Íslenskir stafir og sjálfsmynd Íslendinga

Það má færa rök að því að séríslenskir stafir hafi orðið að einhvers konar tákni fyrir sjálfs­mynd Íslendinga. Um það má nefna fáein greini­leg dæmi frá seinni árum, en dæmin eru örugg­lega mun fleiri.

Þegar Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, hóf útgáfu sam­nefnds tíma­rits 1962, voru stafirnir þ og ð látnir mynda forsíðumynd ritsins. Þessi forsíða var notuð í 10 ár, og þegar skipt var um forsíðumynd var sú nýja einnig byggð á þ og ð og notuð í 14 ár, til 1986. Í fyrsta blaðinu stendur á bls. 2: „Kápu og vinnu­teikningar gerði Hallgrímur Tryggva­son“ sem var prentari í Prentsmiðju Jóns Helga­sonar þar sem blaðið var prentað og virðist oft hafa séð um umbrot og hönnun. Þegar skipt er um forsíðumynd 1972 stendur að forsíðuteikninguna hafi gert „Baldvin Björns­son, teiknari, af smekkvísi“. Í hvorugt skiptið er forsíðan skýrð nokkuð nánar. Hvaðan skyldi hugmyndin að forsíðunni hafa komið? Var þetta hugmynd frá ritstjórn blaðsins, eða hugmynd Hallgríms prentara? Hvort sem heldur var er augljóst að þessir bókstafir þóttu eiga vel við á forsíðu blaðs íslenskunema.

Kringum 1990 stóð mikið stríð um að halda íslenskum stöfum í alþjóðlegum stafa­töflum. Þar skipti mestu máli staðall sem nefnist ISO 8859-1 Latin 1, sem átti að hafa að geyma alla stafi sem notaðir eru í vesturevrópskum tungumálum. Íslenskir stafir höfðu komist inn í þessa töflu 1987 en 1992 var verið að víkka hana út og þá lögðu fulltrúar Tyrkja hjá Alþjóða staðlaráðinu (International Standard Organization, ISO) fram tillögu um að stafirnir þð og ý yrðu felldir brott úr töflunni en tyrkneskir stafir settir í staðinn. Um þetta varð mikil umræða á Íslandi og m.a. beitti Jón Baldvin Hanni­balsson utanríkisráðherra sér fyrir því á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins að íslenskum stöfum yrði haldið inni. Talað var um tillögu Tyrkja sem „Tyrkjarán hið síðara“ og sagt að hún væri „alvarleg atlaga að íslensku máli og menningu“. Á teikningu sem birtist með frétt um málið í Morgunblaðinu má sjá víking halda á þ.

Árið 2000 setti þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, af stað svonefnt tungu­tækni­átak, sem ætlað var til að gera íslensku gjaldgenga í tölvuheiminum. Átak­inu var stýrt af sérstakri verkefnisstjórn og komið var upp vefsíðu og sérstöku merki fyrir það. Á þessum tíma var mikið rætt um vanda við notkun séríslenskra stafa í tölv­um og farsímum og kannski hefur það haft áhrif á það hvernig merkið varð – bókstaf­ur­inn ð. A.m.k. er ljóst að merkið á að höfða til þessarar sérstöðu íslenskunnar og mikil­vægis þess fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar að hún sé virt.

Það er ekkert auðvelt að myndgera tungumál. Teiknarar eða hönnuðir sem fá það verkefni að hanna kápu á bók um íslensku, eða merki stofnunar eða verkefnis á sviði íslensku, eru ekki öfundsverðir. En þessi dæmi sýna að séríslensku bókstafirnir þ og ð nýtast stundum í þessum tilgangi. Og eins og kunnugt er hefur nýlega verið skrifuð heil bók um ð; ð ævisaga.