Eintölu- og fleirtöluorð

Í Málvöndunarhópnum á Facebook og víðar er oft rætt um tölu nafnorða. Sum nafnorð eru venjulega eingöngu notuð í eintölu, önnur eingöngu í fleirtölu, og fólki bregður í brún ef orðin eru notuð í annarri tölu en venjulegt er. Þannig var nýlega rætt um eintöluna sundfat og annars staðar sá ég gerða athugasemd við fleirtöluna áburðir (á tún). Það er auðvitað ljóst að sundföt eru venjulega höfð í fleirtölu en áburður í eintölu. En er ástæða til að amast við hinu – er það beinlínis rangt?

Þótt föt séu venjulega í fleirtölu, og merki 'fatnaður', er eintalan fat vissulega til og gefin í orðabókum, og merkir 'flík'. Ég sé ekki að það ætti að skipta máli hvort orðið fat er notað eitt og sér eða í samsetningunni sundfat. Hitt er svo annað mál hvort einhver þörf er fyrir eintöluna – hvort ekki megi tala um ein sundföt eins og venja er í staðinn fyrir eitt sundfat. Það er svo sem alveg hægt að hugsa sér aðstæður þar sem merkingarmunur væri á þessu. Til eru sundföt sem eru í tvennu lagi (bikini) – þar gæti hugsanlega komið sér vel að geta talað um annan hlutann sem sundfat.

Orðið áburður í merkingunni 'efni borið á jarðveg til að auka vöxt plantna' hefur nær eingöngu verið haft í eintölu (þótt dæmi um fleirtöluna sé til frá 19. öld). Hins vegar hefur orðið líka aðra merkingu, 'smyrsl, t.d. á sár', og í þeirri merkingu hefur það lengi tíðkast í fleirtölu án þess að nokkrum finnist það athugavert - talað er t.d. um handáburði. Þarna hefur merking orðsins víkkað úr því að vera efnisheiti (slík orð eru ekki notuð í fleirtölu) yfir í að tákna einstakar tegundir af eða úr þessu efni. Fyrst ekkert er því til fyrirstöðu að láta fleirtöluna tákna tegundir þegar rætt er um smyrsl, má þá ekki líka láta hana tákna tegundir túnáburðar?

Málið snýst sem sé ekki um það hvort eintalan sundfat og fleirtalan áburðir séu til – það eru þær augljóslega, og málfræðilega er ekkert við þær að athuga. Báðar fela hins vegar í sér merkingarvíkkun orðanna sem um er að ræða – úr tegundarheiti yfir í einstök dæmi um tegundina, ef svo má segja. Það er svo smekksatriði hvort fólk fellir sig við þessa merkingarvíkkun og því verður hver að svara fyrir sig. En það má benda á að fjölmörg hliðstæð dæmi eru til í málinu – sum almennt viðurkennd, önnur ekki. Og sum slík tilvik sem áður var amast við þykja núna góð og gild.

Til skamms tíma börðust umvandarar t.d. harkalega gegn fleirtölunni keppnir og sögðu að keppni væri aðeins til í eintölu og merkti 'kapp' – eins og orðið gerir t.d. í setningunni Það var alltaf mikil keppni á milli systkinanna. En við þessa óhlutstæðu merkingu hefur bæst merkingin 'kappleikur', eins og t.d. í Systkinin háðu margar keppnir. Þessi merkingarvíkkun er a.m.k. 90 ára gömul. Nú hef ég ekki séð amast við fleirtölunni keppnir í 15-20 ár og dreg þá ályktun af því að flestir séu búnir að taka hana í sátt. Það kemur í ljós hvernig fer með sundfat og áburði.

Annars skrifaði Höskuldur Þráinsson prófessor einu sinni smágrein um þetta efni og er rétt að vísa á hana hér.