Fornafn eða lýsingarorð?

Ég geri ráð fyrir að allir lesendur hafi lært það á sínum tíma að orðið ýmis sé óákveðið fornafn – um það ber öllum nýrri orðabókum og kennslubókum saman. Hegðun orðsins bendir þó ekki ótvírætt til þess og í Málfarsbankanum þykir ástæða til að vara við fjöllyndi orðsins: „Orðið ýmis er að uppruna fornafn og því er ekki talið æskilegt að segja „hinir ýmsu menn“ eða „hinir ýmsustu aðilar“ enda er ýmis þá sett í stöðu lýsingarorðs.“ Það er rétt að laus greinir stendur venjulega aðeins með lýsingarorðum en ekki fornöfnum – við segjum hinir góðu menn, hinir sterku menn o.s.frv., en önnur óákveðin fornöfn en ýmis geta ekki staðið í þessari stöðu – ekki er hægt að segja *hinir öllu menn, *hinir sumu menn, *hinir nokkru menn o.s.frv.

Þetta er þó fjarri því að vera nýjung. Elsta dæmi um lausan greini með ýmis sem finnst á tímarit.is er frá 1853, og alla tíð síðan hefur þetta samband verið mjög algengt – dæmin um það á tímarit.is skipta tugum þúsunda. Mér finnst fráleitt að amast við þessu. Ástæðan fyrir því að ýmis er sett í stöðu lýsingarorðs á þennan átt er sennilega tilfinning fólks fyrir merkingarlegum skyldleika orðsins við lýsingarorð – vandséðar eru t.d. merkingarlegar ástæður fyrir því að greina ýmis öðruvísi en margur sem alltaf er talið lýsingarorð. Ekki er ólíklegt að ástæðan fyrir mismunandi greiningu þessara orða sé sú að margur er venjulega talið stigbreytast, þótt óreglulega sé, en ýmis stigbreytist ekki – eða hvað?

Í tilvitnuninni í Málfarsbankann hér að framan var mælt gegn dæmum eins og hinir ýmsustu aðilar þar sem ekki verður betur séð en ýmis stigbreytist. Elsta dæmi um „efsta stigið“ ýmsustu á tímarit.is er frá 1959. Það dæmi er að vísu úr gamanritinu Speglinum og ekki ólíklegt að „upphaflega hafi þetta verið svo sem til gamans gert“ eins og Gísli Jónsson giskaði á í umfjöllun um þessa stigbreytingu. Það fellur vel að elstu minningum mínum um efsta stigið sem ég heyrði fyrst í Menntaskólanum á Akureyri upp úr 1970. Svo skemmtilega vill til að tvö elstu dæmin um ýmsustu, fyrir utan dæmið úr Speglinum, eru einmitt úr blaði skólans, Munin, frá menntaskólaárum mínum – 1971 og 1973.

„Stigbreytingin“ er samt mjög ófullkomin og kemur eiginlega bara fram í tveimur myndum – ýmsustu og ýmsasta. Karlkynsmyndin ýmsasti sem búast mætti við kemur varla fyrir, ekki heldur sterk beyging (*ýmsastur – *ýmsust – *ýmsast), og ekki miðstig (*ýmsari). Það er eiginlega ekki ástæða til að líta á þetta sem beygingarmyndir – stigbreytingu – af ýmis, heldur sem sérstaka orðmyndun. Þótt ekki sé ósennilegt að sú orðmyndun hafi upphaflega verið sett fram í gamni er engin sérstök ástæða til að amast við henni, a.m.k. í óformlegu málsniði.

En þótt „stigbreytingin“ – sem líklega er engin stigbreyting – sé ófullkomin og ekki gömul er hæpið að hafa það á móti henni að ýmis sé „að uppruna fornafn“ eins og sagt er í Málfarsbankanum. Orðið er nefnilega greint sem lýsingarorð í flestum uppflettiritum um fornmálið, t.d. orðabók Fritzners, málfræði Iversens, fornmálsorðabókinni í Kaupmannahöfn o.v. Sigfús Blöndal greinir orðið líka þannig í orðabók sinni. Í ljósi þessa, og vegna þess hve algengt er að nota ýmis með lausum greini, er spurningin því hvort ekki sé rétt að skipta aftur um merkimiða á ýmis og kalla orðið lýsingarorð.