Sína

Sögnin sína (stundum rituð seena eða seen-a) er nýtt tökuorð úr ensku. Hún er notuð þegar einhver hefur séð (seen) skilaboð á samfélagsmiðli (t.d. Facebook eða Snapchat) en ekki brugðist við á þann hátt sem sendandi hefði kosið. Að sína einhvern getur þá falið í sér móðgun eða lítilsvirðingu við sendandann, ef ég skil þetta rétt (er enginn sérfræðingur á þessu sviði).

Það má auðvitað segja að þetta sé bara hrá enska sem ekki eigi að hleypa inn í málið – (reyna að) berja þetta niður hjá notendum. En það eru ekki endilega skynsamleg viðbrögð. Miklu nær væri að taka þessu jákvætt. Það er nefnilega hægt að nota svona dæmi til að kenna nemendum heilmargt um tungumálið.

Til dæmis um orðmyndun. Þrátt fyrir að uppruninn sé enskur lýsingarháttur erum við ekki í neinum vandræðum með að búa til úr honum sögn og beygja hana eins og hún væri íslenskrar ættar – Hann sínar mig alltaf, Hún sínaði mig, Þú hefur oft sínað mig (vona að ég sé að nota þetta rétt). Uppruninn er vissulega enskur, en sögnin fellur algerlega að íslensku hljóðkerfi.

Hljóðfræðilega fellur þessi sögn saman við aðra sem fyrir er í málinu en skrifuð öðruvísi, þ.e. sýna, en beygingin er önnur – nýja sögnin er sínaði í þátíð og sínað í lýsingarhætti þátíðar þótt sú sem fyrir er sé sýndi og sýnt. Þar að auki stjórnar nýja sögnin bara þolfalli (sína mig) en sú gamla þágufalli og þolfalli (sýna mér eitthvað) – þágufalli á persónunni.

Þetta má nota til að benda nemendum á þann sköpunarmátt sem býr í málinu, og þá málkunnáttu sem þau búa yfir. Þetta má líka nota til að tala um samhljómun, stafsetningu, tilbrigði í beygingum og beygingarflokka, föll og fallstjórn, og ýmislegt fleira. Og svo má auðvitað nota þetta til að ræða um nýyrði og tökuorð – hvernig íslensk orð geti verið eða megi vera, hvaða skilyrði erlend orð þurfi að uppfylla til að eðlilegt sé að taka þau upp í íslensku, o.s.frv.

Með því að taka svona á málunum, í stað þess að láta hreintungumanninn í okkur ráða, held ég að við getum vakið áhuga nemenda á móðurmálinu og margbreytileika þess, í stað þess að drepa hann niður.