Fjörug umræða um hljóðmyndun

Fyrir tæpum hálfum mánuði var sett inn áhugaverð fyrirspurn í hópinn Skemmtileg íslensk orð á Facebook þar sem forvitnast var um hvoru megin loftstraumurinn kæmi hjá fólki við myndun [l]-hljóðsins í orði eins og fjall. [l] er hliðarhljóð sem er myndað þannig að tungan lokar fyrir loftstrauminn við tannbergið (aftan við framtennurnar að ofan) en loftinu er hleypt út meðfram hlið tungunnar. Talið er algengast að loftstraumurinn fari hægra megin (sjá ör á mynd), en þó fer hann vinstra megin hjá sumum og jafnvel er til að hann fari báðum megin, einkum í órödduðu [l]-hljóði (eins og t.d. í piltur). Þetta hefur þó aldrei verið rannsakað í íslensku.


Þegar ég sá hversu mikil viðbrögð þessi fyrirspurn fékk þótt hún ætti svo sem ekki beinlínis heima í þessum hópi datt mér í hug að setja þar inn aðra hliðstæða – hvernig fólk myndaði [s]-hljóðið í orði eins og lesa. Það er nefnilega hægt að mynda það á tvo vegu – annaðhvort með tungubroddinn upp við tannbergið bak við framtennur að ofan (sjá mynd vinstra megin) eða sveigðan niður bak við framtennur að neðan (sjá mynd hægra megin). Hlutföllin milli aðferðanna hafa ekki verið rannsökuð en óformlegar athuganir benda til þess að u.þ.b. 3/5 málnotenda noti fyrrnefndu aðferðina.


Alls komu 236 andsvör við fyrri fyrirspurninni en 162 við þeirri seinni. Það er alls ekki einfalt að átta sig á eigin hljóðmyndun og því er í raun stórmerkilegt að fá svo mörg svör við fyrirspurnum um slík efni – og það á vettvangi sem er ætlaður fyrir umræður um orð en ekki hljóðfræði. En þetta sýnir hvað fólk er áhugasamt um tungumálið og til í að velta því fyrir sér og taka þátt í umræðum um það.

Það er mikilvægt að hafa í huga að í hvorugu tilvikinu er til einhver „rétt“ eða „viðurkennd“ leið við hljóðmyndunina. Fólki hefur aldrei verið sagt að það eigi að láta loftstrauminn koma hægra megin í [l] eða hafa tunguna uppi við tannbergið í [s]. Þess vegna er hægt að ræða þetta frjálst án þess að fólk sé fast í einhverjum boðum eða fordómum. Það er miklu skemmtilegra að ræða hvernig tungumálið er en hvernig það ætti að vera.