Tungan og fullveldið
Í þessu stutta erindi ætla ég að ræða dálítið um þýðingu íslenskrar tungu fyrir fullveldið fyrr og síðar – stjórnarfarslegt en einnig ekki síður menningarlegt fullveldi.
Það hefur lengi verið viðtekin skoðun að íslenskan sé helsta réttlæting og forsenda fullveldis Íslands. Alkunna er að tungan lék eitt aðalhlutverkið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Allt frá upphafi baráttunnar á 19. öld var áhersla lögð á tungumálið og mikilvægi þess fyrir íslenskt þjóðerni og þjóðarvitund. Iðulega var sett samasemmerki milli hnignunar tungumálsins og dvínandi þjóðerniskenndar. Hnignun tungumálsins var einnig tengd við afturför á öðrum sviðum.
Á seinni hluta 19. aldar var verið að draga skarpari landamæri en áður víða um Evrópu og þjóðríki í nútímaskilningi voru að verða til. Víða lentu þá innan sama ríkis hópar og þjóðarbrot sem töluðu mismunandi tungumál. Til að tryggja einingu ríkisins lögðu stjórnvöld iðulega áherslu á eitt ríkismál, og bönnuðu jafnvel notkun annarra tungumála innan ríkisins. Það gerðu Danir hins vegar ekki á Íslandi.
Því var það að þótt áhersla væri lögð á endurreisn tungunnar og hreinsun af dönskum áhrifum í tengslum við eflingu þjóðerniskenndar og baráttu fyrir auknum réttindum Íslendinga á 19. öld var sú barátta fyrst og fremst háð innanlands en ekki við dönsk stjórnvöld. Öfugt við marga aðra minnihlutahópa innan ríkja þurftu Íslendingar ekki að berjast sérstaklega fyrir því að fá að nota móðurmál sitt á flestum sviðum. Tungan var hins vegar sameiningartákn, réttlæting Íslendinga fyrir sérstöðu sinni og ekki síst notuð til að leiða Íslendingum sjálfum fyrir sjónir hver sú sérstaða væri. Víða í Evrópu var tungan vígvöllur baráttunnar – á Íslandi var hún vopnið.
Þrátt fyrir þetta var aldrei minnst á fullveldi Íslands í þessu sambandi enda var orðið fullveldi ekki einu sinni til í málinu í nútímamerkingu. Elsta dæmið sem ég hef fundið um orðið er úr auglýsingu Kristjáns konungs níunda um setningu stjórnarskrárinnar 1874, þar sem segir:
Það er von Vor, að Vorir trúu Íslendíngar taki á móti gjöf þeirri, sem Vèr þannig af frjálsu fullveldi höfum veitt Íslandi […].
Flest elstu dæmin um orðið eru svipuð þessu – verið að tala um fullveldi konungs. Það er ekki fyrr en kemur fram undir aldamótin 1900 að farið er að tala um fullveldi þjóða. Í Eimreiðinni 1896 kemur fram að orðið er notað sem þýðing á „Suverænitet“. En orðið nær þó ekki verulegu flugi fyrr en 1908, í umræðu um „uppkastið“ svokallaða, og breiðist svo enn út kringum 1918.
Stjórnarskrá Íslands kveður ekki á um opinbera stöðu íslensku, þótt hugmyndir um slíkt hafi nokkrum sinnum komið fram, t.d. í skýrslu stjórnlaganefndar frá 2011. Með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 fékk íslensk tunga þó stöðu sem opinbert tungumál á Íslandi.
Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland sumarið 2011 er ekkert ákvæði um þjóðtungu en nefnt í skýringum að sterkar raddir hafa verið á lofti um að setja íslenska tungu inn sem eitt af grunngildum stjórnarskrárinnar. E.t.v. má ætla að ráðið hafi talið að slíkt ákvæði gæti orðið grundvöllur einhvers konar mismununar, nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningarlegra samfélags en áður.
En það er til annars konar fullveldi en fullveldi í lagalegum og þjóðréttarlegum skilningi. Hugtakið menningarlegt fullveldi virðist fyrst koma fyrir á prenti í grein sem birtist á fimm ára afmæli fullveldisins, 1. desember 1923, en þar segir:
Mörg þjóð hefir orðið að fórna blóði sinna bestu sona til þess að öðlast stjórnarfarslegt fullveldi. Svo mikils virði hefir það verið þeim. Þó er andlegt menningarlegt fullveldi engu minna virði.
Á fyrri hluta sjöunda áratugar 20. aldar var oft talað um menningarlegt fullveldi, ekki síst í tengslum við Kanasjónvarpið svokallaða. Því var haldið fram að útsendingar þess út fyrir herstöðina væru brot á íslenskri menningarhelgi og ógnuðu menningarlegu fullveldi Íslands.
En menningarlegt fullveldi er vandmeðfarið hugtak vegna þess að skilgreining þess er ekki skýr – enn óskýrari en skilgreining stjórnarfarslegs fullveldis. Það er þó ljóst að flestir sem nota hugtakið telja tungumálið eitt það helsta sem þar þurfi að huga að. Á síðustu árum hefur umræðan um menningarlegt fullveldi risið aftur og nú í tengslum við stjórnarfarslegt fullveldi, ekki síst umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Undanfarinn aldarfjórðung hefur verið talsverð umræða um fullveldi Íslands í tengslum við þátttöku landsins í Evrópska efnahagssvæðinu og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Lítill vafi er á því að aðild að ESB hefði í för með sér nokkurt framsal fullveldis, en spurningin er hvort og þá að hvaða marki slík fullveldisskerðing hefði áhrif á íslenska tungu og stöðu hennar – bæði réttarstöðu og stöðu í samfélaginu og gagnvart öðrum tungum.
Frá stofnun árið 1957 hefur Evrópusambandið lagt áherslu á að virða þjóðtungur sambandsríkjanna. Þegar ný ríki hafa verið tekin inn í sambandið hafa opinber mál þeirra jafnframt orðið opinber mál sambandsins. Þótt Íslendingar tækju á sig einhverja skerðingu á stjórnarfarslegu fullveldi við inngöngu í Evrópusambandið yrði það síst til þess að veikja stöðu íslenskunnar – þvert á móti má færa að því rök að staða tungunnar myndi styrkjast við aðild. Slíkt hefur t.d. gerst með írsku, sem fékk stöðu opinbers tungumáls innan ESB árið 2007.
Um þessar mundir virðast ekki miklar líkur á að Ísland afsali sér stjórnarfarslegu fullveldi í hendur Evrópusambandsins á næstunni, en framtíð menningarlegs fullveldis landsins er meira vafamál. Þar er tungumálið lykilatriði. Tungumálið skapar sérstakan menningarheim sem bæði bægir frá áhrifum annarra menningarheima og torveldar aðgang okkar að öðrum menningarheimum. En á síðustu árum hafa vissulega orðið gífurlegar þjóðfélagsbreytingar sem gætu stuðlað að því að rýra menningarlegt fullveldi landsins. Þau áhrif koma í gegnum þá menningu og menningarheima sem fólk kemst nú í nánari snertingu við en áður, en áhrifin á tungumálið gætu þó reynst afdrifaríkust.
Land, þjóð og tunga hefur lengi verið órjúfanleg þrenning í huga margra Íslendinga. Það er lítill vafi á því að sérstakt tungumál var frumforsenda þess að Íslendingar litu á sig sem sérstaka þjóð og kröfðust sjálfstæðis á 19. öldinni. Spurningin er hins vegar hvort þetta hafi breyst eða sé að breytast. Er tungumálið orðið veigaminni þáttur en áður í sjálfsmynd Íslendinga? Guðmundur Hálfdanarson hefur t.d. haldið því fram að
náttúran sé að taka við af tungumálinu og menningunni sem helsta viðmið íslenskrar þjóðernisstefnu – eða mikilvægasta tákn þess sem gerir okkur að Íslendingum og greinir okkur frá öðrum þjóðum.
Um þetta er vissulega ágreiningur, en hvað sem því líður virðist unga kynslóðin ekki líta á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfsmynd sinni og þeir sem eldri eru.
Eins og áður segir er skilgreiningin á menningarlegu fullveldi ekki á hreinu og því er erfitt að segja hvenær og hvernig það glatast. Þótt svo færi að Íslendingar legðu íslensku af, eða hún yrði ekki nothæf nema á afmörkuðum sviðum, þarf það ekki að leiða sjálfkrafa til þess að menningarlegt fullveldi glatist. Ég geri t.d. ráð fyrir að Írar telji sig menningarlega fullvalda þjóð þótt flestir þeirra noti ensku í öllu daglegu lífi. Vitanlega felst menningarlegt fullveldi ekki í einangrunarstefnu og það er út af fyrir sig ekki sjálfgefið að það drægi úr menningarstarfsemi og nýsköpun á sviði menningar þótt hér væri töluð enska í stað íslensku. Þannig segir Kristján Árnason prófessor, í andsvari við hugmyndum Guðmundar Hálfdanarsonar sem nefndar voru hér áður:
Íslensk menning hefur notað íslensku en það væri vel hugsanlegt – þó ég sé ekki að mæla með því – að íslensk menning notaði annað tungumál en menningin yrði þá að sjálfsögðu eitthvað öðruvísi en sú sem við höfum haft.
En íslensk menning á ensku yrði síður aðgreind frá menningu annarra þjóða, og vegna þess hve samfélagið er fámennt eru líkur á að það yrði aðallega þiggjandi á sviði menningar, ef þeirri vörn sem tungumálið veitir yrði kippt brott. Um leið er ekki ótrúlegt að áhugi þjóðarinnar á því að halda stjórnarfarslegu fullveldi myndi dofna.