Tölum íslensku við útlendinga
20. Íslensk málrækt felst í því að nota íslensku í stað þess að skipta yfir í ensku í samskiptum við fólk sem vill og reynir að tala málið.
Eitt sinn hafði blaðið Grapevine, sem gefið er út á ensku í Reykjavík, samband við mig og bað mig að svara spurningunni „Why is Icelandic such a difficult language to learn?“ eða „Hvers vegna er svona erfitt að læra íslensku?“. Þetta er goðsögn sem margir þekkja, að íslenska sé með erfiðustu málum. Vissulega er ýmislegt í íslensku sem getur verið snúið, en það fer þó að talsverðu leyti eftir móðurmáli málnemans og þeim tungumálum sem hann hefur haft kynni af.
Íslenska er t.d. talin tiltölulega erfið fyrir fólk með ensku að móðurmáli enda hefur hún ríkulegar beygingar miðað við ensku, en slíkt ætti ekki að koma t.d. fólki af slavneskum uppruna á óvart. Íslenska er líka talin erfið fyrir margt fólk frá Asíu, sérstakleg ef það kann ekkert vestrænt tungumál. Það eru ákveðin sérkenni í íslensku hljóðkerfi og setningagerð sem geta vafist fyrir útlendingum, en þegar á heildina er litið er varla hægt að segja að íslenska sé erfiðari en gengur og gerist um tungumál.
En hitt er vissulega rétt að mörgum útlendingum finnst erfitt að læra íslensku og hika við að tala hana við Íslendinga. Ein ástæðan fyrir því er örugglega sú að Íslendingar eru ekki – eða hafa ekki verið – sérlega umburðarlyndir gagnvart beygingarvillum, erlendum hreim, og öðrum merkjum um ófullkomna íslensku. Ísland var til skamms tíma eintyngt samfélag og við vorum þess vegna ekki vön því að heyra útlendinga reyna að tala málið og hætti til að gagnrýna tilraunir þeirra til þess harkalega.
Því er oft haldið fram að nær allir Íslendingar kunni ensku og þótt það sé sannarlega ofmælt er samt enginn vandi að búa í íslensku þjóðfélagi árum og jafnvel áratugum saman án þess að kunna íslensku því að enskan er alls staðar. Það getur auðvitað verið hentugt fyrir þá sem hingað koma, en ber í sér hættu fyrir íslenskuna. Það þýðir að þrýstingur á og hvati til að læra málið er ekki alltaf mjög mikill, a.m.k. ekki fyrir fólk í fullri vinnu sem það hefur nóg með að sinna.
Við höfum ekki heldur staðið okkur nógu vel í að auðvelda fólki að læra málið. Málfærni fæst ekki nema með æfingu, og til að ná valdi á tungumáli þurfum við að fá tækifæri til að nota það við mismunandi aðstæður. Útlendingar kvarta oft yfir því að það sé erfitt að læra íslensku af Íslendingum því að þeir skipta iðulega yfir í ensku þegar þeir átta sig á því að viðmælandinn talar íslensku ekki reiprennandi. Þetta stafar ekki alltaf af óþolinmæði eða hugsunarleysi, heldur virðist það stundum gert á meðvitaðan hátt til að gera lítið úr fólki og gefa því til kynna að það eigi ekki heima hér.
Þetta þarf að breytast – við þurfum að auðvelda útlendingum að læra íslensku og nota hana á öllum sviðum, við þurfum að vera þolinmóðari og umburðarlyndari við fólk sem er að læra málið, og við þurfum að vera jákvæð gagnvart allri íslenskunotkun, þótt framburður sé ekki fullkominn, beygingar vanti stundum og setningagerðin sé óhefðbundin. Íslenska er alls konar.