Íslenskur málstaðall
Það sem stundum er kallað „íslenskur málstaðall“ – viðmið okkar um viðeigandi málsnið og rétt mál – varð til á 19. öld þótt ræturnar séu vissulega í fornmáli. Sjálfsagt má segja að Rasmus Kristján Rask, Sveinbjörn Egilsson og Fjölnismenn hafi lagt drög að staðlinum en hann mótaðist svo ekki síst í Lærða skólanum eftir miðja öldina, einkum hjá Halldóri Kr. Friðrikssyni sem var aðalíslenskukennari skólans í hálfa öld. Björn Guðfinnsson lagði svo lokahönd á staðalinn með málfræði sinni sem flestir Íslendingar lærðu frá því um 1940 og langt fram eftir öldinni – sumir jafnvel fram á þessa öld.
Þessi staðall miðast því við það sem þótti vandað ritmál fyrir 80-100 árum. En það þarf ekki að fara nema aldarþriðjung aftur í tímann til að komast í þjóðfélag sem var gerólíkt því sem nú er. Þá var bara ein útvarpsstöð á Íslandi og bara ein sjónvarpsstöð – en fimm dagblöð. Í öllum þessum miðlum sá fólk og heyrði einungis vandað mál sem samræmdist staðlinum. Talað mál í útvarpi og sjónvarpi var nær allt undirbúið og að verulegu leyti með ritmálssniði. Blöðin voru vandlega prófarkalesin. Almennir málnotendur komust í raun varla í kynni við ritaða íslensku annarra almennra málnotenda nema í einkabréfum.
Er hægt eða skynsamlegt að ætlast til að sama málsnið þjóni nútímanum og þessari veröld sem var? Nú er þetta nefnilega allt breytt eins og allir vita. Nú er í landinu fjöldi útvarps- og sjónvarpsstöðva þar sem hver sem er getur látið dæluna ganga endalaust, án nokkurs handrits eða yfirlestrar. Dagblöðum hefur fækkað og prófarkalestri þeirra hrakað, auk þess sem netmiðlar hafa að verulegu leyti komið í stað prentaðra blaða og eru enn minna yfirlesnir. Við þetta bætast samfélagsmiðlar en algerlega óyfirlesnir textar þeirra eru helsta lesefni margra. Nú getur hver sem er skrifað – eftirlitslaust – texta sem allur heimurinn hefur aðgang að.
Það er í sjálfu sér frábært. Það er stórkostlegt að það skulu ekki lengur vera forréttindi fárra útvalinna að skrifa fyrir lýðinn. Það er augljóslega stórt skref í lýðræðisátt og á án efa eftir að hafa meiri áhrif á ýmsum sviðum þjóðfélagsins en við gerum okkur grein fyrir. En þetta hefur vitanlega mikil áhrif á málstaðalinn og hugmyndir fólks um það hvernig íslenskt ritmál sé. Þegar talsverður hluti af því máli sem fólk heyrir og sér fylgir ekki staðlinum, þá er ekki von að ungt fólk tileinki sér hann sjálfkrafa og áreynslulaust.
Við þetta bætist að íslenskan – daglegt mál – hefur vitaskuld breyst talsvert undanfarna öld. En vegna þess að staðallinn hefur ekki breyst hefur fjarlægðin þarna á milli aukist. Það þýðir aftur að málnotendur þurfa að leggja meira á sig og fá meiri kennslu og lesa meira af formlegu máli til að tileinka sér staðalmálið. En raunin er sú að þessu er þveröfugt farið. Íslenskukennsla hefur síst aukist, og rannsóknir sýna að ungt fólk les sífellt minna af bókum, þar sem staðlinum er helst fylgt.
Þetta getur ekki endað nema á einn veg: Það myndast gjá milli máls almennings og staðalsins. Þeir nemendur sem búa við ákjósanlegar aðstæður, t.d. lesa mikið og eiga langskólagengna eða aldraða foreldra – eða eru nördar – munu geta tileinkað sér staðalmálið til hlítar enn um sinn, en hætt er við að meginhlutinn geri það ekki. Hvað gerum við þá? Eigum við að halda fast í óbreyttan staðal eða breyta honum? Hverjar ættu þær breytingar að vera? Hvernig væri hægt að standa að þeim?