Hurðir og hurðar

Fleirtölumyndina hurðar í stað hurðir af nafnorðinu hurð heyrði ég fyrst fyrir rúmum 30 árum þegar ég stóð í húsnæðiskaupum og skoðaði fjölmargar íbúðir. Við slíkar aðstæður ber ýmsa innviði íbúða á góma og ég tók eftir því hjá fleiri en einum og fleiri en tveimur sem ég talaði við að þeir töluðu um hurðar. Þessi beyging virðist ekki vera gömul – aðeins örfá dæmi á tímarit.is eru eldri en þetta. Beygingin virðist hins vegar hafa breiðst talsvert út síðan um aldamót ef marka má dæmafjölda á tímarit.is.

Það er fjarri því að vera einsdæmi að nafnorð hafi fleiri en eina fleirtölubeygingu eða breyti um fleirtöluendingu. Svo að við höldum okkur við sterk kvenkynsorð má nefna lest og síld, en bæði lestir og lestar eru algengar fleirtölumyndir, sem og síldir og síldar. Orðið grein í merkingunni 'námsgrein' hafði iðulega fleirtöluna greinir langt fram eftir síðustu öld – í merkingunni 'trjágrein' var fleirtalan hins vegar greinar og nú hefur orðið undantekningalítið þá fleirtölu í báðum merkingum. Orðið hlíð var í fleirtölu hlíðir í fornu máli en nú alltaf hlíðar. Orðin rún, gjöf, nös voru í fornu máli oft eða oftast rúnar, gjafar, nasar, en nú alltaf rúnir, gjafir, nasir. Svo mætti lengi telja.

Börn á máltökuskeiði sem standa frammi fyrir því risavaxna verkefni að tileinka sér tungumál leita að mynstrum í málinu sem þau heyra í kringum sig. Þau greina – ómeðvitað – stofngerð orðanna; hvaða stofnsérhljóð þau hafi, hvort og hvaða samhljóðaklasar komi fyrir í þeim, o.fl. Á grundvelli þessarar greiningar búa þau sér til reglur, m.a. um það hvaða fleirtöluendingu sterk kvenkynsorð fá. Í fyrstu fela þessar reglur í sér alhæfingar sem iðulega reynast rangar, en með vaxandi málkunnáttu leiðrétta börnin reglurnar þannig að þær færast smátt og smátt nær þeim reglum sem fullorðnir málnotendur beita.

Í rannsókn á fleirtölumyndun barna sem var gerð upp úr 1980 kom í ljós að töluverður hluti fjögurra og sex ára barna sögðu að fleirtalan af hurð væri hurðar. Líklegt er að íslensk börn, mörg hver a.m.k., byrji á að alhæfa -ar-fleirtölu í sterkum kvenkynsorðum og noti þá fleirtölu á ýmis orð þar sem hún á ekki heima. Smátt og smátt átta þau sig á því að þessi regla er of víð og endurbæta hana og þá fækkar þeim orðum sem fá ranglega -ar-fleirtölu í máli þeirra. En e.t.v. verða sum eftir og halda -ar-fleirtölunni þegar máltökuskeiði lýkur þótt fullorðnir málnotendur noti -ir­-fleirtölu, hugsanlega vegna þess að orð með svipaða stofngerð hafi venjulega -ar-fleirtölu. Ekki er ólíklegt er að hurð sé eitt af þessum orðum.

Það er skiljanlegt að fólk sem hefur alist upp við fleirtöluna hurðir – eins og væntanlega meginhluti landsmanna – kippist við þegar það heyrir hurðar og finnist þetta brjóta gegn málkennd sinni. En hver sem skýringin kann að vera á þessari breytingu er ljóst að hún á sér fjölmargar hliðstæður og gerir málinu nákvæmlega engan skaða. Mörg sterk kvenkynsorð höfðu tvímyndir þegar í fornu máli, og mörg hafa breytt um beygingarflokk þannig að upprunalega fleirtalan er nú alveg horfin og yrði væntanlega talin röng. Aðalatriðið er að orðið heldur áfram að beygjast, og breytingin torveldar ekki skilning á eldri textum á nokkurn hátt. Mér finnst hún bara dæmi um skemmtilega fjölbreytni málsins.