Hugbúnaður á íslensku

Eftir að einkatölvuvæðingin hófst upp úr 1980 voru nokkur frumstæð ritvinnslukerfi notuð fyrstu árin. Þau voru flest eða öll á íslensku – það þótti sjálfsagt og eðlilegt á þeim tíma. Árið 1986 tók ég þátt í að þýða ritvinnslukerfið WordPerfect (útgáfu 4.1). Það var mun fullkomnara en önnur kerfi sem þá voru í boði og náði um tíma yfirburðastöðu á markaðnum, ekki síst í krafti þess að vera á íslensku. Stýrikerfi Macintosh-tölva var líka á íslensku á þessum tíma og lengi eftir það.

Upp úr 1990 kom svo Windows-stýrikerfið og hugbúnaður tengdur því – Word, Excel o.fl. Þessi kerfi voru ekki þýdd framan af og á fáum árum virtist fólk gleyma því að hugbúnaður hefði haft íslenskt viðmót – eða gæti verið á íslensku yfirleitt. Windows var reyndar þýtt undir aldamótin fyrir atbeina Björns Bjarnasonar þáverandi menntamálaráðherra en sú þýðing þótti misheppnuð – fólk sætti sig ekki við ýmsa orðanotkun í henni og auk þess var hún gölluð tæknilega þannig að tölvur sem hún var sett upp á voru alltaf að frjósa.

Þótt nýrri gerð Windows væri þýdd fáum árum síðar, og væri laus við þessa hnökra, var komið óorð á Windows á íslensku þannig að þýðingin fékk litla útbreiðslu, a.m.k. lengi framan af. Ég þekki fjölmargt áhugafólk um íslensku sem enn notar Word og önnur Windows-forrit á ensku. Sjálfur skipti ég yfir í íslensku þýðinguna fyrir mörgum árum og það hefur aldrei valdið nokkrum minnstu vandkvæðum. Vissulega þarf maður að venjast orðum og orðanotkun í byrjun, en það tekur skamman tíma. Og fyrir börnum sem nota þýðinguna frá upphafi tölvunotkunar er þetta fullkomlega eðlilegt.

Nú er ýmis hugbúnaður sem almenningur notar fáanlegur með íslensku viðmóti. Stundum hafa framleiðendur eða umboðsmenn búnaðarins látið þýða hann en í öðrum tilvikum, eins og með Facebook, eru það sjálfboðaliðar úr hópi notenda sem sjá um þýðinguna. Vitanlega eru þessar þýðingar misjafnar og auðvelt að láta ýmislegt pirra sig í þeim. En þetta er íslenska. Ekki enska. Það skiptir máli – eða ætti a.m.k. að skipta máli fyrir áhugafólk um velferð íslenskunnar.

Ef þið eruð með enskt viðmót á Facebook, Word, Google, Chrome, Firefox o.s.frv. hvet ég ykkur þess vegna eindregið til að skipta yfir í það íslenska. Með því móti leggið þið miklu meira af mörkum til íslensks máls og málvöndunar en með nöldri yfir „þágufallssýki“, röngum beygingum, „fréttabörnum“ o.s.frv. Framtíð íslenskunnar veltur ekki á því hvort börnin okkar segja mig langar eða mér langar, heldur á því hvort þau geta notað íslensku á öllum sviðum – og vilja gera það.