Málbreytingar, málvillur og málstaðall

Góðir áheyrendur.

Ég þakka fyrir boð um að tala hér á þessu málþingi. Tungumálatöfrar eru mjög merkilegt framtak og ég óska gömlum nemanda mínum, Önnu Hildi, og öðrum aðstandendum til hamingju með það. Í byrjun ætla ég að ræða svolítið um hverjir þessir töfrar tungumálsins séu.

Í hverju tungumáli felast menningarverðmæti. Sérhvert tungumál er einstakt á einhvern hátt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi eru frábrugðin öllum öðrum tungumálum, merk­ingar­blæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er, verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.

Sérhvert tungumál er líka merkilegt og einstakt frá fræðilegu sjónarmiði vegna þess að það getur hjálpað okkur að komast að einhverju um eðli mannlegs máls. Íslenska er t.d. viðfangsefni fræðimanna víða um heim og dæmi úr íslensku eru notuð í kennslu í miklum fjölda erlendra háskóla. Ástæðan er ekki síst sú að íslenskan er náskyld ensku og lík henni á margan hátt, þannig að auðvelt er að bera málin saman og láta sérkenni íslenskunnar í beygingum og setn­inga­­gerð varpa ljósi á eðli mismunar málanna og ýmissa fyrirbæra í þeim.

Á Íslandi er tungumálið er líka beintenging okkar við sögu og menningu þjóðarinnar fyrr á tímum. Íslendingar njóta þeirra forréttinda umfram flestar aðrar þjóðir að geta tiltölulega auð­veld­lega lesið texta allar götur frá upphafi ritaldar fyrir 900 árum, án þess að þeir séu þýddir á nútímamál. Ef íslenskan tekur róttækum breytingum, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Hávamál og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kalda­ljós, og meira að segja Ungfrú Ísland og Sextíu kíló af sólskini.

Vitanlega er tungumálið ekki síður félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikil­vægasta sam­skipta­tæki okkar við annað fólk. Þess vegna má það ekki staðna, heldur þarf að vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hún verður að þola tilbrigði í fram­burði, beyg­ingum og setningagerð, og að ný orð komi inn í málið og gömul orð fái nýja merkingu. Hún má ekki verða einkaeign ákveðinna hópa, og það má ekki nota hana og tilbrigði í beitingu hennar til að mismuna fólki eða skipa því í andstæðar fylkingar. Við þurfum að styðja þau sem vilja lifa og starfa í íslensku samfélagi til að ná góðu valdi á þessu mikilvæga samskiptatæki en megum ekki láta takmarkaða íslenskukunnáttu fólks bitna á því á nokkurn hátt.

En síðast en ekki síst er tungumálið útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar. Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði, móður­mál okkar, er hluti af okkur sjálfum, einkaeign okkar jafnframt því að vera sam­eign alls málsamfélagsins og í vissum skilningi alls mannkyns. Þetta hljómar eins og þversögn – og er þversögn. Það er ekki einfalt að umgangast málið þannig að öll hlutverk þess séu höfð í heiðri.

Það er samt það sem við þurfum að reyna að gera – með umburðar­lyndi, virðingu og tillitssemi að leiðarljósi. En því miður skortir oft á það í umræðum um tungumálið. Fjöldi fólks stundar það að hnýta í málfar annarra sem tala ekki eins og þessum sjálfskipuðu verndurum tungunnar þykir rétt – fólks sem fylgir ekki hinum óopinbera íslenska málstaðli.  Þessi málstaðall, viðmið um rétt mál og rangt, varð til á 19. öld þótt rætur hans séu vissulega í fornmáli, og komst í endanlegt form á fyrri hluta 20. aldar. Hann miðast því við það sem þótti vandað ritmál fyrir 80–100 árum. Síðan þá hefur eiginlega allt breyst í íslensku þjóðfélagi og það væri mjög undarlegt ef sama málsnið þjónaði þörfum okkar núna og fyrir einni öld. Enda er það auðvitað ekki svo. Íslenskan – daglegt mál – hefur breyst talsvert undanfarna öld. Ýmsar málbreytingar hafa komið upp og breiðst út, og jafnvel náð til verulegs hluta landsmanna, án þess að verða hluti af staðlinum.

Samkvæmt þessum staðli á ekki að segja „mér langar“ heldur „mig langar“, ekki „ég vill“ heldur „ég vil“, ekki „við hvorn annan“ heldur „hvor við annan“ ekki „hjá sitthvorri“ heldur „sinn hjá hvorri“, ekki „ef hann sé heima“ heldur „ef hann er heima“, ekki „eins og mamma sín“ heldur „eins og mamma hennar“, ekki „vegna lagningu“ heldur „vegna lagningar“, ekki „það var hrint mér“ heldur „mér var hrint“, ekki „rétta upp hendi“ heldur „rétta upp hönd“, ekki „ég er ekki að skilja þetta“ heldur „ég skil þetta ekki“, ekki „báðir tónleikarnir“ heldur – ja, hvað? „Hvorir tveggja tónleikarnir“? „Hvorirtveggju tónleikarnir“? Hver segir það eiginlega?

Það sem ekki á að segja, þau afbrigði sem samræmast ekki staðlinum, eru kölluð málvillur, þrátt fyrir að talsverður hluti þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli – í sumum tilvikum meirihluti – noti þau. En hugum aðeins að því hvað við erum að segja með þessu. Erum við að segja að fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi og tileinkar sér íslensku á máltökuskeiði kunni ekki íslensku? Getur málbreyting sem hefur náð til umtalsverðs hluta málnotenda verið villa? Hvaða vit er í því? Athugið að málstaðallinn sem notaður er til að skilgreina villurnar er mannanna verk, og það er á margan hátt tilviljanakennt hvað rataði inn í hann. Margar breytingar sem orðið hafa frá fornmáli komust inn í staðalinn og eru viðurkenndar og ekki taldar villur.

Þetta táknar ekki að rétt sé að viðurkenna öll afbrigði frá staðlinum, eða vísa hugtakinu málvilla út í hafsauga. Mér finnst alltaf best að nota skilgreiningu nefndar um „málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum“ frá 1986: „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Í samræmi við þetta er alveg eðlilegt að kalla tilviljanakennd og einstaklingsbundin frávik frá staðlinum málvillur, en ef frávikin eru farin að ná til hóps af fólki og börn farin að tileinka sér þau á máltökuskeiði er eðlilegt að tala um málbreytingu en ekki villu. Það er að mínu mati mjög brýnt að breyta málstaðlinum sem hefur gilt undanfarna öld, viðurkenna staðreyndir og taka inn í staðalinn ýmsar breytingar sem hafa verið í gangi og verða ekki stöðvaðar.

Það má nefnilega ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist ís­lensk­an ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Þótt sumir tali svolítið öðruvísi íslensku en þá sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir 50-60 árum gefur það mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana. Íslenskan er nefnilega alls konar. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Og síðast en ekki síst: Íslenska með hreim og beygingarvillum er líka íslenska.

Fyrir viku, laugardaginn 1. júní, birtist í Fréttablaðinu frábær pistill eftir Sif Sigmarsdóttur, rithöfund í London og annan gamlan nemanda minn. Þar segir meðal annars:

Eins og margir íslenskir foreldrar sem búa erlendis hélt ég í einfeldni minni að börnin yrðu fyrirhafnarlaust jafnvíg á íslensku og ensku. En þvert á það sem ég hafði heyrt verða börn ekki sjálfkrafa tvítyngd. Þótt báðir foreldrar á heimilinu séu íslenskir, tali alltaf íslensku, lesi fyrir börnin á íslensku og hrifsi daglega af þeim Netflix-fjarstýringuna og neyði þau til að horfa á rispaðan DVD-disk með Skoppu og Skrítlu er enskan þeim tamari.

Tungumál í lífi tvítyngdra barna eiga í stöðugri samkeppni. Tungumálið sem er ríkjandi í umhverfi þeirra – tungumálið sem er talað í skólanum, sem vinirnir tala og þau heyra í sjónvarpinu – nær oft yfirhöndinni.

Hér á Íslandi er þetta enn flóknara fyrir börn af erlendum uppruna og samkeppnin enn meiri. Þau hafa tungumál foreldranna á heimilinu, íslenskuna í skólanum, en enskuna í sjónvarpinu og á netinu. Þau þurfa í raun að vera þrítyngd. Rannsóknir sýna að í fjöltyngdu umhverfi, eins og þessi börn búa í, skiptir viðhorf til tungumálanna miklu máli. Ef börnin tengja íslenskuna fyrst og fremst við skólann, þar sem þau standa oft höllum fæti, en enskuna við skemmtun og afþreyingu er veruleg hætta á að þau leggi ekki rækt við íslenskuna og hún verði undir. Þess vegna skiptir gífurlegu máli að sinna þessum börnum vel og sjá til þess að íslenskan í umhverfi þeirra verði skemmtileg.

Fyrir ári hafði blaðið Grapevine, sem gefið er út á ensku í Reykjavík, samband við mig og bað mig að svara spurningunni „Why is Icelandic such a difficult language to learn?“ eða „Hvers vegna er íslenska svona erfið?“. Þetta er goðsögn sem margir þekkja, að íslenska sé með erfiðustu málum. Vissulega er ýmislegt í íslensku sem getur verið snúið, en það fer þó að talsverðu leyti eftir móðurmáli málnemans og þeim tungumálum sem hann hefur haft kynni af. Íslenska hefur ríkulegar beygingar miðað við ensku t.d., en slíkt ætti ekki að koma fólki af slavneskum uppruna á óvart. Það eru ákveðin sérkenni í íslensku hljóðkerfi og setningagerð sem geta vafist fyrir útlendingum, en þegar á heildina er litið er varla hægt að segja að íslenska sé erfiðari en gengur og gerist um tungumál.

En hitt er vissulega rétt að mörgum útlendingum finnst íslenska erfið og hika við að tala hana við Íslendinga. Ég held að ein ástæðan fyrir því sé sú að Íslendingar eru ekki – eða hafa ekki verið – sérlega umburðarlyndir gagnvart beygingarvillum, erlendum hreim, og öðrum merkjum um ófullkomna íslensku. Ísland var til skamms tíma eintyngt samfélag og við vorum því ekki vön því að heyra útlendinga reyna að tala málið og hætti til að gagnrýna tilraunir þeirra til þess harkalega. En málfærni fæst ekki nema með æfingu, og til að ná valdi á tungumáli þurfum við að fá tækifæri til að nota það við mismunandi aðstæður. Því miður eru Íslendingar mjög gjarnir á að skipta yfir í ensku um leið og þeir átta sig á því að viðmælandinn talar íslensku ekki reiprennandi. Þetta þarf að breytast – við þurfum að vera þolinmóðari og umburðarlyndari gagnvart ófullkominni íslensku.

Það er hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að samfélags- og tækni­breytingar síðustu 10 ára eða svo valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum. Eins og áður segir ræður viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst við­horf ungu kynslóðarinnar, miklu um framtíðarhorfur málsins. Það eru ýmsar vísbendingar um að ungir Íslendingar líti ekki á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfs­mynd sinni og þau sem eldri eru og hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Ungt fólk nú á dögum sér allan heiminn sem leiksvið sitt – það vill geta lært, starfað og búið erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kyn­slóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.

Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltökuskeiði. Ekkert er jafnmikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals með börnum sínum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það.

Takk fyrir áheyrnina – áfram íslenska!