Gæfa – eða gjörvuleiki
Fallnotkun með orðasambandinu bera gæfu til hefur verið að breytast undanfarið. Í fornu máli er frumlag þess alltaf í nefnifalli – „þótti mönnum Þorgils mikla gæfu hafa til borið, að stilla slíka ofstopamenn“ segir í Grettis sögu eftir að Þorgils á Reykhólum hafði hýst þá fóstbræður Þormóð Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson ásamt Gretti sterka heilan vetur. „Þótti honum hinn mesti skaði eftir Sighvat bróður sinn, sem var, þó að þeir bæru ekki gæfu til samþykkis stundum sín á milli“ segir í Sturlungu um viðbrögð Snorra Sturlusonar við fréttum af Örlygsstaðabardaga.
Elsta dæmi um aukafall með bera gæfu til sem ég hef rekist á er í Stormi 1929: „ef þinginu ber gæfa til þess að samþykkja það“. Annað dæmi má taka úr Vísi 1939: „þeir sem valdir eru að þessum ófarnaði halda áfram í sinni forherðingu þar til þjóðina ber gæfu til að stöðva þá að fullu“. Fáein dæmi eru um aukafall með þessu sambandi á tímarit.is framan af, einkum eftir 1940, en eftir 1980 fer þeim ört fjölgandi. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá allra síðustu árum eru allmörg dæmi um aukafall með þessu sambandi.
Í dæminu úr Vísi 1939 er notað þolfall sem kemur ekki alveg á óvart – þegar aukafall kemur í stað nefnifalls á frumlagi sagna er það fyrst þolfall ekki síður en þágufall. Mig hlakkar og mig kvíðir var eitt sinn algengara en mér hlakkar og mér kvíðir. Í Málfarsbankanum er líka notað þolfall þar sem varað er við ópersónulegri notkun orðasambandsins: „Orðasambandið bera gæfu til er notað persónulega, ekki ópersónulega. Hún bar ekki gæfu til að sjá þennan fræga stað. Ekki: „Hana bar gæfu til að sjá þennan fræga stað“.“
En ef aukafall er notað með þessu sambandi á annað borð virðist það þó langoftast vera þágufall. Að vísu er oft ekki hægt að skera úr um fallið, því að sambandið virðist af einhverjum ástæðum vera langalgengast í fyrstu persónu fleirtölu og þar eru þolfall og þágufall persónufornafnsins eins – í okkur ber gæfa til er ómögulegt að segja hvort um þolfall eða þágufall er að ræða nema nafnorð fylgi með, eins og í „okkur bekkjarfélögunum bar gæfu til“.
Það er merkilegt við sambandið að það er ekki bara frumlagsfallið sem breytist úr nefnifalli í þágufall – fall andlagsins breytist iðulega líka, úr þolfalli í nefnifall. Í stað ég bar gæfu til kemur mér bar gæfa til eins og sést í dæminu úr Stormi. Þetta er að vísu ekki algilt því að stundum heldur andlagið þolfallinu, en hitt virðist þó mun algengara. Þetta er ekki einsdæmi. Sambandið bresta kjark tók áður með sér frumlag í þolfalli, mig brast kjark, en tekur nú iðulega þágufall. En þá ber svo við að andlagið fær oftast nefnifall – mér brast kjarkur. Hér er ekki vettvangur til að ræða skýringar á þessu.
En hvers vegna kemur upp tilhneiging til að nota aukafall með þessu sambandi? Væntanlega er það vegna þess að frumlag sagnarinnar er ekki gerandi – hefur ekkert vald á því sem sögnin segir. Málnotendur hafa tilhneigingu til að tengja nefnifall við geranda en þágufall við þann sem verður fyrir einhverju, skynjar eitthvað eða upplifir eitthvað sem hann hefur ekki vald á. Þannig er þetta með þær sagnir sem eru dæmigerðar fyrir „þágufallssýkina“ svokölluðu, s.s. langa, vanta, hlakka til, kvíða, dreyma o.fl. Sambandið bera gæfu til er af sama sauðahúsi.
Einnig er mjög trúlegt að áhrif frá annarri ópersónulegri notkun sagnarinnar bera komi til, s.s. mér ber þetta, mér ber að gera þetta, mér ber skylda til að gera þetta, þeim ber saman um þetta o.fl. þar sem alltaf hefur verið notað þágufall. Í sambandinu bera skylda til bregður fyrir sams konar fallavíxlum og nefnd voru með bera gæfu til – í stað nefnifallsins á andlaginu kemur stöku sinnum aukafall, og þá verður þágufallið í frumlagssæti stundum að nefnifalli: „Ríkistjórnin ber skyldu til aðstoðar við uppbyggingu Iandsbyggðar“ segir t.d. í Degi 1999. Víxlin eru hliðstæð en munurinn er sá að með bera gæfu til er nefnifall–þágufall upprunalega mynstrið, en með bera skylda til er það þágufall–nefnifall.
Breyting á notkun sambandsins bera gæfu til er sem sé skiljanleg og ekki óvænt, og á sér ýmis fordæmi. Hvort fólk vill láta hana yfir sig ganga eða berjast gegn henni er annað mál. Mér finnst hún satt að segja frekar meinlaus.