Móðurmál okkar getur ekki verið rangt
Í mínum fórum er afmæliskort sem Sverrir ömmubróðir minn sendi systur sinni á 15 ára afmæli hennar 1. júní 1921. Það er reyndar ljóst af rithöndinni að Sverrir skrifar þetta ekki sjálfur (hann var þarna tæpra 13 ára) heldur móðir þeirra systkina.
Takið eftir því að þarna stendur „frá Sverrir bróðir“ en ekki „Sverri bróður"eins og nú er kennt. Það kemur ekki á óvart – þetta var almennt mál á þessum tíma og flest eða allt fullorðið fólk sem ég ólst upp með talaði þannig. Því fór þó fjarri að það fólk væri einhverjir málsóðar. Valgerður langamma mín, sem skrifaði á kortið, var einstaklega ritfær og vel máli farin ef dæma má af þeim fáu bréfum hennar sem hafa varðveist.
Þetta fólk talaði ekki rangt mál. Það var alið upp við þessa beygingu. Hún var eðlilegt mál þess. Það er gersamlega fráleitt að kalla þessa beygingu ranga í máli þeirra sem hafa alist upp við hana. Og sama gildir um önnur tilbrigði í máli. Sú íslenska sem við ölumst upp við er okkar mál og aðrir eru ekki þess umkomnir að segja okkur að það sé rangt.