Íslenskan í ólgusjó

Það er ekki nýtt að rætt sé um að íslenskan sé í hættu. Margir kannast við spádóm danska málfræðingsins Rasmusar Kristjáns Rasks sem dvaldi um hríð á Íslandi snemma á 19. öld. Í bréfi til vinar síns árið 1813 sagði hann:

Annars þjer einlæglega að segja held jeg, að íslenskan bráðum muni útaf deyja; reikna jeg, að varla muni nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en varla nokk­ur í landinu að öðrum 200 árum þar upp frá, ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar.

Eins og alkunna er voru einmitt „rammar skorður við reistar“ upp úr þessu. Með rómantísku stefnunni kom aukin þjóðerniskennd og henni fylgdi hreinsun málsins af dönskum áhrifum. Í þeirri endurreisn íslenskunnar var mikið leitað til fornmálsins og leitast við að útrýma ýmsum breytingum sem höfðu orðið á málinu frá ritunartíma Íslendingasagna. Það má segja að á seinni hluta 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. hafi mótast sá óopinberi málstaðall sem í stórum dráttum er fylgt enn í dag – hugmyndir um hvað sé rétt og rangt í máli, hvernig orð eigi að beygjast, hvernig orðaröð eigi að vera, o.s.frv. Og alla tíð síðan á 19. öld hefur sú skoðun verið áberandi að málinu fari hrakandi, að unga kynslóðin sé að fara með það norður og niður.

Allir þekkja dæmi um málbreytingar sem hafa verið fordæmdar, margar áratugum saman. Þar ber líklega hæst „þágufallssýkina“ svokölluðu, þar sem fólk segir mér langarmér vantarmér hlakkar og annað svipað í stað mig langarmig vantarég hlakka sem er talið rétt. Þetta er málbreyting sem á rætur á 19. öld en hefur verið áberandi a.m.k. síðan á fyrsta þriðjungi 20. aldar og virðist smám saman sækja í sig veðrið. Önnur breyting sem er nýrri og enn sem kom­ið er helst áberandi í máli barna og unglinga er hin svokallaða „nýja þolmynd“ þar sem sagt er það var barið mig í stað ég var barin(n) og það var hrint mér í stað mér var hrint. Þessi breyt­ing virðist eiga rætur um miðja síðustu öld en hefur breiðst mikið út undanfarinn aldarfjórð­ung. Málfræðingar hafa velt því fyrir sér hvort hér sé um að ræða eitthvað sem eldist af mönn­um, ef svo má segja, eða hvort þeir sem nota þessa setningagerð á barnsaldri haldi því áfram á fullorðinsárum. Nýjar rannsóknir benda heldur til þess að svo sé.

Það væri auðvitað hægt að nefna miklu fleiri atriði sem eru að breytast í málinu. Nýlega hefur verið gerð ítarleg rannsókn sem nefnist „Tilbrigði í íslenskri setningagerð“. Niðurstöður henn­ar eru nú komnar út á tveimur bókum og sú þriðja væntanleg. Þar kemur fram að ýmsar mál­breyt­ingar eru í sókn, en fara mjög mishratt. Ég hef satt að segja engar áhyggjur af þessum breyt­ingum. Það skiptir að mínu mati engu máli hvort menn segja mig langar eða mér langar – hvorttveggja er íslenska. Mér er líka alveg sama hvort menn segja til drottningar eða til drottn­ingu, og mér er alveg sama þótt Ólafur Magnússon gefi mjólkurbúinu sínu nafnið  en ekki Kýr. Í allri málsögunni hefur fallstjórn sagna og beyging nafnorða verið að breytast – sumt af því sem nú er talið rétt í málinu hefur breyst frá fornu máli, og oft virðist vera tilvilj­ana­kennt hvaða breytingar hafa verið viðurkenndar og hverjar ekki. Sögnin langa kemur fyrir með nefnifalli í einu elsta íslenska handritinu, ég langa; og í Njáluhandriti frá um 1300 kemur fyrir eignarfallið föðurs sem nú er talið rangt. Svo mætti lengi telja.

Það er samt ekki þar með sagt að allar málbreytingar séu óskaðlegar málinu, eða allt sé í lagi að það breytist hvernig sem er. En svo framarlega sem ekki er hróflað við kerfinu sé ég enga ástæðu til svartsýni. Meðan við höldum áfram að beygja orð skiptir ekki öllu máli hvaða fall er notað eða hvaða beygingarmynd. En ef við hættum að beygja orð, og beygingakerfið lætur verulega á sjá eins og það hefur gert í öðrum Norðurlandamálum, þá er ástæða til að bregðast við. Slík breyting hefði mikil áhrif á setningagerð og fæli í sér grundvallarbreytingu á öllu yfir­bragði málsins. Líklegt er að hún myndi leiða til þess að rof yrði í málinu, þannig að allir textar frá því fyrir slíka breytingu, allt frá 12. til 21. aldar, yrðu óskiljanlegir þeim sem á eftir kæmu. Þar með værum við komin í sömu stöðu og t.d. Norðmenn sem verða að lesa Íslend­inga­sögur í þýðingum þótt þær séu skrifaðar á máli sem var sameiginlegt okkur og þeim á sínum tíma.

En það er ekkert sem bendir til þess að slíkt hrun sé yfirvofandi. Þeir sem segja mér langartil drottningu eða til föðurs eru ekkert hættir að beygja orðin. Einu vísbendingarnar sem ég kann­ast við um veiklun beygingakerfisins eru ensk lýsingarorð eins og töffnæskúl og einhver fleiri, sem venjulega eru notuð óbeygð í íslensku. Sama gerist oft með nýjar slettur í málinu; en ef þær fá einhverja útbreiðslu falla þær venjulega að meira eða minna leyti inn í beyginga­kerfið. Nafnorðin fá a.m.k. kyn og greini, og iðulega fallendingar; sagnirnar fá þátíðarend­ing­ar og endingar persónu og tölu. Af heiti forritsins Snapchat er komið nafnorðið snapp. Það fær íslenskan framburð, rímar við happ; það fær hvorugkyn og greini, við tölum um snappið; og það breytir a í ö í fleirtölu eins og hvorugkynsorð gera, við tölum um mörg snöpp. Af heiti forritsins Photoshop er komin sögnin fótósjoppa. Hún gengur fullkomlega inn í íslenska sagn­beygingu – við segjum ég fótósjoppa þettavið fótósjoppuðum þetta o.s.frv. Sama er að segja um sögnin gúgla.

Vissulega eru erlendar slettur af þessu tagi oft hafðar til marks um það að málið sé að fara í hundana. En ég held að það sé ástæðulaust. Það eru alltaf að koma nýjar og nýjar enskuslettur, en aðrar hverfa í staðinn. Þegar ég var að alast upp var talsvert af dönskuslettum í daglegu máli en þær eru nú flestar horfnar. Slettur koma helst inn í máli unglinga og margar þeirra úreldast mjög fljótt, þótt vissulega lifi sumar áfram. Ef þær sem lifa laga sig að beygingakerf­inu, eins og snappfótósjoppagúgla og ótalmargar aðrar, þá sé ég ekki að þær valdi miklum skaða. Ég vil samt leggja áherslu á að með þessu er ég ekki endilega að leggja blessun mína yfir ýmsar málbreytingar. Ég er ekki að segja mönnum að hætta að amast við þágufallssýki eða enskuslettum – það verður hver að gera upp við sig. Ég er bara að segja að þessar breyt­ing­ar skapa enga stórhættu fyrir íslenskuna. En reyndar held ég að áköf barátta gegn þeim geti verið skaðleg því að hún dregur athyglina frá alvarlegri ógnunum.

Menn eru nefnilega smátt og smátt að átta sig á því að annars konar hætta steðjar að málinu. Hún varðar það sem stundum er kallað umdæmi málsins. Það er sem sé hættan á því að ís­lenska missi beinlínis ákveðin notkunarsvið til enskunnar – annaðhvort vegna þess að mál­not­endur kjósi fremur að nota ensku á ákveðnum sviðum, eða þá vegna þess að þeir séu beinlínis neydd­ir til þess vegna þess að íslenska sé ekki í boði. Í fljótu bragði sér maður kannski ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu, og því er oft haldið fram að íslenskan standi vel um þess­ar mundir, og hafi jafnvel aldrei staðið sterkar. Það má t.d. nefna að UNESCO hefur útbúið mælikvarða um lífvænleik tungumála, og samkvæmt honum stendur íslenska mjög sterkt því að hún er notuð á öllum sviðum þjóð­lífins; í stjórnkerfinu, í menntakerfinu, í verslun og við­skiptum, í fjölmiðlum, í menn­ingarlífinu, og í öllum daglegum samskiptum fólks.

En þótt staðan virðist þannig góð á yfirborðinu er hún brothætt – það þarf ekki mikið til að fari að molna úr undirstöðunum. Álag á íslenskuna hefur nefnilega vaxið mjög mikið á undan­förn­um fimm árum eða svo og mun fyrirsjáanlega aukast enn á næst­unni. Fyrir því eru ýmsar ástæð­ur en þær helstu eru:

  1. Snjalltækjabyltingin. Flestir Íslendingar, a.m.k. yngra fólk, eiga snjallsíma eða spjald­tölvur nema hvorttveggja sé. Í gegnum þau tæki er fólk sítengt við alþjóðlegan menn­ingarheim sem er að verulegu leyti á ensku, þar er fólk að spila leiki á ensku, horfa á myndefni á ensku o.s.frv. Notendur þessara tækja eru sífellt með þau á lofti og þannig hefur dregið úr venjulegum samskiptum á móðurmálinu.
  2. YouTube- og Netflix-væðingin. Nær allir Íslendingar eru nettengdir og hafa þannig aðgang að ótakmörkuðu myndefni á YouTube, Netflix og öðrum efnisveitum. Búast má við að notendum Netflix fjölgi verulega nú þegar það er opinberlega í boði á Ís­landi. Líklegt er að börn og unglingar séu stór hluti neytenda þessa efnis sem vita­skuld er mestallt á ensku og ótextað.
  3. Ferðamannastraumurinn. Fjölgun ferðamanna hefur haft mikil áhrif bæði í við­skipta­lífinu og menningarlífinu. Verslanir leggja sífellt meiri áherslu á að höfða til út­lend­inga með auglýsingum og vörumerkingum á ensku, og sleppa jafnvel íslenskunni. Menn­ingarviðburðir af ýmsu tagi, s.s. tónleikar og leiksýningar, fara einnig í auknum mæli fram á ensku til að ná til ferða­manna.
  4. Fjölgun innflytjenda. Búast má við að fólki með annað móðurmál en íslensku fjölgi verulega á næstu árum. Þar er annars vegar um að ræða hælisleitendur og flóttamenn, og hins vegar fólk í atvinnuleit. Nýlega kom fram í fréttum að þörf væri á stórfelldum innflutningi vinnuafls á næstu árum, þannig að búast mætti við því að 15% íbúa lands­ins yrði af erlendum uppruna árið 2030.
  5. Háskólastarf á ensku. Skiptinemum og öðr­um erlendum stúdentum við íslenska háskóla fer fjölg­andi og einnig erlendum kennurum. Vaxandi hluti há­skóla­kennslu fer því fram á ensku. Jafnframt er sífellt meiri áhersla lögð á virka þátttöku í alþjóðlegu háskóla­starfi þar sem enska er aðaltungumálið. Þetta getur komið fram í minnkandi þjálfun stúd­enta í að tala og skrifa um við­fangs­efni sín á íslensku.
  6. Alþjóðavæðingin. Breytt heimsmynd hefur leitt til þess að fólk er hreyfanlegra en áður og íslenskir unglingar sjá ekki framtíð sína endilega á Íslandi. Í nýlegri könnun kom fram að helmingur 15-16 ára unglinga á Íslandi vill búa erlendis í framtíðinni (var þriðjungur fyrir hrun). Ekki er ótrúlegt að þetta hafi áhrif á viðhorf unglinga til íslenskunnar sem þeir vita að gagnast þeim lítið erlendis.
  7. Talstýring tækja. Flest tæki eru nú tölvustýrð að mestu leyti og þessum tækj­um verður á næstunni stjórnað með tungumálinu að miklu leyti – við munum tala við tæk­in. Margir þekkja nú þegar leiðsögutæki í bílum, eða Siri í iPhone, eða sjónvörp sem talað er við. Framfarir í talgreiningu eru stórstígar og von bráðar má búast við að ýmsum algengum heim­ilistækjum verði stjórnað með því að tala við þau.

Allt er þetta mjög jákvætt, út af fyrir sig. Það er gott að fólk eigi kost á fjölbreyttri af­þrey­ingu og samskiptum, ferðamannastraumurinn er kærkomin innspýting í efna­hags­lífið, fjölgun inn­flytj­enda vinnur gegn lækkandi fæðingartíðni og eykur fjölbreytni þjóðlífins, það er þægilegt að geta stjórnað tækjum með því að tala við þau, og vitanlega er frá­bært að æska landsins skuli eiga kost á því að taka þátt í alþjóðlegu rannsóknar- og þróunarstarfi, sækja sér menntun og atvinnu hvert sem hana lystir og búa erlendis um skemmri tíma eða til lang­frama. Það er heldur ekki nema gott um það að segja að Íslendingar læri ensku sem yngstir og sem best því að hún er vitanlega lykill að svo mörgu. En þetta skapar mikið álag og þrýsting á íslenskuna. Til að verða öruggir málnotendur þurfa börn og ung­lingar að hafa mikla íslensku í öllu málumhverfi sínu. Sá tími sem varið er í af­þrey­ingu, sam­skipti og störf á ensku er að mestu leyti tekinn frá íslensk­unni. Við það bætist að bóklestur á íslensku, sem er ein mikilvægasta aðferðin til að efla kunnáttu í málinu og til­finningu fyrir því, hefur minnkað verulega á undanförnum árum, a.m.k. meðal ungs fólks.

Eins og sagt var í upphafi spáði Rasmus Rask því árið 1813 að íslenskan yrði liðin undir lok í Reykjavík að 100 árum liðnum, og á öllu landinu eftir 200 ár þar frá – „ef ekki verða rammar skorð­ur við reistar“, sagði hann. Það var einmitt það sem hann og aðrir gerðu næstu árin, reistu rammar skorður, þannig að íslenskan er enn notuð í Reykjavík eins og annars staðar á land­inu. Enn er þó ekki útséð um að seinni hluti spádómsins rætist, þ.e. að ís­lenska verði horfin af landinu öllu árið 2113.

Hvað á þá að gera? Það er ekkert einfalt svar til við því, en ég tel að það mikilvægasta og gagn­legasta sem við getum gert sé að gera átak á sviði íslenskrar máltækni.  Með máltækni er átt við margs konar tengsl tungumáls og tölvutækni – máltækni gerir okkur kleift að hafa sam­skipti við tölvurnar, og nýta þær á ýmsan hátt til að liðsinna okkur við tungumálið. Skammt er í að alls konar tækjum verði stjórnað með því að tala við þau – en hvaða tungu­mál? Eins og stendur er ekki útlit fyrir að hægt verði að tala íslensku við tækin. Að vísu er íslensk tal­greining í símum með Android-stýrikerfi, og tæknilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að við notum íslensku í stað ensku í samskiptum við leiðsögukerfið í bílnum okkar, eða tölum ís­lensku við Siri. Það þarf bara fé til að útbúa ákveðin gögn og vinna ákveðna tæknivinnu. Verði þetta ekki gert er hætta á að íslenskan missi stórt notkunarsvið yfir til enskunnar.

En mál­tæknin getur líka komið að gagni á ýmsum öðrum sviðum. Það er t.d. tæknilega hægt að setja íslenskan texta á allt sjónvarpsefni, hvort sem það er á Netflix, YouTube eða annars stað­ar, með því að nota talgreiningu og vélrænar þýðingar. Talgreinir greinir þá erlenda talið og breytir því í ritaðan texta sem sendur er til þýðingarforrits. Þýðingarforritið snarar textanum á íslensku og getur skrifað hann sem neðanmálstexta á skjáinn, eða sent hann til talgervils sem skilar frá sér íslensku tali. Þessi tækni er þegar til fyrir ensku – að vísu ekki sérlega fullkomin enn, en batnar mjög með hverju ári. Tækni af þessu tagi gæti skipt sköpum fyrir framtíð ís­lensk­unnar. Þetta gæti líka nýst vel í samskiptum við ferðamenn og innflytjendur, og til að kenna útlendingum íslensku.

Íslenska deyr ekki út á næstu fimm eða tíu árum – og ekki á næstu áratugum, held ég. Hún hefur góða möguleika á að standast þann þrýsting sem hún verður nú fyrir og lifa fram yfir 2113, og vonandi gerir hún það. En til þess þarf hún stuðning, og fyrsta skref­ið er að málnot­endur – og stjórnvöld – átti sig á þeim gífurlegu breytingum sem hafa orðið á umhverfi og að­stæð­um íslenskunnar á örfáum árum, til hvers þær gætu leitt, og hvernig væri hægt að bregð­ast við. Það er vissulega útilokað að segja til um langtímaáhrif þessara breytinga, en íslenskan á að njóta vafans.