Siðrof
Siðrof er ekki gamalt orð í málinu og finnst ekki í orðabókum, hvorki Íslenskri orðabók né Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið mun hafa verið búið til upp úr 1970 en elsta dæmi um það á tímarit.is er í grein sem Loftur Guttormsson skrifaði í Sögu 1979 um kenningar félagsfræðingsins Émile Durkheim. Þar er skýringin „anomie“ sett í sviga fyrir aftan og orðið síðan skýrt: „Siðrof er e. k. upplausnarástand sem birtist í ýmsum myndum, t.d. viðskiptakreppum, stéttaátökum, hárri sjálfsmorðstíðni.“
Orðið kemur nokkrum sinnum fyrir á næstu þremur áratugum og oftastnær í þessari merkingu að því er virðist. Notkun þess tók síðan stökk haustið 2008 í kjölfar efnahagshrunsins sem iðulega var tengt við siðferðilegt skipbrot og upplausn. Orðið var mikið notað næstu fimm árin eða svo en heldur virðist hafa dregið úr notkun þess á allra síðustu árum eftir því sem hrunið fjarlægist. Af orðum Karls Sigurbjörnssonar þáverandi biskups í Morgunblaðinu 2012 má ráða að kirkjan hafi líka notað orðið í áðurnefndri merkingu:
„Viðhorfin á árunum um og eftir aldamót voru þannig að fólk gaf ekki sem skyldi gaum að þessum gömlu og góðu gildum sem Íslendingum hafa dugað svo vel í aldanna rás, það er hógværð, auðmýkt, virðing og þrautseigja. Í staðinn komu og urðu áberandi lestir eins og oflæti, sjálfumgleði og hroki. Þetta voru atriði sem sköpuðu siðrof í íslensku samfélagi og stuðluðu að því áfalli sem við höfum enn ekki bitið úr nálinni með.“
Vissulega geta orð breytt um merkingu og gera það oft. Ef málnotendur, eða talsverður hluti þeirra, koma sér saman um að nota orð í annarri merkingu en það hafði áður er oft ekkert við það að athuga – það er hluti af eðlilegri málþróun. Fjöldi orða sem við notum daglega hefur aðra merkingu nú en áður, án þess að við gerum okkur grein fyrir því eða það trufli okkur á nokkurn hátt. En það skiptir máli hvernig merkingarbreytingin verður. Einn málnotandi eða lítill hópur getur ekki tekið það upp hjá sjálfum sér að nota orð í annarri merkingu en hefðbundin er – og ætlast til að aðrir átti sig á því og samþykki það.
Í þessu tilviki er þar að auki um að ræða orð sem er myndað sem fræðiorð, íðorð – gert til að tákna ákveðið fræðilegt hugtak. Íðorð lúta svolítið öðrum lögmálum en almennur orðaforði. Þau eru hluti af ákveðnu hugtakakerfi og það er mikilvægt að merking þeirra sé skýrt skilgreind og fari ekki á milli mála. Fram að efnahagshruninu 2008 er siðrof augljóslega fyrst og fremst íðorð, og iðulega notað í tengslum við kenningar Durkheims þaðan sem það er komið eins og áður segir. Eftir 2008 kemst orðið hins vegar í miklu almennari og víðtækari notkun og þá má e.t.v. segja að það færist yfir í almennan orðaforða málsins.
Eftir sem áður virðist merking þess undantekningarlítið vísa í einhvers konar umrót eða upplausn og vera neikvæð. Þegar spurningu um áhrif þess að kristinfræði sé ekki lengur kennd í skólum er svarað með því að segja „Það hefur orðið siðrof held ég“ er meðvitað eða ómeðvitað vísað í hina venjulegu og alþekktu merkingu orðsins siðrof, þótt eftir á sé sagt að siðrof sé ekki siðleysi heldur „rof við siðinn sem við höfum lifað eftir um aldir á Íslandi“. Sú skýring stenst því aðeins að átt sé við að því rofi fylgi það upplausnarástand sem að ofan er lýst.