Um framtíð íslenskunnar

Fyrir rúmum mánuði minntumst við þess að öld var liðin síðan Íslendingar öðluðust fullveldi. En til er annars konar og engu ómerkara fullveldi en það stjórnarfarslega fullveldi sem við fengum 1918. Það er menningarlegt fullveldi þar sem tungumálið er grunnþáttur og meginforsenda. Tungumál smáþjóðar skapar sérstakan menningarheim sem bægir frá áhrifum annarra menningar­heima og torveldar jafnframt aðgang okkar að þeim.

Á síðustu árum hafa þó orðið gífurlegar samfélags- og tæknibreytingar sem valda því að Íslendingar komast nú í nánari og víðtækari snertingu en áður við aðra menningu og menningarheima. Það er gott, því það eykur okkur víðsýni og auðgar okkar eigin menningu. En stærsta áskorunin sem við stöndum nú frammi fyrir á sviði íslenskrar menningar er að tryggja að leiðir milli íslensks menningarheims og annarra menningarheima haldist greiðar – í báðar áttir – án þess að það verði á kostnað íslenskunnar.

En það er ekki nýtt að rætt sé um að íslenskan sé í hættu. Margir kannast við spádóm danska málfræðingsins Rasmusar Kristjáns Rasks sem dvaldi um hríð á Íslandi snemma á 19. öld. Í bréfi til vinar síns árið 1813 sagði hann:

Annars þjer einlæglega að segja held jeg, að íslenskan bráðum muni útaf deyja; reikna jeg, að varla muni nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en varla nokk­ur í landinu að öðrum 200 árum þar upp frá, ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar.

Eins og alkunna er voru einmitt „rammar skorður við reistar“ upp úr þessu. Með róman­tísku stefnunni kom aukin þjóðerniskennd og henni fylgdi hreinsun málsins af dönskum áhrifum. Í þeirri endurreisn íslenskunnar var mikið leitað til fornmálsins og leitast við að útrýma ýmsum breytingum sem höfðu orðið á málinu frá ritunartíma Íslendingasagna. Það má segja að á seinni hluta 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. hafi mótast sá óopinberi málstaðall sem í stórum dráttum er fylgt enn í dag – hugmyndir um hvað sé rétt og rangt í máli, hvernig orð eigi að beygjast, hvernig orðaröð eigi að vera, o.s.frv. Og alla tíð síðan á 19. öld hefur sú skoðun verið áberandi að málinu fari hrakandi, að unga kynslóðin sé að fara með það norður og niður.

Allir þekkja dæmi um málbreytingar sem hafa verið fordæmdar, margar áratugum saman. Þar ber líklega hæst „þágufallssýkina“ svokölluðu, þar sem fólk segir mér langarmér vantarmér hlakkar og annað svipað í stað mig langarmig vantarég hlakka sem er talið rétt. Þetta er málbreyting sem á rætur á 19. öld en hefur verið áberandi a.m.k. síðan á fyrsta þriðjungi 20. aldar og virðist smám saman sækja í sig veðrið. Önnur breyting sem er nýrri og enn sem kom­ið er helst áberandi í máli barna og unglinga er hin svokallaða „nýja þolmynd“ þar sem sagt er það var barið mig í stað ég var barin(n) og það var hrint mér í stað mér var hrint. Þessi breyt­ing virðist eiga rætur um miðja síðustu öld en hefur breiðst mikið út undanfarinn aldarfjórð­ung.

Það væri auðvitað hægt að nefna miklu fleiri atriði sem eru að breytast í málinu en ég hef satt að segja engar áhyggjur af breyt­ingum af þessu tagi. Í allri málsögunni hefur fallstjórn sagna og beyging nafnorða verið að breytast – sumt af því sem nú er talið rétt í málinu hefur breyst frá fornu máli, og oft virðist vera tilvilj­ana­kennt hvaða breytingar hafa verið viðurkenndar og hverjar ekki. Það er samt ekki þar með sagt að allar málbreytingar séu óskaðlegar málinu, eða allt sé í lagi að það breytist hvernig sem er. En svo framarlega sem ekki er hróflað við kerf­inu sé ég enga ástæðu til svartsýni.

Meðan við höldum áfram að beygja orð skiptir ekki öllu máli hvaða fall er notað eða hvaða beygingarmynd. En ef við hættum að beygja orð, og beygingakerfið lætur verulega á sjá eins og það hefur gert í öðrum Norðurlandamálum, þá er ástæða til að bregðast við. Slík breyting hefði mikil áhrif á setningagerð og fæli í sér grundvallarbreytingu á öllu yfir­bragði málsins. Líklegt er að hún myndi leiða til þess að rof yrði í málinu, þannig að allir textar frá því fyrir slíka breytingu, allt frá 12. til 21. aldar, yrðu óskiljanlegir þeim sem á eftir kæmu.

En það er ekkert sem bendir til þess að slíkt hrun sé yfirvofandi. Fólk sem segir mér langartil drottningu eða til föðurs er ekkert hætt að beygja orðin. Einu vís­bend­ingarnar sem ég kann­ast við um veiklun beygingakerfisins eru ensk lýsingarorð eins og töffnæskúl og einhver fleiri, sem venjulega eru notuð óbeygð í íslensku. Sama gerist oft með nýjar slettur í málinu; en ef þær fá einhverja útbreiðslu falla þær venju­lega að meira eða minna leyti inn í beyginga­kerfið. Nafnorðin fá a.m.k. kyn og greini, og iðulega fallendingar; sagnirnar fá þátíðarend­ing­ar og endingar persónu og tölu.

Af heiti forrits­ins Instagram er komin sögnin (insta)gramma. Hún gengur fullkomlega inn í íslenska sagn­beygingu – við segjum ég (insta)gramma þettavið (insta)-grömmuðum þetta o.s.frv. Af heiti forritsins Snapchat er komin sögnin snappa, og einnig nafn­orð­ið snapp. Það fær íslenskan framburð, rímar við happ; það fær hvorugkyn og greini, við tölum um snappið; og það breytir a í ö í fleirtölu eins og hvorugkynsorð gera, við tölum um mörg snöpp. Sögnin gúgla er einnig alþekkt og mikið notuð.

Vissulega eru erlendar slettur af þessu tagi oft hafðar til marks um það að málið sé að fara í hundana. En ég held að það sé ástæðulaust. Það eru alltaf að koma nýjar og nýjar enskuslettur, en aðrar hverfa í staðinn. Þegar ég var að alast upp var talsvert af dönskuslettum í daglegu máli en þær eru nú flestar horfnar. Slettur koma helst inn í máli unglinga og margar þeirra úreldast mjög fljótt, þótt vissulega lifi sumar áfram. Ef þær sem lifa laga sig að beygingakerf­inu, eins og snapp(insta)grammagúgla og ótal­margar aðrar, þá sé ég ekki að þær valdi miklum skaða.

Ég vil samt leggja áherslu á að með þessu er ég ekki endilega að leggja blessun mína yfir ýmsar málbreytingar. Ég er ekki að segja mönnum að hætta að amast við þágufallssýki eða enskuslettum – það verður hver að gera upp við sig. Ég er bara að segja að þessar breyt­ing­ar skapa enga stórhættu fyrir íslenskuna. En reyndar held ég að áköf barátta gegn þeim geti verið skaðleg því að hún dregur athyglina frá alvarlegri ógnunum.

Við erum nefnilega smátt og smátt að átta okkur á því að annars konar hætta steðjar að málinu. Hún varðar það sem stundum er kallað umdæmi málsins. Það er sem sé hættan á því að ís­lenska missi beinlínis ákveðin notkunarsvið til enskunnar – annað­hvort vegna þess að mál­not­endur kjósi fremur að nota ensku á ákveðnum sviðum, eða þá vegna þess að þeir séu beinlínis neydd­ir til þess vegna þess að íslenska sé ekki í boði. Í fljótu bragði sér maður kannski ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu, og því er oft haldið fram að íslenskan standi vel um þess­ar mundir, og hafi jafnvel aldrei staðið sterkar. Það má t.d. nefna að UNESCO hefur útbúið mælikvarða um lífvænleik tungumála, og samkvæmt honum stendur íslenska mjög sterkt því að hún er notuð á öllum sviðum þjóð­lífins; í stjórnkerfinu, í menntakerfinu, í verslun og við­skiptum, í fjölmiðlum, í menn­ingarlífinu, og í öllum daglegum samskiptum fólks.

En þótt staðan virðist þannig góð á yfirborðinu er hún brothætt – það þarf ekki mikið til að fari að molna úr undirstöðunum. Álag á íslenskuna hefur nefnilega vaxið mjög mikið á undan­förn­um 10 árum eða svo og mun fyrirsjáanlega aukast enn á næst­unni. Því valda víðtækar breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi – sumar samfélagslegs eðlis en aðrar tæknilegs. Þær helstu eru:

  • Ferðamannastraumurinn. Fjölgun ferðamanna hefur haft mikil áhrif bæði í við­skipta­lífinu og menningarlífinu. Verslanir leggja sífellt meiri áherslu á að höfða til út­lend­inga með auglýsingum og vörumerkingum á ensku, og sleppa jafn­vel íslenskunni. Menn­ingarviðburðir af ýmsu tagi, s.s. tónleikar og leik­sýningar, fara einnig í auknum mæli fram á ensku til að ná til ferða­manna.
  • Fjölgun innflytjenda. Búast má við að fólki með annað móðurmál en íslensku fjölgi verulega á næstu árum. Þar er aðallega um að ræða erlent vinnuafl, en einn­ig hælisleitendur og flóttamenn. Nýlega kom fram í fréttum að þörf væri á stór­felldum innflutningi vinnuafls á næstu árum, þannig að búast mætti við því að 15% íbúa lands­ins yrði af erlendum uppruna árið 2030.
  • Háskólastarf á ensku. Skiptinemum og öðr­um erlendum stúdentum við ís­lenska háskóla fer fjölg­andi og einnig erlendum kennurum. Vaxandi hluti há­skóla­kennslu fer því fram á ensku. Jafnframt er sífellt meiri áhersla lögð á virka þátt­töku í alþjóðlegu háskóla­starfi þar sem enska er aðaltungumálið. Þjálfun stúdenta í að fjalla um við­fangs­efni sín á íslensku fer því minnkandi.
  • Alþjóðavæðingin. Breytt heimsmynd hefur leitt til þess að fólk er hreyfanlegra en áður og íslenskir unglingar sjá ekki framtíð sína endilega á Íslandi. Í nýlegri könn­un kom fram að helmingur 15-16 ára unglinga á Íslandi vill búa erlendis í fram­tíðinni – var þriðjungur fyrir hrun. Ekki er ótrúlegt að þetta hafi áhrif á við­horf unglinga til íslenskunnar sem þeir vita að gagnast þeim lítið erlendis.
  • Snjalltækjabyltingin. Flestir Íslendingar, a.m.k. yngra fólk, eiga snjallsíma eða spjald­tölvur nema hvorttveggja sé. Í gegnum þau tæki er fólk sítengt við alþjóð­legan menn­ingarheim sem er að verulegu leyti á ensku, þar er fólk að spila leiki á ensku, horfa á myndefni á ensku o.s.frv. Notendur þessara tækja eru sífellt með þau á lofti og þannig hefur dregið úr venjulegum samskiptum á íslensku.
  • Gagnvirkir tölvuleikir. Margir, einkum yngra fólk, spila mikið af tölvuleikjum sem eru undantekningarlaust á ensku. Margir þessara leikja eru spilaðir á netinu þannig að þátttakendur geta verið víða um heim. Leikirnir eru iðulega gagn­virkir – krefjast mállegra samskipta á ensku. Sú málkunnátta sem þannig byggist upp er því virk og gerir meiri kröfur til notenda en óvirk kunnátta.
  • YouTube- og Netflix-væðingin. Nær allir Íslendingar eru nettengdir og hafa þannig aðgang að ótakmörkuðu myndefni á YouTube, Netflix og öðrum efnis­veitum. Notendum Netflix hefur fjölgað verulega eftir að það varð opin­berlega í boði á Ís­landi. Líklegt er að börn og unglingar séu stór hluti neytenda þessa efnis sem vita­skuld er mestallt á ensku og ótextað.
  • Talstýring tækja. Flest tæki eru nú tölvustýrð að mestu leyti og þessum tækj­um verður á næstunni stjórnað með tungumálinu að miklu leyti – við munum tala við tæk­in. Margir þekkja nú þegar leiðsögutæki í bílum, eða Siri í iPhone, eða stafræna aðstoðarmenn sem talað er við. Framfarir í talgreiningu eru stórstígar og búast má við að ýmsum algengum heim­ilistækjum verði stjórnað með því að tala við þau.

Allt er þetta mjög jákvætt, út af fyrir sig. Það er gott að fólk eigi kost á fjölbreyttri af­þrey­ingu og samskiptum, ferðamannastraumurinn er kærkomin innspýting í efna­hags­lífið, fjölgun inn­flytj­enda vinnur gegn lækkandi fæðingartíðni og eykur fjölbreytni þjóð­lífins, það er þægilegt að geta stjórnað tækjum með því að tala við þau, og vitan­lega er frá­bært að æska landsins skuli eiga kost á því að taka þátt í alþjóðlegu rann­sóknar- og þróunarstarfi, sækja sér menntun og atvinnu hvert sem hana lystir og búa erlendis um skemmri tíma eða til lang­frama. Það er heldur ekki nema gott um það að segja að Íslendingar læri ensku sem yngstir og sem best því að hún er vitanlega lykill að svo mörgu.

En þetta skapar mikið álag og þrýsting á íslenskuna. Til að verða ör­ugg­ir málnotendur þurfa börn og ung­lingar að hafa mikla íslensku í öllu málumhverfi sínu. Sá tími sem varið er í af­þrey­ingu, sam­skipti og störf á ensku er að mestu leyti tekinn frá íslensk­unni. Við það bætist að bóklestur á íslensku, sem er ein mikilvægasta aðferðin til að efla kunnáttu í málinu og til­finningu fyrir því, hefur minnkað verulega á undanförnum árum, a.m.k. meðal ungs fólks.

Eins og sagt var í upphafi spáði Rasmus Rask því árið 1813 að íslenskan yrði liðin undir lok í Reykjavík að 100 árum liðnum, og á öllu landinu eftir 200 ár þar frá – „ef ekki verða rammar skorð­ur við reistar“, sagði hann. Það var einmitt það sem hann og aðrir gerðu næstu árin, reistu rammar skorður, þannig að íslenskan er enn notuð í Reykja­vík eins og annars staðar á land­inu. Enn er þó ekki útséð um að seinni hluti spá­dómsins rætist, þ.e. að ís­lenska verði horfin af landinu öllu árið 2113.

Það er nefnilega hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að framangreindar þjóðfélags­breytingar síðustu 10 ára eða svo valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum. Við því þarf að bregðast, því þrátt fyrir alþjóðavæðingu og tækniframfarir er íslenskan enn óendanlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, og fyrir okkur sem eigum hana að móður­máli. Fyrir því eru fleiri ástæður en við leiðum kannski hugann að í fljótu bragði.

Í hverju tungumáli felast menningarverðmæti. Sérhvert tungumál er einstakt á einhvern hátt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi eru frábrugðin öllum öðrum tungumálum, merk­ingar­blæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er, verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.

Sérhvert tungumál er líka merkilegt og einstakt frá fræðilegu sjónarmiði vegna þess að það getur hjálpað okkur að komast að einhverju um eðli mannlegs máls. Íslenska er t.d. viðfangsefni fræðimanna víða um heim og dæmi úr íslensku eru notuð í kennslu í miklum fjölda erlendra háskóla. Ástæðan er ekki síst sú að íslenskan er náskyld ensku og lík henni á margan hátt, þannig að auðvelt er að bera málin saman og láta sérkenni íslenskunnar í beygingum og setn­inga­­gerð varpa ljósi á eðli mismunar málanna og ýmissa fyrirbæra í þeim.

Íslenskan er líka beintenging okkar við sögu og menningu þjóðarinnar fyrr á tímum. Eins og áður er nefnt njótum við þeirra forréttinda umfram flestar aðrar þjóðir að geta tiltölulega auð­veld­lega lesið texta allar götur frá upphafi ritaldar fyrir 900 árum, án þess að þeir séu þýddir á nútímamál. Ef íslenskan tekur róttækum breytingum, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Hávamál og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og ÍslandsklukkunaEngla alheimsins og Kalda­ljós, og meira að segja Ungfrú Ísland og Sextíu kíló af sólskini. Þar með væri hið margrómaða samhengi í ís­lensk­um bókmenntum og menningu fokið út í veður og vind.

Vitanlega er íslenskan ekki síður félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikil­vægasta sam­skipta­tæki okkar við annað fólk. Þess vegna má hún ekki staðna, heldur þarf að vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hún verður að þola tilbrigði í fram­burði, beyg­ingum og setningagerð, og að ný orð komi inn í málið og gömul orð fái nýja merkingu. Hún má ekki verða einkaeign ákveðinna hópa, og það má ekki nota hana og tilbrigði í beitingu hennar til að mismuna fólki eða skipa því í andstæðar fylkingar.

En síðast en ekki síst er íslenskan útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar. Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði, móður­mál okkar, er hluti af okkur sjálfum, einkaeign okkar jafnframt því að vera sam­eign alls málsamfélagsins og í vissum skilningi alls mannkyns. Þetta hljómar eins og þversögn – og er þversögn. Það er ekki einfalt að umgangast málið þannig að öll hlutverk þess séu höfð í heiðri.

Það er samt það sem við þurfum að reyna að gera – með umburðar­lyndi, virðingu og tillitssemi að leiðarljósi. Það má ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist ís­lensk­an ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Íslenskan er nefnilega alls konar. Íslenska með hreim er líka íslenska. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Vissulega ekki nákvæmlega sú íslenska sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir 50-60 árum, en það gefur mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana.

Viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst við­horf ungu kynslóðarinnar, ræður miklu um framtíðarhorfur málsins. Það eru ýmsar vísbendingar um að ungir Íslendingar líti ekki á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfs­mynd sinni og þau sem eldri eru og hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Ungt fólk nú á dögum sér allan heiminn sem leiksvið sitt – það vill geta lært, starfað og búið erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kyn­slóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.

Fyrir rúmri viku birtist á mbl.is viðtal við upplýsingafulltrúa Símans sem kynntur var sem „áhugamaður um tækni og nýjungar“. Hann telur að 2019 verði „árið sem fjarstýringin deyr og að raddstýringin taki alveg yfir“, árið „þar sem venjuleg heimili byrja að horfa til tækninnar“. Hann heldur áfram: „Það sem stendur uppbyggingunni helst fyrir þrifum byrjar og endar á raddstýringu og við þurfum alltaf að tala ensku. Ég er með lása, perur og fjarstýringar hjá mér og þarf alltaf að tala ensku“ segir Guðmundur sem „játar að það geti verið þreytandi“.

Eitt það mikilvægasta og gagn­legasta sem við getum gert til að styrkja stöðu íslenskunnar er því að gera átak á sviði íslenskrar máltækni.  Með máltækni er átt við margs konar tengsl tungumáls og tölvutækni – máltækni gerir okkur kleift að hafa sam­skipti við tölvurnar, og nýta þær á ýmsan hátt til að liðsinna okkur við tungumálið. Með nýsamþykktri aðgerðaáætlun í máltækni er stigið stórt skref til að tryggja að við getum notað íslenskuna áfram – ekki bara í þeim mikilvægu hlut­verkum sem ég nefndi áðan, heldur einnig í nýju hlutverki í sam­skipt­um okkar við tölvur og hvers kyns tölvustýrð tæki í þeim stafræna heimi gervigreindar sem við erum á hraðri leið inn í.

En við þurfum líka að sjá til þess að þjóðin eigi greiðan aðgang að margs kyns afþreyingu, fræðslu og list á íslensku, bæði á bók og í stafrænu formi. Nú hefur mennta- og menningarmálaráðherra lagt fram þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Þar er lögð áhersla á „nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags“, „vitundarvakningu um mikilvægi íslenskrar tungu, gildi hennar og sérstöðu“, og „mikilvægi þess að íslenska sé lifandi tungumál í stöðugri þróun og helsta samskiptamál samfélagsins“. Tillagan skiptist í 22 liði sem fjalla um ýmsa þætti í menntun og skólastarfi, menningu, tækniþróun, stjórnsýslu o.fl. Vonandi verður þessi tillaga samþykkt en það er þó til lítils ef henni verður ekki fylgt eftir með verulegu fjármagni.

Eitt það mikilvægasta í þessari tillögu er sú áhersla sem þar er lögð á mikilvægi kennslu í íslensku sem öðru máli. Við verðum að styðja þau sem vilja lifa og starfa í íslensku samfélagi til að ná góðu valdi á þessu mikilvæga samskiptatæki en megum ekki láta takmarkaða íslenskukunnáttu fólks bitna á því á nokkurn hátt. Í gær var í Silfrinu stórmerkilegt viðtal við Elínu Þöll Þórðardóttur talmeinafræðing sem starfar í Kanada en hefur undanfarið unnið að rannsóknum á málkunnáttu barna á Íslandi sem eiga erlenda foreldra. Hún sagði að mörg þessara barna næðu ekki nógu góðu valdi á íslensku – þau töluðu hana vissulega án hreims og með réttum beygingum og setningagerð að mestu leyti, en þau byggju ekki yfir fjölbreyttum orðaforða og réðu ekki við flóknar setningar. Þau lærðu ekki heldur tungumál foreldranna til hlítar og hefðu því í raun ekki móðurmálshæfni í neinu tungumáli. Það er mjög alvarlegt.

Fjöldi rannsókna sýnir að móðurmálshæfni í einu tungumáli er forsenda fyrir því að ná góðu valdi á öðrum tungumálum. Fólk sem ekki lærir íslensku til hlítar kemst ekki áfram í skólakerfinu, það situr fast í láglaunastörfum og tekur ekki fullan þátt í lýðræðislegu þjóðfélagi. Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er nefnilega lagður á máltökuskeiði. Ekkert er jafnmikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals með börnum sínum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það. Þá hefur hún góða möguleika á að standast þann þrýsting sem hún verður nú fyrir og lifa fram til 2113, þegar hún ætti að vera útdauð samkvæmt spá Rasks frá 1813 – og vonandi miklu lengur.