Ég hef stundum sagt að ekkert sé mikilvægara að kenna í skólum landsins en orðræðugreiningu. Á tímum falsfrétta og skautunar verður sífellt mikilvægara fyrir almenna málnotendur að geta greint staðhæfingar sem settar eru fram í umræðunni og áttað sig á því hvernig orð eru notuð – og oft misnotuð. Í nýju myndskeiði ber varaformaður Miðflokksins sig upp undan því að málflutningur hans hafi verið tengdur við rasisma – sem honum finnst alveg fráleitt. Auðvitað vill enginn láta kalla sig rasista að ósekju en lítum aðeins á hvað varaformaðurinn sagði í grein í Viðskiptablaðinu. Þar stendur meðal annars: „Fæðingartíðnin er farin veg allrar veraldar, innflytjendum fjölgar margfalt hraðar en innfæddum og að óbreyttu lenda heimamenn í minnihluta eftir nokkra áratugi.“
Lykilatriðið í þessu er hvaða merking er lögð í orðin heimamenn og innfæddir. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er heimamaður skýrt 'innfæddur maður á einhverjum stað' og í Íslenskri orðabók sem 'innfæddur maður, maður sem býr á staðnum'. Orðið innfæddur er skýrt 'sem er fæddur í landinu, innlendur' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'innlendur' eða 'sem er fæddur í landinu (á staðnum)' í Íslenskri orðabók. En það er ekki hægt að skilja varaformanninn öðruvísi en að hjá honum vísi orðin aðeins til þeirra sem hafa fæðst á Íslandi og eru af íslenskum ættum. Innflytjendur virðast ekki geta talist til heimamanna samkvæmt orðum hans, jafnvel þótt þeir hafi búið á Íslandi áratugum saman – og jafnvel þótt þeir væru orðnir íslenskir ríkisborgarar.
Í áðurnefndu myndskeiði orðaði varaformaðurinn sömu fullyrðingu dálítið öðruvísi og sagði: „Íslendingar eru eftir nokkra áratugi að óbreyttu að lenda í minnihluta í eigin landi.“ Þarna eru tvö orð sem skipta máli – Íslendingar og eigin. Síðarnefnda orðið er skýrt 'sem tilheyrir einhverjum' í orðabókum en hins vegar getur fólk auðvitað deilt um hvað felist í því að vera Íslendingur – í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'maður frá Íslandi' og í Íslenskri orðabók 'maður á/frá Íslandi'. En það er alveg ljóst að varaformaðurinn telur innflytjendur – og afkomendur þeirra – ekki til Íslendinga. Hann virðist sem sé ekki gera ráð fyrir því að hægt sé að verða Íslendingur og komast í þann hóp sem eigi landið, þrátt fyrir að hafa búið lengi á Íslandi og jafnvel fæðst hér.
Eina leiðin til að fá það út að „innflytjendum“ fjölgi margfalt hraðar en „innfæddum“ og „heimamenn“ – þ.e. „Íslendingar“ – geti „eftir nokkra áratugi“ lent „í minnihluta í eigin landi“ er nefnilega að telja aðra og þriðju kynslóð innflytjenda, börn og barnabörn, ekki til heimamanna, ekki til innfæddra, ekki til Íslendinga – jafnvel þótt það sé fólk sem er fætt og uppalið á Íslandi, hafi aldrei átt heima annars staðar, og tali flest reiprennandi íslensku. En skilningur varaformannsins á orðunum heimamaður, innfæddur og Íslendingur – og ótti hans við að þau sem hann telur skipa þann hóp lendi í minnihluta í „eigin landi“ – byggist hvorki á búsetu né á fæðingarlandi, heldur eingöngu á uppruna – á genunum. Það er skilgreiningin á rasisma.

+354-861-6417
eirikurr