Posted on

Hvað er málrækt?

Margir telja undanhald eða uppgjöf felast í því að efast um gildi ósveigjanlegrar andstöðu gegn „málvillum“, að ekki sé talað um að viðurkenna einhverjar þeirra sem „rétt mál“. Margir amast líka við nýjum orðum eða nýbreytni í orðanotkun. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt – okkur finnst að málið eigi að vera eins og við tileinkuðum okkur það í æsku, og eins og okkur hefur verið kennt að það eigi að vera.

En málvöndun og málrækt felst ekki í því að berjast gegn langt gengnum málbreytingum, amast við nýjungum í máli, eða enskuslettum sem koma og fara. Og þaðan af síður felst málrækt í því að hneykslast á, leiðrétta og hnýta í málfar annarra. Hins vegar felst málrækt í því

  • að rækta með sér jákvætt viðhorf til málsins og skilning á gildi þess fyrir mann sjálfan og málsamfélagið;
  • að hika ekki við að beita nýsköpun í máli – setja orð í nýstárlegt samhengi og búa til ný orð ef þeirra er þörf;
  • að leitast við að orða hugsun sína skýrt og skipulega og vanda framsetningu bæði talaðs máls og ritaðs;
  • að velja máli sínu búning sem hæfir aðstæðum og viðmælendum – nota viðeigandi málsnið;
  • að vilja kynna sér hefðir málsins og taka mið af þeim, án þess að láta þær hefta eðlilega tjáningu;
  • að sýna viðmælendum sínum virðingu og umburðarlyndi og leggja málnotkun þeirra út á besta veg;
  • að átta sig á að málið verður að henta málsamfélaginu á hverjum tíma og stöðnun í máli er ávísun á hnignun þess;
  • að tala sem mest við börn á máltökuskeiði, lesa fyrir þau og með þeim, og vera þeim góð málfyrirmynd;
  • að gera kröfu um og stuðla að því eftir mætti að unnt sé að nota málið á öllum sviðum, til allra þarfa;
  • að tala íslensku, hlusta á íslensku, lesa íslensku, skrifa íslensku – nota íslensku sem allra mest.
Posted on

Málfar ungra blaðamanna

Valdimar Briem skrifaði í gær pistil í Málvöndunarþáttinn á Facebook þar sem vikið er að færslu sem ég skrifaði fyrr í vikunni. Ég get tekið undir sumt í þeim pistli en vil nefna að hvatinn að minni færslu var orðalag og framsetning athugasemda sem gerðar eru við málfar í þessum hóp og víðar – athugasemda sem jafnvel lúta að andlegu atgervi og þroska þeirra sem verður eitthvað á að mati umvandara. Fyrir utan það að vera ekki kurteislegar eru slíkar athugasemdir ekki líklegar til að bæta málfar þeirra sem um er að ræða. Um þetta erum við Valdimar sammála sýnist mér.

Til skýringar á ýmsu í málfari og orðanotkun ungra blaðamanna benti ég á að þjóðfélagið hefur breyst gífurlega á undanförnum áratugum, og ungir blaðamenn eru aldir upp í þjóðfélagi og málumhverfi sem er gerólíkt því sem við Valdimar ólumst upp í. Þess vegna er ekki við því að búast að þeim sé tamur allur sami orðaforði og okkur sem erum komin yfir miðjan aldur (eins og meirihluti þeirra sem eru virkir í þessum hópi að því er mér sýnist). En það er fráleitt sem Valdimar segir, að ungir blaðamenn „leitist stundum við að tjá sig opinberlega á röngu máli“.

Ég hef ekki varið óvönduð vinnubrögð og mun ekki gera. Vitanlega eiga allir að vanda sig við það sem þeir gera, og fólk sem hefur atvinnu af skrifum á auðvitað sérstaklega að vanda sig í meðferð málsins. Sannarlega er oft misbrestur á því. En það verður að sýna sanngirni og taka tillit til breyttra aðstæðna. Áður var allt efni blaðanna lesið yfir af þjálfuðum og vandvirkum prófarkalesurum. Síðan fór það til setjara sem einnig voru sumir hverjir miklir íslenskumenn og lagfærðu textann ef þeir sáu ástæðu til. Textinn fór því í gegnum margar síur áður en hann birtist lesendum.

Nú skrifa blaðamenn á vefmiðlum texta sem birtist iðulega á netinu um leið, ósíaður, og öll þjóðin getur skoðað – og gert athugasemdir við. Vissulega koma prófarkalesarar stundum við sögu, en oft er textinn settur á netið um leið og hann hefur verið skrifaður og prófarkalesarinn fer svo yfir hann eftir á, þegar tækifæri gefst. Það fer ekki hjá því að þessi vinnubrögð, og hraðinn og sú pressa sem blaðamenn eru undir, leiða til þess að ýmislegt sem betur mætti fara kemur fyrir sjónir lesenda. En það er ekki hægt að kenna blaðamönnunum um allt sem miður fer, heldur þeim vinnuaðstæðum sem þeir búa við.

Ég legg áherslu á, eins og ég hef gert áður, að þetta þýðir ekki að fólk eigi bara að yppta öxlum yfir öllu sem því finnst ábótavant í málfari og framsetningu. Það er sjálfsagt að benda á hroðvirknisleg vinnubrögð og þegar brugðið er út af málhefð. En það skiptir máli hvernig það er gert.