensku sem samskiptamál – bæði við Íslendinga og við fólk sem á annað móðurmál en það sjálft. Vitanlega myndum við vilja breyta þessu, þannig að íslenska yrði samskiptamál í staðinn. En við breytum því ekki með skilaboðum frá Alþingi, hversu skýr sem þau eru. Við breytum því aðeins með breyttri stefnu í íslenskukennslu, stórauknu fé til kennslunnar, og ekki síst með breyttu viðhorfi atvinnurekenda og almennings.

Í framhaldi af ofangreindum orðum tók þingmaðurinn dæmi um „skýr skilaboð“ sem hann vildi senda um útrýmingu annarra samskiptamála en íslensku: „Ríkisútvarpið heldur núna úti mikilli starfsemi á ensku og pólsku […]. Ég mun því í þessari viku leggja fram þingmál um að Ríkisútvarpið leggi niður alla almenna starfsemi á öðrum tungumálum en íslensku.“ Það sem þarna er lýst sem „mikilli starfsemi“ eru innlendar fréttir á ensku og pólsku sem birtar eru á vef Ríkisútvarpsins. En þátttaka innflytjenda í þjóðfélagsumræðu og kosningum er lítil og því er mjög mikilvægt fyrir lýðræðið í landinu að fólk sem hér býr og starfar eigi aðgang að fréttum um það helsta sem er að gerast hér og geti þannig fylgst eitthvað með þjóðfélagsumræðunni.

Í svari sínu benti menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra á „að íslenskt samfélag hefur í talsverðan tíma núna reitt sig á erlent vinnuafl og hér búa tugir þúsunda einstaklinga sem eru í styttri eða lengri tíma hluti af okkar samfélagi, hafa haldið uppi hagvexti […]. Þetta fólk á líka sín réttindi og almannaútvarp eins og Ríkisútvarpið væri að bregðast sínum skyldum ef það kæmi ekki lágmarksskilaboðum á framfæri og að einhverju leyti á móti við þennan mikilvæga hóp.“ Við þetta má bæta því að fólk af erlendum uppruna sem starfar hér greiðir útvarpsgjald rétt eins og Íslendingar og því er ekki hægt að telja það óeðlilegt að Ríkisútvarpið sinni því eitthvað. Íslenskunni stafar engin hætta af fréttum Ríkisútvarpsins á ensku og pólsku.

Það er mikilvægt að auka veg íslenskunnar sem mest og stuðla að aukinni notkun hennar á öllum sviðum – um það erum við þingmaðurinn hjartanlega sammála. En nauðsynlegt er að barátta fyrir eflingu íslenskunnar sé rekin á jákvæðum nótum – það þarf að vera barátta fyrir íslenskunni en ekki barátta gegn öðrum tungumálum. Grundvallaratriðið er að stórauka kennslu í íslensku sem öðru máli, og breyta viðhorfi Íslendinga til „ófullkominnar“ íslensku. Tillaga um að leggja niður fréttir Ríkisútvarpsins á ensku og pólsku er sýndarmennska sem sendir röng skilaboð, er hvorki til þess fallin að auka velvilja innflytjenda í garð íslensku og íslenskra stjórnvalda né til að hvetja þá til íslenskunáms, og verður ekki kölluð annað en lýðskrum.

Posted on

Auglýsing á ensku um Jónasarverðlaun

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið hefur óskað eftir tilnefningum til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sem „eru veitt einstaklingi sem hefur með eftirtektarverðum hætti unnið íslenskri tungu gagn eða glætt hana nýju lífi, til dæmis með skáldskap, fræðistörfum, kennslu, þýðingum eða á annan hátt stuðlað að framgangi íslenskunnar, eflingu hennar, miðlun eða nýsköpun“ sem og til viðurkenningar íslenskrar tungu sem „skal veita hópi, félagi, verkefni, samtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa á einn eða annan hátt sýnt íslenskri tungu ræktarsemi, vakið athygli á henni eða sýnt henni stuðning í verki“. Það er auðvitað ánægjulegt að almenningi gefist þannig kostur á að tilnefna verðuga verðlauna- og viðurkenningarhafa.

Það er bara einn hængur á þessu. Á tilnefningarforminu segir: „When you submit this form, it will not automatically collect your details like name and email address unless you provide it yourself“ og í reitum sem fylla þarf út stendur alls staðar „Enter your answer“. Á eftir lýsingu á reitunum er stjarna og skýringin á henni er „Required“. Þegar búið er að fylla formið út er ýtt á hnappinn „Submit“. Neðst á forminu eru svo fimm línur á ensku frá Microsoft. Umgjörðin er sem sé að verulegu leyti á ensku, sem verður að teljast býsna neyðarlegt og raunar fullkomlega ótækt miðað við tilefnið. Ef einhvers staðar er ástæða til að nota eingöngu íslensku og forðast ensku hlýtur það að vera í auglýsingu um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.

Það er svo sem ljóst að þarna er verið að nota tilbúið form frá Microsoft sem ég veit ekki hvort hægt er að þýða á íslensku. En jafnvel þótt svo sé ekki er þetta algerlega óviðunandi og óboðlegt. Ef ekki er hægt að losna við enskuna þarna á að finna eða útbúa annað form sem er á íslensku, eða þá óska einfaldlega eftir tilnefningum í tölvupósti. Engin nauður rekur ráðuneytið til að nota þetta form og óskiljanlegt að starfsfólk ráðuneytisins skuli ekki hafa áttað sig á því hversu óviðeigandi þetta er. En svona hugsunarleysi sést því miður æ oftar – fólk annaðhvort tekur ekki eftir því að enskan er alls staðar eða tekur því sem sjálfsögðum hlut, jafnvel í auglýsingu um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þessu verður að breyta ef íslenskan á að lifa.

En fleira má raunar finna að þessari auglýsingu. Yfirskrift hennar er „Tilnefning til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningu íslenskrar tungu“. Þarna hlýtur nafnorðið viðurkenning að stjórnast af forsetningunni til og þar með eiga að vera í eignarfalli, en hefðbundið eignarfall þess er viðurkenningar – þótt myndinni viðurkenningu bregði vissulega oft fyrir í eignarfalli er hún ekki viðurkennd. Í lið 2 á forminu stendur „stofnannir“ með tvírituðu nn þar sem aðeins eitt n á að vera. Auk þess segir í forminu „tillaga að tilnefningu“ þar sem eðlilegt væri að segja bara tilnefning – tilnefningin er í eðli sínu tillaga og „tillaga að tilnefningu“ því óþarfa tvítekning. Auglýsing um Jónasarverðlaun þarf að vera vandaðri.

Posted on

Að koma í veg fyrir að eitthvað gerist ekki

Í „Málspjalli“ var í dag vakin athygli á fyrirsögninni „Snör viðbrögð komu í veg fyrir að ekki fór verr“ á mbl.is – spurt „Ætli hafi þá farið illa?“ og bætt við: „Þessar tvöföldu neitanir geta ruglað mann í ríminu.“ Það er vissulega rétt að koma í veg fyrir felur í sér eins konar neitun, og ekki er vitanlega neitandi atviksorð. Ef sagt er snör viðbrögð komu í veg fyrir að húsið brynni er ljóst að húsið brann ekki, en ef neituninni ekki er skotið inn og sagt snör viðbrögð komu í veg fyrir að ekki brynni hlýtur það að snúa merkingunni við, og setningin þá að merkja 'snör viðbrögð komu í veg fyrir að húsinu væri forðað frá bruna' – eða hvað? Hlýtur ekki tungumálið að vera rökrétt? Hljóta ekki neitanirnar að vega hvor aðra upp?

Ekki endilega. Það má benda á ýmis dæmi um að merking setninga með tveimur (eða fleiri) neitunum sé „órökrétt“, þ.e. ekki sú sem búast mætti við ef neitanirnar eru taldar saman. Sambandið ekki ósjaldan er t.d. nær alltaf notað í merkingunni 'ósjaldan' en ekki í merkingunni 'alloft' eins og þó mætti búast við þar sem ósjaldan er neitað. Sambandið ekki óvitlaust er líka yfirleitt notað í merkingunni 'óvitlaust'. Sambandið óhjákvæmilegt annað en er nær alltaf notað í merkingunni 'óhjákvæmilegt' enda þótt annað en með lýsingarorði hafi yfirleitt það hlutverk að fá fram andstæða merkingu við orðið sem það fylgir. Sögnin afþíða er alltaf notuð í merkingunni 'affrysta, láta þiðna' þótt af- snúi venjulega við merkingu eftirfarandi sagnar.

Í Baldri 1903 er talað um „hvernig hægt sje að koma í veg fyrir að ekki þurfi að eyða jafn mörgum dagsverkum, og gjört hefir verið, til endurbóta á sömu vegaköflum ár eftir ár“. Í Alþýðumanninum 1953 segir: „Ver ríkisstjórnin á þessu ári allt að 9 millj. kr. til að greiða niður smjör og koma í veg fyrir að ekki safnist frekari birgðir.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Gyða Úlfarsdóttir í íslenzka markinu átti aftur stórleik, og það var fyrst og fremst hún sem kom í veg fyrir að ekki fór verr.“ Í Alþýðublaðinu 1987 segir: „Við verðum að einhenda okkur í það að koma í veg fyrir að ekki verði tvær þjóðir í landinu.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Hann telur ljóst að hlífðarbúnaður þeirra og þjálfun hafi komið í veg fyrir að ekki fór verr.“

Í þessum dæmum, og í öðrum dæmum á tímarit.is sem eru um áttatíu alveg frá byrjun tuttugustu aldar til samtímans, er merkingin í koma í veg fyrir að ekki (gerist eitthvað) greinilega 'koma í veg fyrir að eitthvað gerist' – neitunin ekki núllast sem sé út. En þetta er ekki bundið við blöð og tímarit – meira að segja Halldór Laxness notaði sambandið á þennan hátt. Í Höll sumarlandsins frá 1938 segir: „ef það er guð sem kom í veg fyrir að við höfðum ekki málúngi matar heilu misserin.“ Þetta er reyndar eitt af fjölmörgu sem Sigurjón Jónsson gerði athugasemdir við í heilum greinaflokki um Heimsljós í Lesbók Morgunblaðsins 1941 og setti innan sviga skýringu á setningunni: „(þ.e. ef guð kom því til leiðar að við höfðum m.m.).“

Þessi málnotkun er enn í fullu fjöri – sambærileg dæmi í Risamálheildinni skipta hundruðum og í fljótu bragði sé ég ekki annað en í langflestum tilvikum séu þau sama eðlis – þ.e., koma í veg fyrir að … ekki merki sama og koma í veg fyrir. Vissulega finnst sumum það ótækt að nota áðurnefnd orð og sambönd á „órökréttan“ hátt, en í öllum tilvikum er um skýra málvenju að ræða sem fráleitt væri að hafna – þessi notkun hlýtur að teljast rétt. Áðurnefndri fyrirsögn hefur reyndar verið breytt og er „Snör viðbrögð komu í veg fyrir að verr fór“. Þar hefur þó tekist óhönduglega til því að samkvæmt málhefð ætti þarna að vera viðtengingarháttur, færi. Það bendir til þess að notkun sambandsins án ekki sé málnotendum framandi.