Að voka

Ég staldraði við þegar ég sá þessa fyrirsögn: „Flugbíllinn vokti í mínútu“. Ég þekki sögnina voka um það að fuglar sveimi yfir bráð en þessa notkun kannaðist ég ekki við. Þess vegna fletti ég sögninni upp á málið.is og fékk upp þessa skilgreiningu úr Flugorðasafni: „Halda þyrlu eða hnitu nokkurn veginn kyrri á flugi miðað við jörðu eða lofthjúp.“

Sögnin hefur sem sé verið nýtt þarna sem þýðing á enska orðinu hover. Það finnst mér vel til fundið – í íðorðastarfi er um að gera að nýta orð sem fyrir eru í málinu ef hægt er og hnika merkingu þeirra til eða víkka hana ef þess gerist þörf, svo framarlega sem engin hætta sé á að það valdi misskilningi.

Í Flugorðasafninu er nefnt að þátíð sagnarinnar sé vokti og þannig er hún höfð í fyrirsögninni og upphafi fréttarinnar, en í næstu efnisgrein er þátíðarmyndin vokaði. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gefur þá mynd vissulega upp líka (og þá er nútíðin vokar en ekki vokir), en mikilvægt er að gæta samræmis innan sömu fréttar.