Konuforseti
Í Málvöndunarþættinum á Facebook og víðar hefur oftar en einu sinni skapast umræða um orðið konuforseti sem kemur fyrir í titli á nýrri barnabók um Vigdísi Finnbogadóttur. Margir hafa hneykslast á þessu orði og sagt að það sé barnamál – þetta heiti kvenforseti á íslensku. Það er auðvitað rétt að það er hefð fyrir orðinu kvenforseti þótt sú hefð sé raunar ekki ýkja gömul – elsta dæmið um orðið á tímarit.is er 60 ára gamalt og orðið komst ekki í almenna notkun fyrr en með kjöri Vigdísar 1980.
Bæði orðin, kvenforseti og konuforseti, eru jafnrétt íslenska, í þeim skilningi að þau lúta orðmyndunarreglum málsins. Samsett orð í íslensku eru einkum af tvennum toga – í sumum er fyrri liðurinn orðstofn, eins og kven-, en í öðrum er fyrri liðurinn eignarfall (eintölu eða fleirtölu), eins og konu-. Það eru til ýmsar fullkomlega viðurkenndar samsetningar með konu- sem fyrri lið – konudagur, konukvöld, konuríki, konubíll, konuleit, konuefni, konukind, Konukot o.fl.
En þótt báðar orðmyndunaraðferðirnar sem nefndar eru hér að ofan séu jafnréttar er almennt séð eðlilegt að halda sig við hefðina – ef komin er hefð á aðra aðferðina er oftast ástæðulaust að mynda orð sömu merkingar eftir hinni aðferðinni. En það er samt ekki rangt.
Það er líka rétt að athuga að fjölbreytni í málnotkun þykir yfirleitt af hinu góða. Það er ekkert að því að hafa fleiri en eitt orð yfir sama hugtak. Í slíkum tilvikum hafa orðin oft með sér einhverja verkaskiptingu – barn er formlegra en krakki, bifreið er formlegra en bíll, fákur er formlegra en hestur o.s.frv. Það táknar ekki að annað orðið um hvert þessara hugtaka sé eitthvað betra eða réttara en hitt – þau henta bara mismunandi aðstæðum, mismunandi málsniði.
Þannig er það einmitt í þessu tilviki. Höfundur umræddrar bókar hefur skýrt titilinn fullkomlega: „Bókin er um barn sem fer í heimsókn til Vigdísar í þeim tilgangi að skrifa um hana bók. Titill bókarinnar er titill barnsins.“
Eitt af því merkilegasta og stórkostlegasta við börn er hvað þau eru óhrædd við að nota málið. Ef þau kunna ekki orð um eitthvað sem þau vilja tala um búa þau til sitt eigið orð, í samræmi við þær reglur málsins sem þau hafa tileinkað sér. Konuforseti er orð af því tagi. Kvenforseti er sjaldgæft orð sem ekki er hægt að búast við að ung börn þekki, og myndin kven- er svo fjarlæg orðinu kona að það er ekki við því að búast að börn hafi orðmyndun með henni á valdi sínu. En þau eru ekki í neinum vanda með að búa til orðið konuforseti – gott og gilt orð í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur.
En hér hangir meira á spýtunni. Börn hafa gaman af tungumálinu og hæfileikar þeirra til nýsköpunar í máli eru dýrmætir fyrir íslenskuna og framtíð hennar. Með því að hafna nýsköpun barnanna, með því að vera sífellt að segja að þeirra orð séu ekki til, erum við að brjóta niður áhuga þeirra á málinu og vinna gegn íslenskunni. Þess í stað eigum við að taka nýmyndunum barnanna vel og nota þær til að kveikja umræður um tungumálið – umræður sem börnin eru móttækileg fyrir.
Höfundur umræddrar bókar segir að orðið konuforseti í titlinum sé valið í samráði við Vigdísi sjálfa. Enginn getur sakað Vigdísi um að vilja ekki veg íslenskunnar sem mestan. En hún skilur að ólík orð henta mismunandi aðstæðum. Hún skilur að framtíð íslenskunnar veltur á því að börnin hafi áhuga á að nota hana, og þann áhuga má ekki drepa með því að berja niður frjóa málnotkun þeirra.