Hvað er málrækt?

Margir telja undanhald eða uppgjöf felast í því að efast um gildi ósveigjanlegrar andstöðu gegn „málvillum“, að ekki sé talað um að viðurkenna einhverjar þeirra sem „rétt mál“. Margir amast líka við nýjum orðum eða nýbreytni í orðanotkun. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt – okkur finnst að málið eigi að vera eins og við tileinkuðum okkur það í æsku, og eins og okkur hefur verið kennt að það eigi að vera.

En málvöndun og málrækt felst ekki í því að berjast gegn langt gengnum málbreytingum, amast við nýjungum í máli, eða enskuslettum sem koma og fara. Og þaðan af síður felst málrækt í því að hneykslast á, leiðrétta og hnýta í málfar annarra. Hins vegar felst málrækt í því

  • að rækta með sér jákvætt viðhorf til málsins og skilning á gildi þess fyrir mann sjálfan og málsamfélagið;
  • að hika ekki við að beita nýsköpun í máli – setja orð í nýstárlegt samhengi og búa til ný orð ef þeirra er þörf;
  • að leitast við að orða hugsun sína skýrt og skipulega og vanda framsetningu bæði talaðs máls og ritaðs;
  • að velja máli sínu búning sem hæfir aðstæðum og viðmælendum – nota viðeigandi málsnið;
  • að vilja kynna sér hefðir málsins og taka mið af þeim, án þess að láta þær hefta eðlilega tjáningu;
  • að sýna viðmælendum sínum virðingu og umburðarlyndi og leggja málnotkun þeirra út á besta veg;
  • að átta sig á að málið verður að henta málsamfélaginu á hverjum tíma og stöðnun í máli er ávísun á hnignun þess;
  • að tala sem mest við börn á máltökuskeiði, lesa fyrir þau og með þeim, og vera þeim góð málfyrirmynd;
  • að gera kröfu um og stuðla að því eftir mætti að unnt sé að nota málið á öllum sviðum, til allra þarfa;
  • að tala íslensku, hlusta á íslensku, lesa íslensku, skrifa íslensku – nota íslensku sem allra mest.