Skólaforðun

Orðið skólaforðun er nýtt í málinu, varla nema fimm ára gamalt í mesta lagi, en hefur breiðst mikið út á þessu ári. Þetta er þýðing á school refusal (eða school avoidance) og á við það þegar börn og unglingar neita eða koma sér undan því að mæta í skóla. Ástæður þess geta verið bæði einstaklingsbundnar og félagslegar – erfiðleikar á heimili, andleg vanlíðan, einelti o.m.fl. sem ég ætla ekki að fara út í hér. Ég ætla hins vegar að skoða aðeins orðið skólaforðun sem margir eru ósáttir við.

Þótt skólaforðun sé nýtt orð á seinni hluti samsetningarinnar, forðun, sér nokkra sögu og kemur fyrir sem þýðing á avoidance í þremur íðorðasöfnum í Íðorðabankanum – söfnum úr læknisfræði, talmeinafræði og uppeldis- og sálarfræði. Í því síðastnefnda er það skýrt svo: „tilhneiging til að sneiða hjá samskiptum og koma sér undan vanda“. Í engu safnanna er þetta þó sjálfstætt uppflettiorð heldur gefið upp sem samheiti við hliðrun sem væntanlega ber að skilja svo að hliðrun sé talið heppilegra orð.

Ég fæ ekki séð að skólaforðun brjóti í bága við íslenskar orðmyndunarreglur. Viðskeytið -un er algengasta aðferð málsins við að mynda nafnorð af sögnum og er nær eingöngu notað á sagnir sem enda á -aði í þátíð – eins og forða gerir. Vissulega tengist forðun miðmyndinni forðast frekar en germyndinni forða en það er ekkert einsdæmi – við höfum orð eins og afvopnun sem oftast merkir afvopnast frekar en afvopna, blygðun sem tengist blygðast (germyndin blygða er löngu úrelt), sturlun sem tengist sturlast (germyndin sturla er ekki notuð í nútímamáli), o.fl.

Vitanlega er sögnin *skólaforða(st) ekki til. En samsett nafnorð sem enda á -un eru ekki endilega mynduð af samsettum sögnum, heldur er seinni hlutinn fyrst myndaður af sögn og öðrum lið svo skeytt framan við. Við höfum t.d. ekki sögnina *málvanda þótt samsetningin málvöndun sé til, ekki *gæðastjórna þótt gæðastjórnun sé til, ekki *kjarnorkuafvopna(st) þótt kjarnorkuafvopnun sé til, ekki *fæðingarsturla(st) þótt fæðingarsturlun sé til, o.s.frv.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að taka orðið forðun og setja skóla- þar framan við. Þótt einhverjir kynnu að vilja skilja skólaforðun þannig að það sé skólinn sem er að forðast eitthvað er það vitaskuld merkingarlega fráleitt og merking orðsins augljós af samhenginu. Merkingarvensl milli fyrri og seinni hluta samsettra orða eru með ýmsu móti og ekkert sem bannar að andlag en ekki frumlag sé notað sem fyrri liður þessarar samsetningar. Svipað dæmi er orðið skólaganga þar sem það er ekki skólinn sem gengur heldur nemendur sem ganga í skólann.

Stungið hefur verið upp á því að nota orðið skólafælni í staðinn fyrir skólaforðun. Þetta orð er til í málinu og er í sjálfu sér ágætt orð en það hefur hins vegar verið notað sem þýðing á schoolphobia. „Með því er átt við vissa tegund geðrænna vandkvæða, sem lýsa sér í því, að barn fæst ekki til að sækja skóla eða gefst upp við það“ segir í grein frá 1962. En skólaforðun er miklu víðtækari, eins og áður er nefnt. Því er skólafælni ótækt í þessari merkingu, enda er fælni hin venjulega þýðing á phobia.

Öðrum finnst eðlilegt að nota einfaldlega hið gamalkunna orð skróp. Það er vissulega stutt og lipurt en þó vitanlega alveg ótækt – bæði vegna þess að merking þess, 'uppgerðarveiki, (ástæðulaus) fjarvist úr skóla' á ekki við, og auk þess hefur orðið mjög neikvæðan blæ, eins og sést t.d. á samsetningunum skrópasýki, skrópasótt og skrópagemlingur, og á dæmigerðum parasamböndum og skyldheitum orðsins. Með því að nota skróp í þessari merkingu er gert lítið úr þeim alvarlegu vandamálum sem oft liggja að baki skólaforðun.

Ég get alveg fallist á að skólaforðun sé ekki sérlega gott orð og mér fannst það hræðilegt þegar ég heyrði það fyrst. En það er komið í almenna notkun og ég er farinn að venjast því. Yfirleitt held ég að það sé ekki skynsamlegt að hrófla við orðum sem fólk er farið að nota og þekkja enda þótt manni finnist þau ekki alls kostar heppileg – ekki nema fram komi stutt, lipurt og gagnsætt orð sem slær í gegn á stundinni eins og þegar þota kom í staðinn fyrir þrýstiloftsflugvél, eða tölva í staðinn fyrir rafeindaheili eða rafmagnsheili. Höldum okkur bara við skólaforðun nema slíkt orð komi fram.