Fornmál sem fyrirmynd

Hvað er „rétt mál“ og hvað er „rangt mál“? Við hvað á að miða þegar tilbrigði eru í málinu? Oft er vísað til þess að eitt sé réttara en annað vegna þess að það sé eldra – mig langar sé eldra en mér langar, ég vil eldra en ég vill, o.s.frv. Við skulum nú hugsa okkur að við kæmum okkur saman um það að telja það réttast sem væri elst, og miða þá við elstu varðveitta texta á íslensku, en hirða ekki um forsögu málsins.

Það eru samt ekki nein málfræðileg rök fyrir því að velja 12. eða 13. aldar íslensku sem viðmið, frekar en eitthvert eldra eða yngra málstig. Málið hefur alltaf verið að breytast, að vísu misjafnlega hratt; en það var engin sérstök kyrrstaða í því um 1200 – raunar síður en svo, því að á þessum tíma voru miklar breytingar á sérhljóðakerfinu að ganga yfir.Það eru því ytri aðstæður sem valda því að mál þessa tíma er notað sem viðmið – á því eru helstu fornbókmenntir okkar skrifaðar.

En af ýmsum ástæðum er alls ekki auðvelt að dæma mál „rétt“ og „rangt“ eftir þessu viðmiði. Þekking okkar á fornmálinu er ekki ótakmörkuð. Þótt við eigum töluvert af rituðum textum frá 13. öld eru þeir frekar einhæfir; mestanpart frásagnarbókmenntir af ýmsu tagi, en einnig nokkuð af lagatextum og skjölum. Þótt eitthvert orð, einhver beygingarmynd eða einhver setningagerð komi ekki fyrir í varðveittum textum getum við ekki fullyrt að það hafi ekki tíðkast í forníslensku. Það gæti sem best verið tilviljun að það hefði ekki komist á bækur – eða þær bækur sem það komst á hafi allar glatast.

Eitt af því sem gerir erfitt að miða eingöngu við fornmálið er það að við vitum sáralítið um fornt talmál. Í nútímaíslensku er munur talmáls og ritmáls töluverður, og líklega meiri en við gerum okkur grein fyrir í fljótu bragði. Það má telja víst að einhver munur hafi einnig verið á talmáli og ritmáli til forna. En hvort hann var meiri eða minni en nú, og í hverju hann var fólginn, getum við lítið sagt um. Og það er í mörgum tilvikum í meira lagi hæpið að „leiðrétta“ nútíma talmál eftir fornu ritmáli.

Þar að auki birta hinir fornu textar ekki eitthvert einlitt og dauðhreinsað mál; þar er að finna alls konar ósamræmi og ýmislegt sem nú yrði eflaust kallað „málvillur“. Í því sambandi er forvitnilegt að líta á eitt elsta varðveitta íslenska handritið, hina svokölluðu Íslensku hómilíubók frá því um 1200. Um þetta rit hefur Jón Helgason prófessor sagt: „óvíða flóa lindir íslenzks máls tærari en þar, og er sá íslenzkur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna.“ Nú vill svo til að í þessu riti stendur iðulega ekki mig langar og okkur langar, heldur ég langa, við löngum; sögnin er sem sé höfð persónuleg, og tekur frumlag í nefnifalli.

Ef við miðum eingöngu við hvað sé elst í íslensku mætti þess vegna halda því fram að mig langar sé engu réttara en mér langar, því að ég langa sé notað í þessu forna og merka handriti. Engan hef ég samt heyrt halda því fram, enda væri það út í hött; því að hvorttveggja er að í öðrum handritum fornum er sögnin oftast ópersónuleg, og hún hefur oftast verið höfð með þolfalli á síðari öldum. En þetta dæmi sýnir okkur að ekki er umsvifalaust hægt að miða eingöngu við það elsta.